Fréttir 2006

Íþróttamaður ársins 2005 – Eiður Smári bestur

Janúar 2006

Íþróttamaður ársins 2005 var útnefndur í hófi á Grand Hótel Reykjavík þriðjudaginn 3. janúar. Þetta var í 50. sinn sem Samtök íþróttafréttamanna, SÍ, standa að kjörinu frá stofnun þeirra árið 1956, og styttan glæsilega, sem fylgt hefur nafnbótinni, var afhent í síðasta sinn. Í reglum SÍ kveður á um að styttan skuli afhent í 50 skipti en eftir það verður hún afhent Þjóðminjasafni Íslands.

Atkvæðagreiðslan er leynileg og fer þannig fram að hver félagsmaður SÍ setur saman lista með nöfnum tíu íþróttamanna sem honum þykja hafa skarað fram úr á árinu. Efsti íþróttamaður hvers lista fær 20 stig, sá sem er í öðru sæti 15 stig, þriðja sætið gefur 10 stig, fjórða sætið 8 o.s.frv. eins og getið er nánar um í reglugerð SÍ um kjörið.

Eiður Smári hlaut yfirburðakosningu – fékk fullt hús stiga eða 460 atkvæði. Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Gummersbach í Þýskalandi, varð annar með 287 atkvæði og Ásthildur Helgadóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu og leikmaður Malmö í Svíþjóð, varð þriðja með 203 atkvæði.

Eiður Smári braut blað í sögu íslenskrar knattspyrnu síðastliðið vor þegar hann varð fyrstur Íslendinga til að verða Englandsmeistari með liði sínu, Chelsea, sem hampaði titlinum eftir hálfrar aldar bið og stefnir hraðbyri að öðrum meistaratitli. Hann lék stórt hlutverk með liðinu í úrvalsdeildinni, varð annar markahæsti leikmaður liðsins og lék vel með því í Meistaradeildinni þar sem Chelsea komst alla leið í undanúrslit. Þá er Eiður burðarás í íslenska landsliðinu og skoraði á síðasta ári 16. mark sitt fyrir Ísland – skortir eitt mark til að jafna 43 ára gamalt markamet Ríkharðs Jónssonar.

Eiður Smári er sjötti íþróttamaðurinn sem hlýtur sæmdarheitið íþróttamaður ársins tvö ár í röð á Íslandi. Vilhjálmur Einarsson var íþróttamaður ársins þrjú fyrstu árin sem kjörið fór fram, 1956-1958, og síðan aftur tvö ár í röð 1960-1961.

Hreinn Halldórsson var íþróttamaður ársins 1976 og 1977, Jón Arnar Magnússon 1995 og 1996, Örn Arnarson 1998 og 1999 og þá Ólafur Stefánsson 2002 og 2003.

Vissum ekki hvort kjörið entist svona lengi

Úr Morgunblaðinu, janúar 2006

Íþróttamaður ársins var valinn í 50. sinn við hátíðlega athöfn sl. þriðjudag og ljóst að nafn Eiðs Smára Guðjohnsen er það síðasta sem fer á verðlaunagripinn sem tekinn verður úr umferð að ári liðnu.

Samtök íþróttafréttamanna standa á tímamótum um þessar mundir en sl. þriðjudag völdu samtökin íþróttamann ársins í 50. skipti. Að þessu sinni, eins og árið áður, var það Eiður Smári Guðjohnsen, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu og leikmaður Chelsea á Englandi, sem hreppti hnossið og er hann síðasti íþróttamaðurinn sem fær nafn sitt á verðlaunastyttuna sem afhent hefur verið til eins árs í senn frá upphafi. Að ári liðnu mun styttan svo verða afhent Þjóðminjasafni Íslands eins og getið er um í reglugerð um kjörið.

Samtök íþróttafréttamanna voru stofnuð þann 14. febrúar árið 1956 af Atla Steinarssyni, sem jafnframt var fyrsti formaður samtakanna, Frímanni Helgasyni, Halli Símonarsyni og Sigurði Sigurðssyni. Sama ár var íþróttamaður ársins kjörinn í fyrsta skipti og fyrir valinu varð Vilhjálmur Einarsson, ungur frjálsíþróttamaður, sem stóð sig afar vel á Ólympíuleikunum sem haldnir voru í Melbourne í Ástralíu sama ár.

