Atli Steinarsson látinn

Atli Steinarsson, einn stofnenda Samtaka íþróttafréttamanna og fyrsti formaður félagsins, lést 8. nóvember 2017. Atli skipaði stóran sess í sögu okkar samtaka og í hugum félagsmanna, núverandi og fyrrverandi. Atli, sem var 88 ára, var tíður gestur á hófi Íþróttamanns ársins undanfarin ár og áratugi og hélt því góðum tengslum við samtökin.

Hans var minnst með eftirfarandi orðum í Morgunblaðinu þann 17. nóvember 2017.

Kveðja frá Samtökum íþróttafréttamanna

Atli Steinarsson var brautryðjandi í stétt íþróttafréttamanna á Íslandi. Hann var einn af fjórum stofnendum Samtaka íþróttafréttamanna, sem stofnuð voru þann 14. febrúar 1956. Hann var enn fremur fyrsti formaður SÍ og gegndi því embætti í níu ár. Atli var fremstur í hópi þeirra sem lögðu grunninn að starfsemi samtakanna og íþróttafréttamenn hér á landi standa í mikilli þakkarskuld við hann vegna þessa.

Tilgangur samtakanna hefur frá fyrsta degi verið að vinna að bættri aðstöðu íþróttafréttamanna á vettvangi. Margt af því sem tekið er sem sjálfsögðum hlut í okkar stétt í dag er vinnu Atla og samtímamanna hans að þakka. Baráttan fyrir bættri aðstöðu stendur enn yfir og mun gera um ókomin ár, líkt og undanfarna áratugi.

Atli hélt ávallt góðum tengslum við meðlimi samtakanna, núverandi og fyrrverandi. Síðari ár missti hann aldrei af hófi Íþróttamanns ársins og það var sérstök ánægja að hafa Atla á 60 ára afmæli SÍ í fyrra.

Atla verður ávallt minnst fyrir þann hlýja hug sem hann bar til Samtaka íþróttafréttamanna fram á síðasta dag. Verkefni þeirra stóðu honum nærri og vildi hann veg samtakanna sem mestan. Verður það verkefni okkar félagsmanna, og þeirra sem eftir koma, að halda minningu og heiðri Atla á lofti.

Blessuð sé minning Atla Steinarssonar. Samtök íþróttafréttamanna færa aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur.

f.h. Samtaka íþróttafréttamanna,

Eiríkur Stefán Ásgeirsson
formaður

Atli með Magnúsi Má Einarssyni blaðamanni á Fótbolt.net