1974 & 1984 | Ásgeir Sigurvinsson

Ásgeir Sigurvinsson er einn besti knattspyrnumaður sem Ísland hefur átt og það skilaði honum titlinum íþróttamaður ársins tvisvar sinnum, 1974 og 1984. Hátindi ferils síns náði hann einmitt seinna árið, þegar hann náði einstökum árangri með Stuttgart, bæði Þýskalandsmeistaratitli og besti leikmaður deildarinnar, en hann var fyrsti útlendingurinn til að ná þeim titli í áratugi.

Ásgeir Sigurvinsson er fæddur í Vestmannaeyjum 1955 og ólst þar upp. Knattspyrnuáhuginn kom snemma í ljós hjá honum og hann byrjaði að æfa 5-6 ára gamall. Hann segir sjálfur að það hafi í raun og veru verið það eina sem var að gera á þessum tíma. Hann var löngum stundum á fótboltavellinum að leika sér enda var mikill áhugi á knattspyrnu í Eyjum á þessum tíma.

Ásgeir var 16 ára þegar hann hóf að leika með meistaraflokki ÍBV í knattspyrnu og lék hann þá jafnan sem vinstri útherji. Hann varð bikarmeistari með liðinu 1972. Var honum þá um haustið boðið til æfinga í Skotlandi, hjá Glasgow Rangers. Honum var boðinn atvinnumannssamningur hjá skoska úrvalsdeildarliðinu Morton sem hann hafnaði. Þetta sama ár var hann einnig valinn í A-landsliðið og varð þá sá yngsti til að leika með því, 17 ára og 52 daga gamall. Það met stóð til ársins 1983.

Árið eftir gekk Ásgeir til liðs við belgíska liðið Standard Liege og var fyrirfram ekki búist við að hann kæmist í aðalliðið á fyrsta tímabili sínu. En annað kom á daginn. Ásgeir var fljótur að slá í gegn í Standard og var valinn í aðalliðið fyrir Evrópukeppnina, sem vakti mikla athygli. Ásgeir var fljótur að standa undir væntingum og fór smátt og smátt að stjórna leik liðsins. Hann var í átta ár alls hjá Standard Liege og kvaddi liðið með bikarmeistaratitli 1981. Ásgeir stimplaði sig einnig vel inn í landsliðið á þessum árum. Hann skoraði meðal annars eftirminnilegt mark í 2-1 sigurleik gegn Austur-Þjóðverjum árið 1975 og svo annað slíkt ári seinna gegn Norðmönnum á Ullevål-leikvanginum í Ósló með þrumufleyg af 30 metra færi. Árið 1981 átti hann líklega sinn besta landsleik, þegar hann skoraði bæði mörk Íslendinga í 2-2 jafntefli gegn Wales í Swansea.

Mörg stórlið í Evrópu sóttust eftir Ásgeiri snemma á níunda áratugnum og úr varð að 1981 gekk hann til liðs við Bayern München sem þá var eitt besta lið Evrópu og hafði verið yfirburðalið í Þýskalandi. Þar fóru hlutirnir hins vegar ekki eins og ætlast var til því að Ásgeir var geymdur tímunum saman á varamannabekknum og fékk fá tækifæri með liðinu. Hann var aðeins í eitt ár hjá Bayern en árið 1982 gekk hann til liðs við Stuttgart. Þar var honum ætlað að fylla skarð hins fræga miðjumanns Hansi Müller, sem hafði verið seldur til Ítalíu, og voru því miklar væntingar gerðar til hans. Hann stóð strax undir þeim og náði sér vel á strik með liðinu frá fyrsta leik. Hann átti eftir að eiga átta góð ár með þessu félagi.

Hápunktur ferilsins hjá Stuttgart var 1984 þegar félagið varð þýskur meistari í fyrsta sinn í 32 ár. Ásgeir átti stóran þátt í þessum titli og var burðarás í liðinu. Aðrir hrifust greinilega af leik Ásgeirs því að hann var útnefndur besti leikmaður þýsku Bundesligunnar og var fyrsti útlendingurinn til að hljóta þessa nafnbót frá því að Kevin Keegan fékk hana þegar hann lék með Hamburger SV um áratug fyrr. Í kjöri íþróttafréttamanna um knattspyrnumann ársins í Þýskalandi varð Ásgeir í öðru sæti, á eftir markverðinum Toni Schumacher, og þá taldi tímaritið World Soccer Ásgeir vera 13. besta knattspyrnumann heims.

