Jón Þ. Ólafsson átti Íslandsmetið í hástökki í 22 ár utanhúss þrátt fyrir að mikil framþróun hafi átt sér stað í greininni á þeim tíma. Hann stökk hæst 2,10 m en hefði eflaust stokkið mun hærra með öðrum stökkstíl.
Jón er fæddur árið 1941 og er alinn upp í Reykjavík. Hans fyrsta íþróttagrein var knattspyrna sem hann stundaði með Víkingi. Árið 1956 fór hann í Héraðsskólann á Laugarvatni þar sem var mikið íþróttalíf. Hann skipti fljótlega yfir í frjálsar íþróttir og þá kom í ljós að hástökk hentaði honum vel þar sem hann var grannur og léttur á sér en jafnframt hátt í tveir metrar á hæð.
Á þessum tíma var Jón Pétursson lögregluþjónn besti hástökkvari landsins og hann var fyrstur Íslendinga til að stökkva yfir tvo metra, árið 1960. Hann var helsta fyrirmynd Jóns þegar hann var að byrja.
Jón Þ. Ólafsson æfði hástökk með ÍR, hann tók hröðum framförum í greininni og varð meðal annars Íslandsmeistari innanhúss árið 1959. Á þessum árum varð hann einnig fastamaður í landsliðinu. Það var í raun aðeins tímaspursmál hvenær hann myndi taka Íslandsmetið utanhúss af Jóni Péturssyni. Það tókst honum í júlí 1961 þegar hann stökk 2,03 metra en hann hafði veturinn áður náð Íslandsmetinu innanhúss með stökki upp á 1,99 m. Þetta ár náði hann einnig bronsverðlaunum á Norðurlandamótinu. Næstu tvö árin hækkaði metið jafnt og þétt og árið 1962 setti hann alls 12 sinnum Íslandsmet. Í lok desember á því ári náði Jón sínum besta árangri í greininni, þegar hann stökk 2,11 m innanhúss.
Það er ansi margt sem gerir þennan árangur sérstakan. Þetta Íslandsmet Jóns innanhúss stóð í 25 ár þrátt fyrir að nýr hástökksstíll, Fosburystíllinn, hefði verið við lýði nokkuð lengi áður en metið var bætt og hækkað stökkin umtalsvert. Jón stökk langoftast með svokölluðum grúfustíl sem var þannig að stökkvarinn fór á grúfu yfir rána en lenti síðan á bakinu. Þar að auki var metið sett í gamla ÍR-húsinu við Túngötu, sem var svo lítið að aðeins var hægt að taka þriggja skrefa atrennu. Meira að segja þurfti að loka dyrunum niður í kjallarann á íþróttahúsinu svo að íþróttamennirnir ættu ekki á hættu að rúlla þangað niður eftir stökkið! En það sem er kannski mest um vert var að þegar Jóni tókst að stökkva þessa hæð setti hann Norðurlandamet, náði besta árangrinum í Evrópu það ár og þeim næstbesta í heiminum. Fyrir þetta var hann kjörinn íþróttamaður ársins 1963 þó að metið innanhúss hafi komið nokkrum dögum áður en það ár gekk í garð.
Í febrúar 1964 var Jóni hins vegar boðið til náms og æfinga í Kaliforníu og dvaldi hann þar í fjóra mánuði. Jón tók þátt í Ólympíuleikunum í Tókýó 1964 en stökk aðeins tvo metra og komst ekki í úrslit. Segja má að æfingarnar í Bandaríkjunum hafi ekki skilað sér fyrr en vorið 1965 en þá náði hann sínum besta árangri utanhúss, 2,10 metrum. Það var Íslandsmet sem stóð í 22 ár, og það var líka sett með grúfustílnum. Jón komst hins vegar ekki nærri því að bæta þennan árangur fyrr en árið 1970, eða árið sem hann hætti æfingum. Þá stökk hann 2,10 m innanhúss.
Þrátt fyrir að Jón hafi verið á heimsmælikvarða telja margir að hann hefði getað náð mun lengra í íþróttinni. Hann hafði gríðarlegan stökkkraft en náði ekki alveg eins góðum tökum á tækninni sökum aðstöðuleysis, en ef það hefði tekist hefði hann getað stokkið töluvert hærra. Þá þykir það einnig vera ljóst að ef hann hefði haft möguleika á að tileinka sér Fosburystílinn hefði hann einnig getað stokkið tölvert hærra en honum tókst að gera.
Jón tók m.a. þátt í tvennum Ólympíuleikum, 1964 þar sem hann stökk tvo metra slétta og komst ekki í úrslit, og svo 1968 þar sem hann stökk 2,06 m og hafnaði í 21.–28. sæti af um 40 keppendum.
Jón var einnig mjög liðtækur í stökkum án atrennu og var meðal annars nálægt því að setja heimsmet í hástökki án atrennu. Honum tókst þó aldrei að ná því þrátt fyrir nokkrar góðar tilraunir.
Árangur Jóns 1963
29. desember 1962: Jón sigrar í fjórum greinum á jólamóti ÍR; hástökki meðog án atrennu, langstökki án atrennu og þrístökki án atrennu. Jón setur nýtt Íslandsmet í hástökki innanhúss, stekkur 2,11 metra, og bætir fyrra met sitt um þrjá cm. Þetta var fjórði besti árangurinn í heiminum frá upphafi.
2. febrúar: Jón gerir tilraun til að stökkva 2,12 metra á innanhússmóti ÍR. Það tekst ekki þrátt fyrir góðar tilraunir.
10. mars: Jón verður Íslandsmeistari í fjórum greinum á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum innanhúss. Hann stekkur 2,05 m í hástökki, 1,66 m í hástökki án atrennu, 3,19 m í langstökki án atrennu og 9,62 m í þrístökki án atrennu.
12. júní: Jón stekkur 2,02 m á EÓP-mótinu, sem KR stendur fyrir.
17. júní: Jón vinnur forsetabikarinn á árlegu 17. júní móti frjálsíþróttamanna fyrir að stökkva tvö metra í hástökki. Hann skrifaði reyndar grein í Morgunblaðið í nóvember sama ár þar sem meðal annars kom fram að hann hefði ekki ennþá fengið þennan bikar afhentan!
2. júlí: Jón sigrar í hástökki í landskeppni Íslendinga og Dana, stekkur 2,02 m. Hann reynir við nýtt Íslandsmet utanhúss, 2,06 m, en það tekst ekki.
31. júlí: Jón hafnar í fjórða sæti í hástökki á Norðurlandamótinu í Gautaborg, stekkur 2,05 metra.
14. ágúst: Jón sigrar í hástökki á meistaramóti Íslands með stökki upp á 1,97 m. Hann vinnur einnig silfurverðlaun í þrístökki.
10. september: Jón hafnar í fjórða sæti á Reykjavíkurmótinu í tugþraut, hlýtur 4772 stig. Hann stekkur 2,02 m í hástökki í þrautinni.