Þrír nýir félagar og Víðir heiðraður

Á félagsfundi Samtaka íþróttafréttamanna í dag, þriðjudaginn 14. desember 2021 voru þrír nýir félagar teknir inn í samtökin. Það eru Aron Guðmundsson fréttamaður á íþróttadeild Torgs sem gefur út Fréttablaðið og DV, Helga Margrét Höskuldsdóttir fréttamaður á íþróttadeild RÚV og Stefán Árni Pálsson fréttamaður á íþróttadeild Sýnar sem inniheldur Stöð 2 og Vísi. Haukur Harðarson, Magnús Már Einarsson og Kristófer Kristjánsson ganga úr samtökunum þar sem þeir hafa látið af störfum sem íþróttafréttamenn.

Kári Árnason afhenti Víði Sigurðssyni áritað eintak af bók Víðis, sem allir leikmenn Íslandsmeistara Víkings árituðu. Mynd: Árni Torfason.

Á fundinum var Víðir Sigurðsson á Morgunblaðinu svo heiðraður. Víðir hefur verið félagi í Samtökum íþróttafréttamanna í frá 1981 eða í 40 ár. Enginn íþróttafréttamaður hefur verið lengur starfandi á Íslandi frá upphafi. Á fundinum rifjaði Víðir upp að hann hefði verið einn sjö félaga í samtökunum þegar hann gekk í þau 1981. Með nýjum félögum sem teknir voru inn í dag eru félagar í Samtökum íþróttafréttamanna orðnir 30 talsins í árslok 2021.

Auk þess að vera heiðraður af SÍ kom fótboltamaðurinn Kári Árnason áður en fundurinn hófst og afhenti Víði áritað eintak frá öllum leikmönnum Víkings af nýjustu bók Víðis, Íslenskri knattspyrnu 2021. Víðir hefur gefið út bókaflokkinn samfleytt í 40 ár samhliða störfum sínum sem íþróttafréttamaður.