Það urðu tímamóti í kjöri íþróttamanns ársins 1973. Þá var knattspyrnumaður í fyrsta sinn valinn sem íþróttamaður ársins. Fyrir valinu varð Keflvíkingurinn Guðni Kjartansson sem var í sigursælu liði Keflavíkur í knattspyrnu og auk þess kjölfesta í íslenska landsliðinu.
Guðni er fæddur 1946 og er Suðurnesjamaður í húð og hár. Hann hóf snemma knattspyrnuiðkun með Keflavík og var hópur hans mjög sigursæll í yngri flokkum. Það skilaði sér síðan í meistaraflokkinn en sannkölluð gullöld ríkti í knattspyrnunni í Keflavík á árunum 1964–73.
Guðni lék fyrst með meistaraflokki 1964 og varð fastamaður í liðinu ári síðar. Fljótlega upp úr því fór hann að leika með landsliðinu. Hann lék sinn fyrsta landsleik árið 1967. Þar lék hann meðal annars gegn hinum heimsþekkta Hollendingi Johan Cruyff. Minningarnar með landsliðinu voru reyndar ekki alltaf góðar, því að Guðni var einnig í liðinu sem tapaði svo eftirminnilega fyrir Dönum, 14-2, árið 1967. Guðni varð fyrirliði Keflavíkurliðsins árið 1968 og gegndi þeirri stöðu það sem eftir var ferilsins.
Árið, sem Guðni var valinn íþróttamaður ársins, 1973, varð Keflavík Íslandsmeistari í fjórða sinn. Liðið komst einnig í úrslit bikarkeppninnar en tapaði þeim leik. Segja má að Guðni hafi verið valinn fyrir að vera fremstur meðal jafningja í þessu liði. Guðni átti einnig fjölmarga leiki með landsliðinu. Hann lék síðustu A-landsleiki sína þetta ár en alls urðu leikirnir 31 á ferlinum og missti Guðni aldrei úr einn einasta landsleik sem íslenska landsliðið lék frá fyrsta leik sínum til þess síðasta. Hann var fyrirliði landsliðsins síðustu ár sín með liðinu.
Að mati flestra sparkspekinga var Guðni á hátindi ferils síns á þessu ári og hefði auðveldlega getað náð lengra í greininni ef örlögin hefðu ekki gripið í taumana. Árið eftir, 1974, var hann mikið frá vegna meiðsla og var það talið eiga stóran þátt í því að Keflvíkingar misstu af Íslandsmeistaratitlinum það ár. Árið 1975 lék Guðni aðeins fyrstu leikina og síðan ekki söguna meir, vegna hnémeiðsla. Hann tók hins vegar við þjálfun liðsins í júní ásamt Jóni Jóhannssyni eftir að Joe Hooley sagði starfi sínu lausu. Keflavíkurliðið tók framförum undir stjórn þeirra og hafnaði í fjórða sæti á Íslandsmótinu það ár og varð bikarmeistari eftir sigur á ÍA í úrslitaleiknum, 1-0. Einar Gunnarsson skoraði sigurmarkið. Guðni ákvað í framhaldi af þessu að mennta sig sem knattspyrnuþjálfari hjá KSÍ og erlendis með það í huga að einbeita sér meira að þjálfun.
1976 var hann spilandi þjálfari hjá Keflavík en þetta reyndist síðasta tímabil hans sem leikmanns, meiðslin urðu til þess að hann varð að leggja skóna á hilluna. Í árslok 1977 var Guðni ráðinn til KSÍ þar sem honum var ætlað að halda stutt þjálfaranámskeið, aðstoða við unglingaþjálfun og vera aðstoðarmaður landsliðsþjálfarans, Youri Ilitschev. Þetta var upphafið að löngum landsliðsþjálfaraferli hans, bæði með A-landsliðið og yngri landslið. Guðni tók við þjálfun Keflavíkurliðsins á ný árið 1978 og þá náði liðið þriðja sæti á Íslandsmótinu. Guðni lék meira að segja síðasta leikinn á mótinu og stóð sig með prýði.
Í ársbyrjun 1980 hætti Youri Ilitschev með A-landsliðið. Var Guðni ráðinn í starfið í hans stað og þjálfaði hann Keflavíkurliðið samhliða. Undir hans stjórn náði landsliðið mjög góðum árangri í undankeppni HM, reyndar þeim besta sem náðst hafði fram að því. Íslendingar fengu sex stig með tveimur sigrum gegn Tyrkjum, jafntefli heima gegn Tékkum og frægu 2-2 jafntefli gegn Wales í Swansea.
