1956, 1957, 1958, 1960, 1961 | Vilhjálmur Einarsson

Texti: Hallgrímur Indriðason, úr bókinni Hetjurnar okkar

Vilhjálmur Einarsson hefur oftast orðið íþróttamaður ársins, eða fimm sinnum. Afrekið sem hann vann árið 1956 þegar hann hlaut silfurverðlaun í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne (og átti meira að segja Ólympíumet í rúman klukkutíma) er enn eitt stærsta afrek sem íslenskur íþróttamaður hefur unnið.

Vilhjálmur Einarsson fæddist 5. júní 1934 að Hafranesi við Reyðarfjörð. Það var snemma ljóst að áhugi Vilhjálms lá á íþróttasviðinu. Áhuginn er rakinn til frænda hans sem voru fræknir íþróttamenn á Austurlandi þegar hann var að alast upp. Þá var stór hátíð þegar Austurlandsmótið í frjálsum íþróttum fór fram. Fjölskylda Vilhjálms bjó í íþróttamiðstöð Austurlands, sem þá var Alþýðuskólinn á Eiðum, í eitt og hálft ár. Þar lærði hann að synda og það var fyrsta íþróttagreinin þar sem hann vakti einhverja athygli. Þá var Vilhjálmur átta ára gamall og þótti líkari sel en drenghnokka þar sem hann kafaði meira en hann synti á yfirborðinu og lék alls konar hundakúnstir í litlu sundlauginni á Eiðum.

Vilhjálmur fór þó snemma að stunda fremur frjálsar íþróttir en sund. Vaxtarlag hans þótti samt ekki benda til þess að hann yrði stökkvari heldur þótti hann líklegri til að ná árangri í kastgreinum. Frændur hans voru mjög liðtækir kastarar, m.a. Tómas og Þorvarður Árnasynir sem voru Austurlandsmeistarar í kúluvarpi, kringlukasti og spjótkasti. Þetta voru hetjur Vilhjálms í bernsku.

Íþróttalífið á Austurlandi var afar öflugt á þessum árum. Menn fjölmenntu úr öllum hornum fjórðungsins á mót en á þessum tíma gat fólk á Austurlandi farið að koma saman langt að. Austfirðingar voru á þessum árum að losna úr álögum fjallanna og þeirra samgönguerfiðleika sem fólk hafði búið við öldum saman. Keppnishald og æfingar fór þó fram við afar frumstæð skilyrði. Menn útbjuggu aðstöðu sjálfir sína, m.a. gryfjur til að stökkva í, og aðeins var hægt að fá þjálfara í 2–3 daga á ári. En menn lögðu á sig að ferðast um langan veg til að koma saman og keppa og keppnisgleðin var í fyrirrúmi. Þá var alltaf mikill fjöldi áhorfenda sem fylgdist með og almennur áhugi fyrir keppnunum var mikill.

Vilhjálmur fór að keppa í stökkum með ágætum árangri en það var hins vegar tilviljun sem réði því að hann ákvað að einbeita sér að þrístökkinu. Það ákvað hann að gera í kjölfar landsmótsins á Eiðum 1952. Þá vildi þannig til að Vilhjálmur kom of seint til leiks og gat ekki tekið þátt í hástökkinu sem var fyrsta greinin sem hann var skráður í. Þrístökkið var næst á dagskránni og þar setti hann drengjamet og stökk miklu lengra en hann hafði nokkurn tíma gert. Það var að sínu leyti svipað og gerðist á Ólympíuleikunum fjórum árum seinna. Þá opinberaðist það fyrir Vilhjálmi að þó að hann gæti stokkið langt í langstökki og kannski 1,75 m í hástökki þá var það ekki árangur á borð við þann sem hann gæti náð í þrístökkinu. Þar var teningnum kastað um að þrístökk væri eitthvað sem hentaði honum betur en aðrar greinar.

