1962 & 1969 | Guðmundur Gíslason

Texti: Hallgrímur Indriðason, úr bókinni Hetjurnar okkar

Það má segja að Guðmundur Gíslason sé fyrsti íslenski sundmaðurinn til að ná eftirtektarverðum árangri á alþjóðavettvangi, að ógleymdum árangri Sigurðar Jónssonar Þingeyings á Ólympíuleikunum í London 1948. Hann setti fjölmörg Íslandsmet á ferlinum og einnig ófá Norðurlandamet. Hann var tvívegis valinn íþróttamaður ársins, fyrst fyrir Norðurlandamet og síðan fyrir að vera besti maður landsliðsins sem vann Dani í landskeppni.

Guðmundur Gíslason er fæddur árið 1941 og er alinn upp í Reykjavík. Hann stundaði fjölda íþrótta á æskuárunum, meðal annars frjálsar íþróttir, skylmingar, handbolta og körfubolta. Það var hins vegar Jónas Halldórsson sundþjálfari sem fékk hann til að leggja sundið fyrir sig þar sem líklegt væri að hann yrði góður sundmaður. Hann hóf því að æfa sund af fullum krafti 14 ára gamall með ÍR.

Jónas reyndist hafa rétt fyrir sér því að Guðmundur náði ótrúlega skjótum frama í sundinu og komst snemma í landsliðið. Hann setti fyrsta drengjamet sitt 1957 og síðar sama ár setti hann fyrsta Íslandsmetið, þá aðeins sextán ára gamall. Það var í 100 m baksundi. Í kjölfarið fór hann að taka þátt í alþjóðlegum mótum, bæði Norðurlanda og Evrópumótum. Hann tók svo þátt í Ólympíuleikum í fyrsta sinn í Róm 1960 en þá hafði hann þegar sett 33 Íslandsmet í skriðsundi og baksundi. Þar keppti hann í 100 m skriðsundi en komst ekki í úrslit. 1961 kom hann sér í metabækurnar með því að eiga þátt í þremur Íslandsmetum sama kvöldið. Hann setti sjálfur tvö, og það þriðja var boðsundsmet.

Guðmundur var tvívegis valinn íþróttamaður ársins. Í fyrra skiptið, 1962, þá 21 árs. Það ár var reyndar almennt viðburðaríkt í sundinu og margir unnu góð afrek. En afrek Guðmundar þetta ár var tvíþætt. Hann setti Norðurlandamet í 400 m fjórsundi í Sundhöllinni í Reykjavík og hann setti 10 Íslandsmet fimmta árið í röð. Íþróttaafrek Íslendinga almennt voru reyndar mjög góð. Jón Þ. Ólafsson varð í öðru sæti í kjörinu en hann hafði einnig sett 10 Íslandsmet á þessu ári. Þriðji var svo annar sundkappi, Hörður Finnsson, en hann hafði líka sett Norðurlandamet. Guðmundur gat sér mjög gott orð á árinu í fjórsundi en keppni í þeirri grein hófst á alþjóðavettvangi árið 1960.

Guðmundur hélt áfram að setja Íslandsmet nánast á færibandi og árið 1963 náði hann þeim áfanga að hafa sett flest Íslandsmet allra íþróttamanna. Árið eftir keppti hann á Ólympíuleikunum í Tókýó og setti þar Íslandsmet í 400 m fjórsundi sem dugði honum til 22. sætis. Hann náði sér hins vegar ekki á strik í 100 m skriðsundi á leikunum. Þetta ár vann hann átta Íslandsmeistaratitla á Sundmeistaramóti Íslands og setti sitt 60. Íslandsmet.

Árið 1965 var Guðmundur ráðinn þjálfari hjá sunddeild ÍR en hélt þó áfram keppni fyrir félagið. Hann gegndi auk þess um skamma hríð stöðu formanns sunddeildar ÍR. Árið 1967 skipti hann hins vegar um félag og gekk í Ármann. Á Ólympíuleikunum í Mexíkó 1968 keppti Guðmundur í fjórum greinum. Hann hafnaði í 27. sæti í 200 m fjórsundi, 28. sæti í 400 m fjórsundi, 39. sæti í 100 m flugsundi og 51. sæti í 100 m skriðsundi. Guðmundur var aftur valinn íþróttamaður ársins árið 1969. Þar bar hæst þriggja landa keppni milli Íslands, Sviss og Danmerkur sem háð var í síðastnefnda landinu. Íslendingar urðu í öðru sæti í keppninni á eftir Svisslendingum og þótti það sérstaklega sætt þá að takast að vinna Dani. Guðmundur vann þrjár greinar í keppninni og það varð til þess að hann var valinn umfram aðra í landsliðinu. Guðmundur þótti á þessum tíma ótvíræður foringi liðsins.

Áfram hélt Guðmundur sér í fremstu röð hér á landi með sigrum á mótum og einstaka verðlaunum á Norðurlandamótum. Hann vann meðal annars tvenn bronsverðlaun á fyrsta Norðurlandamótinu sem haldið var hér á landi árið 1971. Guðmundur tók þátt í sínum fjórðu Ólympíuleikum árið 1972 og varð fyrstur til að afreka það, og reyndar sá eini þar til Bjarni Friðriksson júdókappi náði sama árangri árið 1992. Guðmundur keppti í 200 og 400 m fjórsundum en komst ekki í úrslit. Hann hætti keppni 1974.

