1972 | Guðjón Guðmundsson

Guðjón Guðmundsson sundmaður er kannski ekki einn af þekktustu íþróttamönnum landans. En góður árangur á Ólympíuleikum vegur alltaf þungt og það varð til þess að Guðjón hlaut sæmdarheitið íþróttamaður ársins 1972.

Guðjón er fæddur 1952 og ólst upp á Akranesi. Í barnaskóla fengu hann og félagi hans, Finnur Garðarsson, áhuga á sundi og æfðu þeir fyrst undir stjórn Helga Hannessonar þjálfara. Fljótlega kom í ljós að þeir hefðu báðir mikið til brunns að bera í íþróttinni og lentu báðir nokkuð hátt á innanfélagsmótum strax við fermingu. Þeim stóð þó fyrir þrifum að aðeins var 12,5 metra laug á Akranesi. Til þess að ná betri árangri flutti Guðjón til Reykjavíkur á tvítugsaldri til að geta æft að staðaldri í 25 metra laug og þá æfði hann hjá Sundfélaginu Ægi. Árangurinn, sem hann náði þar, kom honum fljótlega í landsliðið og þar kynntist hann Guðmundi Harðarsyni. Hann æfði síðan reglulega undir stjórn hans og árangurinn varð sífellt betri.

Árið 1969, þegar Guðjón var 17 ára gamall, vakti það athygli þegar honum tókst að sigra Íslandsmethafann í 200 m bringusundi, Leikni Jónsson, í þessari grein á sundmóti ÍR. Þeir áttu næstu árin eftir að keppa í ófá skipti í bringusundi. Guðjón keppti 18 ára gamall í þriggja landa keppni milli Íslands, Danmerkur og Spánar í Kaupmannahöfn og afrekaði þá að vinna bronsverðlaun í 200 m bringusundi. Þetta var fyrsta alþjóðlega mótið þar sem hann lét að sér kveða. Árið eftir tók hann þátt í fjölda landskeppna með íslenska landsliðinu og hafði þá oftar en ekki sigur í þeim greinum sem hann keppti í, en hann var ávallt fyrst og fremst bringusundsmaður. Það ár setti hann einnig sín fyrstu Íslandsmet.

Guðjón setti fljótlega stefnuna á Ólympíuleikana í München 1972 og lagði mikið á sig til að ná góðum árangri þar. Og það tókst svo sannarlega. Hann sló þar Norðurlandametið í 100 m bringusundi sem hinn heimsþekkti Svíi, Gunnar Larson, átti, en hann vann það sér til frægðar á þessum leikum að sigra í 400 m fjórsundi með því að mælast með 2 þúsundustu úr sekúndu betri tíma en sá sem á eftir kom. Guðjón hafnaði í 36. sæti í þessu sundi og í 200 m bringusundi hafnaði hann í 22. sæti.

Eftir Ólympíuleikana lét Guðjón lítið að sér kveða á alþjóðlegum mótum en var ávallt sigursæll á mótum hér heima. Hann setti til að mynda þrjú Íslandsmet í bikarkeppni Sundsambands Íslands og þar með hafði hann hirt Íslandsmetin í öllum bringusundsgreinunum. Hann tók þó þátt í Norðurlandamótinu 1973, sem fram fór í Ósló, og hlaut þar bronsverðlaun í 100 m bringusundi.

Þegar leið á dró hann svo úr æfingum og eftir sundkeppnina á Landsmóti UMFÍ 1975, sem fór fram á Akranesi, lýsti hann því yfir að þetta yrði sitt síðasta sundmót. Seinna sama ár hafði hann misst Íslandsmetið í 100 m bringusundi í hendur ungs Hafnfirðings, Guðmundar Ólafssonar. Guðjón flutti svo fljótlega til Danmerkur þar sem hann hefur búið síðan.

Þeir sem til þekkja segja að Guðjón hafi verið tæknilega mjög góður sundmaður en jafnframt hafi hann alltaf synt af krafti. En þess á milli var hann mjög ljúfur og lítillátur. Einn viðmælandi orðaði það meðal annars að hann hafi einhvern veginn orðið miklu stærri í vatninu en á bakkanum.

Árangur Guðjón 1972:

17.–19. mars: Guðjón setur Íslandsmet í þremur bringusundsgreinum í bikarkeppni Sundsambands Íslands. Fyrst í 400 m bringusundi (5:21,2 mín.), þá í 100 m bringusundi (1:09,2 mín.) og loks í 200 m bringusundi (2:30,4 mín.)

23. mars: Guðjón setur glæsilegt Íslandsmet í 100 m bringusundi á úrtökumóti Sundsambands Íslands, 1:11,1 mín. Er aðeins einum tíunda frá Ólympíulágmarkinu.

28. maí: Guðjón setur nýtt Íslandsmet í 200 metra bringusundi, 2:35,0 mín.

13. júní: Guðjón er einu sekúndubroti frá Íslandsmeti sínu í 100 m bringusundi á Sundmóti ÍR. Hann syndir á 1:11,2 mín.

30. júní: Guðjón hafnar í þriðja sæti í 200 m bringusundi á átta landa keppni í sundi í Edinborg á nýju Íslandsmeti, 2:32,8 mín.

2. júlí: Guðjón sigrar í 100 m (1:11,3 mín.) og 200 m (2:36,3 mín.) bringusundi í landskeppni við Íra í sundi.

4. júlí: Guðjón nær Ólympíulágmarki í 100 m bringusundi á móti í Laugardalslaug, syndir á 1:10,9 mín. sem er nýtt Íslandsmet.

23. júlí: Guðjón fær Pálsbikarinn á Sundmeistaramóti Íslands, sem veittur er fyrir besta afrekið.

29. ágúst: Guðjón syndir 100 m bringusund á 1:11,1 mín. á Ólympíuleikunum í München, sem er tveimur tíundu frá Íslandsmetinu. Hann er síðastur í sínum riðli og hafnar í 36. sæti af 44 keppendum.

2. september: Guðjón setur nýtt Norðurlandamet í 200 m bringusundi á Ólympíuleikunum í München. Tíminn er 2:32,4 mín. og tók Guðjón metið af Gunnari Larsson, frægum sænskum sundkappa. Guðjón er fjórði í sínum riðli og í 22. sæti alls.