Fréttir 2007

Tveir nýir félagsmenn

Janúar 2007

Tveir nýir félagsmenn hafa bæst í Samtök íþróttafréttamanna og uppfylla þar með öll skilyrði fyrir inngöngu. Lovísa Árnadóttir og Benedikt Rafn Rafnsson gengu í félagið á síðasta fundi. Bæði starfa þau sem íþróttafréttamenn á RÚV í fullu starfi. Þar með eru félagsmenn SÍ orðnir 23 en Lovísa er eina konan í félaginu.

Breytingar hjá íþróttafréttamönnum

Janúar 2007

Nokkrar breytingar hafa orðið á högum íþróttafréttamanna að undanförnu. Eftir að útvarpsstöðin XFM var lögð niður færði Valtýr Björn Valtýsson sig yfir á á X-ið 977 sem er í eigu 365. Hann verður áfram með þáttinn sinn, Mín skoðun, á milli kl. 12-14, mánudaga til föstudaga. Þá hafa þeir Óskar Ófeigur Jónsson og Dagur Sveinn Dagbjartsson haft vistaskipti. Óskar Ófeigur fór frá DV yfir á Fréttablaðið en Dagur Sveinn í hina áttina. Þá er Benedikt Bóas Hinriksson tekinn til starfa sem íþróttafréttamaður á DV sem verður að dagblað að nýju á næstunni. Þess má einnig geta að Hans Steinar Bjarnason er í fullu starfi þessa dagana sem íþróttafréttamaður hjá Stöð 2 og Sýn.

Hvor verður næsti forseti UEFA?

Janúar 2007

Svíinn Lennart Johannsson, núverandi forseti Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA), og Frakkinn Michel Platini, berjast um forsetaembætti UEFA en kosið verður á næstunni. Allt stefnir í spennandi kosningar.
Nú stendur yfir könnun á vef Alþjóðasambands íþróttafréttamanna, aipsmedia.com, þar sem félagsmönnum gefst kostur að velja á milli Johannsson og Platini. Farið endilega inn á vefinn og takið þátt en þið þurfið að skrá inn AIPS-númerið ykkar áður en þið greiðið atkvæði. Kosningu lýkur mánudaginn 22. janúar.

Styrkur frá Alþjóða Ólympíuhreyfingunni

Janúar 2007

Þær ánægjulegu fréttir bárust á dögunum að Alþjóða Ólympíuhreyfingin hefur endanlega staðfest 10 þúsund dollara styrkveitingu til Samtaka íþróttafréttamanna vegna bókar sem verið er að skrifa um sögu Íþróttamanns ársins frá upphafi. Hallgrímur Indriðason, fréttamaður á RÚV og fyrrverandi íþróttafréttamaður, situr þessa dagana við skriftir en hann byggir bókina að hluta til á mjög vönduðum útvarpsþáttum sem hann gerði um íþróttamenn ársins fyrir nokkrum árum. Samtök íþróttafréttamanna gefa út bókina í samvinnu við Eddu-útgáfu þar sem velgjörðarmaður okkar, Sigurður Svavarsson, vakir yfir útgáfunni. Stefnt er að útgáfu bókarinnar næsta haust.

Íþróttafréttamenn veðja á Platini

Janúar 2007

Samkvæmt netkönnun AIPS, Alþjóðasambandi íþróttafréttamanna, veðjar meirihluta þeirra á að Michel Platini leggi Lennart Johansson að velli í forsetakjöri UEFA. Johannsson fékk 67.82% atkvæða en Johansson 32.18%. Íþróttafréttamenn í yfir 40 löndum tóku þátt í kjörinu. Kjörið fer fram næsta föstudag.

Sænska blaðið Aftonbladet reiknar með mjög spennandi kjöri. Samkvæmt úttekt blaðsins hafa Platini og Johansson stuðning 22ja landa hvor, 8 lönd eru óákveðin. Athyglisvert er að KSÍ styður Platini í kjörinu, samkvæmt úttekt sænska blaðsins. Það gera einnig Danmörk og Færeyjar en Norðmenn styðja Johansson og að sjálfsögðu Svíar.

Sjá nánar hér og hér.

Svo fór að íþróttafréttamenn reyndust sannspáir því Platini lagði Johannsson að velli í kjörinu. Platini, sem er 51 árs gamall, fékk 27 atkvæði en Johansson, sem er 77 ára, hlaut 23 atkvæði.

Áhugaverð umfjöllun Morgunblaðsins

Janúar 2007

Áhugaverð umfjöllun er í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins 28. janúar um konur og íþróttir. Þar er m.a. fjallað um kjör íþróttamanns ársins þar sem réttilega er bent á að aðeins þrjár konur hafi verið valdar Íþróttamaður ársins. Í umfjölluninni er m.a. rætt við tvær konur og viðhorf þeirra til kjörsins, þær Ragnheiði Runólfsdóttur og Ásthildi Helgadóttur en hvorug þeirra vill kynskipta kjörinu. Yfirskrift greinarinnar er “ÞRJÁR KONUR Á HÁLFRI ÖLD”. Greinin kemur hér:

Hlutur kvenna í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins hefur verið rýr gegnum tíðina en í ríflega fimmtíu ára sögu kjörsins hafa aðeins þrjár konur hrósað sigri, Sigríður Sigurðardóttir handknattleikskona (1964), Ragnheiður Runólfsdóttir sundkona (1991) og Vala Flosadóttir stangarstökkvari (2000).

Ólafur Rafnsson segir þetta umhugsunarefni. Hann bendir þó á að fjölmargar aðrar konur hafi náð framúrskarandi árangri í íþróttum gegnum árin og hefðu verið vel að þessum titli komnar. “Fyrirmyndirnar eru til staðar, glæsilegar íþróttakonur í fremstu röð.”

Ragnheiður Runólfsdóttir tekur undir að vissulega sé hlutfallið konum í óhag. “Það má hins vegar ekki gleyma því að það er lengri hefð fyrir því að karlar stundi flestar íþróttagreinar og séu í fremstu röð. Ef við lítum á það hverjir hafa verið að fara með sigur af hólmi í kjörinu undanfarin ár sjáum við að það eru menn sem allir hafa atvinnu af sinni íþrótt, Ólafur Stefánsson, Eiður Smári Guðjohnsen og Guðjón Valur Sigurðsson. Það eru ekki margar íslenskar konur atvinnumenn í íþróttum. Við þetta er erfitt að keppa.”

Ragnheiður kveðst fyrst hafa velt því fyrir sér að hún ætti möguleika á því að vera kjörin íþróttamaður ársins þegar kollegi hennar og æfingafélagi, Eðvarð Þór Eðvarðsson, hampaði titlinum árið 1986. “Þá hugsaði ég með mér, fyrst hann getur þetta hlýt ég að geta það líka ef ég legg mig alla fram.”

Ragnheiður vill ekki sjá kjörinu skipt í tvennt, íþróttakarl ársins og íþróttakonu ársins. “Það yrði stórt skref aftur á bak. Auðvitað eigum við að leggja sömu mælistikuna á alla íþróttamenn. Ef konurnar yrðu teknar út úr þessu og kjörnar sér værum við ekki að tala um jafnrétti, heldur sérréttindi. Það vilja konur ekki.”

Ásthildur Helgadóttir sér heldur ekki ástæðu til að aðgreina karla og konur í kjörinu. Hún vill sjá hlut kvenna meiri en á brattann sé að sækja. “Það eru fleiri karlar í fremstu röð en konur. Hlutur kvenna í tíu efstu sætum kjörsins hefur þó verið að vaxa. En það segir sig sjálft að það er erfitt að keppa við menn eins og Eið Smára Guðjohnsen sem náð hefur mjög langt í vinsælustu íþrótt í heimi.”

Ásthildur sér þó vel fyrir sér að knattspyrnukona nái kjöri í nánustu framtíð. “Við eigum konur í fremstu röð í heiminum og það kæmi mér ekki á óvart ef knattspyrnukona hlyti titilinn í bráð.”

Morgunblaðið 28. janúar 2007

Samtök íþróttafréttamanna aðili að ráðstefnunni PLAY THE GAME

Febrúar 2007

Ráðstefnan PLAY THE GAME verður haldin á Íslandi dagana 28. október til 1. nóvember nk. Þetta er í fimmta sinn sem hún er haldin en sú fyrsta fór fram 1997. Þetta er hins vegar í fyrsta skipti sem hún er haldin utan Danmerkur. Búist er við um 300 íþróttafréttamönnum og háskólafólki sem sérhæfir sig í íþróttarannsóknum, til Íslands, alls staðar úr heiminum.

Fyrsta PLAY THE GAME ráðstefnan var haldin að tilstuðlan dönsku ungmennafélagssamtakanna, DBI, en er nú sjálfstæð eining undir forsvari Danans Jens Sejer Andersen og er eina óháða ráðstefnan um íþróttir í heiminum. Á ráðstefnunni verða hvorki fleiri né færri en 40 fyrirlesarar um ýmislegt sem snýr að íþróttum en rauði þráðurinn í ráðstefnununum fram að þessu hefur verið að taka fyrir og kryfja ýmis áhugaverð mál í heimi íþróttanna vegar um heiminn, varpa ljósi á pólitísku hliðina á íþróttum sem er oft á tíðum með ólíkindum, skoða lyfjamál, spillingamál auk þess sem ýmsir þekktir einstaklingar úr heimi íþróttanna halda fyrirlestra. Þar má nefna hlaupakonuna Kelli Wihte sem féll á lyfjaprófi á sínum tíma en hún hélt afar áhugaverðan fyrirlestur á ráðstefnunni fyrir tveimur árum.

Í tilefni 100 ára afmælis UMFÍ var ákveðið að ráðstefnan færi fram á Íslandi en UMFÍ leggur mikla vinnu og fjármagn í að gera hana sem glæsilegasta. Formaður UMFÍ, Björn Jónsson, segir að þessi ráðstefna samrýmist vel markmiðum UMFÍ um að íþróttir séu heilbrigður vettvangur, án spillingar og þar ríki tjáningafrelsi.

Þar sem uppistaða gestanna á ráðstefnunni eru íþróttafréttamenn ákvað UMFÍ að bjóða Samtökum íþróttafréttamanna að gerast aðili að ráðstefnunni að þessi sinni. Stjórn SÍ þáði boðið enda sérlega áhugavert verkefni auk þess sem það er SÍ algjörlega að kostnaðarlausu. Formaður SÍ, Þorsteinn Gunnarsson, fékk það verkefni að taka sæti í dagskrárnefnd ráðstefnunnar þar sem ákveðið verður hvaða málefni verða til umfjöllunar. Í dagskrárnefndinni eru íþróttafréttamenn og fræðingar á sviði íþrótta frá Norðurlöndunum, Þýskalandi og Englandi. Nefndin fundaði í Kaupmannahöfn 2. febrúar síðastliðinn og er stefnt að því að þetta verði glæsilegasta ráðstefnan fram að þessu. Að sögn Jens Sejer Andersen, forsvarsmanns PLAY THE GAME, hefur hann fengið gríðarlega jákvæð viðbrögð við því að ráðstefnan fari fram á Íslandi. Vettvangur hennar verður Grandhótel og að sjálfsögðu eru félagar í Samtökum íþróttafréttamanna hvattir til þess að mæta. Þarna verða eflaust nóg af fréttapunktum.

Nánari upplýsingar eru á www.playthegame.org – en þar er einnig að finna margar mjög áhugaverðar fréttir úr heimi íþróttanna um t.d. spillingamál, lyfjahneyksli og íþróttapólitík.

Mynd: Hinn kunni breski íþróttafréttamaður, Andrew Jennings, flutti fyrirlestur á ráðstefnunni fyrir tveimur árum.

AIPS auglýsir styrki

Febrúar 2007

Alþjóðasamband íþróttafréttamanna (AIPS) auglýsir styrkveitingar fyrir íþróttafréttamenn sem hafa áhuga á því að afla sér reynslu og menntunar. Annars vegar er um að ræða styrki til að fara á heimsmeistaramótið í borðtennis í Zagreb í maí og hins vegar styrk fyrir íþróttafréttamann sem kemur ekki frá ensku mælandi landi.

