Lög Samtaka íþróttafréttamanna
1. grein
Samtökin heita: Samtök íþróttafréttamanna, skammstafað SÍ.
2. grein
Félagi í Samtökum íþróttafréttamanna getur sá orðið sem hefur íþróttafréttamennsku að aðalstarfi og er fullgildur meðlimur í Blaðamannafélagi Íslands. Nýr félagi verður að senda staðfestingu á fastráðningu sinni frá vinnuveitanda til stjórnar SÍ og vera samþykktur af 2/3 félagsmanna á aðalfundi eða félagsfundi.
3. grein
Fullgildur félagi sem lætur af starfi sínu sem íþróttafréttamaður hættir einnig í Samtökum íþróttafréttamanna, þó ekki fyrr en að loknum næsta aðalfundi. Stjórn SÍ metur félagsaðild meðlima SÍ fyrir hvern aðalfund og leggur til nýtt félagatal á aðalfundi eftir þörfum.
4. grein
Tilgangur Samtaka íþróttafréttamanna er:
I. Að vinna að aukinni samvinnu félagsmanna. Fundir eru trúnaðarmál.
II. Að vinna að bættri aðstöðu félagsmanna við störf þeirra og gæta hagsmuna þeirra í hvívetna.
III. Að tryggja félagsmönnum og aðstoðarmönnum þeirra greiðan aðgang að íþróttamótum og kappleikjum.
IV. Að vinna að aukinni útbreiðslu íþrótta.
V. Að stuðla að aukinni menntun og hæfni félagsmanna. Að aðstoða félagsmenn sem vilja auka kunnáttu sína, innanlands sem erlendis.
VI. Að gæta hagsmuna félagsmanna hjá Alþjóðasambandi íþróttafréttamanna (AIPS) og hjá Evrópusambandi íþróttafréttamanna (UEPS).
VII. Að standa vörð um hagsmuni stéttarinnar gagnvart vinnuveitendum, löggjafarvaldi og stjórnvöldum.
5. grein
Siðareglur SÍ eru þær sömu og siðareglur Blaðamannafélags Íslands. Fundur félagsmanna getur samþykt með 2/3 hlutum atkvæða að víta félagsmann sem brýtur siðareglur, og einnig getur fundur samþykkt á sama hátt að vísa félagsmanni úr SÍ. Stjórn SÍ er heimilt að vísa máli til siðanefndar BÍ, berist ábending eða beiðni til hennar, um að félagi SÍ hafi gerst brotlegur við siðareglur.
6. grein
Stjórn SÍ skipa fimm menn, þar af tveir varamenn, og fer hún með æðsta vald samtakanna. Formaður er kosinn fyrst annað hvert ár til tveggja ára í senn, en aðrir stjórnarmenn til eins árs í senn og skipta þeir með sér verkum. Varamenn eru kosnir til eins árs í senn. Einnig skal kjósa tvo endurskoðendur. Hætti stjórnarmaður störfum á starfsárinu, skal fyrsti varamaður taka sæti hans í stjórninni, en nýr varamaður skal kosinn á næsta félagsfundi.
Óski félagsmenn eftir skriflegri atkvæðagreiðslu á fundi skal orðið við þeirri ósk.
7. grein
Aðalfund SÍ skal halda í síðasta lagi í maí ár hvert. Reikningsár er almanaksárið.
Dagskrá aðalfundar er þannig:
I. Inntaka nýrra félaga og endurnýjun aðilda aukafélaga.
II. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
III. Skýrsla stjórnar og reikningar lagðir fram.
IV. Lagabreytingar.
V. Stjórnarkosning.
VI. Árgjald félagsmanna.
VII. Önnur mál.
VIII. Fundargerð lesin upp, fundarslit.
Til aðalfundar skal boðað með minnst viku fyrirvara á heimasíðu SÍ. Aðafundur er löglegur sé löglega til hans boðað.
8. grein
Lagabreytingar öðlast því aðeins gildi að þær séu samþykktar af 2/3 hlutum atkvæða á aðalfundi.
Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist félögum SÍ tveimur dögum fyrir aðalfund.
