1959 & 1965 | Valbjörn Þorláksson

Texti: Hallgrímur Indriðason, úr bókinni Hetjurnar okkar

Öðru hverju koma fram íþróttamenn sem eru náttúrubörn og virðast hafa fullkomið líkamlegt atgervi til að stunda íþróttir. Valbjörn Þorláksson var dæmi um slíkt, en hann náði meðal annars þeim árangri að verða landsliðsmaður í frálsum íþróttum í 22 ár.

Valbjörn er fæddur árið 1934 á Siglufirði og ólst þar upp fram að fermingaraldri. Hann byrjaði að stökkva stangarstökk þar með heimatilbúinni stöng í portinu heima hjá sér. Með þeim áhöldum tókst honum að stökkva tæpa þrjá metra. Hann fluttist til Keflavíkur 17 ára gamall og stundaði þar knattspyrnu. Hann hóf hins vegar formlega frjálsíþróttaiðkun sína þegar hann var nýorðinn Íslandsmeistari með 2. flokki Keflavíkur. Kallað var í hann og hann fenginn til að keppa í stangarstökki í bæjakeppni milli Selfoss og Keflavíkur árið 1952. Þar keppti hann við Kolbein Kristinsson sem þá var næstbesti stangarstökkvari landsins. Öllum að óvörum veitti Valbjörn Kolbeini harða keppni, stökk 3,35 m en Kolbeinn stökk 3,50 m.

Þessi árangur vakti mikla athygli en Valbjörn keppti þó lítið næstu tvö árin. Árið 1954 kynntist Valbjörn hins vegar Þorsteini Löve frjálsíþróttaþjálfara sem fékk hann til að flytjast til Reykjavíkur og æfa frjálsar íþróttir með KR. Þar æfði hann stangarstökk undir stjórn Benedikts Jakobssonar og tók mjög skjótum framförum í greininni.

Árið 1956 náði hann Ólympíulágmarkinu í stangarstökki fyrir Ólympíuleikana í Melbourne í Ástralíu. Þegar Valbjörn stökk 4,25 metra á vormóti ÍR var farið að ræða um hann sem líklegasta fulltrúa okkar á leikunum. Hann fékk hins vegar ekki að keppa á Ólympíuleikunum þar sem Ólympíunefndin hafði aðeins efni á að senda tvo keppendur, og var ákveðið að senda þá Hilmar Þorbjörnsson og Vilhjálm Einarsson, sem einnig höfðu náð þessum lágmörkum. Valbjörn var ekki sáttur við þetta. Hann hafði þá hæst stokkið 4,30 m en keppandinn, sem hafnaði í öðru sæti í stangarstökki á leikunum, stökk 4,40 m. Hann hefði því líklega átt ágæta möguleika á verðlaunasæti á þessum leikum.

Valbjörn hélt hins vegar áfram að taka framförum í stangarstökkinu. Árið 1957 tókst honum að slá Íslandsmet Torfa Bryngeirssonar í stangarstökki þegar hann stökk 4,37 m í aukakeppni eftir landskeppni Íslands og Danmerkur. Ári síðar setti hann svo nýtt Íslandsmet á Varsjárleikunum, stökk 4,42 m og sigraði þar með marga knáa frjálsíþróttamenn frá Austur-Evrópu.

Fyrra árið, sem Valbjörn var kjörinn íþróttamaður ársins, 1959, tókst honum að sigra á sterku frjálsíþróttamóti í Leipzig í Austur-Þýskalandi. Og enn og aftur setti hann Íslandsmet í greininni, stökk 4,45 m. Ferðalagið þangað var reyndar sögulegt því að Valbjörn og Þorsteinn Löve fóru á mótið beint frá Malmö, þar sem þeir höfðu keppt á öðru móti. Allt flug reyndist uppbókað þannig að þeir þurftu að taka bíl á leigu til að komast þangað. Þeir komu til borgarinnar nóttina fyrir keppnina og Valbjörn var því illa sofinn þegar hann keppti. En það kom ekki að sök.