Æsispennandi keilukeppni

Febrúar 2007

Föstudagskvöldið 26. janúar, strax að leik Dortmund og Bayern München loknum, fór fram fjölmiðalmót í keilu á nýrri og fullkominni keilubraut í kjallara Ringhotel Drees í Dortmund. Þrjár sveitir mættu til leiks en þær voru frá Fréttablaðinu, Stöð 2 og Morgunblaðinu. Var hver sveit skipuð tveimur mönnum og var keppnisfyrirkomulag einfalt og vann sú sveit umferðina sem felldi flestar keilur í hverri umferð. Skemmst er frá því að segja að sveit Morgunblaðsins vann, hafði betur í 11 umferðum.

Stöð 2 varð í öðru sæti með 9 vinninga en sveit Fréttablaðsins rak lestina með 6 vinninga. Sveit Morgunblaðsins sem skipuð var þeim Ívari Benediktssyni og Víði Sigurðssyni gerði svo gott sem út um leikinn í fyrri umferð með því að krækja þá í níu vinninga þegar þeir fóru hamförum og náðu hverri fellunni á fætur annarri eftir að hafa farið rólega af stað.

Sveit Stöðvar 2 sem skipuð var keilulandsliðsmanninum Birni Sigurðssyni og Arnari Björnssyni sótt mjög í sig verðið í seinni hlutanum en tókst ekki vinna upp í síðari hlutanum þann mikla mun sem Morgunblaðið hafði náð í fyrri hlutanum. Þrátt fyrir stífar æfingar daga á undan þá tókst Pjetri Sigurðssyni og Henry Birgi Gunnarssyni frá Fréttablaðinu ekki að sýna sínar bestu hliðar í keppninni sem olli a.m.k. öðru keppandandum miklu hugarangri um stund.

Allt var þetta til gamans gert og tókst keppnin með mikum ágætum auk þess sem hún var kærkomin til þess að brjóta upp langa vinnudaga manna á meðan á heimsmeistaramótinu í handknattleik stóð.

Óásættanleg vinnubrögð

Febrúar 2007

Nýlokið er glæsilegu heimsmeistaramóti í handbolta í Þýskalandi. Íslenskir fjölmiðlar hafa líklega aldrei fjallað með eins miklum glæsibrag um mótið en allir stærstu fjölmiðlar landsins sendu íþróttafréttamenn á mótið. Hins vegar reyndist þrautin þyngri fyrir íþróttafréttamenn af dagblöðunum að komast á sjálfan úrslitaleikinn í Köln því þrátt fyrir að hafa passa á alla leiki var t.d. íþróttafréttamönnum Morgunblaðsins meinaður aðgangur að leiknum.

Þeir fengu að fara í miðstöð fréttamanna en fengu ekki að sjá leikinn sjálfan. Þetta eru auðvitað algörlega óásættanleg vinnubrögð og hefur formaður SÍ, sent bréf til AIPS þar sem þess er óskað að samtökin mótmæli þessum gjörningi þýskra. Bréfið má sjá hér.

Reykjavik, Iceland, February 6, 2007

AIPS
Mr. president Gianni Merlo

The Union of Iceland Sports journalists wants the AIPS to send an offical letter to the German organizers of the Handball Wold Championships, the International handball Federation, the European Handball Federation and the German Handball Federation, to protest the unsatisfacatory media accreditation for the Icelandic sport writers during the World cup final in Kologne.

The reporters of Morgunbladid did not get accreditation to the final match although they had all the right papers (all venus) for allt the tournament. After trying to speak to officials in Kologne the icelandic journalists got perimission to go to the press center but could not see the final!

This is the first time Icelandic journalists, who are members of the AIPS, experience this during Handball World Championship. It has always been in the best interest for the handball sport to get as good coverege all over the world as possible. But the Media accreditations during the World Cup final this time where unsatisfactory, it was a Media Disaster. The organisers of the 2007 Handball World Champions and the handball world need to know that.
This letter is also sent to AIPS for publication.

On behalf of the executive board of the Union of Iceland Sports journalists:
Thorsteinn Gunnarsson, President

Spennandi námskeið í Grikklandi í lok maí

Febrúar 2007

Evrópusamtök íþróttafréttamanna, UEPS, auglýsa fyrsta sumarskólann sem haldinn er á vegum samtakanna. Um er að ræða viku námskeið, frá 24. til 31. maí í Olympíu í Grikklandi, í beinu framhaldi af úrslitaleik Meistaradeildar Evróu sem fram fer í Aþenu 23. maí. Námskeiðið er fyrir íþróttafréttamenn 45 ára og yngri en eldri eru einnig velkomnir.

Kostnaðurinn, fyrir utan flug, er aðeins 300 Evrur. Innifalið er námskeið í ensku, fyrirlestrar, skoðunarferðir og ýmislegt fleira.

Hvert aðildarland UEPS hefur rétt að lágmarki tveimur sætum á þessu námskeiði.

Áhugasamir sæki sjálfir um hjá UEPS en allar nánari upplýsingar og skráning er að finna á heimasíðu samtakanna: www.ueps-media.com

Aðalfundur SÍ miðvikudaginn 21. febrúar

Febrúar 2007

Aðalfundur Samtaka íþróttafréttamanna fyrir árið 2006 verður haldinn miðvikudaginn 21. febrúar nk. kl. 15 (klukkan þrjú), í fundarsal UMFÍ í Hekluhúsinu við Laugarveg (UMFÍ flutti um set á dögunum).

Dagskrá: Venjuleg aðalfundarstörf, samkvæmt lögum félagsins:

I. Inntaka nýrra félaga
II. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
III. Skýrsla stjórnar og reikningar lagðir fram.
IV. Lagabreytingar.
V. Stjórnarkosning.
VI. Árgjald félagsmanna.
VII. Önnur mál.
VIII. Fundargerð lesin upp, fundarslit.

Athygli er vakin á því að tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist félögum SÍ tveimur dögum fyrir aðalfund, samkvæmt lögum félagsins.

Henry Birgir tilnefndur til Blaðamannaverðlauna

Febrúar 2007

Dómnefnd Blaðamannaverðlauna Íslands fyrir árið 2006, hefur tilnefnt Henry Birgi Gunnarsson, íþróttafréttamann á Fréttablaðinu, til Blaðamannaverðlauna í flokknum Rannsóknarblaðamennska. Henry Birgir er tilefndur fyrir fréttaskrif og eftirfylgd þar sem upplýst er um mikinn mun á launum og kjörum karla og kvenna í A-landsliðum Íslands í knattspyrnu.

Þetta er í fyrsta skipti sem íþróttafréttamaður er tilnefndur til Blaðamannaverðlauna. Við óskum Henry Birgi innilega til hamingju tilnefninguna.

Annað spennandi námskeið í Grikklandi

Febrúar 2007

Alþjóða Ólympíuhreyfingin (IOA) hefur sent ÍSÍ boð um að bjóða einum íslenskum íþróttafréttamanni á ráðstefnu í Olympiu í Grikklandi 7. til 12. maí nk. Ólympíuhreyfingin býður alls 40 íþróttafréttamönnum (frá 40 löndum) og stendur Íslandi til boða að senda einn fulltrúa. Aðal umfjöllunarefni ráðstefnunnar eru Ólympíuandinn og siðferðisrammi íþróttafréttamanna.

Þátttakendur mega ekki vera eldri en 45 ára og rennur umsóknarfrestur út 15. mars nk. og þarf að senda með bréf um vangaveltur viðkomandi um viðfangsefni ráðstefnunnar. Uppihald er allt í boði Alþjóða Ólympíuhreyfingarinnar sem og flutningar frá Aþenu til Olympia. SÍ munu reyna að koma eitthvað til móts við þátttakendur, í samvinnu við ÍSÍ, um að greiða flugið. Áhugasamir hafi samband við formann SÍ sem fyrst. Hér má sjá bréfið frá IOA.

Aðalfundur SÍ fyrir árið 2006

Febrúar 2007

Aðalfundur SÍ fyrir árið 2006 var haldinn 21. febrúar. Góð mæting var á fundinn en alls mættu 16 af 24 skráðum félögum. Nýjasti meðlimurinn er Benedikt Bóas Hinriksson á DV en félagar í SÍ hafa aldrei verið fleiri.

Þorsteinn Gunnarsson, formaður SÍ, flutti skýrslu stjórnar og fór yfir síðasta ár sem var ansi viðburðarríkt. 50 ára afmæli SÍ var haldið með pompi og pragt, ný heimasíða samtakanna var stofnuð, kjör á íþróttamanni ársins fór fram með glæsibrag, undirbúningur er hafinn að útgáfu bókar um sögu kjörs íþróttamanns ársins, verðlaunagripurinn sem fylgt hefur kjöri íþróttamanns ársins frá upphafi var afhentur Þjóðminjasafninu, svo eitthvað sé nefnt.

Jón Kristján Sigurðsson gjaldkeri lagði fram ársreikninga. Hagnaður síðasta árs var um 330 þúsund krónur en rekstrartekjur voru um 920 þúsund.

Þrjár breytingartillögur um reglugerð á íþróttamanni ársins lágu fyrir fundinum og varð töluverð umræða um þær allar. Felld var tillaga um að afnema leynilegt kjör á íþróttamanni ársins. Tillaga um að aðeins íþróttamenn sem iðka íþróttagreinar innan ÍSÍ komi til greina í kjöri íþróttamanns ársins var samþykkt og einnig var samþykkt tillaga um hvernig skuli staðið að kjörinu verði tveir eða fleiri íþróttamenn jafnir í efsta sæti að lokinni atkvæðagreiðslu. Hægt er að sjá reglugerðina um kjörið á heimasíðunni.

Stjórn SÍ var endurkjörin. Þorsteinn Gunnarsson verður áfram formaður, Jón Kristján Sigurðsson gjaldkeri og Guðmundur Hilmarsson ritari.

Undir liðnum önnur mál bar ýmislegt á góma. Meðal annars greindi formaður nánar frá ýmsum ráðstefnum sem félagsmönnum standa til boða þessa dagana sem og frá ráðstefnunni Play the Game en SÍ eru þátttakendur í henni.

Nýtt íþróttablað

Febrúar 2007

Þriðjudaginn 26. febrúar sl. fylgdi 20 síðna íþróttablað með Fréttablaðinu. Þar er augljóslega ætlunin að fjalla um íþróttir og íþróttafólk á annan hátt en á hefðbundnum íþróttasíðum dagblaðanna en forsíðuna prýðir sunddrottningin Ragnheiður Ragnarsdóttir.

Íþróttablaðið kemur út einu sinni í mánuði en ritstjóri en Óskar Hrafn Þorvaldsson, fyrrverandi íþróttafréttamaður á DV, Fréttablaðinu og síðar ristjóri DV.

Klúður mótshaldara á HM í sundi

Mars 2007

AIPS, Alþjóðasamtök íþróttafréttamanna, hafa mótmælt vinnubrögðum mótshaldara í Ástralíu en HM í sundi fer fram í Melbourne í þessum mánuði. Mótshaldarar ætla sér að græða á íþróttafréttamönnum með því að rukka þá um 770 dollara fyrir fulla þjónustu í fréttamannamiðstöð mótsins, þ.e. sæti, borð og aðgang að interneti. Þess má geta að stærsta farsímafyrirtæki Ástralíu, Telstra, er einn helsti styrktaraðili mótsins en engu að síður ætla mótshaldarar að fara þessa nýju leið sem hefur farið mjög fyrir brjóstið á íþróttafréttamönnum um allan heim.

Mótshaldarar segja að takmarkað pláss fyrir íþróttafréttamenn knýji þá í þessar aðgerðir til þess að hugsanlega fækka þeim íþróttafréttamönnum sem koma til Ástralíu á mótið. Óvíst er hvaða afleiðingar þetta hefur í för með sér.

