Tíu efstu í kjöri íþróttamanns ársins

Samtök íþróttafréttamanna birtu í dag listann yfir þá tíu íþróttamenn sem flest atkvæði fengu í kjörinu á íþróttamanni ársins 2019. Þrír þegar hafa hlotið nafnbótina eru meðal tíu efstu í kjörinu í ár.

Það íþróttafólk sem fékk flest atkvæði í kjörinu þetta árið og er í efstu tíu sætunum er í stafrófsröð:

Anton Sveinn McKee, sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar
Arnar Davíð Jónsson, keilari úr Keilafélagi Reykjavíkur
Aron Pálmarsson, handboltamaður hjá Barcelona á Spáni
Glódís Perla Viggósdóttir, knattspyrnukona hjá Rosengård í Svíþjóð
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, spretthlaupari úr ÍR
Guðmundur Ágúst Kristjánsson, kylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur
Gylfi Þór Sigurðsson, knattspyrnumaður hjá Everton
Júlían J. K. Jóhannsson, kraftlyftingamaður úr Ármanni
Martin Hermannsson, körfuboltamaður hjá Alba Berlín í Þýskalandi
Sara Björk Gunnarsdóttir, knattspyrnukona hjá Wolfsburg í Þýskalandi

Sara Björk var einmitt valinn íþróttamaður ársins 2018. Hún er ein fimm íþróttamanna sem var líka á topp tíu listanum í fyrra. Auk Söru hafa Aron Pálmarsson og Gylfi Þór Sigurðsson áður hlotið heiðurinn, af þeim sem koma til greina í ár. Úrslitin úr kjörinu verða kynnt í beinni útsendingu laugardagskvöldið 28. desember í beinni útsendingu á RÚV. Útsendingin hefst klukkan 19:40.

En það verður ekki bara tilkynnt um úrslitin í kjöri íþróttamanns ársins í Hörpu 28. desember. Þar verður úrslitum í kjörinu á liði ársins og þjálfara ársins einnig kynnt. Þrír efstu þjálfararnir í ár eru þessir í stafrófsröð:

Alfreð Gíslason, handboltaþjálfari hjá Kiel í Þýskalandi
Óskar Hrafn Þorvaldsson, fótboltaþjálfari hjá Gróttu
Patrekur Jóhannesson, handboltaþjálfari hjá Selfossi

Efstu þrjú liðin sem koma til greina þetta árið eru:

Karlalið Selfoss í handbolta
Kvennaliðs Vals í handbolta
Kvennalið Vals í körfubolta