Vilhjálmur fór eins og svo margir Austfirðingar í Menntaskólann á Akureyri að loknu gagnfræðaprófi. Hann var áberandi í íþróttalífinu þar og varð m.a. formaður íþróttafélagsins. Að loknu stúdentsprófi fékk Vilhjálmur svo styrk til náms í Bandaríkjunum þar sem hann hugðist læra til arkitekts. Sá styrkur var reyndar alveg óháður íþróttum og segist Vilhjálmur lítið hafa vitað um íþróttaiðkanir í bandarískum háskólum enda höfðu engir íslenskir íþróttamenn eða stúdentar farið þangað þeirra erinda að æfa íþróttir. Þarna var hins vegar ágætis frjálsíþróttalið og Vilhjálmur fór strax að æfa með því. Gallinn var bara sá að þar var ekkert þrístökk í boði, það var ekki meðal keppnisgreina bandarískra háskóla á þeim árum. En Vilhjálmur fékk þarna mikla og góða grundvallarþjálfun og gat stundað frjálsar íþróttir, langstökk, hástökk og kúluvarp. Hann var í háskólaliðinu í öllum þessum greinum og gat stundað þarna æfingar allan veturinn í gríðarstórri innanhússíþróttahöll.

Út úr þessu kom Vilhjálmur heim vorið 1956 með þessa þjálfun en enga sérstaka þrístökksþjálfun. Hann hafði þá litið á þrístökk sem sína álitlegustu grein í fjögur ár og keppt í þrístökki hér á sumrin. Sumarið 1956 ákvað Vilhjálmur að einbeita sér að þrístökkinu alveg sérstaklega með það að markmiði að taka þátt í Ólympíuleikunum. Án þessarar forsögu hefði hann ekki náð árangrinum í Melbourne.

Fljótlega eftir að Vilhjálmur kom heim frá Bandaríkjunum kynntist hann eiginkonu sinni, Gerði Unndórsdóttur. Hann var þá 22 ára en hún aðeins 15 ára og bar kynni þeirra að með sérstökum hætti. Gerður vann þá á Dairy Queen ísbar á Hjarðarhaganum en frændi Vilhjálms, Þorvarður Árnason, hafði ráðið hana til vinnu. Einn daginn kom Vilhjálmur inn úr dyrunum og pantaði ís með ananasbragði eins og hann hefði smakkað í Bandaríkjunum. Gerði fannst hann fullmontinn og blikkaði hann. Þá fór hann úr frakkanum, setti ísinn niður og æddi inn fyrir borðið. Gerði varð svo mikið um að hún hljóp niður í kjallara og var þar nokkra stund að jafna sig. Þegar Gerður kom upp var Vilhjálmur kominn í hvítan slopp og farinn að vinna! Kynni þeirra þróuðust það hratt að þau voru trúlofuð eftir hálfan mánuð.

En þetta ár, 1956, markaði ekki aðeins tímamót í einkalífi Vilhjálms heldur einnig í íþróttaiðkuninni. Ólympíunefnd Íslands kostaði þá æfingar íslenskra íþróttamanna erlendis í fyrsta sinn og fóru Vilhjálmur og Hilmar Þorbjörnsson til Busön í Svíþjóð. ÍR, félagið sem Vilhjálmur æfði með, hafði góð sambönd í Svíþjóð og formaður félagsins, Jakob Hafstein, vissi um aðstöðuna

þar. Vilhjálmur var því vel kunnugur forystumönnum frjálsra íþrótta í Svíþjóð og kom því til leiðar að Ólympíunefndin fékk æfingaaðstöðu fyrir þá félaga með bestu Svíunum. Þar fékk Vilhjálmur aðstoð Gösta Holmiers sem þá var mjög virtur og viðurkenndur frjálsíþróttaþjálfari á heimsmælikvarða og var undir handleiðslu hans síðustu vikurnar fyrir sjálfa leikana.

Vilhjálmur setti 6. október 1956 Norðurlandamet í þrístökki í Karlstad í Svíþjóð, stökk 15,83 m og bætti eigin árangur um hálfan metra. Þá lá enn ekki fyrir hvort Vilhjálmur kæmist á Ólympíuleikana í Melbourne. Ólympíunefndin hafði aðeins efni á að senda tvo keppendur og einn fararstjóra og fyrir lá að Hilmar Þorbjörnsson yrði annar keppandinn. Valið um hitt keppnissætið stóð á milli Vilhjálms og Valbjörns Þorlákssonar og þetta Norðurlandamet réði úrslitum um að Vilhjálmur var tekinn fram yfir Valbjörn. Hann dvaldi síðan við æfingar hjá Gösta Holmier síðustu vikurnar fyrir leikana.