Elvar Geir á DV

Mars 2007

DV hefur fengið liðsauka því Elvar Geir Magnússon hefur tekið til starfa sem íþróttafréttamaður. Elvar Geir hefur starfað á Fréttablaðinu undanfarin misseri samhliða námi. Þar með eru þrír starfandi íþróttafréttamenn hjá DV en sem kunnugt er var það gert að dagblaði á ný í lok febrúar. Þess má geta að Elvar Geir bloggar á http://elvargeir.blog.is/blog/elvargeir

Gamli verðlaunagripurinn til sýnis á Þjóðminjasafninu

Mars 2007

Gamli verðlaunagripurinn sem fylgdi kjöri íþróttamanns ársins fyrstu 50 árin er nú til sýnis í anddyri Þjóðminjasafnsins en safnið fékk hann að gjöf frá Samtökum íþróttafréttamanna þann 1. desember sl.

Verðlaunagripurinn vekur mikla athygli enda geymir hann einstaka sögu íþróttaafreka í hálfa öld og að sögn starfsfólks safnsins byrja allir safngestir á því að gefa sér góðan tíma í að skoða gripinn áður en farið er inn á safnið. Á myndinni má sjá tvær ungar stúlkur, Valgerði Maríu og Guðnýju Evu, skoða verðlaunagripinn á dögunum. Eins og sjá má er búið að smíða sérstakan skáp utan um verðlaunagripinn sem er alltaf jafn glæsilegur á að horfa.

Valtýr Björn til Grikklands

Mars 2007

Valtýr Björn Valtýsson íþróttafréttmaður fer á ráðstefnu í Olympiu í Grikklandi 7. til 12. maí nk. í boði Alþjóða Ólympíuhreyfingarinnar. Ólympíuhreyfingin býður alls 40 íþróttafréttamönnum (frá 40 löndum) og stendur Íslandi til boða að senda einn fulltrúa eins og greint var frá á heimasíðunni á sínum tíma. Aðal umfjöllunarefni ráðstefnunnar eru Ólympíuandinn og siðferðisrammi íþróttafréttamanna og var Valtýr Björn sá eini sem sótti um að fara. ÍSÍ styrkir hann til fararinnar sem eflaust verður mikið ævintýri fyrir kappann.

Breytingar hjá RÚV

Mars 2007

Í kjölfar þess að Ríkisútvarpinu var breytt í opinbert hlutafélag á dögunum var staða yfirmanns íþróttadeildar, sem Samúel Örn Erlingsson hefur gegnt undanfarin ár, lögð niður.

Jafnframt var íþróttadeildin færð undir dagskrárdeild RÚV ohf. en nýr yfirmaður hennar er Þórhallur Gunnarssson sem hefur verið ritstjóri Kastljóssins.

Þórhallur er því í raun nýr yfirmaður íþróttadeildar RÚV ohf. Óvíst er hvað tekur við hjá Samúel Erni en sem kunnugt er hreppti hann annað sætið á lista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar og það er aldrei að vita nema að hann komist á þing!

Fréttamannastyrkir Norðurlandaráðs 2007

Mars 2007

Norðurlandaráð veitir fréttamönnum á Norðurlöndum árlega styrki til að fjalla um norræn málefni og árið 2007 kemur í Íslands hlut fjárhæð að upphæð 90.000 danskar krónur. Rétt er að vekja athygli á því að þessir styrkir eru einnig fyrir íþróttafréttamann. Styrkjunum er ætlað að auka áhuga fréttamanna á norrænum málefnum og norrænu samstarfi og gera þeim m.a. kleift að fjármagna ferðalög tengd greinaskrifum eða umfjöllun.

Styrkir eru veittir einum eða fleiri (íþrótta)fréttamönnum dagblaðs, tímarits, útvarps eða sjónvarps. Sjálfstætt starfandi fréttamönnum er einnig heimilt að sækja um styrk.

Styrkjum er úthlutað á grundvelli greinargerða í umsókn. Við styrkveitinguna er m.a. haft til hliðsjónar hvort umsækjandi hafi áður fjallað um norræn málefni. Þrjú ár þurfa að líða milli þess sem einstaklingur getur hlotið þennan styrk.

Í umsóknum skal tilgreina hvern umsækjandi hyggst nota styrkinn. Einnig skal gerð grein fyrir drögum að ferðaáætlun og kostnaðaráætlun.
Styrk ber að nýta innan árs frá úthlutun. Styrkþega ber að senda Íslandsdeild Norðurlandaráðs stutta skýrslu um notkun styrksins og það efni sem unnið hefur verið.

Frekari upplýsingar um fréttamannastyrki Norðurlandaráðs má finna á www.norden.org.

Íþróttafréttir og pólitík

Mars 2007

Pétur Gunnarsson er einn af mörgum bloggurum. Hann veltir þeirri spurningu upp í bloggi sínu hvernig það sé eiginlega með íþróttafréttamenn og pólitík. “Ég er nokkuð viss um að aldrei hafa jafnmargir núverandi og fyrrverandi íþróttafréttamenn verið í framboði til Alþingis og nú. Tveir þeirra eru leiðtogar sinna flokka,” segir Pétur m.a. Slóðin á bloggið hans er: http://hux.blog.is/blog/hux/#entry-154800.

Aðgangur að HM í frjálsum íþróttum

Mars 2007

Heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum fer fram í Osaka í Japan 25. ágúst til 2. september nk. Samkvæmt upplýsingum frá mótshöldurum fá íslenskir fjölmiðlar pláss fyrir einn skrifandi íþróttafréttamann en engan ljósmyndara. Umsóknarfrestur rennur út 20. apríl nk. og sendist á wpph@osaka2007.or.jp. Ef fleiri en einn fjölmiðill hefur áhuga að fara verður reynt að bregðast við því. Bréfið frá mótshöldurum má sjá hér.

Norðurlandaþing í maí

Apríl 2007

Norðurlandaþing íþróttafréttamanna verður haldið í fyrstu helgina í maí en það fer fram í Ronneby í Svíþjóð. Að vanda verður fundað um málefni samtakanna en meðal gesta á þinginu verða formaður og framkvæmdastjóri sænska knattspyrnusambandsins, formaður sænska íþróttasambandsins, formaður sænsku Ólympíunefndarinnar og fleiri. Einnig verður farið á sænskar hestaveðreiðar, svo eitthvað sé nefnt. Alls fara 4-5 félagsmenn á þingið og áhugasamir geta haft samband við formann.

Samúel Örn áfram hjá RÚV

Apríl 2007

Breytingarnar á íþróttadeild RÚV sem urðu í kjölfar þess að stofnunni var breytt í opinbert hlutafélag (sjá neðan) urðu ekki eins miklar og haldið var í fyrstu. Samúel Örn Erlingsson verður áfram yfirmaður íþróttadeildarinnar en hún mun engu að síður færast undir dagskrárdeild. Landsmenn munu því njóta góðs af því að reynsluboltinn og fagmaðurinn Samúel Örn muni áfram stýra íþróttadeildinni af sama myndarskap og hann hefur gert.

Adolf Ingi gestur í sumarskóla UEPS

Apríl 2007

Adolf Ingi Erlingsson, fyrrverandi formaður SÍ, verður gestur í Sumarskóla Evrópusamtaka íþróttafréttamanna (UEPS). Sumarskólinn verður í Olympíu í Grikklandi síðustu vikuna í maí. Þar sem formaður SÍ, Þorsteinn Gunnarsson, átti ekki heimangengt, buðu Evrópusamtökum Adolfi Inga að koma. Hann mun halda fyrirlestur í Sumarskólanum og verður væntanlega ekki í nokkrum vandræðum með að koma fyrir sig orði!

Undirbúningur bókarinnar gengur samkvæmt áætlun

Apríl 2007

Eins og greint var frá í 50 ára afmælisfagnaði SÍ í haust stendur til að gefa út bók næsta haust um 50 ára sögu kjörsins á íþróttamanni ársins. Hallgrímur Indriðason, fréttamaður á RÚV og fyrrverandi íþróttafréttamaður og félagsmaður SÍ, er langt kominn með að skrifa bókina, sem gefin verður út í samvinnu við Eddu-útgáfu. Sigurður Svavarsson kemur að útgáfunni fyrir hönd Eddu-útgáfu en Þorsteinn Gunnarsson fyrir hönd SÍ. Hallgrímur er langt kominn með að skrifa handrit að útgáfunni. Óskar Ófeigur, íþróttafréttamaður á Fréttablaðinu, mun sjá um umbrot. Ágætlega gengur að fjármagna útgáfuna og er sú vinna á lokasprettinum.

Gátlisti til liðanna í Landsbankadeildunum

Maí 2007

Samtök íþróttafréttamanna hafa sent liðunum í Landsbankadeildum karla og kvenna GÁTLISTA sem þau geta stuðst við til þess að bæta aðstöðu fjölmiðlafólks á leikjum í sumar. Gátlistinn hefur fengið góðar móttökur hjá félögunum. Samtök íþróttafréttamanna ætla svo að verðlauna þau félög sem standa sig best í að bæta aðstöðu íþróttafréttamanna í sumar.
Gátlistann má sjá hér.

GÁTLISTI VEGNA FJÖLMIÐLA

FYRIR LEIK:

Fjölmiðlafulltrúi heimaliðs sé aðgengilegur fyrir fjölmiðlamenn og til að fylgja eftir þessum gátlista.

Meðlimir í Samtökum íþróttafréttamanna hafi forgang að sætum í fjölmiðlaaðstöðu. Meðfylgjandi er listi yfir félaga í SÍ + sumarafleysingafólk

Þráðlaus nettenging sé í lagi.

Leikskýrslur séu komnar tímanlega, í síðasta lagi hálftíma fyrir leik.

Kaffi og meðlæti.

Gluggar séu hreinir.

Aðstaða fyrir myndatökumenn sjónvarpsstöðvanna og þá sem lýsa í útvarpi sé fyrir hendi. Kaffi, meðlæti og leikskýrslur á sínum stað.

MEÐAN Á LEIK STENDUR:

Áhorfendatölur séu gefnar upp fyrir leikslok.

Fjölmiðlafulltrúi heimaliðsins sé aðgengilegur til að fylgja þessum gátlista eftir.

EFTIR LEIK:
Þjálfarar og fyrirliðar séu alltaf aðgengilegir strax eftir leik í viðtöl og íþróttafréttamann í Samtökum íþróttafréttamanna hafi forgang. Sé óskað eftir fleiri leikmönnum í viðtöl strax eftir leik aðstoði fjölmiðlafulltrúi við það.

Í leikjum í beinni útsendingu í sjónvarpi hafi sjónvarpsstöðin með sýningaréttinn forgang að leikmönnum/þjálfurum.

Danska sjónvarpið hættir með íþróttadeild

Maí 2007

Forráðamenn danska ríkisútvarpsins hyggjast leggja niður íþróttadeild sjónvarpsins í sparnaðarskyni, alla vega í þeirri mynd sem hún er nú segir fréttavefur Berlingske Tidende. Þremur yfirmönnum íþróttadeildarinnar hafa verið boðin störf annarsstaðar hjá útvarpinu.

Sýningarréttur sem ríkisútvarpið á vegna heimsmeistaramótsins í knattspyrnu og Ólympíuleikanna verður seldur og þáttagerð lögð af, en íþróttafréttir verða áfram sagðar í almennum fréttatímum.

BT segir tillögurnar verða teknar fyrir á stjórnarfundi Danmarks Radio á morgun. Ástæðan fyrir þessari ákvörðun er sögð sú að DR verði að skera rekstrarkostnað verulega niður vegna gríðarlegs kostnaðar við byggingu nýrra höfuðstöðva fyrirtækisins.
Danska íþróttasambandið harmaði í dag fyrirhugaðar aðgerðir og segir að þær muni bitna mjög á minni íþróttagreinum.

