Norðurlandaþing í Osló og 100 ára afmæli

Edda Sif Pálsdóttir, Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, Egil „Drillo“ Olsen og Tómas Þór Þórðarson í 100 ára afmælisveislu Norske Sportsjournalisters Forbund í Osló.

Stjórn Samtaka íþróttafréttamanna, Tómas Þór Þórðarson, Edda Sif Pálsdóttir og Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson sóttu Norðurlandaþing íþróttafréttamanna í Osló, Noregi 9. – 11. maí. Á þinginu hélt Anders K. Christiansen rannsóknarblaðamaður á sviði íþrótta hjá VG meðal annars erindi um störf sín. Halvor Ekeland íþróttafréttamaður NRK sem handtekinn var í Doha í Katar í lok nóvember fyrir fréttaflutning af aðbúnað verkafólks sem vinnur við að reisa leikvanga fyrir HM í fótbolta fór yfir þá reynslu sína auk þess sem Hanne Marie Brevik fréttastjóri íþrótta á NRK fór yfir málið allt saman frá sinni hlið. Þá voru höfuðstöðvar norska knattspyrnusambandsins á Ullevål sóttar heim.

Samtök íþróttafréttamanna í Noregi, Norske Sportsjournalisters Forbund fagnaði 100 ára afmæli á síðasta ári. Til stóð að halda upp á afmælið á síðasta ári, en fresta þurfti afmælisveislunni í tvígang vegna COVID-19. Loks var hægt að halda veisluna núna, og var hún haldin í veislusal róðrafélags stúdenta í Osló. Þar voru tæplega 90 gestir og voru fulltrúar norðurlandanna sérstaklega boðnir velkomnir. Reidar Sollie sem hefur verið formaður norsku samtakanna frá árinu 1998 og er hvergi nærri hættur þeim störfum var heiðraður fyrir störf sín í veislunni. Þar kom Egil „Drillo“ Olsen fyrrverandi landsliðsþjálfari karlalandsliðs Noregs í fótbolta meðal annars fram. Karsten Warholm heimsmethafi í 400 m grindahlaupi og Ólympíumeistari í greininni frá því á Ólympíuleikunum í Tókýó síðasta sumar tók einnig við viðurkenningu í veislunni fyrir árangur sinn á síðasta ári.

Norðurlandaþing íþróttafréttamanna eiga sér sögu aftur til ársins 1954. Frá árinu 1973 hafa þau þó verið haldin annað hvert ár. Norðmenn hefðu í raun átt að halda þingið í fyrra, en vegna heimsfaraldursins var því frestað til 2022. Næsta þing ætti að vera haldið í Danmörku strax á næsta ári, en þar sem enginn fulltrúi Dana komst á þingið í ár verður að koma í ljós hvernig það fer. Norðmenn, Svíar, Finnar, Íslendingar og Eistlendingar áttu öll fulltrúa á þinginu í ár. Eistland hefur tekið þátt í Norðurlandasamstarfinu óreglulega frá 1997 og hélt þingið árið 2009. Ísland hefur haldið Norðurlandaþingið fimm sinnum, 1985, 1995, 2005 og svo síðast 2017.

Þingfulltrúar Noregs, Svíþjóðar, Finnlands, Íslands og Eistlands á Norðurlandaþinginu í Osló 2022, ásamt Trygve Sundbø umboðsmanni Bobbysocks sem vann Eurovision söngvakeppnina árið 1985. Trygve vann lengi sem íþróttafréttamaður hjá VG í Noregi og var í afmælisveislu norsku samtakanna við mikla hrifningu sendinefndar Íslands.
Karsten Warholm var heiðraður í 100 ára afmælisveislu norsku samtakanna. Hér er hann ásamt Reidar Sollie formanni norsku samtakanna og Regine Leenborg Anthonessen úr stjórn norsku samtakanna.