Flugið til Melbourne var langt og kostnaðarsamt og flugferðin tók þá um 40 klukkutíma hvora leið. Flogið var frá NorðurSvíþjóð yfir Norðurpólinn til Alaska og tók sú flugferð 11 tíma. Þar var tekið eldsneyti og síðan flogið til Hawaii, sem var álíka langt flug. Þar hvíldust ferðalangarnir í 2–3 daga og síðan var flogið í aðra 11 tíma til Fijieyja þar sem tekið var eldsneyti og þaðan var flogið til Melbourne. Ferðalagið var því bæði langt, strangt og erfitt.

Í Melbourne voru aðstæðurnar hins vegar hagstæðar íslensku keppendunum að því leyti að þar var kuldakast. Það var um 10 stigum kaldara en menn reiknuðu með og eðlilegt átti að vera á þessum árstíma. Þetta þýddi 12–20 stiga hita þegar heitast var á daginn sem hentaði Íslendingunum vel en hafði hins vegar slæm áhrif á þá sem voru vanir hlýju loftslagi. Þeir áttu erfiðara með að athafna sig á æfingum.

Fyrirfram voru ekki gerðar miklar væntingar til Vilhjálms um árangur. En þeirri litlu pressu, sem var á honum, var af honum létt eftir að hann hafði komist upp úr forkeppni í þrístökkinu. Forkeppnin var að morgni dags og aðalkeppnin eftir hádegið og Ólafur Sveinsson fararstjóri hafði útvegað keppendunum íbúð þar sem Vilhjálmur gat hvílst á milli. Eftir forkeppnina sagði Ólafur ánægður: „Jæja, Villi minn, nú er búið að bjarga þessari ferð. Þú ert kominn í aðalkeppnina og við Íslendingar höfum alltaf verið að baksa við það að komast í aðalkeppni.“ Þá var Vilhjálmi létt og nú hugsaði hann að öll viðbót væri bara plús. Þetta var töluvert önnur upplifun en á Ólympíuleikunum í Róm 1960.

Vilhjálmur náði stökkinu fræga, 16,26 m, í annarri tilraun í úrslitakeppninni eftir að hafa gert fyrsta stökkið ógilt. Með þessu stökki setti hann nýtt Ólympíumet sem stóð í rúman klukkutíma en þá tókst Brasilíumanninum da Silva að skáka honum og tryggja sér sigurinn með stökki upp á 16,34 m í fjórðu umferð. Vilhjálmur meiddist í fjórða stökki sínu og því fór minna fyrir afrekum eftir það.

Vilhjálmi var fagnað sem þjóðhetju þegar hann kom til Íslands, meira að segja svo mikið að honum sjálfum þótti nóg um. Honum hafði sjálfum fundist þetta það létt verk, þegar allt gekk upp, að honum fannst ekki mikið til um það. En honum leið ekki vel með þetta fár enda er hann feiminn að eðlisfari og kann ekkert sérstaklega við sig í sviðsljósinu. Það var frekar að honum fyndist hann vera skuldbundinn að hafa hlotnast þessi heiður að hafa látið gott af sér leiða, en ekki hitt að hann nyti þess beinlínis.

