Fréttir 2008

Federer bestur þriðja árið í röð

Janúar 2008

Svissneski tenniskappinn Roger Federer hefur verið kjörinn besti íþróttamaður heims af Alþjóðasamtökum íþróttafréttamanna (AIPS) og er þetta þriðja árið í röð sem hann er kjörinn.

Besta íþróttakona heims að mati AIPS er belgíska tenniskonan Justine Henin og AC Milan er besta lið ársins. Alls eru það íþróttafréttamenn frá 94 löndum sem þátt taka í kjörinu.

Knattspyrnukappinn Kaká hjá AC Milan varð í öðru sæti á eftir Federer og hinn sprettharði Asafa Powell frá Jamaíku varð þriðji.

Hjá konunum komu tvær frjálsíþróttakonur á eftir Henin. Sænska sjöþrautarkonan Carolina Klüft varð önnur og Blaka Vlasic frá Króatíu þriðja.

Geir hættir – Snorri tekur við

Janúar 2008

Geir Magnússon lætur af störfum um mánaðarmótin sem íþróttafréttamaður hjá RÚV. Geir hefur starfað þar síðan sumarið 1997 en hann hefur starfað í faginu í um 15 ár en hann var áður hjá Stöð 2 og Sýn. Staðfest er að Snorri Sturluson hefur verið ráðinn í stað Geirs. Snorri er að góðu kunnur sem íþróttafréttamaður á Sýn og Stöð 2 á sínum tíma, auk fleiri fjölmiðla. Nú síðast starfaði hann sem ráðgjafi hjá KOM-almannatengslum.

Félagar skrái sig á heimasíðu AIPS

Janúar 2008

Athygli er vakin á því að Alþjóðasamtök íþróttafréttamanna, AIPS, eru loksins komin með netskráningu. Félagar í SÍ er hvattir til að fara inn á heimasíðu AIPS, www.aipsmedia.com, til að skrá sig til að fá sent AIPS kort fyrir næstu tvö árin.

Hægra megin á heimasíðunni er hnappur merktur AIPS CARD og þið skráið inn AIPS kortanúmerið ykkar og fæðingardag og uppfærið upplýsingarnar. Endilega sendið mynd af ykkur líka.

Þeir sem eru nýir (eða hafa týnt kortinu sínu) smelli neðst á GET A NEW CARD. Félagar í SÍ eru vinsamlegast beðnir að skrá sig sem allra fyrst.

Our Heroes

Febrúar 2008

Alþjóðasamtök íþróttafréttamanna, AIPS, gefa út tímarit fjórum sinnum á ári. Það er sent til félagsmanna um allan heim. SÍ hafa sent pistla í þetta ágæta tímarit undanfarin misseri. Í nýjasta tímaritinu, því fjórða og síðasta sem kom út í lok síðasta árs en barst félagsmönnum í febrúar, er pistill um bókina góðu, Hetjurnar okkar, eða ‘Our Heroes’ eins og hún er nefnd upp á enska tungu en pistillinn er undir fyrirsögninni ‘Sports heroes?

Einnig er hægt að nálgast tímaritið á heimasíðu AIPS.

Aðalfundur SÍ fimmtudaginn 28. febrúar

Febrúar 2008

Aðalfundur Samtaka íþróttafréttamanna fyrir árið 2007 verður haldinn fimmtudaginn 28. febrúar nk. kl. 14 (klukkan tvö) í fundarsal UMFÍ við Laugarveg. Fundarsalurinn er á þriðju hæð.

Dagskrá: Venjuleg aðalfundarstörf, samkvæmt lögum félagsins:

I. Inntaka nýrra félaga
II. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
III. Skýrsla stjórnar og reikningar lagðir fram.
IV. Lagabreytingar.
V. Stjórnarkosning.
VI. Árgjald félagsmanna.
VII. Önnur mál.
VIII. Fundargerð lesin upp, fundarslit.

Aðalfundur SÍ fyrir árið 2007
Febrúar 2008

Aðalfundur SÍ fyrir árið 2007 var haldinn 28. febrúar. Virkilega góð mæting var á fundinn en alls mætti 21 félagi af 29. Tveir nýir félagar gengu í samtökin, Snorri Sturluson af RÚV og Tómas Þór Þórðarson af DV.

Þorsteinn Gunnarsson, formaður SÍ, flutti skýrslu stjórnar en síðasta ár var ansi viðburðarríkt. Hæst bar að sjálfsögðu kjörið á íþróttamanni ársins en SÍ stóð fyrir því þrekvirki að gefa út bókina Hetjurnar okkar – saga íþróttamanns ársins í 50 ár. Að ýmsum öðrum málum má nefna baráttu fyrir bættri aðstöðu íþróttafréttamanna á Laugardalsvelli og fleiri leikvöngum, samskiptum við KSÍ, Norðurlandaþingi og AIPS þingi, ráðstefnuna Play the game, svo eitthvað sé nefnt.

Jón Kristján Sigurðsson gjaldkeri lagði fram ársreikninga. Hagnaður síðasta árs var um 890 þúsund krónur en rekstrartekjur voru um 2,2 milljónir en umfangið í fyrra var óvenju mikið vegna bókaútgáfunnar.

Ein breytingatillaga um reglugerð á íþróttamanni ársins lá fyrir fundinum þess efnis að kjörið væri ekki leynilegt en hún var felld eftir nokkrar umræður.

Stjórn SÍ var endurkjörin. Þorsteinn Gunnarsson verður áfram formaður, Jón Kristján Sigurðsson gjaldkeri og Guðmundur Hilmarsson ritari. Í varastjórn eru Eiríkur Stefán Ásgeirsson og Viðar Guðjónsson.

Undir liðnum önnur mál bar ýmislegt á góma en framundan er skemmtilegt íþróttaár.

Stefnumót við KSÍ föstudaginn 25. apríl

Mars 2008

Stjórn SÍ hefur ákveðið að bjóða félagsmönnum að fara á stefnumót við aðila innan íþróttahreyfingarinnar amk. einu sinni á önn.

