Íþróttafréttamenn á Norðurlöndum héldu sitt fyrsta þing í Lier, nálægt Drammen, í Noregi 1954. Strax árið eftir var næsta þing haldið í Sönderborg í Danmörku og 1956 var komið að Svíþjóð að bjóða heim til Lökkeberg, sem er nálægt Gautaborg. Finnar voru næstir að halda Norðurlandaþing, það gerðu þeir 1957 í Lepolampi og næsta ár á eftir var komið að Norðmönnum upp á nýtt.
Eins og sést á þessu var Norðurlandaþingið haldið árlega til að byrja með og án þátttöku Íslendinga. Ólympíuárið 1960 féll Norðurlandaþingið niður en síðan tóku þjóðirnar upp þráðinn aftur og héldu þing 1961-1964. Eftir það var lítil regla á þingunum og þau féllu niður frá 1965 til 1970. Aftur var þráðurinn tekinn upp 1971 en þegar þingið var haldið í Finnlandi 1973, nánar tiltekið í Helsingfors og Tammerfors, var ákveðið að þingið yrði haldið annað hvert ár. Þetta sama ár komu Íslendingar af krafti inn í Norðurlandasamstarfið og 1975 var þingið haldið í fyrsta skipti á Íslandi. Ísland hefur haldið þingið þrisvar eftir það; 1985, 1995 og 2005, eða alls fjórum sinnum.
Allar götur síðan 1973 hefur Norðurlandaþingið verið haldið annað hvert ár og löndin fimm skipt því hlutverki á sig að vera gestgjafi þannig að hver þjóð heldur þingið á 10 ára fresti.
Árið 1997, þegar þingið var haldið í Visby í Svíþjóð, buðu gestgjafarnir baltnesku löndunum Eistlandi, Lettlandi og Litháen, að vera með sem gestir. Eistland hefur verið með allar götur síðan þá en Lettland og Litháen heltust úr lestinni, líklega vegna þess að Norðurlandaþing íþróttafréttamanna fer fram á Norðurlandatungumálunum, þ.e. sænsku, dönsku og norsku en Finnar og Íslendingar þurfa að tjá sig á einhverju þessara tungumála, sem þeir fara auðvitað létt með. Eistar hafa verið duglegir að mæta og buðu að halda Norðurlandaþingið í Eistlandi 2009, sem var samþykkt á síðasta þingi í Svíþjóð 2007.
Íþróttafréttamenn á Norðurlöndunum hafa ekki stofnað sérstök samtök utan um þessi þing heldur hittast íþróttafréttamenn og bera saman bækur sínar, eiga góðar stundir, hlýða á góða fyrirlestra osfrv. Samstarfið hefur ávallt verið til mikillar fyrirmyndar. Vegna alþjóðavæðingarinnar er mikilvægt að halda í gamlar hefðir og eru Norðurlandaþingin hluti af gömlu samstarfi Norðurlandaþjóðanna en eftir því hefur verið tekið t.d. á AIPS þingum (Alþjóðasamtökum íþróttafréttamanna) hversu mikill samhljómur er á milli Norðurlandaþjóðanna sem koma fram sem ein órjúfa heild.
Þorsteinn Gunnarsson