Vilhjálmur var kjörinn íþróttamaður ársins 1956 í fyrsta sinn sem það kjör fór fram, enda kom enginn annar til greina. Þessi viðurkenning féll þó í skuggann af slæmum hliðum á þessari skyndilegu frægð. Árið 1957 var m.a. barist fyrir því að hann yrði dæmdur í keppnisbann. Þá kepptust mótsaðilar í Evrópu við að bjóða íþróttamönnum frá Íslandi, með einu litlu skilyrði, að með í hópnum væri Vilhjálmur Einarsson. Þannig var komið boð frá Finnlandi, þangað sem átti að senda þrjá íþróttamenn og fararstjóra, og hann átti að vera með í hópnum. Síðan gerist það að á sama tíma er stærsti íþróttaviðburður í heiminum á sviði frjálsra íþrótta, heimsleikar í Moskvu. Þangað stefndi ÍR sínu liði, og þar á meðal Vilhjálmi, í eina glæsilegustu íþróttaferð erlendis sem nokkurt íþróttafélag hefur farið í hvað frjálsar íþróttir snertir. Þarna stóð frjálsíþróttakeppnin í sjö daga. Vilhjálmur hefði getað mætt til Finnlands nema ef þrístökkskeppnin yrði síðasta dag keppninnar. Þegar komið var til Moskvu kom í ljós að sú var raunin, og það átti að vera hápunktur keppninnar á þessum stóru leikum vegna þess að þar hafði Rússum tekist að ná öllum þrístökkvurum heimsins á einn stað. Vilhjálmur hringdi heim til Íslands, náði sambandi við einn stjórnarmann Frjálsíþróttasambandsins og sagðist því miður verða að vera forfallaður í Finnlandi. Hans orð voru að hann gæti hvorki leyft Vilhjálmi það eða bannað.

Síðan komu á kreik sögusagnir um að Vilhjálmur væri búinn að eyðileggja íþróttasamskipti Íslendinga og Finna um aldur og ævi og að ekkert annað en keppnisbann blasi við svona afbrota

manni. Til að sljákkaði í þessum röddum hafði Vilhjálmur af eigin rammleik samband við mótsaðilann í Finnlandi og mætti hjá þeim á mót um haustið. Þá var ekki lengur hægt að halda þessu til streitu. Vilhjálmur hélt sigurgöngu sinni áfram bæði hér heima og erlendis og var aftur kjörinn íþróttamaður ársins fyrir 1957.

Árið 1958 bar tvennt hæst á íþróttaferli Vilhjálms. Fyrst fór fram einvígi milli Vilhjálms og da Silva sem hafði sigraði hann í þrístökkskeppninni í Melbourne. Þetta einvígi fór fram í Sundsvall í Svíþjóð. Síðan keppti Vilhjálmur á Evrópumeistaramótinu í Stokkhólmi og hlaut þar bronsverðlaun með stökki upp á 16 metra slétta. Þetta dugði honum til að fá sæmdarheitið þróttamaður ársins í þriðja sinn.

Það fór hins vegar lítið fyrir keppni hjá Vilhjálmi 1959, í það minnsta á erlendri grundu. Hann sýslaði hins vegar í ýmsu öðru, reyndi að gefa út barnabækur þennan vetur og var ritstjóri íþróttasíðu Tímans í forföllum Halls Símonarsonar í sex vikur. Illa gekk að ná endum saman og meðal annars þurftu Vilhjálmur og Gerður að selja bílinn sinn upp í húsaleiguna þegar þau fluttu til Reykjavíkur. En þetta ár byrjaði ungverski þjálfarinn Gabor að þjálfa Vilhjálm og hann gerði breytingar á hlaupastílnum sem ekki voru allir sáttir við. En þær breytingar áttu sannarlega eftir að skila sér.

Árið 1960 var svo komið að öðrum Ólympíuleikum, að þessu sinni í Róm, og undirbjó Vilhjálmur sig vel fyrir þá leika. Hann náði lágmarki fyrir leikana 1. júní, sama dag og Einar sonur hans fæddist. Og þann 7. ágúst jafnaði hann gildandi heimsmet í greininni með því að stökkva 16,70 m á Laugardalsvellinum. Þetta stökk er enn í dag Íslandsmet. Þetta gerði það að verkum að miklar kröfur voru gerðar til Vilhjálms og meðal annars var skrifað í Morgunblaðið tveimur dögum eftir afrekið: „Eitt er víst að Vilhjálmur á eins mikla möguleika á gullinu í Róm og hver annar af bestu þrístökkvurum heims.“

Flestir eru á því að sú heppni sem var með Vilhjálmi í Melbourne hafi gengið í lið með einhverjum öðrum í Róm. Fyrir það fyrsta þá var hitabylgja í Róm á þessum tíma þannig að aðstæðurnar voru ekki alveg hagstæðar Íslendingnum Vilhjálmi. Í annan stað lenti Vilhjálmur illa í slæmu fyrirkomulagi þar sem keppendum var skipt í þrjá hópa en þurftu samt sem áður að ljúka keppninni sama dag, þannig að hóparnir fengu mislanga hvíld og sátu ekki við sama borð. Vilhjálmur var í öðrum hópnum.