Vilhjálmur varð því fyrsti maðurinn til að fá nafn sitt á styttuna góðu sem senn verður tekin úr umferð. Atli Steinarsson segir að aldrei hafi annað komið til greina en að velja Vilhjálm, meira mál hafi hins vegar verið að velja rétta styttu.

Stytta sem stóðst tímans tönn

„Við ætluðum að hafa þetta í fimmtíu ár og því varð að fá styttu sem gat staðist tímans tönn og öll fimmtíu árin,“ segir Atli og bætir við að leitin hafi tekið sinn tíma. „Það var ekki auðfengið en eftir nokkuð langa leit kom til okkar Árni Árnason, sem þá var að byrja með sína heildsölu í Austurbakka. Árni kom með myndir af styttum og höfðum við allmikið myndaúrval til að velja úr, líklega á milli tíu og tuttugu, og meðal annars af þessari styttu. Við völdum hana og mér finnst enn í dag valið hafa tekist afskaplega vel.“

Styttan sem fyrir valinu varð er frá Bandaríkjunum og kostaði þá rúmar sex þúsund krónur. Atli segir að nokkuð erfitt hafi verið fyrir nýstofnuð og blönk samtök að afla fjár fyrir styttunni en með samheldnu átaki og velvild dagblaða, fyrirtækja og vina og vandamanna hafi verið hægt að fjármagna kaupin.

Þegar styttan kom til landsins þurfti að gera á henni smávægilegar breytingar. Renna þurfti stall úr timbri undir styttuna þar sem hann fylgdi ekki með og gera ráð fyrir skildinum sem á henni er og fimmtíu litlum skjöldum sem bera áttu nöfn íþróttamanna ársins næstu fimmtíu ár.

Atli fékk þann heiður að afhenda Eiði Smára verðlaunagripinn við hátíðlega athöfn á þriðjudag, ásamt Vilhjálmi Einarssyni, og segist vera afar ánægður með að fá að fylgja hugmynd sinni til enda.

Komin heil í höfn

„Þetta var mjög sögulegt og afskaplega gaman að hugmyndin skyldi verða að veruleika og á endanum takast. Við ákváðum í upphafi að þetta yrði í fimmtíu ár og það þótti ansi djarft. Þá vissum við ekki hvort kjörið myndi endast svona lengi. Það var mikil bjartsýni og það er afskaplega gaman að styttan skuli vera komin heil í höfn,“ segir Atli en eftir næsta kjör verður styttunni komið fyrir á Þjóðminjasafni Íslands eins og ákveðið var í upphafi.

Atli bendir þó á að ekki hafi verið um annað að ræða á þeim tíma og hann sjái rétt eins fyrir sér að styttan muni sóma sér vel á Íþróttasafni Akraness. Hann segir það hins vegar alfarið í höndum stjórnar samtakanna að taka slíkar ákvarðanir.

Næsta víst er að nýja styttu þarf fyrir næsta kjör á íþróttamanni ársins en jafnframt eru hugmyndir uppi um að fyrirkomulaginu verði gjörbreytt. „Það verða ábyggilega mikil tímamót núna og það geta orðið allt aðrar reglur um kjörið,“ segir Atli og viðrar hugmyndir sem heyrst hafa um að fá fleira fólk í kjörnefnd, þá konur til jafns við karla, og að kynjaskipta kjörinu. Það er hins vegar á herðum íþróttafréttamannanna og verður að öllum líkindum afgreitt á næsta aðalfundi samtaka þeirra.

af mbl.is

Óbreytt fyrirkomulag á kjöri Íþróttamanns ársins

Ágúst 2006

Samþykkt var á framhaldsaðalfundi Samtaka íþróttafréttamanna 25. ágúst 2006 að halda kjöri Íþróttamanns ársins óbreyttu. Fyrir lá tillaga um að kynjaskipta kjörinu þannig að kosinn yrði Íþróttamaður ársins og Íþróttakona ársins. Styttan sem fylgt hefur kjörinu síðustu fimmtíu árin verður nú tekin úr umferð og nýr gripur því afhentur þeim íþróttamanni sem verður kjörinn fyrir þetta ár. Fannst því félögum í SÍ réttur tími til að íhuga hvort gera ætti einhverjar breytingar. Niðurstaðan varð sú að tillagan var felld og ákveðið að halda kjörin óbreyttu.