Við hæfi er að byrja á stærsta sérsambandinu, KSÍ. Formaður og framkvæmdastjóri KSÍ hafa samþykkt að eiga stefnumót við SÍ föstudaginn 25. apríl (ATH! Breyting – er viku síðar en áður auglýst) kl. 20, fundarsalur auglýstur síðar.

Þar mun KSÍ kynna fótboltasumarið 2008 og svara spurningum sem brenna á íþróttafréttamönnum þessa dagana og er væntanlega af nógu að taka, eins og t.d. varðandi aðstöðu á Laugardalsvelli o.fl. Vonandi mæta sem flestir félagsmenn SÍ á þetta stefnumót. Nánar síðar.

Óánægja með leiktíma í N1 deild karla

Mars 2008

Stjórn Samtaka íþróttafréttamanna sendi í dag, 11. mars, eftirfarandi bréf til HSÍ:

Stjórn Samtaka íþróttafréttamanna hefur fundið fyrir megnri óánægju á meðal félagsmanna með leiktíma í N1 deild karla. Sífellt fleiri lið hafa fært leiki sína frá kl. 19.15 til 20 og nk. fimmtudag er viðureign Fram og Vals kl. 20.30.

Að hafa leikina svona seint að kvöldi gerir fjölmiðlum ákaflega erfitt fyrir að fjalla um leikina, hvort sem um prent- eða ljósvakamiðla er að ræða. Í knattspyrnunni og körfuboltanum er megin reglan sú að hafa leikina kl. 19.15 sem er sá tími sem hentar íslensku fjölmiðlaumhverfi hvað best, og í raun ekki síður íslenskum áhorfendum og gerir íþróttina fjölskylduvænni fyrir vikið.

Stjórn Samtaka íþróttafréttamanna skorar á HSÍ að breyta leiktímum þannig í N1 deild karla að allir leikir hefjist kl. 19.15.

Með vinsemd og virðingu,

F.h. stjórnar Samtaka íþróttafréttamanna
Þorsteinn Gunnarsson, formaður

Valtýr Björn á RÚV

Mars 2008

Valtýr Björn Valtýsson íþróttafréttamaður mun færa sig um set innan skamms og hefja störf sem íþróttafréttamaður hjá Ríkissjónvarpinu. Valtýr Björn hefur lengst af starfað hjá 365-miðlum, bæði í sjónvarpi og útvarpi, nú síðast sem dagskrárgerðamaður á útvarpssviði.

Henry Birgir tekur við af Valtý Birni

Apríl 2008

Henry Birgir Gunnarsson, fréttastjóri íþróttadeildar Fréttablaðsins, mun frá með 2. maí vera með útvarpsþátt á Xinu 977 frá kl. 12-13. Kemur hann í staðinn fyrir Valtýr Björn Valtýsson sem hefur flutt sig yfir á RÚV.

Stefnumót KSÍ mánudaginn 5. maí

Apríl 2008

Formaður og framkvæmdastjóri KSÍ ætla að hitta félaga í Samtökum íþróttafréttamanna mánudaginn 5. maí nk. kl. 17 í höfuðstöðvum KSÍ. Þeir munu flytja framsögu um knattspyrnusumarið og svara svo spurningum félagsmanna. Matur og veitingar á boðstólum. Félagar í SÍ hvattir til að fjölmenna svo við fáum líflega og skemmtilega umræðu.

Breytingar hjá DV

Maí 2008

DV hyggst leggja niður íþróttakálf sinn sem fylgt hefur blaðinu undanfarin misseri en þar hafa þrír íþróttafréttamenn unnið í fullu starfi og haldið úti myndarlegu blaði. Í staðinn verða tveir íþróttafréttamenn færðir yfir á dv.is og sjá þar um íþróttaskrif og einn fer yfir í almennar fréttir. Verður mikil eftirsjá í íþróttakálfi DV, ekki síst um helgar þar sem mátti lesa mörg skemmtileg og ítarleg viðtöl við íþróttafólk – og jafnvel íþróttafréttamenn. Einnig var ítarleg umfjöllun um enska boltann á mánudögum sem var geysi vinsæl. DV verður ekki samt eftir þessar breytingar.

Gagnlegt Stefnumót við KSÍ

Mars 2008

Samtök íþróttafréttamanna buðu KSÍ á stefnumót þann 5. maí. Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ og Ómar Smárason, leyfisstjóri KSÍ, mættu fyrir hönd KSÍ en Geir Þorsteinsson formaður forfallaðist á síðustu stundu.

Þórir fór yfir knattspyrnusumarið og í kjölfarið voru fyrirspurnir. Íþróttafréttamann hafa töluverðar áhyggjur af aðstöðuleysi á sumum völlum í Landsbankadeildinni í sumar, sérstaklega hjá nýliðum Fjölnis og Þróttar sem og hjá FH en þar eru miklar framkvæmdir í gangi á vallarsvæðinu. Auk þess er aðstaða á Fylkisvelli afar slæm. Íþróttafréttamenn hafa lengi barist fyrir bættri aðstöðu til þess að geta sinnt starfi sínu sómasamlega, sem og myndatökumenn fyrir sjónvarpsstöðvarnar en aðstaða þeirra hefur einnig verið bágborin á sumum völlum.

Þórir og Ómar tóku ábendingum vel um það sem betur mætti fara og verður því komið á framfæri við félögin. Jafnframt munu SÍ og KSÍ senda í sameiningu frá sér GÁTLISTA til félaganna, líkt og SÍ gerði í fyrra, til þess að auðvelda félögunum undirbúninginn fyrir sumarið.

SÍ þakkar KSÍ fyrir gagnlegt stefnumót.

Á myndinni eru Þórir Hákonarson, framkvæmdstjóri KSÍ (sitjandi) og Ómar Smárason, leyfis- og markaðsstjóri KSÍ, á fundinum með íþróttafréttamönnum.