Vel heppnað Norðurlandaþing í Svíþjóð – Næsta þing í Eistlandi

Maí 2007

Norðurlandaþing íþróttafréttamanna fór fram í Ronneby í Svíþjóð 3. til 6. maí síðastliðinn.Þingið tókst í alla staði mjög vel og var Svíum til sóma. Ýmisleg fróðleg erindi voru haldin og svo farið á veðreiðar og ýmislegt fleira. Stjórn samtaka SÍ fór á þingið, þ.e. Þorsteinn, Guðmundur og Jón Kristján en Hrafnkell forfallaðist á síðustu stundu af óviðráðanlegum orsökum.

Ákveðið var að næsta þing fari fram í Eistlandi eftir tvö ár en Eistar hafa verið þátttakendur á Norðurlandaþinginu síðan 1997.

Ítarlega frásögn um Norðurlandaþingið í Svíþjóð má finna hér.

Misbrestur í aðstöðu fjölmiðlamanna

Maí 2007

Samtök íþróttafréttamanna sendu út GÁTLISTA til félaganna í Landsbankadeild karla áður en Íslandsmótið hófst til þess að auðvelda þeim að skapa íþróttafréttamönnum viðunandi vinnuaðstöðu.

Eftir fyrstu umferðina verður að segjast eins og er að því miður féllu of mörg félög á prófinu á sama tíma og önnur félög voru til mikillar fyrirmyndar og eru strax komin á blað þegar við munum verðlauna fyrir bestu aðstöðuna. Helst vantaði að blaðafulltrúar gæfu sig fram, misbrestur var á leikskýrslum, kaffi og meðlæti var á sumum völlum ekki sjáanlegt osfrv. osfrv.

Versta aðstaðan var á sjálfum Laugardalsvellinum á viðureign Vals og Fram. Þar voru íþróttafréttamenn látnir sitja úti í kuldanum, þeir fengu hvorki vott né þurrt og leikskýrslur fuku út um allt. Sem betur fer rigndi ekki. Eftir kvartanir var íþróttafréttamönnum hleypt inn í samkomusal eftir u.þ.b. 20 mín. með glæsilegt útsýni yfir völlinn. Það eru tilmæli til KSÍ, Vals og Fram að þar verði okkur boðin aðstaða í framtíðinni á leikjum í Landsbankadeild, það er vanvirðing við okkur að bjóða okkur upp á að sitja úti þegar allra veðra er von.

Meðfylgjandi er GÁTLISTINN sem við sendum út á dögunum, hann á að auðvelda félögunum að standa sig í stykkinu. Góð ábending barst með leikskýrslu, að hafa hana Á EINU BLAÐI en ekki tveimur, eins og KR-ingar o.fl. hafa löngum gert.

Bréf þetta var sent til forráðamanna félaganna í Landsbankadeildinni og KSÍ.

Viðburðarríkt þing hjá AIPS í Bregenz í Austurríki
Maí 2007

AIPS, Alþjóðasamtök íþróttafréttamanna, héltu sitt árlega þing að þessu sinni í Bregenz í Austurríki en á næsta ári fer fram EM í knattspyrnu í Austurríki og Sviss. Formaður, SÍ, Þorsteinn Gunnarsson, sótti þingið. Til Bregenz komu fulltrúar frá 107 löndum en þetta var afmælisþing, það sjötugasta í röðinni og því var það veglegra en oft áður og aðsóknin aldrei verið betri.

Ýmis hagsmunamál íþróttafréttamanna um allan heim báru á góma að vanda en segja má að þingið hafi verið nokkuð sögulegt að þessu sinni. Framkvæmdastjóri AIPS, ákvað að segja af sér fyrir þingið til þess að axla ábyrgð á fjármálaóreiðu innan AIPS á valdatíð fyrrverandi forseta. Á þinginu sjálfu dró hann uppsögnina til baka og þá varð uppi fótur og fit og framkvæmdastjórnin hótað að segja af sér í heilu lagi. Það fór svo að framkvæmdastjórinn sagði upp störfum öðru sinni.

Álfurnar funda einnig á þinginu. UEPS (Evrópusamtök íþróttafréttamanna) héldu einnig sinn aðalfund. UEPS stendur fyrir sumarskóla og gaf út veglegt afmælisrit í tilefni af 30 ára afmæli sambandsins í ár (þar sem Ísland á m.a. grein). UEPS vantar hins vegar löggilt aðsetur til þess að geta skráð sig. Belgar, sem eru að opna nýja skrifstofu fyrir eigin samtök í Brüssel, buðu óvænt UEPS að vera með aðsetur í sýnum nýjum höfuðstöðvum. Tillagan hafði ekki borist þingfulltrúm þremur mánuðu fyrir þing eins og reglugerðir kveða á um og því urðu miklar deilur um hana.

Að lokum þvingaði stjórnin tillöguna í atkvæðagreiðslu og þá gengu fulltrúar Danmerkur og Noregs út. Tillagan var að lokum samþykkt, aðallega með atkvæðum austurblokkarinnar og aðsetur UEPS verður því í Brüssel. Að öðru leyti var AIPS þingið til fyrirmyndar og gestgjöfum þess, Austurríki, til sóma. Forseti AIPS; Ítalinn Gianno Merlo, bað fyrir um kveðjur til Íslands.

Samúel Örn hættir hjá RÚV 1. júlí

Júní 2007

Samúel Örn Erlingsson, yfirmaður íþróttadeildar RÚV, hefur ákveðið að láta af störfum frá og með 1. júlí nk. eftir 25 ára starf hjá stofnuninni. Hann segir í viðtali við Blaðið að RÚV standi á tímamótum og hann einnig og því tilvalinn tími til að staldra við og velta fyrir sér hlutunum.

Ekki er ljóst hvað Samúel Örn tekur sér fyrir hendur en hann reiknar jafnvel með því að setjast á skólabekk. Hann fer yfir víðan völl í viðtalinu og rifjar upp eftirminnileg atvik úr starfi sínu sem íþróttafréttamaður.

Samtök íþróttafréttamanna senda Samúel Erni baráttu- og saknarkveðjur á þessum tímamótum. Samúel Örn var í tvígang formaður SÍ, fyrst 1984-1987 og aftur 1988-1992. Hann bar ávallt hag samtakanna fyrir brjósti og á t.d. stóran þátt í því hversu kjör íþróttamanns ársins tók miklum stakkaskiptum þegar það var fært inn í sjónvarpssal. Þá var hann áberandi forystumaður samtakanna bæði á Norðurlandaþingum og AIPS-þingum.

Liðsauki á Sýn

Júní 2007

Íþróttafréttamönnum á Sýn hefur fjölgað um tvo enda fjölgar þar verkefnum með tilkomu enska boltans í ágúst. Nýjasti liðsmaður íþróttadeildar Sýnar er Guðmundur Benediktsson sem áður var lýsandi og pródúsent á Skjásporti en hann er enn sjálfur á fullu í boltanum með Val. Hann hefur verið ráðinn í fullt starf á Sýn.

Þá hefur Hans Steinar Bjarnason verið í afleysingum frá síðustu áramótum en verður áfram í fullu starfi. Þar með eru sex íþróttafréttamenn á Sýn (og Stöð 2) í fullu starfi.

Ævintýraferð Valtýs Björns til Olympíu

Júní 2007

Valtýr Björn Valtýsson íþróttafréttmaður fór á ráðstefnu í Olympiu í Grikklandi7. til 12. maí sl. í boði Alþjóða Ólympíuhreyfingarinnar. Ólympíuhreyfingin bauð alls 40 íþróttafréttamönnum (frá 40 löndum) og stóð Íslandi til boða að senda einn fulltrúa eins og greint var frá á heimasíðunni á sínum tíma. Aðal umfjöllunarefni ráðstefnunnar var Ólympíuandinn og siðferðisrammi íþróttafréttamanna og var Valtýr Björn sá eini sem sótti um að fara. ÍSÍ styrkti hann til fararinnar.

Að beiðni heimasíðunnar skrifaði Valtýr Björn smá pistil um ævintýraferð sína til Olympiu og má lesa hann hér.

Eitt það merkilegasta sem íþróttafréttamaður getur upplifað í sögulegu samhengi er sennilega að fara til hinnar merku borgar Olympiu í Grikklandi og berja þar augm uppruna íþrótta í þessum heimi okkar. Slíkt gerði undirritaður dagana 7.-11.maí síðastliðinn. Þar var svokallað Seminar íþróttafréttamanna og var þetta í 11. sinn sem slíkt er haldið.

Þarna voru samankomnir íþróttafréttamenn allsstaðar að úr heiminum og litla Ísland átti sinn fulltrúa. Þarna voru kollegar frá Domeníska lýðveldinu, Rússlandi, Eistlandi, Noregi, Bandaríkjunum, Japan og fleiri löndum. Menn hittust í Aþenu og síðan var haldið í rútu til Olympiu og tók það ferðalag um 5 klukkustundir. Hitinn var bærilegur eða um 25 gráður en mikið óskaplega var maður feginn því að komast burt úr hinni menguðu borg Aþenu. Hinn íslenski hreini og tæri háls var alveg að gefast upp eftir einn sólarhring í Aþenu.

Olympia er stórmerkur lítill bær. Þarna búa rétt um 12.000 manns og er byggðin töluvert dreyfð. Það mætti halda að þarna væru um 3-4.000 íbúar en ekki 12.000. Þarna er ein gata þar sem allt gerist. Verslanir, matsölustaðir, heilir 4 bankar, ráðhúsið og fleira til. Enginn var þó fótboltavöllurinn þarna nema í aðstöðu alþjóða olympíunefndarinnar. Þar eru menn búnir að koma sér upp mjög góðri aðstöðu þar sem hægt er að halda ráðstefnur, nú eða fara í sund og tennis svo eitthvað sé nefnt.

Þriðjudaginn 8. maí var ráðstefnan sett og forseti alþjóða olympíu akademíunnar, hr.Minos X. Kyriakou frá Grikklandi opnaði ráðstefnuna. Þar á eftir var hlýtt á olympíu óðinn og síðan komu tveir menn með merkilega umræðu um gildi sögunnar í íþróttaumfjöllun fjölmiðla og spunnust miklar og góðar samræður um það málefni. Okkur var skipt upp í hópa og það verður að segjast eins og það er að við vorum misvel að okkur í sögunni.

Á miðvikudeginum var vaknað snemma og haldið á söguslóðir, nefnilega uppruna íþrótta. Þar var bæði fræðsla innandyra sem og utandyra. Það var ólýsanleg upplifun að fara þarna og berja öll þessi fornu íþróttamannvirki augum, styttuna af Zeus sem var uppi 470-457 fyrir Krist en styttan af honum var í fullri stærð um 12 metrar á hæð.

Fyrstu olympíuleikarnir voru haldnir 776 fyrir Krist að því er talið er.

Á Olympíuleikum til forna var keppt í 5 greinum. Hlaupum, boxi, glímu og hestaíþróttum.

Boxarar og glimumenn stúderuðu heimspeki og tónlist á milli greina hjá sér. Merkilegt finnst ykkur ekki. Það er vart hægt að ímynda sér nútímamanninn gjöra slíkt.

Aðeins karlmenn voru þátttakendur og konur máttu ekki einu sinni horfa á. Karlmennirnir kepptu nefnilega naktir. Það var keppt fjórða hvert ár á leikunum í Olympíu og í 5 daga í hvert skipti og Hercules var hinn fullkomni íþróttamaður.

Fimmtudagurinn var öllu rólegri þar sem íþróttafréttamönnum var skipt í umræðuhópa þar sem rætt var um það sem á daga okkar hafði drifið en það var siðan haldið til baka til Aþenu á föstudeginum og þar skildu síðan leiðir.

Mér var það sannur heiður að fara til þessa merku borgar og fræðast um uppruna íþrótta í heiminum. Ég vil þakka kærlega fyrir mig og vonandi eiga fleiri íslenskir íþróttafréttamenn eftir að halda í víking og upplifa hið sama og undirritaður.