50 ára afmæli Samtaka íþróttafréttamanna

September 2006

50 ára afmæli Samtaka íþróttafréttamanna verður haldið í Eldborg, laugardagskvöldið 28. október nk. Þetta er í sal Hitaveitu Suðurnesja við Bláa lónið. Félagsmönnum og mökum þeirra þurfa ekki að greiða fyrir aðgöngumiða. Fyrrverandi félagar geta keypt miða á 2.400 kr. Veislustjóri er Samúel Örn Erlingsson. Á meðal skemmtiatriða má nefna landskeppni í glímu, Ólafur Kjartan Sigurðarson baritonsöngvari tekur lagið líkt og Geir Ólafsson. Sérstakur heiðursgestur verður Atli Steinarsson, eini núlifandi stofnfélagi Samtakanna. Herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, heiðrar SÍ með því að mæta á afmælið.

Glæsilegt 50 ára afmæli – og ný stytta

Október 2006

Samtök íþróttafréttamanna héldu upp á 50 ára afmæli sitt með pompi og pragt í Eldborg í Bláa lóninu laugardagskvöldið 28. október. Ný glæsileg stytta sem fylgir sæmdarheitinu Íþróttamaður ársins, var afhjúpuð á afmælinu en hún er íslensk smíði.

Mikið var um dýrðir á 50 ára afmæli Samtaka íþróttafréttamanna. Kvöldið hófst með kokteilveislu í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs og fyrrverandi íþróttafréttamaður á Morgunblaðinu, tók á móti félagsmönnum SÍ, mökum og gestum. Síðan var haldið með rútu í Eldborg, sal Hitaveitu Suðurnesja. Samúel Örn Erlingsson var veislustjóri en formaður SÍ, Þorsteinn Gunnarsson, opnaði hófið. Í máli hans kom fram að hafin er ritun 50 ára sögu Íþróttamanns ársins í samstarfi við Edduútgáfu. Hallgrímur Indriðason, fyrrverandi íþróttafréttamaður og núverandi fréttamaður á Ríkisútvarpinu, ritar söguna en fyrir ritnefndinni fer Sigurður Svavarsson frá Edduútgáfu. Áætlað er að bókin komi út næsta haust.

SÍ lét útbúa glæsilegan bakgrunn á grind þar sem var að finna yfirlit yfir alla íþróttamenn ársins síðustu 50 árin. RÚV sýndi myndbrot frá kjöri íþróttamanns ársins í gegnum tíðina. Geir Ólafsson tók lagið af sinni alkunnu snilld og starfsmenn 365 unnu spurningakeppnina. Þá var haldin landskeppni í glímu á milli Íslands og Svíþjóðar í tilefni af alþjóðlegu glímumóti á Íslandi þessa helgina og hafði Íslands sigur, 4-0. Ómar Ragnarsson fór með nokkrar gamlar íþróttalýsingar og Ragnar Bjarnason og Þorgeir Ástvaldsson tóku lagið.

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, var á meðal gesta en hann var sæmdur gullmerki samtakanna. Ólafur Ragnar hélt þar einnig ræðu og fór á kostum.

Þá voru fyrrverandi formenn SÍ sæmdir silfurmerki félagsins, þeir Steinar J Lúðvíksson, Þórarinn Ragnarsson, Samúel Örn Erlingsson, Skúli Unnar Sveinsson, Samúel Örn Erlingsson, Skapti Hallgrímsson og Adolf Ingi Erlingsson. Þeir Ingólfur Hannesson, Hermann Gunnarsson og Ívar Benediktsson, fyrrverandi formenn, fá sín silfurmerki afhent við tækifæri en þeir voru fjarstaddir.

Einnig voru þarna íþróttfréttamenn sem eiga sæti í stjórnum systursamtaka okkar í Finnlandi, Noregi, Danmörku og Svíþjóð.

ÍSÍ, UMFÍ, Íslenskar getrauni, Glitnir og Landsbankinn gáfu SÍ glæsilegar gjafir í tilefniafmælisins.

Að tímamótum er komið í sögu Samtaka íþróttafréttmanna, sem hafa staðið að kjöri Íþróttamanns ársins undanfarin 50 ár, því styttan glæsilega sem hefur fylgt sæmdarheitinu frá upphafi, fer á Þjóðminjasafnið í lok ársins.

