Það er óvenjulegt að íþróttamenn, sérstaklega í íþrótt sem krefst mikils líkamlegs atgervis, nái hátindi ferilsins þegar þeireru komnir yfir fertugt. Sú varð þó raunin í tilviki Guðmundar Hermannssonar kúluvarpara. Þegar hann var kjörinn íþróttamaður ársins árið 1967 var hann orðinn 42 ára gamall og á næstu tveimur árum átti hann eftir að ná enn betri árangri í grein sinni. Titilinn hlaut hann fyrst og fremst fyrir að margbæta Íslandsmetið í kúluvarpi sem Gunnar Huseby átti áður.
Guðmundur fæddist árið 1925 á Ísafirði og ólst þar upp. Fyrsta íþróttin, sem hann kom eitthvað nálægt, var knattspyrna enda ólust börnin á Ísafirði nánast upp á vellinum. Átta ára var Guðmundur kominn í knattspyrnufélagið Hörð en tvö félög voru á Ísafirði á þessum árum, Hörður og Vestri. Það var fótbolti daginn út og daginn inn hjá 8–15 ára guttum.
Áhugi vaknaði þó fljótlega hjá Guðmundi á frjálsum íþróttum. Íþróttakennari hans var líka með námskeið fyrir krakka á sumrin og kenndi þá frjálsar íþróttir. Fyrst var keppt í frjálsum íþróttum á Ísafirði um 1940 og þar eignuðust Ísfirðingar mjög góðan íþróttamann, Finnbjörn Torfason, sem varð einn af bestu spretthlaupurum landsins á sínum tíma og Ólympíufari 1948. Hann fór til Reykjavíkur 17 ára gamall og gat sér góðan orðstír sem frjálsíþróttamaður hjá ÍR. Guðmundur fór hins vegar ekki suður fyrr en 1952, þegar hann var orðinn 27 ára gamall. Þá hafði hann fallið fyrir kúluvarpinu. Hann ákvað þá að ganga í KR því að þar voru bestu kúluvarpararnir fyrir, þeir Gunnar Huseby, Vilhjálmur Vilmundarson og Bragi Friðriksson.
Á þessum árum var æft á Melavellinum og aðstæður voru ekki upp á marga fiska. Menn settu bara upp hring einhvers staðar á mölina og svo var kastað. Það var ekki fyrr en íþróttamennirnir voru orðnir góðir að farið var að steypa hringi undir þá. Guðmundur vann mikið á þessum tíma og tilbreytingin var því ekki svo mikil. Íþróttirnar voru í raun helsta afþreying hans. Félagsskapurinn var góður og menn studdu hver annan þegar æft var.
Það óvenjulega við feril Guðmundar er að hann náði hámarki þegar hann var kominn yfir fertugt. Það var eins og að eitthvað losnaði úr læðingi. Áður hafði hann unnið vaktavinnu í lögreglunni og vinnutíminn því óreglulegur auk þess sem hann var að byggja hús fyrir sjálfan sig þannig að frítíminn var ekki mikill og mjög óreglulegur. Þeir sem voru saman í kastgreinunum héldu þó hópinn og hittust á Melavellinum þegar þeir áttu frí. Þetta var í raun meira leikur heldur en til að vinna til stóra afreka en Guðmundur var samt kominn upp í 16 metra með mikilli vinnu, sem þótti gott þá.
Árið 1966 urðu hins vegar breytingar á högum Guðmundar sem komu sér vel fyrir íþróttaferilinn. Þá fékk hann hærri stöðu í lögreglunni og losnaði úr vaktavinnunni og kláraði þar að auki húsið sem hann var að byggja. Þá gat hann farið að sinna kúluvarpinu betur. Það háði hins vegar Guðmundi alltaf að hann var ekki sterkur í bakinu, vegna aðgerðar sem hann fór í tíu árum áður. Frjálsíþróttasambandið fékk hingað í september 1966 þekktan kúluvarpara frá Bandaríkjunum sem hann æfði með í eina viku og keppti við hann líka. Þá var Guðmundur rétt rúmlega 16 metra maður en þjálfarinn 19 metra. Hann sagði að veikur hlekkur væri í bakinu á Guðmundi og ef honum tækist að styrkja það kæmi árangur. Guðmundur hlítti þessu ráði, útvegaði sér lyftingatæki og byggði sig upp yfir veturinn með það fyrir augum að vinna bug á þessari veilu. Árangurinn varð sá að hann var tilbúinn strax vorið eftir, 1967.
Þetta ár setti Guðmundur níu sinnum Íslandsmet í kúluvarpi. Hann sló Íslandsmet Gunnars Huseby á árinu með því að kasta 17,34 metra og náði best á því ári 17,83 metrum. Árið eftir varð hann fyrstur Íslendinga til að varpa kúlu yfir 18 metra en besti árangur hans var 18,45 metrar það ár. Árið 1969 náði hann best 18,48 metrum. En það að slá Íslandsmet Gunnars gerði útslagið og fékk hann fullt hús stiga í þessu kjöri.
Guðmundur hélt áfram að æfa eftir þetta og náði því m.a. að verða heimsmeistari öldunga í 50 ára flokki árið 1972. Upp úr því hætti hann svo keppni.
Árangur Guðmundar 1967
7. mars: Guðmundur setur Íslandsmet í kúluvarpi innanhúss á innanhússmóti ÍR, KR og Ármanns í Laugardalnum. Kastar leðurkúlu 15,76 m, 10 cm lengra en Íslandsmet Gunnars Huseby.
29. apríl: Guðmundur setur Íslandsmet í kúluvarpi innanhúss á sameiginlegu móti ÍR og KR í Laugardal, kastar 17.20 m.
3. maí: Guðmundur setur nýtt Íslandsmet í kúluvarpi innanhúss, kastar 17,30 m.
18. maí: Guðmundur slær 17 ára gamalt Íslandsmet Gunnars Huseby í kúluvarpi utanhúss á vormóti ÍR, sem var fyrsta utanhússmót ársins. Kastar fyrst 16,84 m og síðan 17,34 m og bætir metið um 60 cm.
7. júní: Guðmundur setur nýtt Íslandsmet í kúluvarpi á fimmtarþrautarmóti Reykjavíkurmótsins í Laugardalnum, kastar 17,44 m.
17. júní: Guðmundur vinnur forsetabikar 17. júnímótsins með kasti upp á 17,17 metra.
24. júní: Guðmundur setur Íslandsmet í kúluvarpi í undanrásum Evrópukeppni landsliða í Dublin, 17,78 m. Það dugar honum til sigurs á mótinu.
13. júlí: Guðmundur setur nýtt Íslandsmet í kúluvarpi á meistaramóti Reykjavíkur á Melavellinum, kastar 17,81 m.
24. júlí: Guðmundur verður Íslandsmeistari í kúluvarpi á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum í Laugardalnum. Kastar 17,69 m og setur nýtt meistaramótsmet.
11. ágúst: Guðmundur setur Íslandsmet í kúluvarpi, kastar 17,83 m á 60 ára afmælismóti ÍR á Melavellinum. Hann hafði þar með bætt Íslandsmetiðí kúluvarpi um 1,09 metra á einu ári og sinn persónulega árangur um einn og hálfan metra.
20. ágúst: Guðmundur verður bikarmeistari í frjálsum íþróttum með KR. Sigrar í kúluvarpinu, kastar 17,78 m.
26. ágúst: Guðmundur sigrar í kúluvarpi á afmælismóti Frjálsíþróttasambands Íslands, kastar 17,79 m. Danskur kúluvarpari var þar meðal keppenda.