Ferðastyrkur til fréttaöflunar fyrir íþróttafréttamenn

Maí 2008

Formaður SÍ og framkvæmdastjóri Íslenskra getrauna hafa komist að samkomulagi um að Íslenskar getraunir styrki einn íþróttafréttamenn til þess að fara til útlanda í fréttaöflunarferð þar sem fjallað verður íþróttir sem tengjast Íslandi á einhvern hátt. Gengið verður formlega frá samningum á næstunni en búist er við að einn íþróttafréttamaður verði styrktur á ári en samningurinn er til þriggja ára. Reglugerðin sem fylgir samkomulaginu verður kynnt síðar sem og samningurinn sjálfur sem hefur verið nokkuð lengi í bígerð.

Aðstaða á að minnsta kosti þremur völlum áhyggjuefni

Maí 2008

Stjórn Samtaka íþróttafréttamanna hefur tekið púlsinn á þeim þremur völlum í Landsbankadeildinni í sumar sem forráðamenn KSÍ og samtakanna hafa hvað mestar áhyggjur af hvað varðar aðstöðu fyrir íþróttafréttamenn (og myndatökumenn) á leikjum í sumar, að því er fram kom á fundi með KSÍ.
Stjórn SÍ hefur heimsótt Kaplakrikavöll, Fjölnisvöll og Valbjarnarvöll í Laugardal.

Vegna framkvæmda á Kaplakrikavelli er ljóst að íþróttafréttamenn búa við bráðabirgðaaðstöðu í gámi sem er alls ekki ásættanleg. Framkvæmdastjóri FH lofar að aðstaðan verði þokkaleg á fyrsta leik.

Á Fjölnisvelli eru framkvæmdir ekki hafnar við að byggja yfir svalir sem eru hugsaðar fyrir íþróttafréttamenn að störfum en að sögn Fjölnismanna lofa þeir að allt verði klárt í fyrsta leik gegn KR. Vonandi gengur það eftir.

Á Valbjarnarvelli er notast við gamla gáminn á Valsvelli sem er mörkum þess að vera boðlegur. Þróttarar lofa því að lagfæra aðstöðuna en ljóst að hún verður ekki nógu góð Þá er aðstaða á Fylkisvelli sem fyrr afar slæm, svo eitthvað sé nefnt.

Það breytist ekkert að rúmum 50 árum eftir stofnun Samtaka íþróttafréttamanna er okkar helsta baráttumál bætt vinnuaðstaða á íþróttaviðburðum.

Viðmót og vilji til fyrirmyndar

Maí 2008

Eins og fram kemur hér fyrir neðan er aðstaða fyrir íþróttafréttamenn á nokkrum völlum ekki eins og best verður á kosið. Sérstaklega skal Kaplakrikavöllur nefndur sem og Valbjarnarvöllur en bráðabirgðaaðstaða er á báðum stöðum. Því ber að halda til haga að forráðamenn félaganna eiga hrós skilið fyrir viðtökur og viðmót þegar leitað hefur verið eftir lagfæringu á aðstöðu íþróttafréttamanna á leikjum og hefur það nánast undantekningalaust verið til mikillar fyrirmyndar. Vonandi rætist úr bráðabirgðaaðstöðu á fyrrnefndum völlum sem fyrst.

Breytingar á Morgunblaðinu

Maí 2008

Óvæntar breytingar urðu á íþróttadeild Morgunblaðsins þegar gerður var starfsloksamningur við Sigmund O. Steinarsson, íþróttaritstjóra blaðsins. Sigmundur (sjá mynd) hefur unnið sem íþróttafréttamaður á Morgunblaðinu í yfir tvo áratugi og sem ritstjóri í rúman áratug. Sigmundur er elsti og reyndasti íþróttafréttamaður landsins. Í hans stað hafa Víðir Sigurðsson og Sigurður Elvar Þórólfsson verið ráðnir sem íþróttaritstjórar Morgunblaðsins en þeir hafa starfað þar sem íþróttafréttamenn undanfarin ár. Víðir er með reyndustu íþróttafréttamönnum landsins.

Starfshópur um ábyrga framkomu aðila innan vébanda KSÍ í fjölmiðlum

Júní 2008

Stjórn KSÍ samþykkti á fundi sínum 12. júní að skipa starfshóp til þess að fjalla um ábyrga framkomu aðila innan vébanda KSÍ í fjölmiðlum. Starfshópnum er ætlað að kynna sér stöðu þessara mála í nágrannalöndum með það í huga hvort setja beri reglur um viðtöl, breyta beri refsiramma o.fl.

Í starfshópnum sitja Lúðvík S Georgsson, varaformaður KSÍ og formaður mótanefndar, Þórarinn Gunnarson formaður dómaranefndar, Stefán Geir Þórisson formaður laga- og leikreglnanefndar og Þórir Hákonarson framkvæmdastjóri KSÍ, að því er segir á heimasíðu KSÍ.

Við þetta má bæta að formaður Samtaka íþróttafréttamanna ræddi við Geir Þorsteinsson, formann KSÍ, og óskaði eftir því að samtökin kæmu að málinu ef semja eigi reglur um viðtöl og tók Geir því vel.

Undarlegur leiktími

Júní 2008

Fylkir og Grindavík mætast í Landsbankadeild karla miðvikudaginn 25. júní, kl. 21.00. Kemur það til vegna þess að þennan sama dag eru undanúrslit á EM og þetta eini leikdagurinn sem hentar Fylki vegna þátttöku í Getraunakeppni Evrópu. Leiktíminn hentar hins vegar íslensku fjölmiðlaumhverfi afar illa og hafði formaður SÍ samband við KSÍ. Sú hugmynd var uppi á borði að hafa leikinn kl. 17 en niðurstaðan varð önnur. KSÍ er hins vegar að skoða þetta mál betur eftir erindi SÍ.