Og ekki var allt búið enn. Til að komast í aðalkeppnina varð að stökkva 15,50 cm og allt miðaði þetta að því að taka ekki of mikið á til að eiga sem mesta orku eftir í úrslitakeppnina. Vilhjálmur sparaði sig hins vegar aðeins of mikið og stökk 15,49 cm og varð því að bíða, taka annað stökk og taka svolítið á. Honum tókst þó að stökkva 15,70 í annarri tilraun og komast þar með í lokakeppnina. Þetta reyndist hins vegar dýrt því að þetta kostaði orku og stytti tímann fram að aðalkeppninni.

Í henni tók svo ekki betra við að sögn Vilhjálms. Næstur á undan honum var rússneskur stökkvari sem tók allt upp í 15 mínútur að koma sér að því að stökkva. Allur völlurinn var farinn að baula á hann en hann lét það sem vind um eyrun þjóta. Það voru tveir Rússar í keppninni og þeir hjálpuðust að. Þeir voru með þurrt, fínkurlað gras í fórum sínum og fylgdust með hvernig það bærðist undan vindinum til að bíða eftir að vindurinn, sem sló fram og til baka, blési í hagstæða átt. Svo hljóp Rússinn af stað en stoppaði í miðri atrennu og stillti sér upp aftur. Þrátt fyrir allt þetta mótlæti náði Vilhjálmur næstbestu keppni ævi sinnar og vantaði aðeins 8 cm til að ná bronsinu. Það var nóg til þess að hann var kjörinn íþróttamaður ársins í fjórða sinn fyrir árið 1960.

Árið 1961 var Vilhjálmur kjörinn íþróttamaður ársins í fimmta sinn, en ekki fyrir þrístökk, heldur mest fyrir það að setja heimsmet í hástökki án atrennu. Hann var þá orðinn kennari á Bifröst og þar voru mikið stunduð stökk án atrennu því að þar var enginn íþróttasalur og stökkin stunduð á skólagöngunum. Vilhjálmur stökk þar 1,75 m. Þennan vetur var boðið hingað norskum heimsmeistara og haldið eitt fjölmennasta frjálsíþróttamót innanhúss sem haldið hefur verið í bragganum á Hálogalandi, sem þá var eina íþróttahús landsins þar sem einhverjir áhorfendur komust fyrir. Það var John Christian Evant sem var sérstaklega boðið að keppa við Vilhjálm og Jón Þ. Ólafsson sem átti þá heimsmet unglinga. Þetta fór svo þannig að Vilhjálmur tapaði fyrir Norðmanninum bæði í hástökki, langstökki og þrístökki án atrennu.

Árið 1962 tók Vilhjálmur þá ákvörðun að hætta keppni. Það var orðinn þungur róður að vera kennari úti á landi, fjölskyldufaðir og fjölskyldan að stækka, komnir þrír synir. Hann gat ekki séð hvernig hægt væri að sameina þetta. Kröfurnar voru að maður væri í allra fremstu röð en aðstæðurnar voru engan veginn þannig að það væri hægt. Það var eiginlega sjálfgert að hætta eftir Evrópumeistaramótið í Belgrad 1962 þar sem Vilhjálmur náði fimmta sæti.

Engum blöðum er um það að fletta að Vilhjálmur er einn besti íþróttamaður sem Ísland hefur átt og þó að ýmsir hafi náð frábærum árangri hefur trúlega enginn náð jafnlangt á alþjóðavettvangi og hann. Silfurverðlaunin á Ólympíuleikunum nægja til að setja hann í flokk íslenskra goðsagna á íþróttasviðinu og víst er að margir hafa litið á hann sem fyrirmynd.