Nokkrir aðilar lýstu yfir áhuga að leggja til nýja styttu til kjörsins en Samtök íþróttafréttmanna þáðu höfðinglegt boð Íþrótta- og Ólympíusambandsins Íslands. Ekkert var til sparað við gerð styttunnar og var íslenskur gullsmiður, Sigurður Ingi Bjarnason, fenginn til þess að hanna og smíða grípinn.

Styttan var afhjúpuð á afmælishófinu í gærkvöldi. Styttan er mikið mannvirki og vegur heil 30 kg. Sigurður gullsmiður segir að náttúra Íslands endurspeglist í margvíslegu efni verksins. Birkið kemur úr Hallormsstaðaskógi og hraunið frá Þingvöllum, súlur verksins tákna höfuðáttirnar en hún endar í silfurskál sem styður við glerskál sem er tákn þeirrar hreinskiptni og þess heiðarleika sem fólginn er í keppnisanda íþróttanna. Litir skálarinnar eiga rætur sína að rekja til jökla og elda Íslands. Styttan verður svo svo formlega afhent við næsta kjör á Íþróttamanni ársins.

Afmæli SÍ lauk svo balli þar sem grindvíska hljómsveitin Geimfararnir lék fyrir dansi af stakri snilld.

Ekki verður annað sagt en afmælishófið hafi tekist með stakri prýði.

Nýr verðlaunagripur smíðaður með vísun til náttúru Íslands

Nóvember 2006

Sigurður Ingi Bjarnason, gullsmiður, hannaði og smíðaði nýjan verðlaunagrip sem fylgir sæmdarheitinu Íþróttamaður ársins og er gefinn af ÍSÍ. Helena Pálsson, eiginkona Sigurðar Inga, flutti ávarp á 50 ára afmæli SÍ þegar gripurinn af afhjúpaður í fyrsta sinn. Hér á eftir fylgir ræða Helenu þar sem útskýrt er hvaða hugmyndir liggja að baki þessu glæsilega listaverki:

„Nýr verðlaunagripur til handa afreksfólki íslenskra íþrótta hefur verið smíðaður fyrir ÍSÍ. Verkið er smíðað með vísun í náttúru Íslands sem mótað hefur þessa þjóð og hennar þrótt allar götur síðan fyrstu Íslendingarnir stigu fæti á þessa grund. Náttúra Íslands endurspeglast í margvíslegu efni verksins, lögun þess og litbrigðum. Þessir eiginleikar verksins vísa um leið til fjölbreytni íþróttanna og þess styrks og þeirrar þrautseigju sem einkenna afreksmenn íslenskra íþrótta hverju sinni.

Hér er við hæfi að tíunda hvaða íslenski efniviður eru í verðlaunagripnum góða.

Birkið kemur úr Hallormsstaðarskógi og vísar til þolgæðis íslenska birkisins. Þessarar plöntu sem vex með jörðu og út úr klettaveggjum gljúfra frekar en að gefa eftir en teygir síðan stofna sína beina til himins þegar heppilegt umhverfi er að finna.

Hraunið í verkinu kemur frá Þingvöllum, þar sem undirstöðu lands vors og þjóðar er að finna. Þessarar náttúruperlu Íslands og þjóðheilaga staðar þar sem Alþingi vort var stofnað og viðhaldið með tilheyrandi íþróttaiðkun á hverjum tíma. Því er við hæfi að það hraun ásamt birkinu séu til samans undirstaða verksins.

Súlur verksins tákna höfuðáttirnar.

Súlan úr silfri í miðjunni hefur eirkjarna sem brýst fram hér og hvar með roðablæ líkt og eldmóður íþróttamannsins og líkt og jarðeldar íslenskrar náttúru. Silfrið stendur í senn fyrir margbreytileika annars frumafls íslenkrar náttúru sem er vatnið sem er hreyfiafl hvort heldur það er fljótandi eða frosið. Súlan endar í silfurskál sem styður við glerskál sem er tákn þeirrar hreinskiptni og þess heiðarleika sem fólginn er í keppnisanda íþróttanna. Glerið er um leið einnig tákngervingur þess að þrátt fyrir allan þann styrk sem í manneskjunni býr sem og öðrum þáttum náttúrunnar þá eru þessi sköpunarverk brothætt þegar öllu er á botninn hvolft. Litir glerskálarinnar eiga rætur sínar að rekja til jökla og elda Íslands.