Næsta tímabil á eftir var Ásgeiri erfitt vegna meiðsla en tímabilið 1985–86 spilaði hann mjög vel og Stuttgart var áfram í toppbaráttunni. Sumarið 1986 sýndu mörg félög honum áhuga, meðal annars hans gamla félag, Bayern München, en Stuttgart neitaði öllum tilboðum og bauð Ásgeiri nýjan fjögurra ára samning sem hann ákvað að samþykkja. Um haustið lék hann með íslenska landsliðinu, þegar það gerði markalaust jafntefli við Evrópumeistara Frakka í undankeppni EM og 1-1 jafntefli gegn Sovétmönnum, og þótti hann leika sérstaklega vel í síðarnefnda leiknum. Þetta ár var Ásgeir jafnframt gerður að fyrirliða Stuttgart.

Árið 1989 skiptast á skin og skúrir hjá Ásgeiri. Hann sagði af sér fyrirliðastarfinu í mars þar sem hann var ósáttur við að vera sífellt tekinn útaf í leikjum þar sem hann stóð sig vel. Stuttgart komst í úrslit í Evrópukeppni félagsliða og mætti þar ítalska liðinu Napólí, en hinn frægi Diego Maradona lék með liðinu á þeim árum. Stuttgart þótti þá vera í góðri stöðu eftir fyrri leikinn, sem fór fram í Napólí, en hann tapaðist 2-1. Seinni leikurinn, á heimavelli Stuttgart, fór hins vegar 3-3 og þar með hampaði Napólí titlinum. Ásgeir lagði upp eitt mark í hvorum þessara leikja.

Þetta sama ár, 1989, lék Ásgeir sinn síðasta landsleik, gegn Tyrkjum á Laugardalsvellinum, en sá leikur vannst 2-1. Ásgeir lagði upp fyrra mark Íslands og var svo nálægt því að skora í leiknum. Ásgeir lék alls 45 landsleiki fyrir Ísland og skoraði fimm mörk.

Í upphafi síðasta tímabils síns, 1989-90, var Ásgeir settur út úr liðinu en vann svo sætið að nýju í október. Eftir það lék hann mjög vel og endaði því tímabilið með stæl persónulega, þó að Stuttgart hefði ekki náð að tryggja sér Evrópusæti. Hann fékk mörg tilboð um að halda áfram en hafnaði þeim og skrifaði þess í stað undir þriggja ára samning við Stuttgart um að starfa sem njósnari fyrir þá.

Í lok árs 1992 gerði Ásgeir tveggja ára samning við Fram um þjálfun liðsins. Hann þjálfaði liðið 1993 og hafnaði það í fjórða sæti eftir skrykkjótt gengi framan af tímabili. Hann hætti hins vegar störfum með liðið eftir tímabilið þar sem Framarar vildu ekki samþykkja rótttækar hugmyndir hans um uppbyggingu á næstu árum. Hann hóf störf á ný hjá Stuttgart og stofnaði jafnframt drykkjarvörufyrirtæki sem gengur afar vel.

Árið 1997 flutti Ásgeir aftur til Íslands og hóf störf hjá KSÍ sem tæknilegur ráðgjafi. Síðar sama ár tók Ásgeir þátt í kaupum íslenskra fjárfesta á Stoke City og settist í stjórn félagsins.

Í maí 2003 var Ásgeir ráðinn landsliðsþjálfari í knattspyrnu ásamt Loga Ólafssyni. Byrjunin með landsliðinu er frábær og liðið var nálægt því að komast í umspil um sæti á Evrópumótinu. Það tókst þó ekki.

Ásgeir og Logi voru ráðnir út undankeppni HM, sem lauk 2005, en landsliðinu gekk ekki sem skyldi í þeirri keppni. Árið 2004 vannst reyndar frækinn 2-0 sigur á Ítölum í æfingaleik á Laugardalsvellinum, fyrir framan 20 þúsund manns. Í undankeppninni höfnuðu Íslendingar hins vegar í næstneðsta sæti í riðli sínum með fjögur stig. Að þeirri keppni lokinni ákvað KSÍ að framlengja ekki samninginn við Ásgeir og Loga þar sem árangurinn þótti ekki nægilega góður.

Ásgeir Sigurvinsson hafði allt það sem knattspyrnustjarna þarf að búa yfir og hafði meðfædda hæfileika til þess að vera í fremstu röð í knattspyrnunni. Hann hafði mikinn skotkraft, sérstaklega í vinstri fæti, og hann gat splundrað vörn andstæðinga á broti úr sekúndu með frábærri sendingu. Hann hafði frábæra yfirsýn. Þetta verða menn að hafa í blóðinu og hann hafði það svo sannarlega.