Árið 1960 keppti Valbjörn svo í stangarstökki á Ólympíuleikunum í Róm en náði sér ekki á strik þar, stökk 4,20 m og hafnaði í 17. sæti. Árið eftir stökk hann hins vegar í fyrsta sinn 4,50 metra í stangarstökki.

Það var svo í upphafi sjöunda áratugarins sem fjölhæfni Valbjörns fór að koma í ljós og fór hann þá að ná góðum árangri í tugþraut á alþjóðavettvangi. Hann keppti í fyrsta sinn á alþjóðlegu móti í tugþraut árið 1960, en það var Norðurlandamótið í Stokkhólmi. Árið 1962 tókst honum að slá Íslandsmet Arnar Clausen í greininni og árið 1964 keppti hann á Ólympíuleikunum í Tókýó þar sem hann hafnaði í 12. sæti á nýju Íslandsmeti, 7.165 stigum. Valbjörn segir reyndar lítið hafa verið gert úr þeim árangri í fjölmiðlum, í það minnsta ólíkt minna en þegar Jón Arnar Magnússon náði sama sæti á Ólympíuleikunum í Atlanta árið 1996. Hann telur þó að hann hefði átt að ná betri árangri á leikunum. Hann var í 6. sæti fyrir 1.500 m hlaupið, sem var þá, eins og nú, síðasta grein þrautarinnar. Tími hans í því hlaupi var hins vegar slakur og hann hafnaði í 12. sæti í þrautinni. Valbjörn hefur látið hafa það eftir sér að hann geti engum um það kennt nema sjálfum sér. Hann hafi hreinlega ekki tekið keppnina nógu alvarlega. Þetta ár varð hann fyrsti Íslendingurinn til að ná meira en 7.000 stigum í tugþraut.

Árið 1965 varð Valbjörn Norðurlandameistari í tugþraut og fyrir það var hann valinn íþróttamaður ársins það ár. Næstu árin var hann í fremstu röð Íslendinga í stangarstökki og styttri hlaupagreinum en lét minna að sér kveða á alþjóðlegum mótum. Sem dæmi varð Valbjörn Íslandsmeistari í sjö einstaklingsgreinum á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum árið 1968. Hann keppti þó á Ólympíuleikunum í Mexíkó það sama ár en tókst ekki að ljúka tugþrautarkeppninni þar vegna meiðsla. Þá átti Valbjörn einnig Íslandsmet í langstökki innanhúss um skeið. Valbjörn var í fremstu röð í stangarstökki og tugþraut hér á landi langt fram yfir fertugt.

Margir eru á því að Valbjörn hafi verið náttúrubarn í íþróttum. Hann hafi hreinlega haft allt til að bera og hefði örugglega komist í allra fremstu röð í heiminum, bæði í tugþrautinni og stangarstökkinu, ef hann hefði æft eins og tíðkast að æfa í dag.

Valbjörn stökk alltaf á stálstöng en fíberstöngin var ekki komin til fyrr en undir lok ferils hans og hann náði aldrei almennilegum tökum á henni. Margir töldu hann reyndar hafa verið latan við æfingar en félagar hans eru ekki sammála því, þar sem hann hafði æft oft tímunum saman bæði á Melavellinum og svo á Laugardalsvellinum eftir að hann var byggður. Til marks um hversu langt hann náði átti hann Íslandsmetið í tugþraut í rúman áratug. Þá þótti hann einnig léttur og frískur og góður félagi. Hann var landsliðsmaður í frjálsum íþróttum í 22 ár og hefur enginn leikið það eftir.