Árangur Vilhjálms 1956

20. júlí: Vilhjálmur sigrar í þrístökki í landskeppni Íslendinga og Dana, stekkur 14,31 m.

23. júlí: Vilhjálmur sigrar í þrístökki (14,49 m) og langstökki (6,94 m) í landskeppni Íslendinga og Hollendinga.

29. júlí: Vilhjálmur stekkur 14,05 m í þrístökki á móti í Þýskalandi og sigrar.

29. ágúst: Vilhjálmur verður Reykjavíkurmeistari í langstökki á Meistaramóti Reykjavíkurí frjálsum íþróttum á Melavellinum, stekkur 7,06 m.

16. sept.: Vilhjálmur hafnar í fjórða sæti í þrístökki á alþjóðlegu móti í Búkarest, stekkur 15,32 m sem er nýtt Íslandsmet.

6. okt.: Vilhjálmur setur Íslands og Norðurlandamet í þrístökki á móti í Karlstad í Svíþjóð, stekkur 15,83 m. Þetta er sjötti besti árangurí heiminum í greininni á árinu og sá 11. besti frá upphafi. Hann var rúman metra á undan næsta manni.

27. nóv.: Vilhjálmur vinnur silfurverðlaun í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu. Hann stekkur 16,26 m í annarri umferð úrslitakeppninnar og setur þar nýtt Ólympíumet, en Brasilíumaðurinn da Silva nær svo að stökkva lengra í fjórðu umferð. Þetta er í fyrsta sinn sem Íslendingur kemst á verðlaunapall á Ólympíuleikunum.

Árangur Vilhjálms 1957

27. janúar: Vilhjálmur setur nýtt Íslandsmet í langstökki án atrennu, 3,26 m.

10. febrúar: Vilhjálmur setur nýtt Íslandsmet í hástökki án atrennu á innanfélagsmóti ÍR, stekkur 1,58 m.

10. mars: Vilhjálmur bætir aftur Íslandsmetið í hástökki án atrennu þegar hann stekkur 1,65 m á frjálsíþróttamóti ÍR.

24. mars: Vilhjálmur setur nýtt Íslandsmet í langstökki án atrennu á Íslandsmóti frjálsíþróttamanna innanhúss í íþróttahúsi Háskólans, stekkur 3,30 m.

31. maí: Vilhjálmur stekkur 7,10 m í langstökki á EÓP-mótinu.

9. júní: Vilhjálmur sigrar í þrístökki á boðsmóti í Varsjá í Póllandi, stekkur 15,87 m.

17. júní: Vilhjálmur stekkur 15,55 metra í þrístökki á 17. júní-mótinu í frjálsum íþróttum á Melavellinum og bætir vallarmetið um 36 cm. Það er valið besta afrek mótsins.

21. júní: Vilhjálmur sigrar í þrístökki á Stjörnumóti ÍR á Melavellinum. Hann stekkur 15,92 metra og vinnur þar með rússneska stökkvarann Kreer í miklu einvígi. Þetta er þriðji besti árangurinn í heiminum á árinu.

1. júlí: Vilhjálmur sigrar í langstökki í landskeppni Íslendinga og Dana í frjálsum íþróttum á nýju Íslandsmeti, 7,46 m. Hann bætir þar með met Torfa Bryngeirssonar um 14 cm.

2. júlí: Vilhjálmur sigrar í þrístökki í sömu keppni þrátt fyrir að keppa meiddur. Hann stekkur 14,89 m. Ísland vinnur landskeppnina 116-95 og er því slegið upp sem glæsilegasta sigri sem Ísland hefur unnið í frjálsum íþróttum.

25. júlí: Vilhjálmur sigrar í langstökki á móti í Tuneberg í Svíþjóð, stekkur 6,91 m.

15. september: Vilhjálmur sigrar í þrístökki á sterku frjálsíþróttamóti í Búkarest í Rúmeníu, stekkur 15,39 m.

8. október: Vilhjálmur sigrar í þrístökki í keppni Norðurlandanna og Balkanlandanna í frjálsum íþróttum, sem fram fer í Aþenu. Hann stekkur 15,95 m.