Árangur Ásgeirs 1974:

Maí: Lið Ásgeirs, Standard Liege, endar í fjórða sæti í belgísku deildinni en þetta var fyrsta tímabil Ásgeirs hjá Standard. Hann skoraði fimm mörk fyrir liðið í deildinni og tíu mörk í aukaleikjum og varð þar með næstmarkahæsti leikmaður liðsins.

8. september: Ásgeir leikur með íslenska landsliðinu í tapleik gegn Belgum, 0-2, á Laugardalsvellinum. Hann þótti leika vel, sem og íslenska liðið. Hann sagði þó í viðtali eftir leikinn að leikur íslenska liðsins hefði ekki verið góður og hann var einnig ósáttur við sjálfan sig.

12. október: Ásgeir á frábæran leik þegar Íslendingar gera jafntefli við Austur-Þjóðverja, 1-1, í Magdeburg í undankeppni EM. Ásgeir er nálægt því að skora í leiknum.

24. október: Ásgeir skrifar undir nýjan þriggja ára samning við Standard.

Árangur Ásgeirs 1984:

28. janúar: Ásgeir skorar glæsilegt mark fyrir Stuttgart í 5-1 sigri liðsins á Kaiserslautern. Þýsk blöð hrósa honum í hástert og mark hans er valið mark dagsins á sjónvarpsstöðvum í Þýskalandi.

28. mars: Veggmynd er birt af Ásgeiri í tímaritinu Sport Illustrierte. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur íþróttamaður nýtur slíks heiðurs í erlendu íþróttatímariti.

4. apríl: Þýska blaðið Kicker birtir heilsíðuúttekt tileinkaða Ásgeiri undir fyrirsögninni „Maðurinn sem getur gert allt með boltann.“ Þar kemur meðal annars fram að ef Ásgeir leikur vel leiki Stuttgart vel, og jafnframt að Bayern hafi gert mikil mistök með því að láta Ásgeir fara frá félaginu.

7. apríl: Ásgeir er valinn í lið vikunnar í sjöunda skiptið á tímabilinu eftir að hafa átt stórleik í jafnteflisleik gegn Bayern München. Það verður að teljast sérstaklega sætt að hafa leikið þetta vel gegn því félagi sem taldi sig ekki hafa not fyrir hann.

12. apríl: Greint er frá því að ítalskt félag hafi gert Stuttgart tilboð í Ásgeir sem hafi verið hafnað. Þá hafi Bayern München sett sig í samband við Ásgeir og nefnt að hann kæmi aftur til félagsins. Ásgeir hafi hins vegar svarað því til aðhann vildi ekki fara frá Stuttgart, og allra síst til Bayern.

27. apríl: Ásgeir skorar tvö mörk í 6-0 sigri Stuttgart á Nürnberg.

5. maí: Ásgeir skorar tvö mörk í 5-1 sigri á Kickers Offenbach.

14. maí: Kicker gefur Ásgeiri viðurnefnið„Zico norðursins“ í grein um Íslendinginn.

21. maí: Kicker velur Ásgeir í lið vikunnar í 10. skiptið á þessu keppnistímabili eftir frammistöðu hans í sigurleik gegn Werder Bremen.

26. maí: Ásgeir Sigurvinsson verður þýskur meistari með Stuttgart, þrátt fyrir að lið hans tapi 1-0 fyrir Hamburger SV í lokaumferðinni. Hann er jafnframt kjörinn leikmaður ársins í þýsku Bundesligunni. Meðal þeirra sem á eftirhonum voru í kjörinu voru Karl-Heinz Rumenigge, Guido Buchwald, Harald Schumacher og Rudi Völler.

16. júlí: Ásgeir skrifar undir auglýsingasamning við Hummel-umboðið á Íslandi og Arnarflug. Þetta var þá stærsti auglýsingasamningur sem gerður hafði verið við einstakling á Íslandi.

26. ágúst: Ásgeir skorar mark Stuttgart sem tapar 1-2 fyrir Kaiserslautern í fyrsta leik Stuttgart á nýju keppnistímabili.

12. september: Ásgeir leikur með íslenska landsliðinu í eftirminnilegum sigri á Wales, 1-0. Þetta er fyrsti leikurinn sem Ásgeir spilaði með landsliðinu hér á landi í þrjú ár, og þetta reyndist jafnframt eini landsleikur Ásgeirs á þessu ári.

17. desember: Ásgeir hafnar í 13. sæti í kjöri World Soccer á besta knattspyrnumanni heims. Michel Platini sigrar í kjörinu.