Eins og sjá má er þetta óhefðbundin verðlaunagripur. Ein afleiðing þess er sú að ekki er hægt að lyfta honum yfir höfuð sér og fagna sigri, því að bikarinn vegur um 30 kíló. Fyrirtæki okkar Sign ehf var heiður veittur með því að fela okkur smíði verðlaunagripsins. Hann höfum við nú hannað og smíðað af áhuga, gleði og stolti sem hefur að því leitinu vissan samjöfnuð við vinnu íþróttamannsins sem keppir að sínu marki.

Höfundur verksins er Sigurður Ingi Bjarnason, gullsmiður. Sér til halds og traust við vinnuna hafði hann góðan hóp manna.

Það er með ánægju að við afhendum ÍSÍ verðlaunagripinn hér í kvöld, með þeirri von að hann standi um ókomin ár sem vitnisburður til heiðurs afreksmönnum íslenskra íþrótta.

Takk fyrir.
Helena Palsson“

Hlýjar kveðjur frá forseta ÍSÍ

Nóvember 2006

Ólafur Rafnsson, forseti ÍSÍ, skrifar grein um Samtök íþróttafréttamanna á heimasíðu ÍSÍ sem ber einfaldlega yfirskriftina “Samtök íþróttafréttamanna”. Þar vekur hann m.a . athygli á því að íþróttahreyfingin hugi betur að aðstöðu íþróttafréttamanna. Greinin kemur hér í heild sinni:

„Um þessar mundir fagna Samtök íþróttafréttamanna 50 ára afmæli. Upphaf samtakanna má rekja til afreka Vilhjálms Einarssonar á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu árið 1956 er hann hlaut silfurverðlaun í þrístökki eins og hverju mannsbarni á Íslandi ætti að vera kunnugt um.

Varð afrek Vilhjálms til þess að farið var að huga að kjöri á íþróttamanni ársins, og lá beint við að íþróttafréttamenn landsins hlutuðust til um slíkt val – líkt og gert hefur verið allar götur síðan með sama hætti – síðar í afar heilladrjúgu samstarfi við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands með sameiginlegum viðburði sem teljast verður einn af hápunktum íþróttalífsins á Íslandi ár hvert, en þar er jafnframt tilkynnt um val einstakra íþróttagreina á íþróttamanni og –konu ársins.

Samstarf við íþróttafréttamenn er íslenskri íþróttahreyfingu mikilvægt – og má raunar segja að slíkt hljóti að vera gagnkvæmt, enda er hvor einingin nokkuð háð hinni varðandi tilveru sína og vöxt. Það þarf því ekki að koma á óvart að einn af skilgreindum tilgangi Samtaka íþróttafréttamanna skv. lögum félagsins er að vinna að aukinni útbreiðslu íþrótta. Snertifletirnir liggja í augum uppi.

Vert er að leiða hugann að starfsumhverfi íþróttafréttamanna á Íslandi, og þá sérstaklega í samanburði við starfsfélaga þeirra erlendis. Slíkur samanburður sýnir fram á mikinn aðstöðumun og jafnframt að ríkari kröfur eru gerðar til hæfni íþróttafréttamanna á Íslandi í ljósi þess hversu fáir þeir eru til umfjöllunar um svipaðan fjölda íþróttagreina. Hygg ég að þetta hafi íslenskir íþróttafréttamenn leyst vel af hendi í umhverfi kröfuharðra íslenskra neytenda íþróttaefnis.

Leyfi ég mér jafnframt að fullyrða að fulltrúar íþróttahreyfingarinnar á Íslandi hafi almennt átt prýðisgott samstarf við þessa fulltrúa okkar innan fjölmiðlaheimsins, og ég tel mikilvægt í því samhengi að árétta við alla fulltrúa íþrótta að huga vel að aðstöðu og aðbúnaði fyrir íþróttafréttamenn. Sú aðstaða er ekki ætíð til fyrirmyndar, og ósjaldan í hróplegu ósamræmi við kröfur um jákvæða og mikla umfjöllun sem sömu aðilar gera um sína íþrótt eða sitt íþróttafélag.