Magnað heimsþing AIPS í Pekíng

Júní 2008

AIPS, Alþjóðasamtök íþróttafréttamanna, héldu sitt árlega þing, að þessu sinni í Pekíng, höfuðborg Kína, 21. – 24. maí sl. Formaður SÍ, Þorsteinn Gunnarsson, og gjaldkeri samtakanna, Jón Kristján Sigurðsson, sóttu þingið. Til Pekíng komu fulltrúar frá u.þ.b. 100 löndum en þetta var 71. heimsþing AIPS.

Að vanda voru ýmis hagsmunamál íþróttafréttamanna um alla heim rædd. En þingið bar þess merki að Ólympíuleikar eru fram undan í Pekíng. Forystumenn kínversku- og Alþjóða Ólympíuhreyfingarinnar ávörpuðu þingið en í þeirra máli kom fram að lykillinn að vel heppnuðum Ólympíuleikum sé góð þjónusta við fjölmiðla og starfsfólk þeirra þannig að leikarnir skili sér heim í stofu heimsbyggðarinnar á sem áhrifamestan hátt.

Fram kom í máli formanns kínversku Ólympíunefndarinnar að það sé ekkert einsdæmi að land eins og Kína nýti sér Ólympíuleika í einhvers konar áróðursskyni. Hvert einasta land sem haldi slíka leika nota þá til þess að auglýsa ágæti sitt og markaðssetja sem ferðamannaland í framtíðinni.

Farið var í skoðunarferð um Ólympíuþorpið sem risið er og er óhætt að segja að það sé hið stórglæsilegasta. Aðstaða fjölmiðlamanna er til fyrirmyndar en búist er við um 21.600 íþróttafréttamönnum til Peking í tengslum við leikana, fyrir utan tæknifólk! Kínverjar fullyrða að í Ólympíuþorpinu sé stærsta og tæknilega fullkomnasta aðstaða Ólympíusögunnar á hvorki meira né minna en 60 þúsund fermetra svæði, takk fyrir! Á öllum keppnisstöðum er að sjálfsögðu þráðlaust net og sjónvarpsmyndir eru í háskerpu (HD). Um 7000 herbergi eru til ráðstöfuna fyrir íþróttafréttamenn og ljósmyndara í tveimur fjölmiðlaþorpum. Íþróttafréttamenn munu gista á 42 fjölmiðlahótelum.

Farin var skoðunarferð í Fuglshreiðrið, aðalleikvang Ólympíuleikanna. Þetta er magnað mannvirki, arkitektúrinn nýstárlegur og öll astaða til fyrirmyndar. Leikvangurinn tekur 91.000 manns í sæti. Athygli vekur að svokallað Mixed Zone fyrir fjölmiðla er uppi í miðri stúkunni inni á leikvanginum! Æfingamót fór fram á vellinum þegar við vorum þar og gekk eins og í sögu.

Móttökur Kínverja voru höfðinglegar. Meðal annars var farið á sjálfan Kínamúrinn, sem er eitt af sjö undrum veraldar. Upplifunin var stórkostleg enda lengi verið draumur undirritaðs að komast þangað. Kínamúrinn er 6.700 km langur og talið er að á bilinu 2-3 milljónir Kínverja hafi látist við byggingu múrsins á sínum tíma.

Múrinn er að meðaltali 7-8 metra hár og fer mest í 10 metra. Hann er 6 m breiður og hægt er að ganga ofan á múrnum og eru 1 m háir kantar ofan á múrnum svo hestar og menn falli ekki af honum. Tröppur liggja upp á múrinn og á 200-300 metra fresti kemur svo upphækkaður stallur sem gefur góða yfirsýn og þar uppi kemur svo reglulega ljósviti eða skjól.

Það tók á að fara upp Kínamúrinn í 40 stiga hita en var sannarlega þess virði.

AIPS samtökum gáfu kínverska Rauða krossinum 20 þúsund dollara að gjöf til uppbyggingar á þeim svæðum sem verst urðu úti í í jarðskjálftunum í Kína í síðasta mánuði.

Þetta AIPS þing í Kína verður öllum ógleymanlegt sem þangað komu enda gaman að kynnast nýrri menningu og landi. Móttökur Kínverja voru stórkostlegar og vonandi að mengunin verði minni í Pekíng þegar ÓL fara fram. Fulltrúar Íslands á AIPS þinginu voru svo lánsamir að geta heilsað sérstaklega upp á fulltrúa kínversku Ólympíunefndarinnar og Samtök kínverskra íþróttafréttamanna ásamt formanni AIPS, Giovanni Merlo, undir lok þingsins. Við færðum þeim bókagjafir frá Samtökum íþróttafréttamanna á Ísland. Kínverjarnir spurðu okkur spenntir hvenær yrði heimsþing AIPS á Íslandi. Svarið sem við gáfum þeim var að slíkt yrði gert um leið og samtökin ynnu í Lottóinu!

Næsta þing fer fram í Mílanó á Ítalíu en þá er kosningaár og má búast við töluverðu átakaþingi. Takk fyrir okkur.

Fjölmiðlar hafa aðgang að þjálfurum og leikmönnum strax eftir leik

Júlí 2008

Mikils misskilnings virðist gæta hjá félögum í Landsbankadeildinni sem og Knattspyrnuþjálfarafélagi Íslands varðandi aðgang fjölmiðla að þjálfurum og leikmönnum eftir leiki í Landsbankadeild karla.

Sum félög og KÞÍ hafa fullyrt að fjölmiðlar, sem eru að keppast við klukkuna að klára umfjöllun um leiki, þurfi að bíða í 10 mínútur eftir að flautað er til leiksloka áður en þeir fá viðtöl. Þetta er kolrangt og ættu félögin í Landsbankadeildinni að vita betur því skýrt er kveðið á um þetta í handbók KSÍ sem fylgir Leyfiskerfinu.

Orðrétt segir í Leyfiskerfinu:
„Að öllu jöfnu ættu leikmenn og þjálfarar að vera klárir í viðtöl eigi síðar en 10 mínútum eftir að leik lýkur.”

Með öðrum orðum: Leikmenn og þjálfarar eiga að vera klárir í viðtöl STRAX EFTIR LEIK.

