Bjarni Fel látinn

Mynd: Hafliði Breiðfjörð.

Bjarni Felixson fyrrverandi íþróttafréttamaður Ríkisútvarpsins og fyrrverandi formaður Samtaka íþróttafréttamanna er látinn, áttatíu og sex ára að aldri.

Bjarni fæddist hinn 27. desember árið 1936. Hann lék knattspyrnu með KR við góðan orðstír og lék sex landsleiki fyrir hönd Íslands. Bjarni hóf störf hjá Sjónvarpinu árið 1969 sem umsjónarmaður enska fótboltans, sem þá var tekinn til sýninga á Íslandi. Frá 1972 varð Bjarni svo starfsmaður Sjónvarpsins í fullu starfi sem íþróttafréttamaður og gegndi því starfi í á fjórða áratug. Hann varð þjóðþekktur íþróttafréttamaður sem ruddi brautina fyrir þá sem á eftir komu í faginu.

Bjarni var formaður Samtaka íþróttafréttamanna á árunum 1978 til 1980. Bjarni lést í Kaupmannahöfn í morgun og ætlaði að fylgja stórvini sínum Finn Heiner, sem lengi var íþróttastjóri danska ríkisútvarpsins, til grafar í dag.
Eftirlifandi eiginkona Bjarna er Álfheiður Gísladóttir, börn þeirra eru fjögur og barnabörn og barna-barnabörn fjórtán.

Samtök íþróttafréttamanna minnast Bjarna af hlýju og senda aðstandendum hans samúðarkveðjur.