Þrátt fyrir góðan árangur ákvað Guðni að hætta með landsliðið en hélt þjálfun Keflavíkurliðsins áfram í nokkur ár í viðbót. Hann hélt þar að auki áfram störfum hjá KSÍ, einkum með yngri landsliðin. Hann var einnig aðstoðarþjálfari A-landsliðsins fram eftir níunda áratugnum hjá Tony Knapp og hljóp í skarðið sem þjálfari þegar á þurfti að halda. Árið 1989 tók hann meðal annars við landsliðinu fyrir síðasta leik liðsins í undankeppni HM, en þá hafði þáverandi landsliðsþjálfari, Sigfried Held, ráðið sig til Tyrklands. Ísland vann þann leik 2-1 og reyndist það eini sigurleikur landsliðsins í þessari keppni. Háværar raddir voru uppi um að Guðni ætti að halda áfram með liðið en ekkert varð úr því.
Guðni þjálfaði KR-inga árið 1991 og hafnaði liðið í þriðja sæti í deildinni. Samningurinn við hann var þó ekki endurnýjaður. Þá tók hann við þjálfun unglingalandsliðsins og hefur verið með það meira eða minna síðan. Guðni var einnig aðstoðarmaður Atla Eðvaldssonar meðan hann var með landsliðið á árunum 2000–2003 og þjálfaði einnig drengjalandsliðið. Nú síðast var hann aðstoðarmaður Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar, þjálfara kvennalandsliðsins.
Sem knattspyrnumaður var Guðni yfirleitt ekki áberandi á vellinum en las leikinn vel og hafði góða yfirsýn. Hann þótti einnig tæknilega góður og voru raddir uppi um að hann hefði átt að leika framar á vellinum en í vörninni. En árangur hans með landsliðið var afar góður, og aðeins Guðjón Þórðarson hefur slegið honum við.
Árangur Guðna 1973:
26. maí: Guðni skorar eitt marka Keflavíkur í 4-0 útsigri á Val.
8. júní: Guðni á góðan leik með íslenska landsliðinu í 4-0 sigri á Færeyingum í Klakksvík. Þetta er jafnframt 25. landsleikur Guðna.
9. júlí: Guðni skorar eitt marka Keflavíkur í 3-0 sigri á Breiðabliki í 1. deildinni. Þar með voru Keflavíkingar með fullt hús stiga eftir fyrri umferðina.
17. júlí: Guðni er besti maður íslenska landsliðsins þegar liðið tapar naumlega, 2-1, fyrir Austur-Þjóðverjum á Laugardalsvellinum.
22. ágúst: Guðni leikur í vörn landsliðsins í 5-0 tapi gegn Hollendingum. Þrátt fyrir stórt tap þóttu Íslendingar standa sig vel en margir frægir kappar léku þá með Hollendingum, meðal annars Johan Cruyff, en þetta lið varðí 2. sæti á HM ári síðar. Guðni hafði áður lýst því yfir að hann ætlaði í frí með fjölskyldu sinni og sleppa leiknum, en brást ekki kallinu þegar á þurfti að halda.
1. september: Guðni skorar fyrir Keflavík í 3-2 útisigri á KR í fyrstu deildinni.
16. september: Keflvíkingar tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu eftir 4-4 jafntefli við Breiðablik í 1. deildinni.
25. september: Guðni er ásamt félaga sínum, Einari Gunnarsyni, valinn leikmaður Íslandsmótsins 1973 af Morgunblaðinu. Þeir fengu hæstu meðaleinkunn í einkunnagjöf blaðsins. Guðni var einnig í liði ársins hjá Morgunblaðinu og var valinn leikmaður ársins hjá dagblaðinu Tímanum. Íþróttablaðið valdi Guðna jafnframt knattspyrnumann ársins.
3. október: Guðni á stórgóðan leik fyrir Keflavík í 1-1 jafntefli gegn Hibernian í seinni leik liðanna í fyrstu umferð UEFA-keppninnar. Þetta var besti árangur sem íslenskt lið hafði náðí Evrópukeppni í nokkur ár.