SÍ hafa gert athugasemd við þennan misskilning félaganna til KSÍ.

Meistaradeildin áfram á Stöð 2 Sport
Ágúst 2008

Stöð 2 Sport hefur tryggt sér áframhaldandi sýningarrétt á Meistaradeild Evrópu og UEFA-bikarnum til ársins 2012. Þetta er tilkynnt á heimasíðu UEFA.

Stöð 2 Sport mun halda áfram að sinna Meistaradeildinni og sýnir átta leiki í viku meðan riðlakeppnin fer fram. Þegar úrslitakeppnin hefst verða allir leikir sýndir.

Á heimasíðu UEFA er sagt að virkileg ánægja sé með þessa samninga enda hafi samstarfið við 365 miðla verið gott gegnum árin.

Vösk sveit íþróttafréttamanna á Ólympíuleikunum

Ágúst 2008

Ólympíuleikarnir voru settir í dag með pompi og pragt í Pekíng í Kína.

RÚV hefur sýningarréttinn og sendir út þrjá íþróttafréttamenn; Adolf Inga Erlingsson, Hrafnkel Kristjánsson og Samúel Örn Erlingsson sem var kallaður sérstaklega í þetta verkefni. Morgunblaðið sendir Sigurð Elvar Þorólfsson. Fyrir hönd Fréttablaðsins fer Henry Birgir Gunnarsson en Stöð 2 og DV senda engan fulltrúa á leikana, sem er miður.

Alls eru 27 íslenskir íþróttamenn á ÓL að þessu sinni sem Kínverjar segja að verði þeir glæsilegustu frá upphafi.

Íþróttafréttamenn í doktorsritgerð

Ágúst 2008

Guðmundur Sæmundsson hefur ákveðið að skrifa doktorsritgerð um málfar íþróttafréttamanna og íþróttamanna. Ætlar hann að einbeita sér að tveimur íþróttagreinum; fótbolta og frjálsum.

Guðmundur sagði í viðtali við morgunútvarp Rásar 2 að málfar íþróttafréttamanna hafi mjög mótandi áhrif á málfar íþróttamannanna sjálfra. Íþróttafréttamenn séu stýrandi í umræðunni og segir Guðmundur að Bjarni Felixson sé sitt helsta uppáhald hvað þetta varðar.

Guðmundur sagði íþróttafréttamenn duglega í myndlíkingum af vellinum. Þegar menn æsa sig losni svo um margar hömlur og tekst stundum að gera ótrúlegastu hluti spennandi. Málfarið hefur þróast að sögn Guðmundar en alls ekki hrakað og lýsingarnar hafa batnað.

Ritgerðin mun heita “Það er næsta víst” og þar er að sjálfsögðu vísað beint í Bjarna Fel!

Frábær frammistaða

Ágúst 2008

Handboltalandsliðið okkar náði stórkostlegum árangri á Ólympíuleikunum í Peking og kom heim með silfrið.

Hlutverk íþróttafréttamanna á stórleikum sem þessum er að miðla heim því sem gerist á leikunum, í gegnum sjónvarp, dagblöð, netið og útvarp. Íþróttafréttamennirnir sem voru á vettvangi í Pekíng sýndu það og sönnuðu og þeir eru frábærir fagmenn og voru stétt sinni til mikils sóma.

Hvort sem voru lýsingar, viðtöl, skrif í dagblöð eða á netið, þá skilaði það sér á eftirtektarverðan hátt til landsmanna sem nutu góðs af margra ára reynslu þeirra íþróttafréttamanna sem voru á vettvangi.

Um leið og handboltalandsliðinu er óskað til hamingju með stórkostlegan árangur, ber svo sannarlega að halda því til haga að íþróttafréttamennirnir voru einnig okkar sómi, sverð og skjöldur og eru alltaf bestir undir pressu!

Þá sannaðist enn og aftur hversu mikilvægt það er fyrir fjölmiðla sem vilja láta taka sig alvarlega að senda íþróttafréttamenn á vettvang á stórmótum því nálgunin verður mun persónulegri og skemmtilegri. Áfram Ísland!

Golfmótið er föstudaginn 12. september

September 2008

Hið árlega golfmót Samtaka íþróttafréttamanna ,,Opna sportpress.is mótið” verður haldið á Garðavelli á Akranesi, föstudaginn 12. september.

Gjald: 0 kr.

Ræst út af 1. teig kl. 13, mæting kl. 12.45.

Eftir hringinn er boðið upp á mat og drykk. Veglegir vinningar.

Allir íþróttafréttamenn í SÍ hvattir til að mæta, sumarafleysingamenn og fyrrverandi félagar í samtökunum einnig hjartanlega velkomnir. Látið póstinn því endilega ganga til þeirra líka.

Vinsamlegast staðfestið þátttöku í síðasta lagi miðvikudaginn 10. september á netfang formanns: thorsteinn.gunnarsson@365.is

Mótið var endurvakið í fyrra eftir áratuga hvíld. Eftir flókna forgjafaútreikninga stóðu Dagur á DV og Hjalti á Fréttablaðinu uppi sem sigurvegarar.

Dramatík á Opna sportpress.is mótinu í golfi

September 2008

Hið árlega golfmót Samtaka íþróttafréttamanna; “Opna sportpress.is mótið”, var haldið á Garðavelli á Akranesi, föstudaginn 12. september. 12 íþróttafréttamenn voru skráðir til leiks, 11 mættu. Þegar golfmótið var endurvakið í fyrra mættu 7 og því er um verulega fjölgun að ræða.

