Ellefu sem koma til greina sem íþróttamaður ársins 2022

Samtök íþróttafréttamanna opinberuðu í dag hvaða íþróttamenn enduðu í efstu tíu sætunum í kjöri samtakana á íþróttamanni ársins 2022. Listi þeirra efstu er birtur í stafrófsröð í dag, Þorláksmessu eins og venja er. Einnig þrír efstu í kjörinu á liði ársins og þjálfara ársins. Úrslitin verða kunngjörð 29. desember.

Í ár gerðist það að tveir íþróttamenn urðu jafnir að stigum í 10. – 11. sæti. Reglur kjörsins segja aðeins til um hvað gera eigi séu tveir jafnir í 1. sæti. Reglurnar ná ekki yfir sætin fyrir neðan. Það eru því 11 íþróttamenn á topp listanum í ár. Það gerðist síðast árið 2000. Alls hefur það sjö sinnum gerst að topp 11 listi hefur verið birtur í stað topp 10.  Árin 1963, 1978, 1982, 1984, 1985, 1988 og 2000 var topp 11 listi, þ.e. tveir jafnir í 10. sæti.

Þá gerðist það einnig að tveir þjálfarar urðu jafnir í þriðja sæti í kjörinu um þjálfara ársins. Með sömu rökum er því birtur listi yfir fjóra efstu þjálfara kjörsins í ár.

Ellefu efstu í kjöri íþróttamanns ársins 2022 eru í stafrófsröð:
Anton Sveinn McKee, sund
Elvar Már Friðriksson, körfubolti
Gísli Þorgeir Kristjánsson, handbolti
Glódís Perla Viggósdóttir, fótbolti
Guðmundur Ágúst Kristjánsson, golf
Hilmar Örn Jónsson, frjálsíþróttir
Kristín Þórhallsdóttir, kraflyftingar
Ómar Ingi Magnússon, handbolti
Sandra Sigurðardóttir, fótbolti
Tryggvi Snær Hlinason, körfubolti
Viktor Gísli Hallgrímsson, handbolti

Efstu fjórir í kjörinu á þjálfara ársins
Guðmundur Þ. Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari karlaliðs Breiðabliks í fótbolta
Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Vals í handbolta
Þórir Hergeirsson, þjálfari kvennalandsliðs Noregs í handbolta

Lið ársins
Íslenska karlalandsliðið í handbolta
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta
Valur, meistaraflokkur karla í handbolta

Félagar í Samtökum íþróttafréttamanna eru nú 31 og tóku þeir allir þátt í kjörinu í ár. Kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni, liði og þjálfara ársins 2022 verður lýst í Hörpu 29. desember. Sýnt verður beint frá hófinu á RÚV klukkan 19:40.