Atriði á borð við góða vinnuaðstöðu, skriflegar upplýsingar um keppendur og yfirsýn yfir keppnissvæðið eiga að vera svo sjálfsögð að vart þarf að taka fram, en hlýhugur á borð við kaffibolla og smá meðlæti er ánægjuleg viðbót sem ætti að endurspegla sameiginlega hagsmuni og samstarf.

Umfang íþróttafrétta í fjölmiðlum á Íslandi hefur vaxið talsvert á undanförnum árum, og bæði miðlum og tegundum miðlunar fjölgað frá því sem áður var. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hlýtur eðli máls samkvæmt að leggja áherslu á umfjöllun um íslenskar íþróttir og íþróttafólk – hvort sem keppni fer fram hérlendis eða erlendis. Hvet ég stjórnendur fjölmiðla til að sýna íþróttafréttamönnum sínum þann skilning sem þarf til að þeir geti orðið við þeim kröfum, þ.á.m. með því að fá tækifæri til að fylgja íslenskum íþróttamönnum og kappliðum í auknum mæli til keppni hérlendis sem erlendis.

ÍSÍ sendir Samtökum íþróttafréttamanna kærar kveðjur í tilefni afmælisins.

Ólafur Rafnsson,
Forseti ÍSÍ.“

50 ára saga Samtaka íþróttafréttamanna

Nóvember 2006

Á 50 ára afmæli Samtaka íþróttafréttamanna flutti Skapti Hallgrímsson, fyrrverandi formaður SÍ, ræðu þar sem hann fór yfir 50 ára sögu samtakanna. Skapti kom víða við og fengum við góðfúslegt leyfi hans til þess að ræðu hans hér:

„Forseti Íslands, ágætu gestir.

Allir verða að hafa í sig og á – og það eru forréttindi að hafa áhugamálið að lifibrauði.

Meðlimir Samtaka íþróttafréttamanna eru í þessari sérstöku aðstöðu. Þeir fylgjast með íþróttum alla daga og fá ekki bara frítt á völlinn heldur fá þeir borgað fyrir það! eins og það var einhvern tíma orðað við mig.

Samtökin eru að sumu leyti sérstakur félagsskapur; íþróttafréttamenn eru keppinautar, berjast alla daga um fréttir og að segja betur frá en hinir – en svo eru menn auðvitað vinir og félagar inná milli. Það er óhætt að segja að oft hafi gustað um menn í Samtökunum, sjaldan hefur verið lognmolla í starfinu enda félagarnir jafnan kraftmiklir menn og fjörugir.

Samtökin voru stofnuð á skrifstofu Halls Símonarssonar, blaðamanns á Tímanum, í Edduhúsinu. Í fundargerðarbók samtakanna segir:

„Þann 14. febrúar 1956 komu þeir Atli Steinarsson, Frímann Helgason, Hallur Símonarson og Sigurður Sigurðsson saman til fundar í þeim tilgangi að stofna félag með sér er miði að því að vinna að betri aðstöðu við störf þeirra á íþróttavettvangi.

Urðu allir sammála um að stofna þetta félag nú þegar.

Rætt var um að fastir félagar með fullum réttindum skyldu þeir vera er skrifuðu um allar íþróttir fyrir dagblöð, íþróttablaðið og sá er flytur að staðaldri fréttir um íþróttir í útvarpi.

Ennfremur að þeir sem skrifuðu um einstakar greinar yrðu sem óreglulegir félagar. Samþykkt var að fela Atla Steinarssyni að semja og gera tillögur um lög fyrir félagið og leggja þar fyrir næsta fund félagsins.

Þá var ákveðið að kjósa formann og ritara fyrir félagið, og hlutu þessir kosningu: Atli Steinarsson formaður og Frímann Helgason ritari.

Fleiri ekki gert. – Frímann Helgason.“

Strax á næsta fundi, sem einnig var á skrifstofu Halls í Edduhúsinu, lagði Atli fram tillögur um lög félagsins og eftir nokkrar umræður voru þær samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.

Segja má að tvennt hafi staðið upp úr í starfi samtakanna í upphafi, og geri raunar enn og hafi allt tíð gert – barátta fyrir bættri vinnuaðstöðu íþróttafréttamanna og kjör íþróttamanns ársins.