Með kærri kveðju og takk fyrir mig,
Valtýr Björn Valtýsson

Golfmót SÍ föstudaginn 15. júní á Vatnsleysuströnd

Júní 2007

Stjórn SÍ hefur ákveðið að halda golfmót fyrir félagsmenn og jafnframt íþróttafréttamenn sem starfa í sumarafleysingum, föstudaginn 15. júní kl. 14.00. Mótið átti að halda 1. júní sl. en var frestað vegna veðurs.

Mótið fer fram hjá Golfklúbbi Vatnleysustrandar, völlurinn er 9 holur en gríðarlega skemmtilegur og er aðeins í 10 mínútna akstursfjarlægð frá Hafnarfirði. Glæsileg verðlaun og svo borðum við saman á eftir.

Allir félagsmenn eru hvattir til að mæta, þeir sem eru lítt vanir að höndla golfkylfur mæti endilega líka. Tveir og tveir spila saman og er betri boltinn leikinn.

Hjalti og Dagur unnu fyrsta golfmót SÍ í 20 ár
Júní 2007

Fyrsta golfmótið sem Samtök íþróttafréttamanna hafa staðið fyrir á annan áratug fór fram hjá Golfklúbbi Vatnsleysustrandar.

Rétt um þriðjungur félagsmanna mætti til leiks. Leikið var með Texas scramble fyrirkomulagi og var keppni jöfn og spennandi. Eftir flókna forgjafaútreikninga stóðu Dagur á DV og Hjalti á Fréttablaðinu uppi sem sigurvegarar. Eftir mótið var boðið upp á mat og veitingar í golfskálanum.

Bláa lónið gaf glæsilega vinninga á matsölustað sínum sem er sannarlega fimm stjörnu. Mótið tókst í alla staði mjög vel og verður vonandi árlegur viðburður í framtíðinni. Rétt er að geta hversu vel var mætt frá Fréttablaðinu að þessi sinni en eini fjölmiðillinn sem ekki átti fulltrúa var RÚV!

Þess má geta að Henry Birgir bloggar um þetta mót á http://blogg.visir.is/henry/2007/06/16/mistok-i-talningu/

Þá bloggar Sigurður Elvar um mótið á http://seth.blog.is/blog/seth/

Hrafnkell nýr íþróttastjóri RÚV

Júní 2007

Í kjölfar þess að Samúel Örn Erlingsson hættir sem yfirmaður íþróttadeildar RÚV, hafa fylgt ýmsar skipulagsbreytingar í kjölfarið. Hrafnkell Kristjánsson hefur verið ráðinn nýr yfirmaður íþróttadeildarinnar en hann hefur starfað þar sem íþróttafréttamaður undanfarin ár. Hann mun verkstýra íþróttadeildinni sem heyrir nú undir dagskrársvið þar sem Þórhallur Gunnarsson ræður ríkjum.

Alþjóðlegur dagur íþróttafréttamanna

Júlí 2007

Í dag, 2. júlí, er Alþjóðlegur dagur íþróttafréttamanna en þetta er þrettánda árið í röð sem er haldinn að frumkvæði Alþjóðasamtaka íþróttafréttamanna, AIPS. Stjórn SÍ sendir félagsmönnum sínum baráttukveðjur í tilefni dagsins. Forseti AIPS, Gianno Merlo, skrifar pistil á heimasíðu samtakanna (aipsmedia.com) þar sem hann hvetur íþróttafréttamenn um allan heim til dáða og að standa vörð um sjálfstæði sitt.

Nýr framkvæmdastjóri ÍSÍ

Júlí 2007

Framkvæmdastjórn ÍSÍ samþykkti einróma á fundi sínum 26. júlí að ráða Líneyju Rut Halldórsdóttur sem framkvæmdastjóra ÍSÍ. Líney tekur við starfinu af Stefáni Konráðssyni sem ráðið hefur sig sem framkvæmdastjóra Íslenskrar Getspár.

Líney er fyrsta konan sem gegnir starfi framkvæmdastjóra ÍSÍ, stærstu fjöldahreyfingar á Íslandi.

Líney er valin úr fjölbreyttum hópi mjög frambærilegra umsækjenda en umsækjendur um stöðuna voru rúmlega fimmtíu talsins.

Líney Rut Halldórsdóttir er 46 ára íþróttafræðingur og starfar sem deildarstjóri íþrótta- og æskulýðsdeildar Menntamálaráðuneytisins. Líney hefur starfað sem sviðsstjóri Afrekssviðs ÍSÍ og hefur víðtæka reynslu og þekkingu á starfi íþróttahreyfingarinnar.

Ný íþróttastöð í loftið

Ágúst 2007

Ný íþróttastöð, Sýn2, fór á í loftið laugardaginn 4. september sem eingöngu er helguð enska boltanum og allt sem snýr að honum. Alls verða 380 leikir í ensku úrvalsdeildinni í beinni útsendingu í vetur en einnig verður sýnt beint frá leikjum í ensku B-deildinni. Sýn2 nær til yfir 98% heimila í landinu.

Íþróttafréttamenn Sýnar og Stöðvar 2 hafa í nógu að snúast en leikjunum á Sýn2 verður lýst á íslensku. Á hliðarrásunum verða íslenskir og enskir þulir. Sýn2 verður með ýmsa dagskrárgerð í kringum enska boltann í vetur en sem dæmi verða öll tilþrif dagsins sýnd á Sýn2 um leið og síðasti laugardagsleikurinn er flautaður af.

Þar með reka 365 ljósvakamiðlar tvær sjónvarpsstöðvar þar sem eingöngu er að finna íþróttaefni.

Handritið að bókinni um Íþróttamenn ársins tilbúið

Ágúst 2007

Hallgrímur Indriðason hefur lokið við að skrifa handrit að bók um 50 ára sögu kjörs íþróttamanns ársins sem Samtök íþróttafréttamanna gefa út í samvinnu við Eddu-útgáfu. Sögu Samtaka íþróttafréttamanna eru einnig gerð góð skil í bókinni.

Íþróttamenn ársins og/eða sérfræðingar hafa fengið sína kafla til yfirlestrar og verið er að safna myndum í bókina. Þá hefur herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ritað ávarpsorð. Vantað er til útgáfunnar og hefur Alþjóða Ólympíuhreyfingin veitt vegleganstyrk til hennar ásamt íslenskum fyrirtækjum og sérsamböndum. Reiknað er með að bókin verði tilbúin til prentunar í september.

KSÍ þakkar góða umfjöllun

Ágúst 2007

KSÍ vill koma á framfæri kærum þökkum til fjölmiðla fyrir gott samstarf og frábæra umfjöllun um úrslitakeppni EM U19 landsliða kvenna, sem fram fór hér á landi í júlí. Umfjöllun ykkar átti stóran þátt í vel heppnuðu og skemmtilegu móti.
Með kærri kveðju og þökk fyrir gott samstarf.

Kveðja,
Ómar Smárason, KSÍ

Hjörtur nýr liðsmaður RÚV

Ágúst 2007

Íþróttadeild RÚV hefur fengið góðan liðsauka en Hjörtur Hjartarson hefur þar störf innan skamms sem íþróttafréttamaður. Hjörtur lauk fjölmiðlanámi frá bandarískum háskóla í vor en hann starfaði m.a. með blaðamaður á Skessuhorni. Hjörtur er kunnur markahrókur með ÍA og nú síðast Þrótti en hann er langmarkahæstur í 1. deildinni í sumar.

BLAÐAMANNAFUNDUR– PLAY THE GAME

Ágúst 2007

Forsvarsmenn ráðstefnunnar PLAY THE GAME efna til blaðamannafundar í Hvammi á Grand Hótel þriðjudaginn 4.september kl. 14.00 þar sem ráðstefnan verður kynnt í stórum dráttum.

Ráðstefnan PLAY THE GAME verður haldin á Íslandi dagana 28. október til 1. nóvember nk. Þetta er í fimmta sinn sem hún er haldin en sú fyrsta fór fram 1997. Þetta er hins vegar í fyrsta skipti sem hún er haldin utan Danmerkur. Búist er við um 300 íþróttafréttamönnum og háskólafólki sem sérhæfir sig í íþróttarannsóknum, til Íslands, alls staðar úr heiminum.

Fyrsta PLAY THE GAME ráðstefnan var haldin að tilstuðlan dönsku ungmennafélagssamtakanna, DBI, en er nú sjálfstæð eining undir forsvari Danans Jens Sejer Andersen og er eina óháða ráðstefnan um íþróttir í heiminum. Á ráðstefnunni verða hvorki fleiri né færri en 40 fyrirlesarar um ýmislegt sem snýr að íþróttum en rauði þráðurinn í ráðstefnununum fram að þessu hefur verið að taka fyrir og kryfja ýmis áhugaverð mál í heimi íþróttanna vegar um heiminn, varpa ljósi á pólitísku hliðina á íþróttum sem er oft á tíðum með ólíkindum, skoða lyfjamál, spillingamál auk þess sem ýmsir þekktir einstaklingar úr heimi íþróttanna halda fyrirlestra.

Í tilefni 100 ára afmælis UMFÍ var ákveðið að ráðstefnan færi fram á Íslandi en UMFÍ leggur mikla vinnu og fjármagn í að gera hana sem glæsilegasta.

Þar sem uppistaða gestanna á ráðstefnunni eru íþróttafréttamenn ákvað UMFÍ að bjóða Samtökum íþróttafréttamanna að gerast aðili að ráðstefnunni að þessi sinni. Stjórn SÍ þáði boðið enda sérlega áhugavert verkefni. Formaður SÍ, Þorsteinn Gunnarsson, fékk það verkefni að taka sæti í dagskrárnefnd ráðstefnunnar þar sem ákveðið verður hvaða málefni verða til umfjöllunar. PLAY THE GAME, hefur hann fengið gríðarlega jákvæð viðbrögð við því að ráðstefnan fari fram á Íslandi. Vettvangur hennar verður Grandhótel og að sjálfsögðu eru félagar í Samtökum íþróttafréttamanna hvattir til þess að mæta. Þarna verða eflaust nóg af fréttapunktum.

Nánari upplýsingar eru á www.playthegame.org – en þar er einnig að finna margar mjög áhugaverðar fréttir úr heimi íþróttanna um t.d. spillingamál, lyfjahneyksli og íþróttapólitík.

Ekki aukarás fyrir íþróttir á RÚV?

September 2007

Í frétt í Morgunblaðinu í dag. 7. sept., segist Páll Magnússon útvarpsstjóri ekki gera ráð fyrir því að sett verði sérstök íþróttarás á laggirnar á RÚV. Í Morgunblaðinu segir Páll:

“Það eru ekki uppi fyrirætlanir um það að stofna sérstaka íþróttarás, enda samræmist það ekki hlutverki Ríkisútvarpsins. En núna erum við að vinna að framtíðardreifikerfi sjónvarpsins sem verður á stafrænu formi og þá höfum við möguleika á því að grípa til sérstakrar hliðarrásar þar sem við gætum sýnt atburði af þessu tagi án þess að raska hefðbundinni dagskrá. Á næstu misserum þurfum við að taka stefnumarkandi ákvarðanir varðandi dreifikerfið þannig að ég þori ekki að segja nákvæmlega hvenær það verður komið í notkun.”

Páll segist vel geta skilið að fólk verði óánægt þegar beinar íþróttaútsendingar taki heilu kvöldin en segir það skyldu RÚV að sýna efni þótt það hafi ekki stóra skírskotun. “Við sýnum t.d. á kjörtíma á kvöldin heimildarmyndir sem við vitum að hafa ekki gríðarlega mikla skírskotun, kannski með 15% áhorf og það gildir um margt efni sem við erum með.” Spurður hvort hann gæti hugsað sér að klippa á efni á kjörtíma fyrir annað en boltaíþróttir segir Páll það hæpið.