Til þess að fylla þrjú holl var brugðið á það ráð að fá gest, Skagamanninn Alexander Högnason. Veður var með ágætum en óhætt er að segja að skipst hafi á skin og skúrir á golfvellinum. Spilað var með Texas Scramble fyrirkomulagi og varð niðurstaðan þessi eftir flókna forgjafaútreikninga:

6. sæti: Ómar og Sveinn Dagur, 94 högg

5. sæti: Henry og Albert, 82

4. sæti: Skúli Unnar og Þorsteinn, 80

3. sæti: Sigurður Elvar og Guðmundur Hilmars, 75

2. sæti: Hrafnkell og Valtýr, 74

1. sæti: Eiríkur Stefán og Alexander, 74

Þar sem tvö fyrstu pörin voru jöfn gilti sú gamla og góða regla ,,betra skor á seinni 9? og þar höfðu Eiríkur Stefán og Alexander betur en Hrafnkell og Valtýr Björn urðu að sætta sig við annað sætið. Eiríkur Stefán og Alexander fengu vegleg verðlaun; gistinu á Grand Hótel, en þar sem Alexander var gestur í mótinu ákvað formaður eftir mikla íhugun að Hrafnkell og Valtýr Björn fái einnig fyrstu verðlaun, og verða þau afhent við fyrsta tækifæri.

Mótið var frábær skemmtun en Sigurður Elvar Þórólfsson, formaður golfnefndar, hélt utan um skipulagninguna. Er gaman að sjá hversu íþróttafréttamenn eru öflugir kylfingar. Hrafnkell er t.d. einn högglengsti kylfingur landsins, Albert sá kokhraustasti, Eiríkur Stefán sá fjörugasti og Formaðurinn sá best klæddi! Sjáumst að ári.

Á myndinni eru sigurvegarnir Eiríkur Stefán og Alexander (gestaspilari) með formanninn á milli sín.

Formannafundur í Reykjavík

September 2008

Formenn samtaka íþróttafréttamanna á Norðurlöndunum hittust í Reykjavík mánudaginn 22. september síðastliðinn. Þetta er þriðja árið í röð sem formennirnir hittast en þar er farið yfir ýmis mál sem varða íþróttafréttamenn á Norðurlöndum, einnig heimssamtökin (AIPS) og Evrópusamtökin (UEPS) og svo Norðurlandaþingið sem er á næsta ári.

Til Íslands komu Reidar Sollie frá Noregi, Esa Maaranen frá Finnlandi, Steen Ankerdal frá Danmörku en því miður komst Bertil Guslen ekki frá Svíþjóð þar sem bókun hans fyrirfórst hjá flugfélaginu. Þorsteinn Gunnarsson, formaður Samtaka íþróttafréttamanna á Íslandi stjórnaði fundinum, Jón Kristján Sigurðsson gjaldkeri SÍ var einnig á fundinum ásamt Adolfi Inga Erlingssyni en fyrrverandi formönnum er einnig boðið að vera með á heimavelli.

Gianno Merlo, forseti AIPS, sendi Norðurlöndunum bréf sem tekið var fyrir á fundinum þar sem biðlað var til Norðurlandanna að takan virkan þátt í að efla AIPS. Næsta heimsþing verður í Mílanó mánaðarmótin apríl/maí en það er kosningaþing og því mikið um að vera. Norðurlöndin ætla að sameinast um að bjóða fram einn fulltrúa í framkvæmdastjórn AIPS og var unnið að þeim undirbúningi á fundinum og tilkynnt síðar hver fulltrúi þeirra verður. Einnig var ákveðið að Norðurlöndin bjóði fram fleiri fulltrúa í ýmsar nefndir AIPS.

Farið var yfir ýmis önnur hagsmunmál sem gert verður grein fyrir á næsta félagsfundi Samtaka íþróttafréttamanna.
Formannafundurinn tókst virkilega vel en hann var haldinn á Grandhótel og var SÍ til mikils sóma.

Nýr íþróttafréttamaður á DV

Október 2008

Breytingar urðu á íþróttadeild DV. Viðar Guðjónsson er hættur en Sveinn Waage, sem hefur stýrt Golfblaðinu, er kominn í hans stað.

Hætt við Krítarferð

Október 2008

Sumarskóli og haustfundur AIPS fer fram í lok október. Formaður SÍ og ritari ætluðu á þingið en vegna breyttra aðstæðna og hörmunga á fjármálamarkaði var ákveðið að hætta við ferðina. Rétt er að taka fram að sjóður SÍ er tryggur á góðri bankabók.

Nýr yfirmaður íþróttadeildar RÚV

Október 2008

Enn eru breytingar hjá íþróttadeild Ríkisútvarpsins, sem koma til vegna breytinga á fréttastofunni en íþróttadeildin hefur verið færð frá dagskrárdeild og undir fréttastofu. Einn af aðstoðarfréttastjórunum hefur fengið íþróttadeildina inn á sitt borð en það er Margrét Marteinsdóttir. Hún er því nýr yfirmaður íþróttadeildar. Sama áhöfn verður undir stjórn nýja yfirmannsins.

Fundað um kjör íþróttamanns ársins

Október 2008

Formaður og gjaldkeri SÍ funduðu með framkvæmdastjóra og verkefnastjóra ÍSÍ vegna kjörsins á íþróttamanni ársins 2008. Kjörið verður með hefðbundnu sniði en reynt að leggja meira í sjónvarpsútsendinguna, í beini framhaldi af því sem gert var í fyrra. Ákveðið var að hafa þema í kringum kjörið, líkt og í fyrra en þá var það tengt Kína og fyrirhuguðum Ólympíuleikum.

Kjörinu verður lýst í lok desember að þessu sinni, annað hvort mánudaginn 29. des. eða þriðjudaginn 30. des. en sjónvarpsstöðvarnar hafa lokaorðið um það.

Hetjurnar okkar – sígild bók

Október 2008

Sem kunnugt er gáfu SÍ út bókina Hetjurnar okkar fyrir síðustu jól þar sem fjallað er um íþróttamenn ársins frá upphafi, í tilefni 50 ára afmæli samtakanna. Þrátt fyrir mjög góða sölu eigum við til nokkuð á bókum sem seldar verða á góðu verði nú fyrir jólin og geta áhugasamir haft samband við jonkristjan@umfi.is. Hetjurnar okkur er sígild bók sem á svo sannarlega heima í öllu betri hillum landsmanna.