Valbjörn keppti meðal þeirra bestu fram á fimmtugsaldurinn og var allan tímann í fremstu röð. Hann hefur unnið ófáa titlana í öldungamótunum, meðal annars fjölda heimsmeistaratitla. Á fyrsta heimsmeistaramóti öldunga, sem hann tók þátt í 1979, varð hann til að mynda þrefaldur heimsmeistari, í stangarstökki, fimmtarþraut og 110 m grindahlaupi. Þá hefur hann sett heimsmet öldunga í nokkrum greinum. Valbjörn keppti síðast á meistaramóti Íslands árið 1981, þá orðinn 47 ára gamall, en hann vann alls 85 Íslandsmeistaratitla á ferlinum.

Valbjörn starfaði lengi á Laugardalsvellinum og hafa því margir íþróttamenn umgengist hann í tengslum við æfingar á vellinum. Hann hætti störfum þar árið 2004.

Árangur Valbjörns 1959

4. apríl: Valbjörn sigrar í stangarstökki á innanhússmeistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum. Hann stekkur 3,80 m og setur Íslandsmet innanhúss. Valbjörn hafnar í fjórða sæti í langstökki án atrennu (3,09 m) og hástökki (1,70 m) á sama móti.

24. maí: Valbjörn sigrar í stangarstökki á vormóti ÍR, stekkur 4,25 m.

22. júní: Valbjörn sigrar í 100 m hlaupi (11,4 sek.) og 110 m grindahlaupi (16,7 sek.) á KR-mótinu á Melavellinum.

4. júlí: Valbjörn sigrar í stangarstökki í frjálsíþróttakeppni milli borganna Reykjavíkur og Malmö í Svíþjóð, stekkur 4,20 m.

16. júlí: Valbjörn stekkur 4,20 m á afmælismóti Ármanns og sigrar. Á góðar tilraunir við 4,35 m sem mistakast.

8.–9. ágúst: Valbjörn sigrarí spjótkasti (58,16 m), verður annar í 200 m hlaupi (23,3 sek.) og 100 m hlaupi (10,8 sek.) á Meistaramótinu í frjálsum íþróttum.

30. ágúst: Valbjörn setur nýtt Íslandsmet í stangarstökki á boðsmóti Frjálsíþróttasambands Austur-Þýskalands í Leipzig. Hann stekkur 4,45 metra, sigrar í stangarstökkkeppninni og bætir Íslandsmet sitt um þrjá cm.

8. september: Valbjörn sigrar í stangarstökki á alþjóðlegu frjálsíþróttamóti í Gautaborg í Svíþjóð, stekkur 4,40 m.

11. september: Valbjörn sigrar í stangarstökki á stóru frjálsíþróttamóti í Uddevalla í Svíþjóð, stekkur 4,25 m.

23. september: Valbjörn er í  10.–12. sæti á afrekaskrá Evrópu í stangarstökki með 4,45 m.

27. september: Valbjörn sigrar í stangarstökki á minningarmóti um Rudolf Harbig sem fram fer í Dresden í Austur-Þýskalandi, stekkur 4,40 m.

Árangur Valbjörns 1965

7. mars: Valbjörn sigrar í stangarstökki á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum innanhúss, stekkur 4,15 metra.

24.–25. júlí: Valbjörn sigrar í 110 m grindahlaupi (15,5 sek.) og stangarstökki (4,00 m) og hafnar í þriðja sæti í 400 m grindahlaupi (57,7 sek.) og í spjótkasti (59,10 m) á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum.

17. ágúst: Valbjörn sigrar í tugþraut á Norðurlandamótinu í frjálsum íþróttum í Helsinki og hampar þar með Norðurlandameistaratitli í greininni. Hann fær samtals 6.902 stig og er rúmum hundrað stigum á undan næsta manni.

21. ágúst: Valbjörn sigrar í stangarstökki (4.04 m) og er annar í 120 jarda grindahlaupi (15,3 sek.) í landskeppni Íslendinga og Skota í frjálsum íþróttum sem fram fer í Edinborg.

31. ágúst: Valbjörn verður Íslandsmeistari í tugþraut í tugþrautarkeppni Meistaramótsins á Melavellinum. Hann hlýtur 7004 stig.