Fréttamannafundur Play the game á Grand Hótel

September 2007

Forsvarsmenn Play The Game ráðstefnunnar, sem haldin verður í Reykjavík dagana 28. október til 1. nóvember, efndu í gær til blaðamannafundar á Grand Hótel. Jens Sejer Andersen, framkvæmdastjóri Play The Game, sagði frá undirbúningi ráðstefnunnar sem miðar vel áfram. Í máli hans kom fram að búist er við um 300 þátttakendum erlendis frá en dagskrá ráðstefnunnar er mjög áhugaverð en þekktir fyrirlesarar koma til landsins.

Björn B. Jónsson, formaður UMFÍ, sagði í stuttu ávarpi að ráðstefnan væri mjög spennandi verkefni en hún væri einn liður í dagskrá hreyfingarinnar sem fagnaði 100 ára afmæli á þessu ári. Sjá nánar um ráðstefnuna í fleiri fréttum hér neðar á síðunni en Samtök íþróttafréttamanna eru aðili að henni.

Á myndinni má sjá Þorstein Gunnarsson, formann SÍ og Jens Sejer Andersen, framkvæmdastjóra Play The Game, bera saman bækur sínar.

Harðort bréf til KSÍ vegna aðstöðuleysis á Laugardalsvelli
September 2007

Eftir landsleik Íslands og Spánar á Laugardalsvelli var íslenskum íþróttafréttamönnum nóg boðið vegna aðstöðuleysis og var eftirfarandi bréf sent til KSÍ:

KSÍ

Bt. Geirs Þorsteinssonar formanns, Þóris Hákonarsonar framkvæmdastjóra, starfsfólks KSÍ, vallarstjóra og stjórnarmanna KSÍ.

Íslenskir íþróttafréttamann hafa ýmislegt látið yfir sig ganga í gegnum tíðina hvað varðar aðstöðu á knattspyrnuleikjum. En nú er mælirinn fullur. Á nýuppgerðum þjóðarleikvanginum var íslenskum íþróttafréttamönnum sýnd þvílík vanvirðing á landsleik Íslands og Spánar í gær að elstu menn í þessu fagi muna ekki eftir öðru eins.

Vinnuaðstaða íslenskra íþróttafréttamanna á leiknum var til háborinnar skammar því það rigndi á tölvur og skrifblokkir. Þá var engin gæsla á okkar vinnusvæði. Fólk ráfaði þarna um ölvað og að leik loknum var ekki vinnufriður. Verst af öllu var að enginn hjá KSÍ sem rætt var við á leiknum í gær sýndi vilja til þess að bæta úr málinu eða vera okkur innan handar, sem endurspeglar virðingarleysið fyrir okkar starfi.

Undirritaður ásamt öðrum stjórnarmönnum í Samtökum íþróttafréttamanna mætti á fund fyrir einu og hálfu ári hjá þáverandi framkvæmdastjóra KSÍ. Þar var fullyrt að við þyrftum engar áhyggjur að hafa, við hefðum aðstöðu innandyra á landsleikjum í framtíðinni. Þessi loforð voru svikin á Laugardalsvelli í gær.

Samtök íþróttafréttamanna hafa einnig kvartað yfir aðstöðuleysi við KSÍ við önnur tækifæri en því miður hefur því oftar en ekki verið svarað með tómlæti eða útúrsnúningum fram að þessu.

Samtök íþróttafréttamanna krefjast þess að KSÍ biðji félagsmenn okkar afsökunar á þeirri aðstöðu sem boðið var upp á í gær og að KSÍ bæti snarlega úr vinnuaðstöðu fyrir íþróttafréttamenn á landsleikjum í framtíðinni. Að auki viljum við fá svar við eftirfarandi spurningum:

– Hvers vegna var okkur boðið upp á þessa óásættanlegu aðstöðu?
– Hvers vegna voru starfsmenn KSÍ víðs fjarri meðan á leik stóð?
– Hvers vegna var engin gæsla þarna í kring?
– Er það ásetningur KSÍ að losna við íslenska íþróttafréttamenn af landsleikjum á Laugardalsvelli?
– Hvers konar aðstöðu verður okkur boðið upp á þegar Ísland mætir Norður-Írlandi á Laugardalsvelli á miðvikudaginn?

Svar óskast í síðasta lagi mánudaginn 10. september nk. kl. 14.

F.h. Samtaka íþróttafréttamanna

Þorsteinn Gunnarsson, formaður

Svar KSÍ: Óska eftir fundi!
September 2007

Kl. 13.59 barst SÍ svar frá KSÍ vegna bréfs samtakanna um aðstöðuleysi á Laugardalsvelli:

Heill og sæll Þorsteinn.
Undirritaður óskar eftir fundi með formanni/fulltrúum stjórnar Samtaka íþróttafréttamanna vegna þessa máls. Þriðjudagur 11. september eftir hádegi hentar mér.

Bestu kveðjur
Þórir Hákonarson
Framkvæmdastjóri KSÍ

Formaður SÍ sendi framkvæmdastjóra KSÍ eftirfarandi bréf í kjölfarið:

Sæll og blessaður Þórir.

Það eru okkur í Samtökum íþróttafréttamanna gríðarleg vonbrigði að KSÍ geti ekki svarað bréfi okkar efnislega eins og um var beðið, hvað þá að biðjast afsökunar á þeirri aðstöðu sem boðið var upp á á Laugardalsvelli sl. laugardag. Það sýnir enn og aftur virðingarleysi fyrir okkar starfi.

Vonandi fást einhver svör á fundi með framkvæmdastjóra KSÍ.

Virðingarfyllst,
Þorsteinn Gunnarsson

Sameiginleg yfirlýsing KSÍ og SÍ

September 2007

Í kjölfar undangenginnar umræðu um aðstöðu íþróttafréttamanna á Laugardalsvelli s.l. laugardag vilja KSÍ og SÍ koma eftirfarandi á framfæri.

KSÍ hefur ekki að öllu leyti lokið framkvæmdum við aðstöðu fréttamanna á Laugardalsvelli og harmar að aðstæður íþróttafréttamanna voru ekki eins og best verður á kosið en unnið verður að frekari endurbótum á næstunni. Þegar hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að úr aðstöðu verði bætt eftir kostum fyrir leik Íslands og Norður Írlands síðar í dag.
KSÍ og SÍ munu taka upp viðræður í framhaldinu um aðstöðu íþróttafréttamanna.

Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ

Þorsteinn Gunnarsson, formaður Samtaka íþróttafréttamanna.

Ásgeir fallinn frá

September 2007

Ásgeir Elíasson, fyrrverandi landsliðsþjálfari í knattspyrnu, lést þann 9. september sl. Íþróttafréttamenn áttu ávallt fyrirmyndar samstarf við Ásgeir en hann var einn af bestu sonum íslenskrar knattspyrnu. Samtök íþróttafréttamanna senda innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu Ásgeirs. Samtökin minntust Ásgeirs með því að senda blómsveig við útför hans.

Úttekt á fjölmiðlaaðstöðu í Kópavogi og í Mýrinni

September 2007

Í kjölfar umræðu um bága aðstöðu íþróttafréttamanna á Laugardalsvelli fyrir skömmu hafði Þór Jónsson, forstöðumaður almannatengsla hjá Kópavogsbæ, samband við formann SÍ og óskaði eftir því að hann tæki út aðstöðu íþróttafréttamanna í nýrri stúkubyggingu á Kópavogsvelli og í nýju knattspyrnuhúsi í Kópavogi sem fengið hefur nafnið Kórinn og er í Vatnsendahverfi.

Formaður SÍ kom með nokkrar ábendingar um það sem mætti lagfæra, sérstaklega í Kórnum. Kópavogsbær á hrós skilið fyrir að hafa frumkvæði að því vilja hafa aðstöðu íþróttafréttamanna sem allra besta, einnig hefur verið vel hugsað fyrir myndatökumönnum á þessum stöðum.

Þá var einnig óskað eftir því að formaður SÍ færi í Mýrina, nýja handboltahöll í Garðabæ, til að koma með tillögur um betri aðstöðu fyrir íþróttafréttamenn en þar gleymdist að taka slíkt með í reikninginn við hönnun hússins. Um bráðabirgðaaðstöðu verður að ræða fram að áramótum í Mýrinni en hugmyndir um framtíðarlausn eru komnar á koppinn. Frumkvæði Stjörnumanna er einnig fagnað.

KR fær viðurkenningu SÍ fyrir bestu fjölmiðlaaðstöðuna boltasumarið 2007
September 2007

Samtök íþróttafréttamanna ákváðu í vor að verðlauna það lið sem stæði sig best hvað varðar aðbúnað og vinnuaðstöðu fyrir íþróttafréttamenn boltasumarið 2007. Ljóst er að mörg félög standa sig með mikilli prýði í þessum efnum en hjá nokkrum félögum er pottur brotinn.

KR-ingar fengu flest atkvæði í kosningu íþróttafréttamanna að þessu sinni um bestu fjölmiðlaaðstöðuna. Þorsteinn Gunnarsson, formaður Samtaka íþróttafréttamanna, afhenti Páli Sævar Guðjónssyni, fjölmiðlafulltrúa og vallarþuli KR-inga, verðlaunaskjöld frá SÍ. Páll Sævar sagði við þetta tilefni að hann líti á þetta sem mikla viðurkenningu fyrir KR-inga sem hefðu ávallt lagt sig fram um að búa sem best að íþróttafréttamönnum. „Mjörg margir sjálfboðaliðar í KR koma að þeirri miklu vinnu að undirbúa heimaleikina og þetta er viðurkenning til okkar allra,“ sagði Páll.

ÍA varð í 2. sæti í kjörinu en þessi tvö félög skáru sig nokkuð úr.

Íþróttafréttamenn voru beðnir að koma með rök fyrir kosningunni og hér má sjá nokkur ummæli um aðbúnaðinn á KR-velli í sumar:

** Allt fyrsta flokks, þ.e. aðstaða, leikskýrsla, viðmót og hressing

** Allt pottþétt í hverjum leik. Leikskýrsla á einu blaði, net, hrein aðstaða, kaffi, kruðerí og gátlistinn pottþéttur í hverjum leik

** KR-ingar hafa staðið sig vel í allt sumar og gátlisinn sem sendur var fyrir mótið enn við lýði.

** Viðmót KR-inga gagnvart blaðamönnum til fyrirmyndar

** Vel haldið utan um aðstöðu fyrir blaða-og fréttamenn. Allt klárt löngu fyrir leik og allir hlutir á hreinu.

** Boðið upp á þá nýbreytni að bjóða blaðamönnum í léttan mat með spjalli og upplýsingapakki fyrir leik.

Tvö félög skáru sig úr hvað varðar lélegustu aðstöðuna boltasumarið 2007 en það voru Víkingur og FH. Hér má sjá nokkur ummæli um aðstöðua sem þessi félög buðu upp á:

Víkingur:

** Alltaf vesen með netið enda routerinn öfugu megin, aðstaða lítil og þröng. Ekki alltaf kaffi og vandræði með skýrslur.

** Víkingur tívmælalaust með lökustu aðstöðuna þó að hún hafi verið bætt. Þrengsli og vesen með netsamband.

** Slæm aðstaða fyrir skrifandi blaðamenn og ljósvakamiðlamenn

FH:

** Allt of lítið, borð í fáránlegri hæð og oft erfitt að komast að leikmönnum eftir leik.

** Lítið pláss, póstar fyrir gluggum og völlurinn sést illa allur. Innstungur af skornum skammti, loftlaust og að hátalarar séu uppi á skúrnum er til skammar.

** Hvað þarf ekki að bæta í Kaplakrika? Alltof lítil aðstaða, stólarnir oftast óþægilegir ef þeir fyrir hendi og hátalarar ofan á blaðamannaskúrnum óþolandi.

Tilboðsverð fyrir Íslendinga sem taka þátt í Play the Game
Október 2007

Eins og áður hefur komið fram verður Play the Game ráðstefnan haldin á Grand Hótel í Reykjavík dagana 28. október til 1. nóvember.Ráðstefnan er einn liður í 100 ára afmæli UMFÍ. Congress Reykjavík hefur haft veg og vanda að undirbúningi ráðstefnunnar í samvinnu við forsvarsmenn Play the Game og UMFÍ en Samtök íþróttafréttamanna koma einnig að undirbúningi hennar.

