50 ára afmæli SÍ

Samtök íþróttafréttamanna héldu upp á 50 ára afmæli sitt með pompi og pragt í Eldborg í Bláa lóninu laugardagskvöldið 28. október. Ný glæsileg stytta sem fylgir sæmdarheitinu Íþróttamaður ársins, var afhjúpuð á afmælinu en hún er íslensk smíði.

Mikið var um dýrðir á 50 ára afmæli Samtaka íþróttafréttamanna. Kvöldið hófst með kokteilveislu í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs og fyrrverandi íþróttafréttamaður á Morgunblaðinu, tók á móti félagsmönnum SÍ, mökum og gestum. Síðan var haldið með rútu í Eldborg, sal Hitaveitu Suðurnesja. Samúel Örn Erlingsson var veislustjóri en formaður SÍ, Þorsteinn Gunnarsson, opnaði hófið. Í máli hans kom fram að hafin er ritun 50 ára sögu Íþróttamanns ársins í samstarfi við Edduútgáfu. Hallgrímur Indriðason, fyrrverandi íþróttafréttamaður og núverandi fréttamaður á Ríkisútvarpinu, ritar söguna en fyrir ritnefndinni fer Sigurður Svavarsson frá Edduútgáfu. Áætlað er að bókin komi út næsta haust.

SÍ lét útbúa glæsilegan bakgrunn á grind þar sem var að finna yfirlit yfir alla íþróttamenn ársins síðustu 50 árin. RÚV sýndi myndbrot frá kjöri íþróttamanns ársins í gegnum tíðina. Geir Ólafsson tók lagið af sinni alkunnu snilld og starfsmenn 365 unnu spurningakeppnina. Þá var haldin landskeppni í glímu á milli Íslands og Svíþjóðar í tilefni af alþjóðlegu glímumóti á Íslandi þessa helgina og hafði Íslands sigur, 4-0. Ómar Ragnarsson fór með nokkrar gamlar íþróttalýsingar og Ragnar Bjarnason og Þorgeir Ástvaldsson tóku lagið.

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, var á meðal gesta en hann var sæmdur gullmerki samtakanna. Ólafur Ragnar hélt þar einnig ræðu og fór á kostum.

Þá voru fyrrverandi formenn SÍ sæmdir silfurmerki félagsins, þeir Steinar J Lúðvíksson, Þórarinn Ragnarsson, Samúel Örn Erlingsson, Skúli Unnar Sveinsson, Samúel Örn Erlingsson, Skapti Hallgrímsson og Adolf Ingi Erlingsson. Þeir Ingólfur Hannesson, Hermann Gunnarsson og Ívar Benediktsson, fyrrverandi formenn, fá sín silfurmerki afhent við tækifæri en þeir voru fjarstaddir.

Einnig voru þarna íþróttfréttamenn sem eiga sæti í stjórnum systursamtaka okkar í Finnlandi, Noregi, Danmörku og Svíþjóð.

ÍSÍ, UMFÍ, Íslenskar getrauni, Glitnir og Landsbankinn gáfu SÍ glæsilegar gjafir í tilefniafmælisins.

Að tímamótum er komið í sögu Samtaka íþróttafréttmanna, sem hafa staðið að kjöri Íþróttamanns ársins undanfarin 50 ár, því styttan glæsilega sem hefur fylgt sæmdarheitinu frá upphafi, fer á Þjóðminjasafnið í lok ársins.

Nokkrir aðilar lýstu yfir áhuga að leggja til nýja styttu til kjörsins en Samtök íþróttafréttmanna þáðu höfðinglegt boð Íþrótta- og Ólympíusambandsins Íslands. Ekkert var til sparað við gerð styttunnar og var íslenskur gullsmiður, Sigurður Ingi Bjarnason, fenginn til þess að hanna og smíða grípinn.

Styttan var afhjúpuð á afmælishófinu í gærkvöldi. Styttan er mikið mannvirki og vegur heil 30 kg. Sigurður gullsmiður segir að náttúra Íslands endurspeglist í margvíslegu efni verksins. Birkið kemur úr Hallormsstaðaskógi og hraunið frá Þingvöllum, súlur verksins tákna höfuðáttirnar en hún endar í silfurskál sem styður við glerskál sem er tákn þeirrar hreinskiptni og þess heiðarleika sem fólginn er í keppnisanda íþróttanna. Litir skálarinnar eiga rætur sína að rekja til jökla og elda Íslands. Styttan verður svo svo formlega afhent við næsta kjör á Íþróttamanni ársins.

Afmæli SÍ lauk svo balli þar sem grindvíska hljómsveitin Geimfararnir lék fyrir dansi af stakri snilld.

Ekki verður annað sagt en afmælishófið hafi tekist með stakri prýði.