Fækkar í stéttinni

Nóvember 2008

Breytingar hafa verið á högum nokkurra félaga í Samtökum íþróttafréttamanna að undanförnu og ljóst að það hefur fækkað nokkuð í stéttinni í ár. Þorsteinn Gunnarsson er hættur á Stöð 2 Sport eftir uppsagnarhrinu hjá 365 um síðustu mánaðarmót. Albert Örn Eyþórsson er hættur á íþróttadeild Morgunblaðsins eftir fjöldauppsagnir þar um síðustu mánaðarmót og þá var Snorra Sturlusyni sagt upp hjá RÚV.

Kjör íþróttamanns ársins 2008 fer fram 2. janúar

Nóvember 2008

Kjör íþróttamanns ársins 2008 verður haldið föstudaginn 2. janúar nk., að vanda í samvinnu við ÍSÍ. Kjörið verður með hefðbundnu sniði en reynt að bæta aðeins í sjónvarpsútsendinguna líkt og í fyrra. Að vanda fer kjörið fram á Grand Hótel. Stefnt er að fundi íþróttafréttamanna til þess að undirbúa kjörið þriðjudaginn 9. desember nk. kl. 12 í húsakynnum UMFÍ og eru íþróttafréttamenn beðnir um að taka þá dagsetningu frá.

Enn fækkar

Nóvember 2008

Ríkissjónvarpið tilkynnti uppsagnir undir lok nóvembermánaðar. Niðurskurðurinn kom hvað harkalegast niður á íþróttadeildinni en þar var sex manns sagt upp störfum, þar á meðal þremur íþróttafréttamönnum, þeim Valtý Birni Valtýssyni, Lovísu Árnadóttur og Ásgeiri Erlendssyni. Aðeins þrír íþróttafréttamenn eru því eftir á RÚV. Þátturinn Sportið, sem hefur verið á mánudagskvöldum, verður svo sleginn af eftir áramót. Jafnframt ríkir óvissa um beinar útsendingar á nýju ári.

VIð þetta má bæta að Ómari Þorgeirssyni var sagt upp á Fréttablaðinu. Alls hefur sjö íþróttafréttamönnum verið sagt upp á skömmum tíma.

Áskorun framkvæmdastjórnar ÍSÍ

Desember 2008

Á Formannafundi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem haldinn var í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, 28. nóvember sl. lýstu formenn sérsambanda og héraðssambanda/íþróttabandalaga ÍSÍ yfir áhyggjum sínum með uppsagnir íþróttafréttamanna á Ríkisútvarpinu sem kynntar voru þann dag. Af þeim 13 starfsmönnum sem sagt var upp á fréttasviði eru sex af íþróttadeild. Frá þessu er grein á heimasíðu ÍSÍ.

Töldu fundarmenn að með þessum aðgerðum væri vegið harkalega að íþróttadeild Ríkisútvarpsins og allri umfjöllun um íþróttir.

Á fundi framkvæmdastjórnar ÍSÍ 4. desember, var eftirfarandi áskorun samþykkt:

„Framkvæmdastjórn ÍSÍ skorar á stjórn RÚV að sjá til þess að umfjöllun og fréttaflutningur af íþróttum skerðist ekki, enda er umfjöllun um íþróttir lögbundin skylda RÚV. Í gegnum árin hefur RÚV sinnt umfjöllun um íþróttir af miklum metnaði og hefur mikilvægu hlutverki að gegna við að miðla fréttum af íþróttaviðburðum, innlendum sem erlendum. Sú ráðstöfun að segja upp fjórum af sjö íþróttafréttamönnum ber ekki vott um að ætlunin sé að halda áfram á þeirri braut. Telur framkvæmdastjórn ÍSÍ að með þeim aðgerðum og aðgerðum fyrr á þessu ári sé vegið að íþróttahreyfingunni í landinu.”

Íþróttaumfjöllun í fjölmiðlum

Desember 2008

Eftirfarandi grein ritaði Ólafur Rafnsson, forseti ÍSÍ, á heimasíðuna www.isisport.is, þann 5. desember 2008:

Íslenskir íþróttafréttamenn eru býsna merkileg stétt. Vissulega fámenn, en hefur engu að síður tekist að byggja upp magnaða flóru íþróttaumfjöllunar þar sem reynir á víðtæka og fjölbreytta þekkingu á íþróttum – sem staðist hefur býsna vel samanburð við fjölmennar og sérhæfðar íþróttadeildir erlendra fjölmiðla.

Starfsaðstæður og vinnuumhverfi íþróttafréttamanna er í senn krefjandi og ófjölskylduvænt. Þegar nú bætist við skert starfsöryggi og enn þrengri möguleikar á faglegri umfjöllun fyrir þá fáu sem enn halda starfi sínu er ljóst að hætta er á að uppbygging verðmætrar sérþekkingar fari forgörðum.

Enginn sleppur undan niðurskurði í efnahagssamdrætti. Óhjákvæmilegt er að slíkt bitni á kostnaði við umfjöllun fjölmiðla um íþróttir líkt og aðra fréttaumfjöllun. En fregnir af niðurskurði fjölmiðla benda til að of langt hafi verið gengið varðandi íþróttaumfjöllun – sem virðist víða hafa orðið harðar fyrir niðurskurði en önnur starfsemi. Slíkt er óásættanlegt og óskynsamlegt.

Íþróttaumfjöllun er líklega meðal ódýrasta fréttaefnis fjölmiðla í hlutfalli við lestur, hlustun og áhorf. Stórir íþróttaviðburðir og umfjöllun um okkar fremsta íþróttafólk er meðal vinsælasta efnis sem finnst í fjölmiðlum. Framhjá því verður ekki litið að íþróttaumfjöllun er stór hluti af daglegri fjölmiðlaneyslu mikils hluta þjóðarinnar, og hygg ég að fátt endurspegli jafn vel þverskurð almennings í landinu og áhugi á íþróttafréttum.

Íþróttaiðkun og íþróttaumfjöllun verður ekki skilin undan endurreisn samfélagsins úr rústum efnahagskreppu. Sérstaklega á það við um umfjöllun um innlendar íþróttir og íslenskt íþróttafólk.