Langflestir þátttakendur á ráðstefnuna koma erlendis frá og kaupa þá ákveðinn pakka sem inniheldur þátttökugjald og gistingu. Nú hefur verið ákveðið og koma til móts við Íslendinga sem hafa áhuga á að sækja ráðstefnuna. Athygli er vakin á því að Blaðannafélag Íslands greiðir pakkann fyrir íslenska þátttakendur.

Athyglisverð rannsókn á íslenskum dagblöðum

Október 2007

ÍSÍ bauð upp á hádegisfund þar sem Anna Guðrún Steindórsdóttir kynnti niðurstöður BS ritgerðar sinnar frá íþróttavali KHÍ síðastliðið vor um íþróttafréttir í dagblöðum.

Líklegt má telja að rannsókn Önnu Guðrúnar sé sú umfangsmesta og marktækasta sem gerð hefur verið hingað til enda spannar rannsóknin allt árið 2006.

Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ stýrði fundinum og umræðum í kjölfar fyrirlestursins.

Niðurstöður eru um margt athyglisverðar og má nú finna glærur frá fyrirlestrinum á heimasíðu ÍSÍ.

PLAY THE GAME HEFST Á SUNNUDAGINN

September 2007

Ráðstefnan Play the game hefst á sunnudaginn, 28. október, og því fer hver að verða síðastu að skrá sig.
Ég vil endilega hvetja ykkur til að skoða það sem er á boðstólum. Hér er samantekt á því:

http://www.playthegame.org/upload/documents/playthegameconferenceprogramme.pdf

Þarna eru margir áhugaverðir fyrirlesarar og svo eru umræður og fyrirspurnir eftir hvern fyrirlestur ásamt það sem nefnist Workshop.

Dæmi: Á sunnudagskvöldið er áhugavert málþing um ENSKA BOLTANN, sem ber yfirskriftina: AÐEINS FYRIR MILLJARÐAMÆRINGA? Á meðal fyrirlesara eru Shaka Hislop, fyrrverandi markvörður West Ham o.fl. liða.

Á mánudagsmorgun er fjalla um stórviðburði í íþróttum eins og EM 08. Eftir hádegi er meira um fótbolta eins og t.d. markaðssetningu. Um kvöldið mætir forseti WADA sem ætti að vera ansi áhugavert.

Þriðjudagurinn fer mikið í lyfjamál. Miðvikudagurinn er áhugaverður, þá mætir hinn kunni enski blaðamaður Andrew Jennings sem fjallar um spillingmál hjá FIFA, James Oliver frá BBC Panorama og Shaka Hislop. Auk þessa er ýmislegt annað mjög áhugavert sem gaman er að fylgjast með.

Athugið sérstakleg tilboð fyrir íslenska fréttamenn, þið rukkið svo Blaðamannafélag Íslands.

Kveðja
Þorsteinn Gunnarsson

Vel heppnuð ráðstefna

Október 2007

Ráðstefnunni Spilum leikinn, eða Play the game, lauk í kvöld á Grandhótel með glæsilegu hlaðborði. Óhætt er að segja að ráðstefnan hafi takist í alla staði mjög vel, haldin voru mörg athyglisverð erindi um dekkri hliðar íþróttanna og má í því sambandi nefna lyfjanotkun í íþróttum, ýmis spillingamál, fjárhagsvandræði enska boltans o.fl. Gestir á ráðstefnunni komu frá 50 löndum.

Heiðursverðlaun Play the game að þessu sinni fékk Sandro Donati frá Ítalíu en hann hefur verið í fararbroddi þar í landi að berjast gegn lyfjamisnotkun í íþróttum.

UMFÍ var gestgjafi ráðstefnunnar og var öll umgjörð til sóma. Nánar er hægt að fræðast um hin ýmsu erindi og umræður ráðstefnunnar á heimasíðu hennar; playthegame.org

Evrópusamtökin opna skrifstofu í Brüssel

Nóvember 2007

Evrópusamtök íþróttafréttamanna, UEPS, fengu skrifstofuaðstöðu í nýjum húsakynnum hjá Samtökum íþróttafréttamanna í Brüssel nú í byrjun nóvember. UEPS er þar ekki með fastan starfsmann en ákveðið var á mjög umdeildu þingi í vor (sem var hluti af heimsþingi AIPS) að færa aðsetur samtakanna til Brüssel til að geta skráð samtökin formlega innan Evrópusambandsins og gert þau sýnilegri og fengið öll tilskilin réttindi. Sjá nánar á heimasíðu samtakanna: www.ueps-media.com

Nokkrar íþróttabækur í jólaflóðinu

Nóvember 2007

Nokkrar íþróttabækur eru gefnar út fyrir þessi jól sem vert er að gefa gaum og sagt er frá í Bókatíðindum:

Hæst ber bókin HETJURNAR OKKAR – ÍÞRÓTTAMENN ÁRSINS Í HÁLFA ÖLD, sem Samtök íþróttafréttamanna gefa út. Mjög er vandað til verka í þessari bók sem er einstök heimild um þetta afreksíþróttafólk. Nánar um þessa bók síðar sem fer í prentun nú í vikunni og verður kynnt með pompi og pragt. Höfundur er Hallgrímur Indriðason.

ÍSLENSK KNATTSPYRNA eftir Víði Sigurðsson íþróttafréttamann er auðvitað Biblía allra knattspyrnuáhugamanna á Íslandi og ómissandi um hver jól til að rifja knattspyrnuárið upp. Ómetanleg heimild.

SÁ BESTI fjallar um Cristiano Ronaldo, Portúgalann unga hjá Manchester United. Bókin er skráð af Guðjóni Inga Eiríkssyni og gefin út af Bókaútgáfunni Hólum.

FRÆKIÐ FÓLK Í ÍÞRÓTTUM fjallar um feðga og mæðgur í íþróttum en mikill fjöldi þekktra íþróttamanna kemur við sögu. Útgefandi er Bókaútgáfan Æskan.

Þá er bók á leiðinni frá HSÍ í tilefni 50 ára afmælis sambandsins og vonandi kemur hún út fyrir jólin.

Dagur Sveinn til KSÍ

Nóvember 2007

Knattspyrnusamband Íslands hefur ráðið Dag Svein Dagbjartsson sem starfsmann í fræðslumál. Dagur hefur lokið B.S. gráðu í íþróttafræðum frá KHÍ Laugarvatni og á að baki 12 landsleiki fyrir U-17 ára landslið Íslands. Dagur Sveinn hefur að auki starfað sem íþróttafréttamaður á Fréttablaðinu og á DV. Hann mun hefja störf fyrir KSÍ þann 1.janúar 2008.

Dagur Sveinn mun verða Sigurði Ragnari Eyjólfssyni fræðslustjóra KSÍ til aðstoðar og mun fræðslustarf KSÍ eflast enn frekar fyrir vikið, samkvæmt heimasíðu KSÍ.

Formannafundur í Osló

Nóvember 2007

Þriðjudaginn 27. nóvember var haldinn árlegur formannafundur hjá samtökum íþróttafréttamanna á Norðurlöndunum, að þessu sinni í Osló. Formenn Íslands, Noregs, Svíþjóðar, Danmerkur og Finnlands mættu til þess að bera saman bækur sínar og fara yfir ýmis málefni sem snúa að íþróttafréttamönnum á Norðurlöndunum.

Hvert og og eitt land fór yfir starfsemi í sínu félagi og þau ýmsu mál sem þarf að takast á við í dagsins önn og var ótrúlegt hversu svipuð mál koma upp á borðið. Á öllum Norðurlöndunum er þetta sífelld barátta um bættari og betri aðstöðu fyrir íþróttafréttamenn í stærstu greinunum. Öll samtökin, nema þau dönsku, standa fyrir vali á íþróttamanni ársins. Dönsku samtökin hættu þessu vali fyrir nokkrum árum eftir að íþróttamaður ársins í Danmörku féll á lyfjaprófi.

Einnig var rætt um síðasta ársþing AIPS og hvaða áherslur Norðurlöndin verða með á næsta þingi. Ætlunin er að reyna að koma einum fulltrúa í framkvæmdastjórnina. Einnig var farið yfir síðasta UEPS þing sem Norðurlöndin voru afar óhress með enda hefur austurblokkin í Evrópu tekið yfir þau að mestu og Norðurlöndin eiga þar engan fulltrúa í stjórn.

Í dönsku samtökunum eru um 600 meðlimir, svipaður fjöldi í þeim norsku, um 1200 í Svíþjóð en stærstu samtökum eru í Finnlandi eða með 1500 meðlimi (þá eru svokallaðir aukameðlimir taldir með). Í íslensku samtökunum eru 24 íþróttafréttamenn.

Formannafundurinn var hinn gagnlegasti og fróðlegt og skemmtilegt að hitta kollegana á hinum Norðurlöndunum.

HETJURNAR OKKAR kemur út þriðjudaginn 11. desember
Desember 2007

Bókin HETJURNAR OKKAR – ÍÞRÓTTAMENN ÁRSINS Í HÁLFA ÖLD, eftir Hallgrím Indriðason sem Samtök íþróttafréttamanna gefa út, fer í dreifingu þriðjudaginn 11. desember. Nokkur töf varð í prentun en við því er lítið að gera. Gríðarlegur áhugi er fyrir þessari mögnuðu bók og hafa þegar verið pöntuð 200 eintök fyrirfram.

Samtök íþróttafréttamanna blása til fréttamannafundur fimmtudaginn 13. desember kl. 12 þar sem bókin verður kynnt með pompi og pragt. Í beinu framhaldi af fréttamannafundinum verður fundur í SÍ um kjör íþróttamanns ársins 2007.

Menntamálaráðherra fékk fyrsta eintakið

13. desember 2007

Í dag héldu Samtök íþróttafréttamanna fréttamannafund í höfuðstöðvum ÍSÍ. Tilefnið var útgáfa bókarinnar Hetjurnar okkar – íþróttamenn ársins í hálfa öld. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir mennta- og íþróttamálaráðherra, tók við fyrsta eintakinu af bókinni úr hendi höfundarins, Hallgríms Indriðasonar. Þorgerður Katrín flutti ávarp þar sem hún hvatti íþróttafréttamenn að gæta vel kjörsins um íþróttamann ársins.

Hallgrímur las einnig upp úr bókinni kaflann um Guðmund Hermannsson, íþróttamann ársins 1967.

Nokkrir af íþróttamönnum ársins mættu af þessu tilefni og fengu þeir afhentar bækur. Þá heiðruðu SÍ Stefán Konráðsson, fyrrum framkvæmdastjóra ÍSÍ, með gullmerki samtakanna fyrir einstakt samstarf í gegnum tíðina en Stefán hefur ávallt greitt götu samtakanna í gegnum tíðina.

Í bókinni er rakin saga íþróttamanna ársins undanfarin 50 ár, eða frá því Vilhjálmur Einarsson var fyrst kjörinn 1956, til ársinsw 2006 þegar Guðjón Valur Sigurðsson var kjörinn. Einnig er stiklað á stóru í sögu Samtaka íþróttafréttamanna.

Ýmislegt forvitnilegt kemur fram í bókinni, m.a. að eitt árið kom til umræðu að fella niður kjörið þar sem afrek ársins þóttu ekki nógu góð.

Ýmsir hafa komið að útgáfu bókarinnar og gert hana mögulega. Alþjóða Ólympíuhreyfingin veitti veglegan styrk líkt og menntamálaráðuneytið, ÍTR, Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn.

Flestir myndir í bókinu eru frá Morgunblaðinu, 365-prentmiðlum og Ljósmyndasafni Reykjavíkur og úr ýmsum einkasöfnum. Bókin er prentuð í Gutenberg. Helgi Magnússon sá um prófarkalestur og Jóhann Páll Kristbjörnsson um útlit og umbrot. Óskar Ófeigur Jónsson sá um tölfræðisamantekt.

