1968 | Geir Hallsteinsson

Geir Hallsteinsson er að margra mati einn af betri handboltamönnum sem Ísland hefur átt. Hann þótti einstaklega góð skytta og glöddu tilþrif hans áhorfendur jafnt hér á Íslandi sem erlendis.

Geir fæddist í Hafnarfirði 1946 og ólst þar upp. Hann átti ekki langt að sækja handboltaáhugann því að faðir hans, Hallsteinn Hinriksson, er talinn faðir handknattleiksins á Íslandi og byrjaði að kenna íþróttina hér á landi um 1930 í Barnaskóla Hafnarfjarðar, sem síðar hét Lækjarskóli. Geir steig sín fyrstu spor í handbolta í útimótum á Hörðuvöllum sem voru haldin á sumrin og nutu mikilla vinsælda. Geir byrjaði í meistaraflokki sextán ára gamall og voru þá margar frægar kempur í FH-liðinu, meðal annars Ragnar Jónsson, Birgir Björnsson og Hjalti Einarsson.

Árið, sem Geir var valinn íþróttamaður ársins, átti hann nokkra prýðilega leiki með landsliðinu og FH. Hann skoraði meðal annars sjö mörk fyrir landsliðið í 23-20 tapleik gegn Vestur-Þjóðverjum og vakti þar mikla athygli. Þá skoraði hann átta mörk þegar FH-ingar unnu stóran sigur á dönsku meisturunum HG í æfingaleik. Það sem stóð þó upp úr var þegar Íslendingar unnu Dani í fyrsta sinn í handbolta en Danir voru þá silfurverðlaunahafar síðustu heimsmeistarakeppni. Mikið var gert með þennan góða árangur okkar gegn Dönum og hann átti sennilega sinn þátt í að Geir var kjörinn íþróttamaður ársins.

Geir átti eftir að slá hetjum sínum úr gullaldarliði FH við. Hann var atvinnumaður í Þýskalandi í eitt ár og þar vakti hvað mesta athygli einstök tækni sem hann hafði yfir að ráða. Tilþrif hann glöddu líka augu áhorfenda enda þóttu þau í fallegri kantinum.

Ferill Geirs átti þó eftir að ná enn meiri hæðum en hann gerði árið sem hann var valinn íþróttamaður ársins. Hann lék hér heima með FH-ingum til ársins 1973, þegar hann gekk til liðs við vestur-þýska liðið Göppingen. Þar vakti hann strax mikla athygli og skipaði sér á bekk með fremstu skyttum vestur-þýsku deildarinnar. Hann var þó aðeins í eitt ár þar og gekk aftur til liðs við FH 1974 og varð annar þjálfari liðsins ásamt því að leika með liðinu.

Geir hætti keppni í handboltanum árið 1981 en hélt hins vegar áfram þjálfun FH-liðsins og eru menn á því að margir af þeim handknattleiksmönnum sem áttu eftir að skara fram úr á næstu árum hafi átt honum mikið að þakka. Geir þjálfaði meðal annars landsliðsmennina Kristján Arason og Þorgils Óttar Mathiesen. Geir þjálfaði FH til ársins 1984 með góðum árangri en tók þá við þjálfun Stjörnunnar. Þar var hann í eitt ár og tók svo við Breiðabliksliðinu sem þá var í annarri deild. Geir lék 118 landsleiki fyrir íslenska landsliðið og skoraði í þeim ríflega 500 mörk. Hann hætti að leika með landsliðinu árið 1978. Hann spreytti sig einnig á þjálfun landsliða og gerði meðal annars unglingalandsliðið að Norðurlandameisturum árið 1991.

Sem handknattleiksmaður þótti Geir einstaklega leikinn með boltann og skottækni hans var ótrúleg. Hvar sem íslenska handboltalandsliðið spilaði vöktu tilþrif Geirs athygli erlendra fjölmiðla sem töldu hann nánast undantekningarlaust besta mann liðsins.

Árangur Geirs 1968

10. janúar: Geir skorar sex mörk fyrir landsliðsnefndarúrvalið sem vinnur pólska liðið Spojna 24-21.

25. febrúar: Geir skorar fjögur mörk í tapi Íslendinga, 15-17, gegn Rúmenum í Rúmeníu.

28. febrúar: Geir skorar fimm mörk í níu marka tapi Íslendinga í Rúmeníu, 14-23.

1. mars: Geir skorar sjö mörk fyrir íslenska landsliðið sem tapar fyrir Vestur-Þjóðverjum 23-20. Hann fékk mikið lof fyrir frammistöðu sína í erlendum fjölmiðlum.

7. apríl: Geir skorar fjögur mörk í sigri Íslendinga á Dönum, 15-10. Þetta var fyrsti sigur Íslendinga á Dönum í handknattleik.

14. júlí: Geir verður Íslandsmeistari í handknattleik utanhúss með FH-ingum. Þeir unnu Fram í úrslitaleik 20-17. Geir er valinn besti sóknarmaður mótsins.

17. október: Geir á stórleik og skorar átta mörk þegar FH-ingar gersigra dönsku meistarana í HG í æfingaleik, 21-16.

31. október: Geir skorar fimm mörk í sigri FH á Fram, 22-21. Í Morgunblaðinu var þess getið að FH-ingar hefðu nú unnið meistara þriggja sterkustu Norðurlandaþjóðanna en liðið hafði áðurunnið Saab frá Svíþjóð og HG frá Danmörku.