Ég hvet fjölmiðla til að endurskoða harkalegan niðurskurð íþróttaumfjöllunar. Bæði er rétt að takmarka niðurskurð, og eins hvet ég fjölmiðla til að leita annarra leiða til hagræðingar en uppsögn dyggra starfsmanna sem búa yfir verðmætri sérþekkingu.

Niðurskurður fjölmiðla þarf að taka mið af hagsmunum neytenda.

Ólafur E. Rafnsson,
forseti ÍSÍ.

Yfirlýsing frá Samtökum íþróttafréttamanna

Desember 2008

Samtök íþróttafréttamanna lýsa yfir þungum áhyggjum sínum af uppsögnum íþróttafréttamanna að undanförnu. Samtökin skora á íslenska fjölmiðla að halda uppi öflugum fréttaflutningi af íþróttum sem og að standa vörð um beinar útsendingar af íslenskum íþróttum enda sýna fjölmiðlakannanir að slíkt efni nýtur mikilla vinsælda og hefur ótvírætt forvarnargildi. Samtökin skora á fjölmiðla að leita annarra leiða til hagræðingar en harkalegan niðurskurð á íþróttaumfjöllun. Þá er skorað á fjölmiðla að standa vörð um reynslumikla sveit íslenskra íþróttafréttamanna og að draga uppsagnir til baka.

Samþykkt á félagsfundi Samtaka íþróttafréttamanna 11. desember 2008.

Yfirlýsing frá KKÍ
Desember 2008

Samtökum íþróttafréttamanna hefur borist eftirfarandi bréf frá Körfuknattleikssambandi Íslands:

KKÍ styður ykkur heilshugar í þessari baráttu og vill um leið hvetja íslenskar sjónvarpsstöðvar til að auka hlutfall innlends íþróttaefnis. Það mikla forvarnargildi sem íþróttir hafa er ótvírætt og þess vegna ber að varast slíkan niðurskurð því hann mun koma einna mest niður á umfjöllun um íslenskar íþróttir.

F.h. KKÍ
Friðrik Ingi Rúnarsson
Framkvæmdastjóri

Samhugur Norðurlandaþjóðanna

Desember 2008

Samtök íþróttafréttamanna í Danmörku höfðu frumkvæðið að því fyrir skömmu að Norðurlandaþjóðirnar settu á laggirnar sjóð fyrir íslenska kollega sína í fjárhagskröggum, ef á þyrfti að halda. Norðurlandaþjóðirnar Danmörk, Svíþjóð, Noregur og Finnland hafa samþykkt að setja 10 þúsund evrur hver í sjóðinn sem verður því samanlagt 40 þúsund evrur eða rúmar sex milljónir ísl. króna. Hugmyndin er að úr sjóðnum verði veitt vaxtalaust lán til fimm ára fyrir þá íþróttafréttamenn á Íslandi sem lenta í miklum erfiðleikum eftir atvinnumissi en sjö íþróttafréttamenn hafa misst vinnuna á undanförnum vikum. Geta þeir sótt um lán úr sjóðnum samkvæmt nánari reglugerð sem er í smíðum.

Á félagsfundi Samtaka íþróttafréttamanna á Ísland 11. des. sl. var þessi samhugur granna okkar þakkaður af heilum hug. Ef á þarf að halda næsta vor, þegar farið verður að reyna meira á ástandið á atvinnumarkaðnum, mun koma í ljós hvort þörf verður á slíkum sjóð.

Ísland hefur átt í farsælu samstarfi við aðrar Norðurlandaþjóðir á vettvangi íþróttafréttamennsku frá stofnun Samtaka íþróttafréttamanna hér á landi, 1956. Norðurlandaþing fara fram annað hvert ár og hafa nokkrum sinnum verið haldin hér á landi, síðast 2005.

Tíu efstu í kjöri íþróttamanns ársins 2008
23. desember 2008

Atkvæði í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna um Íþróttamann ársins 2008 hafa verið talin og liggur ljóst fyrir hvaða tíu íþróttamenn urðu í efstu sætum í kjörinu.

Nöfn þeirra í stafrófsröð eru:

Alexander Petersson, handknattleiksmaður í Flensburg
Eiður Smári Guðjohnsen, knattspyrnumaður í Barcelona
Guðjón Valur Sigurðsson, handknattleiksmaður í Rhein Neckar Löwen
Hermann Hreiðarsson, knattspyrnumaður í Portsmouth
Jón Arnór Stefánsson, körfuknattleiksmaður í KR
Katrín Jónsdóttir, knattspyrnukona í Val
Margrét Lára Viðarsdóttir, knattspyrnukona í Val
Ólafur Stefánsson, handknattleiksmaður í Ciudad Real
Snorri Steinn Guðjónsson, handknattleiksmaður í GOG
Þormóður Jónsson, júdómaður JR

24 félagsmenn eru í Samtökum íþróttafréttamanna og nýttu allir þeirra atkvæðisrétt sinn í kjörinu að þessu sinni. Atkvæðagreiðslan er leynileg og fer þannig fram að hver félagsmaður SÍ setur saman lista með nöfnum tíu íþróttamanna sem honum þykja hafa skarað fram úr á árinu.

Helstu styrktaraðilar Samtaka íþróttafréttamanna vegna kjörsins eru Glitnir og Icelandair.

Kjörinu verður lýst á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 2. janúar klukkan 19.35 í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu.

Áður en kjöri íþróttamanns ársins verður lýst mun ÍSÍ afhenda viðurkenningar til þeirra íþróttakarla og -kvenna hjá sérsamböndum sínum sem þótt hafa skarað fram úr á árinu 2008. Þetta verður í fjórtánda sinn sem Samtök íþróttafréttamanna og ÍSÍ standa að sameiginlegri hátíð sem nær hápunkti þegar Íþróttamaður ársins 2008 verður útnefndur.

Samtök íþróttafréttamanna óska landsmönnum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.