Samtök íþróttafréttamanna gefa sjálf út bókina og sjá um dreifingu.

Hetjurnar okkar í Bónus, Hagkaupum og Office 1

Desember 2007

Bókin Hetjurnar okkar – íþróttamenn ársins í hálfa öld, sem Samtök íþróttafréttamanna gefa út, er til sölu í verslunum Bónus, Haugkaupa og Office 1. Á landsbyggðinni er hægt að kaupa bókina í verslunum Office 1 (Vestmannaeyjar, Ísafjörður, Akureyri og Egilsstaðir). Þeir sem vilja panta eintak geta líka sent tölvupóst á netfangið mariner@internet.is

Met fjöldi félaga í SÍ = 29

Desember 2007

Á félagsfundi SÍ 14. des. sl. fjölgaði um nokkra íþróttafréttamenn. Alls eru 29 íþróttafréttamenn (í fullu starfi) meðlimir í Samtökum íþróttafréttamanna og hafa þeir aldrei verið fleiri. Þá er einn svokallaður aukameðlimur.

Nokkur stöðugildi hafa bæst við, aðallega hjá 365-miðlum. Er ánægjulegt til þess að vita að fjölmiðlar eru farnir að átta sig á mikilvægi þess að ráða fagmenn í fullt starf á sínum miðlum þegar kemur að því að fjalla um íþróttir.

Kjörið á íþróttamanni ársins 28. desember

Desember 2007

Kjörið á íþróttamanni ársins 2007 fer fram föstudaginn 28. desember nk. Að vanda verður það í samstarfi við ÍSÍ. Bein útsending í Ríkissjónvarpinu og á Sýn hefst kl. 19.35. Nöfn þeirra tíu stigahæstu í kjörinu verða birt á aðfangadag, 24. desember. Nánari upplýsingar síðar.

Tíu efstu í kjöri íþróttamanns ársins 2007

24. desember 2007

Atkvæði í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna um Íþróttamann ársins 2007 hafa verið talin og liggur ljóst fyrir hvaða tíu íþróttamenn urðu í efstu sætum í kjörinu.

Nöfn þeirra í stafrófsröð eru:

Birgir Leifur Hafþórsson kylfingur úr GKG
Eiður Smári Guðjohnsen knattspyrnumaður hjá Barcelona
Guðjón Valur Sigurðsson handknattleiksmaður hjá Gummersbach
Jón Arnór Stefánsson körfuknattleikismaður hjá Lottomatica Roma
Margrét Lára Viðarsdóttir knattspyrnukona hjá Val
Ólafur Stefánsson handknattleiksmaður hjá Ciudad Real
Ragna Ingólfsdóttir badmintonkona úr TBR
Ragnheiður Ragnarsdóttir sundkona úr KR
Snorri Steinn Guðjónsson handknattleiksmaður úr GOG
Örn Arnarson sundmaður úr SH

29 félagsmenn eru í Samtökum íþróttafréttamanna og nýttu allir þeirra atkvæðisrétt sinn í kjörinu að þessu sinni. Atkvæðagreiðslan er leynileg og fer þannig fram að hver félagsmaður SÍ setur saman lista með nöfnum tíu íþróttamanna sem honum þykja hafa skarað fram úr á árinu.

Helstu styrktaraðilar Samtaka íþróttafréttamanna vegna kjörsins eru Glitnir og Icelandair.
Kjörinu verður lýst á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 28. desember klukkan 19.35 og eins og undanfarin ár verður það sent út í sameiginlegri beinni útsendingu á RÚV og Sýn.

Áður en kjöri íþróttamanns ársins verður lýst mun ÍSÍ afhenda viðurkenningar til þeirra íþróttakarla og -kvenna hjá sérsamböndum sínum sem þótt hafa skarað fram úr á árinu 2007. Þetta verður í þrettánda sinn sem Samtök íþróttafréttamanna og ÍSÍ standa að sameiginlegri hátíð sem nær hápunkti þegar Íþróttamaður ársins 2007 verður útnefndur.

Samtök íþróttafréttamanna óska landsmönnum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.

Margrét Lára kjörin íþróttamaður ársins 2007

Desember 2007

Margrét Lára Viðarsdóttir úr Val var útnefnd íþróttamaður ársins 2007 af Samtökum íþróttafréttamanna. Hún er fjórða konan sem hlýtur þessa vegsemd í 52 ára sögu kjörsins og sjötti knattspyrnumaðurinn sem hreppir þennan eftirsóttasta titil í íslensku íþróttalífi.

Ólafur Stefánsson, handknattleiksmaður, varð annar í kjörinu og Ragna Ingólfsdóttir, badmintonkona, hafnaði í þriðja sæti.

Margrét Lára er 21 árs gömul, fædd og uppalin í Vestmannaeyjum þar sem hún lék með meistaraflokki ÍBV frá 14 ára aldri, en hún hefur spilað með Val undanfarin þrjú ár. Hún átti glæsilegt tímabil með Val og íslenska landsliðinu 2007 en hún skoraði samtals 72 mörk í mótsleikjum á árinu. Þar af gerði hún 38 mörk á Íslandsmótinu þar sem hún bætti eigið markamet og varð Íslandsmeistari með Val annað árið í röð.

Þá gerði hún 8 mörk fyrir A-landsliðið, í níu leikjum, og setti nýtt markamet en hún hefur nú samtals gert 29 mörk í 35 A-landsleikjum. Þar af skoraði hún í sigurleikjum Íslands gegn tveimur af tíu bestu landsliðum heims, Frakklandi og Kína. Hún er í lykilhlutverki í landsliði Íslands sem stendur vel að vígi í baráttu um sæti í úrslitakeppni Evrópumótsins í Finnlandi árið 2009.

Enn fremur skoraði Margrét Lára 8 mörk í 6 leikjum með Val í Evrópukeppni meistaraliða í haust en þar komst Hlíðarendafélagið í 16 liða úrslit og var hársbreidd frá því að fara enn lengra.

Sigríður Sigurðardóttir handknattleikskona varð fyrst kvenna til að vera kjörin íþróttamaður ársins en það var árið 1964. Næst var Ragnheiður Runólfsdóttir, sundkona, sem var kjörin árið 1991, þá kom Vala Flosadóttir, frjálsíþróttakona, árið 2000, og Margrét Lára er sú fjórða.

Þeir fimm knattspyrnumenn sem hafa hreppt titilinn á undan Margréti Láru eru Guðni Kjartansson (1973), Ásgeir Sigurvinsson (1974 og 1984), Jóhannes Eðvaldsson (1975), Arnór Guðjohnsen (1987) og Eiður Smári Guðjohnsen (2004 og 2005).

Íþróttamaður ársins 2007 – Margrét Lára best

Desember 2007

„Þetta er tvímælaust mesta viðurkenning sem ég hef hlotið á mínum ferli til þessa. Engin verðlaun hafa komið mér jafnmikið á óvart og þessi. Þegar ég kom á Grand Hótel í kvöld þá vissi ég það eitt að ég væri í hópi tíu frábærra íþróttamanna sem til greina kæmu,“ sagði hin 21 árs gamla knattspyrnukona, Margrét Lára Viðarsdóttir, við Morgunblaðið, hálfklökk eftir að hafa verið valin íþróttamaður ársins 2007 með nokkrum yfirburðum af Samtökum íþróttafréttamanna í hófi á Grand Hóteli.

Margrét Lára er fyrsta knattspyrnukonan sem hlýtur þessa viðurkenningu, sem var afhenti í 52. sinn í gær, og fjórða konan sem kosin er íþróttamaður ársins.

Margrét Lára er fremst knattspyrnukvenna hér á landi og hún segir það hafa kostað þrotlausa vinnu frá unga aldri en að hún eigi enn mikla vinnu fyrir höndum til að bæta sig enn frekar. „Ég set mér markmið og legg hart að mér til þess að ná þeim. Það hef ég gert frá unga aldri,“ segir Margrét, sem æft hefur knattspyrnu frá 5 ára aldri. „Ég get örugglega á stundum verið óþolandi í hóp þegar ég rek á eftir félögum mínum um leið og ég legg harðar að sjálfri mér. Ég geri alltaf mestar kröfur til mín.

Ég er hluti af liði í hópíþrótt og án góðra samherja nær maður ekki langt. Það þarf að skapa liðsheild með góðum leikmönnum, það er ekki nóg að hafa einn góðan leikmann. Síðan má ekki gleyma fjölskyldunni og vinum sem staðið hafa þétt við bakið á mér frá unga aldri,“ sagði Margrét Lára, sem hefur leikið með Val síðastliðin þrjú ár eftir að hafa alist upp hjá Tý og síðan ÍBV í Vestmannaeyjum.

„Að sjálfsögðu tel ég mig geta náð lengra í íþróttinni. Ef ég teldi svo ekki vera gæti ég alveg eins lagt skóna á hilluna hér og nú. Ég lít á þessa viðurkenningu sem ég fékk nú sem hvatningu til áframhaldandi dáða um leið og hún segir mér að ég hafi gert eitthvað rétt til þessa,“ segir Margrét Lára sem telur engan vafa leika á því að kjör hennar hvetji stúlkur til þess að iðka knattspyrnu og leggja hart að sér við æfingar.

„Það hefur löngum verið fjarlægur draumur fyrir knattspyrnukonur að ná þessum áfanga, að vera valin íþróttamaður ársins. En í dag eru allar dyr opnar fyrir ungum stúlkum í knattspyrnu, hvort sem það er hér heima eða í útlöndum,“ segir Margrét Lára sem telur að ungar stúlkur sitji við sama borð og ungir drengir hjá knattspyrnufélögum landsins. „Sú var ef til vill ekki raunin fyrir tíu til fimmtán árum en nú tel ég að kynin standi jafnt að vígi hjá félögunum og stúlkur hafi jafna möguleika á við stráka til að ná árangri og fái um leið jafnhæfa þjálfara. Ég hvet ungar stúlkur til þess að æfa knattspyrnu og æfa vel.

Það sem skilur að á alþjóðlegum vettvangi er að miklu meiri peningar eru í karlaknattspyrnu en kvennaknattspyrnu og því verður sennilega aldrei breytt, enda eru peningar ekki aðalatriði í íþróttum.“

Margrét Lára æfir allan ársins hring og það hefur hún gert árum saman. Hún segir æfingaálag sitt vera svipað og hjá sundmönnum og fimleikamönnum. „Ég æfi álíka mikið og fremsta íþróttafólk okkar í einstaklingsíþróttum sem er keppast við að komast á ólympíuleika. Þótt ég sé í hópíþrótt þá tel ég það vera nauðsynlegt að æfa gríðarlega mikið til að taka framförum þannig að lið mitt verði betra. Þótt lið sé hópur leikmanna þá skiptir miklu máli hvað hver einstaklingur innan þess gerir og leggur á sig.

Auk þess að æfa mikið legg ég mikinn metnað í hverja æfingu, ég vil verða betri með hverri æfingu. Ég fer á æfingu til þess að taka framförum og legg þar af leiðandi alla þá orku sem ég hef í æfingarnar. Aðeins þannig tel ég að maður geti afrekað eitthvað. Það er ekki nóg að mæta á æfingu ef maður sinnir henni ekki af fullum þunga, það er tímasóun,“ segir þessi metnaðarfulla knattspyrnukona sem kom beint af æfingu í hófið þar sem hún tók við æðstu viðurkenningu sem afhent er íslenskum íþróttamanni ár hvert.

Margrét Lára er þögul þegar hún er spurð um markmið sín á komandi ári. „Það er best að segja sem minnst fyrir utan að ég ætla að leggja enn harðar að mér við æfingar til að taka framförum. Ég er ekki á toppnum sem knattspyrnukona um þessar mundir. Ég á margt ólært og ógert í íþrótt minni sem ég stefni á að ná á næstu árum,“ segir Margrét Lára Viðarsdóttir, knattspyrnukona úr Val, landsliðskona og íþróttamaður ársins 2007 hjá Samtökum íþróttafréttamanna.