Það sem einkenndi Guðmund í gegnum feril hans var eljusemi og dugnaður, bæði við æfingar og við að berjast fyrir framgangi sundíþróttarinnar. Á sjöunda áratugnum var hann frumkvöðull meðal íslenskra sundmanna. Meðal annars barðist hann fyrir því að blöð um sundíþróttina voru keypt til landsins og að menn menntuðu sig. Einnig var hann frumkvöðull í því að sundmenn hófu þrekþjálfun með lyftingum, notkun teygjubanda og hlaupaæfingum á haustin. Hann setti alls 152 Íslandsmet á ferlinum. Eftir að honum lauk fór Guðmundur að hlaupa og tók þátt í fjölda langhlaupum hér heima með prýðisárangri.

Guðmundur var ritari Sundráðs Reykjavíkur og gjaldkeri Sundsambands Íslands um árabil og hann sat í byggingarnefnd Laugardalslaugarinnar, undir formennsku Úlfars Þórðarsonar augnlæknis sem tók þátt í Ólympíuleikunum í Berlín 1936. Guðmundur sat í nefndinni frá 1962 til vígslu laugarinnar 1966. Opnun Laugardalslaugarinnar var stórt framfaraspor fyrir sundíþróttina þar sem öll alþjóðleg sundmót og landskeppnir fara fram í 50 metra braut. Fram til ársins 1966 höfðu íslenskir sundmenn ekki átt möguleika til æfinga á 50 metra braut, nema í sundlauginni í Laugarskarði í Hveragerði. Þar reyndist oft erfitt að halda lauginni hæfilega heitri vegna skorts á köldu vatni. Þurftu Guðmundur og sundfélagar hans oft frá að hverfa er æfa skyldi fyrir erlend stórmót í Laugarskarði því að laugin var vel yfir 30 stiga heit.

Árangur Guðmundar 1962

13. febrúar: Guðmundur setur nýtt Íslandsmet í 4×25 m fjórsundi karla, 1:06,4 mín.

14. febrúar: Guðmundur vinnur fimm greinar á afmælissundmóti ÍSÍ. Það voru 4×25 m fjórsund, 4×50 m skriðsund, 50 m skriðsund, 50 m baksund og 100 m fjórsund.

4. apríl: Guðmundur sigrar í 100 m skriðsundi og 100 m fjórsundi á sundmóti Ármanns.

12. apríl: Guðmundur setur glæsilegt Íslandsmet í 400 m fjórsundi þegar hann bætir eigið Íslandsmet um átta sekúndur á sundmóti Sundráðs Reykjavíkur. Tími Guðmundar er 5:16,3 mín., og er jafnframt Norðurlandamet. Að auki er þetta betri tími en náðst hafði í Evrópu árið áður. Guðmundur sigrar einnig í 50 og 100 m baksundi á mótinu, sem og 50 m skriðsundi, þar sem hann setur nýtt Íslandsmet.

20. maí: Guðmundur hlýtur sex Íslandsmeistaratitla á sundmeistaramóti Íslands. Hann hlýtur einnig Pálsbikarinn fyrir besta afrek mótsins, þegar hann syndir 100 m skriðsund á 59,4 sek.

29. júní: Guðmundur setur tvö ný Íslandsmet á sundmóti íþróttafélaganna í Reykjavík sem fram fer í Sundlaug Vesturbæjar, í 500 m skriðsundi og 4×50 m fjórsundi. Hann hefur þar með sett 50 Íslandsmet á ferlinum og á öll skráð Íslandsmet í sundi nema bringusundsmetin.

18. ágúst: Guðmundur keppir í fjórsundi á Evrópumótinu í Leipzig en nær ekki að komast í úrslit eins og vonir höfðu staðið til. Guðmundur átti einnig að keppa í 200 m baksundi á mótinu en varð frá að hverfa vegna mígrenis sem þjáði hann allt frá 9 ára aldri.

28. nóvember: Guðmundur sigrar í þremur greinum á móti í Sundhöll Reykjavíkur, 100 m skriðsundi, 50 m baksundi og 4×50 m skriðsundi. Hann jafnar Íslandsmetið í 50 m baksundi þrátt fyrir erfiðar aðstæður.

27. desember: Guðmundur setur Íslandsmet í 1000 m bringusundi, 15:40,1 mín. Metið setur hann óvart þar sem hann ætlaði að hjálpa Herði Finnssyni að bæta þetta met. Þetta er ellefta Íslandsmet Guðmundar á árinu, en óvenjulegt því Guðmundur lagði ekki mikla rækt við æfingar í þessari grein.

Árangur 1969

6. júní: Guðmundur sigrar í þremur greinum á Sundmeistaramóti Reykjavíkur; 200 m skriðsundi (ásamt Gunnari Kristjánssyni), 100 m flugsundi og 100 m baksundi. Hann er þar með Reykjavíkurmeistari í þessum greinum.

29. júní: Guðmundur sigrar í sex greinum á Sundmeistaramóti Íslands. Hann setur þrjú Íslandsmet á mótinu, í 200 m fjórsundi (2:21,8 mín.), 400 m skriðsundi (4:41,5 mín.) og 100 m flugsundi (1:02,6 mín.).

1. ágúst: Guðmundur setur Íslandsmet í 200 m baksundi í sundkeppni milli Íslands, Danmerkur og Sviss sem fram ferí Danmörku, syndir á 2:26,8 mín. Hann bætir eigið met um tæpar fjórar sekúndur. Tíminn dugar honum í annað sætið í greininni. Guðmundur setur einnig met í 200 m flugsundi, 2:23,0 mín., og sigrar í þeirri grein. Hann sigrar alls í þremur greinum á mótinu og Íslendingar hafna í öðru sæti, á eftir Svisslendingum. Íslendingar eru himinsælir með að hafa unnið Dani og í grein í Morgunblaðinu um mótið segir að Guðmundur sé í sérflokki meðal íslenskra íþróttamanna.