Árangur Vilhjálms 1958

9. mars: Vilhjálmur setur Íslandsmet í þrístökki án atrennu á innanfélagsmóti ÍR, stekkur 10,03 m.

22.–23. mars: Vilhjálmur sigrar í þremur greinum á meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum innanhúss. Þetta voru langstökk án atrennu (3,20 m), hástökk án atrennu (1,61 m) og þrístökk án átrennu (9,81 m).

17. júní: Vilhjálmur stekkur 15,45 m í þrístökki á 17. júní-mótinu á Melavellinum.

11. júlí: Vilhjálmur stekkur 15,42 m í einvígi hans og Ólympíumeistarans da Silva á Laugardalsvellinum. Da Silva stekkur 20 cm lengra og sigrar.

17. júlí: Vilhjálmur kemur fram hefndum og sigrarí seinna einvíginu við da Silva. Vilhjálmur stekkur 15,84 m en da Silva 15,64 m. Þetta er fyrsta þrístökkskeppnin sem da Silva tapaði í sjö ár.

24. ágúst: Vilhjálmur hlýtur bronsverðlaun í þrístökki á Evrópumótinu í frjálsum íþróttum í Stokkhólmi, stekkur 16 metra slétta.

Árangur Vilhjálms 1960

17. júní: Vilhjálmur stekkur 15,44 m í þrístökki á 17. júní-mótinu í frjálsum íþróttum. Það er valið besta afrek mótsins.

13.-14. júlí: Vilhjálmur sigrar í langstökki (7,25 m) og þrístökki (15,10 m) á meistaramóti Reykjavíkur í frjálsum íþróttum.

27. júlí: Vilhjálmur stekkur 16,10 m í þrístökki á frjálsíþróttamóti í Ósló.

7. ágúst: Vilhjálmur jafnar gildandi heimsmet í þrístökki á meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum, stekkur 16,70 metra. Þetta er enn í dag Íslandsmet í greininni. Josef Schmidt hafði tveimur dögum áður stokkið 17,03 metra en það met hafði ekki fengið formlega staðfestingu þá.

16. ágúst: Vilhjálmur stekkur 16,41 m á Ólympíumótinu í Laugardal. Það mót var endapunkturinn á sérstökum Ólympíudegi.

6. september: Vilhjálmur hafnarí fimmta sæti í þrístökki á Ólympíuleikunum í Róm, stekkur 16,37 m.

11. september: Vilhjálmur sigrar í þrístökki (15,38 m) og verður annar í langstökki (7,02 m) í landskeppni milli Íslendinga og B-liðs Austur-Þýskalands sem fram fer þar í landi.

Árangur Vilhjálms 1961

17. júní: Vilhjálmur stekkur 15,67 m á 17. júní-mótinu í frjálsum íþróttum. Það er valið besta afrek mótsins.

5. júlí: Vilhjálmur er þriðji í þrístökki á heimsleikunum í Helsingfors í Finnlandi, stekkur 15,57 m.

7. júlí: Vilhjálmur hafnar í þriðja sæti í langstökki á alþjóðlegu móti í Åbo í Finnlandi, stekkur 6,90 metra.

12. júlí: Vilhjálmur sigrar í langstökki í 6-liða keppni í frjálsum íþróttum á Bislett-leikvanginum í Osló, stekkur 7,29 m.

13. júlí: Vilhjálmur verður í öðru sæti í þrístökki á sama móti með 15,15 m og olli sá árangur vonbrigðum.

1. ágúst: Vilhjálmur verður annar í þrístökki á móti norrænna íþróttamanna á Bislett-leikvanginum, stekkur 15,34 m.

13. ágúst: Vilhjálmur sigrar með yfirburðum í þrístökki í landskeppni Íslendinga og B-liðs Austur-Þjóðverja sem fram fer hér á landi. Vilhjálmur stekkur 16,17 m.

1. nóvember: Vilhjálmur setur heimsmet í hástökki án atrennu þegarhann stekkur 1,75 m í ÍR-húsinu við Túngötu. Hann var þar með fyrsti Íslendingurinn til að setja heimsmet í íþróttum en þarna var Alþjóðafrjálsíþróttasambandið hætt að staðfesta met í atrennulausum stökkum.