9. grein
Samtökin velja árlega íþróttamann ársins. Skal það gert samkvæmt sérstakri reglugerð sem samþykkt er á aðalfundi.
10. grein
Stjórn SÍ er heimilt að útvega blaðaljósmyndurum, og aukafélögum, skírteini vegna starfa þeirra innanlands eða erlendis eftir óskum forsvarsmanna íþróttadeildar viðkomandi fjölmiðils.
11. grein
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Samþykkt á aðalfundi 7. maí 2022.
Reglugerð um kjör íþróttamanns ársins
1. grein
Samtök íþróttafréttamanna (SÍ) kjósa ár hvert íþróttamann ársins, lið ársins og þjálfara ársins sem skarað hafa framúr. Hljóta þau titilana ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS, LIÐ ÁRSINS og ÞJÁLFARI ÁRSINS.
2. grein
Við val á íþróttamanni ársins skulu atkvæðisbærir félagar innan SÍ taka tillit til árangurs á árinu sem kjörið á við um. Einnig skal tillit tekið til reglusemi og ástundunar, prúðmennsku og framfara.
3. grein
Kjörið fer fram í desembermánuði ár hvert, atkvæðisrétt hafa meðlimir í Samtökum íþróttafréttamanna samkvæmt lögum félagsins.
4. grein
Kosningin fer þannig fram að félagar SÍ fá þar til gerðan atkvæðaseðil. Á hann rita þeir nöfn tíu bestu íþróttamanna ársins að sínu mati. Sá sem settur er í fyrsta sætið hlýtur 20 stig. Sá sem settur er í annað sæti hlýtur 15 stig. Sá sem settur er í þriðja sæti hlýtur 10 stig. Sá sem settur er í fjórða sæti hlýtur 7 stig, sá í fimmta 6 og þannig koll af kolli. Verði tveir eða fleiri íþróttamenn jafnir að stigum í efsta sæti verður sá íþróttamaður ársins sem oftast hefur verið settur í fyrsta sæti. Verði enn jafnt skal talið hvor er oftar í 1. og 2. sæti. Ef enn er jafnt er talið hvor er oftar í 1. 2. og 3. sæti og svo framvegis niður listann þar til niðurstaða fæst. Ef þetta dugar ekki skal almennur félagsfundur ákveða hver verður íþróttamaður ársins. Aðeins íslenskir íþróttamenn, þjálfarar og lið sem tilheyra íþrótt sérsambands innan ÍSÍ koma til greina í kjörinu. Ef íþróttamaður utan ÍSÍ er það atkvæði ógilt og nafn viðkomandi strokað út.
5. grein
Kosning á liði og þjálfara ársins lýtur sömu reglum og í 4. grein, nema að nú ritar félagar nöfn þriggja bestu liða og þjálfara ársins á atkvæðisseðilinn. Efsta sætið hlýtur 5 stig. Annað sætið hlýtur 3 stig. Þriðja sætið hlýtur 1 stig.
6. grein
Atkvæðaseðlum skal skila í lokuðu umslagi til stjórnar eða rafrænt ákveði stjórn SÍ að hafa kjörið rafrænt. Atkvæðisseðlar eru merktir með nafni félagsmanns. Atkvæðisseðlar eru aðgengilegir félögum eftir kjör íþróttamanns ársins ef félagsmenn óska þess, fram að næsta aðalfundi en eftir hann skal atkvæðaseðlunum fargað. Stjórn SÍ skal telja atkvæðin við fyrstu hentugleika. Niðurstöðu talningar skal haldið leyndri fram að hófi. Hóf þar sem úrslitin eru tilkynnt skal síðan haldið á milli jóla og nýárs, eða sem fyrst eftir áramót. Í hófið skulu auk annarra vera boðnir tíu efstu íþróttamenn á listanum yfir íþróttamann ársins.
7. grein
Séu verðlaunahafar ekki viðstaddir hljóta þau verðlaun sín við fyrsta hentuga tækifæri.
8. grein
Stjórn SÍ ákveður að öðru leyti hvernig framkvæmdinni er háttað, og sker úr um vafaatriði sem upp kunna að koma.
Samþykkt á aðalfundi 7. júní 2022.