Aðstaða til vinnu á vettvangi var víða bágborin fyrstu árin og var reyndar enn þegar ég kom inn í samtökin snemma á níunda áratug síðustu aldar. En nú hefur það sem betur fer breyst mjög til batnaðar eftir því sem mér sýnist. Alls staðar þykir orðið sjálfsagt að gera ráð fyrir starfsaðstöðu blaðamanna þegar völlur eða hús eru hönnuð.

Það var um miðja öldina sem íslensku dagblöðin fóru að fjalla um íþróttir að einhverju ráði, og sérstakir blaðamenn sem skrifuðu þær. Samkvæmt því sem Atli hefur sagt mér var í raun ákveðið að stofna Samtök íþróttafréttamanna árið 1955. Það ár kom 20 manna hópur norrænna sundmanna til Íslands og það fór auðvitað ekki framhjá Atla enda ólympíufari sjálfur í bringusundi.

Með norræna hópnum var ritstjóri danska Íþróttablaðsins sem Politiken gaf út, Carl Ættrup, en hann var líka formaður Samaka íþróttafréttamanna í Danmörku. Í bréfi sem hann sendi Atla við heimkomuna þakkaði Ættrup kærlega fyri móttökurnar og bauð Atla jafnframt á norrænt þing íþróttafréttamanna – sem þá var haldið í annað sinn – í Sönneborg í Danmörku. Þeir fóru þangað, Atli og vinur hans Sigurður Sigurðsson af útvarpinu, og þá, eins og jafnan síðan, greiddu ferðalangarnir farseðilinn sjálfir en mótshaldarar sáu um allan annan kostnað.

Síðan þá hafa íslenskir íþróttafréttamenn tekið virkan þátt í norrænu samstarfi, og slík þing verið haldin reglulega hér heima, og fulltrúar samtakanna hafa líka í mörg ár tekið þátt í þingum alþjóðlegra samtaka íþróttafréttamanna.

Það var strax eftir þingið í Sönneborg sem þeir Atli ákváðu að stofna samtökin og hugmyndin varð að veruleika 14. febrúar árið eftir, en það var síðar sama ár sem Vilhjálmur Einarsson hlaut silfurverðlaunin í Melbourne og hlaut fyrstur titilinn Íþróttamaður ársins.

Í fyrstu, og reyndar áratugum saman eftir það, skilaði hver fjölmiðill einum atkvæðaseðli í kjöri íþróttamanns ársins.

Á þeim árum fjallaði einungis einn starfsmaður á hverum fjölmiði um íþróttir, það breyttist þegar frá leið en það var samt ekki fyrr en löngu seinni að hver og einn meðlimur SÍ skilaði inn eigin atkvæðaseðli. Ég sé í gamalli fundargerð að Steinar J. Lúðvíksson lagði til á aðalfundi 1974 að lögum yrði breytt á þann veg að eitt atkvæði fylgdi hverjum aðalfélaga en ekki hverjum fjölmiðli – framsýnn maður, Steinar – en það það var ekki fyrr en nokkru eftir við ungu mennirnir, ég, Samúel Örn og fleiri tókum völdin í samtökunum um miðjan níunda áratuginn að hver aðalfélagi í Samtökum íþróttafréttamönnum setti saman sinn eigin lista.

Það var á þessum sama fundi, 1974, sem samþykkt var eftir miklar umræður tillaga um breytingu á lögum samtakanna á þá lund að heimilt yrði að fella niður kjör íþróttamanns ársins – ef ástæða þætti til. Ég er ekki viss um hvenær þessu var breytt aftur, en þessi klausa var altjent ekki fyrir hendi í lögum eða reglugerðum þegar ég hóf störf sem íþróttafréttamaður fyrir aldarfjórðungi.

Raddir voru uppi um það nokkrum misserum áður að sleppa kjörinu eitt árið vegna lélegra afreka. Í fundargerðarbók samtakanna segir: “Vildu sumir afhenda Sundsambandi Íslands verðlaunastyttuna til varðveislu, vegna frábærs sigurs Íslendinga í norrænu sundkeppninni. Athugun leiddi í ljós að þetta var ekki framkvæmanlegt vegna laga félagsins og var þá ákveðið að haga kjöri eins og venjulega.”

Þeir sem tóku þátt í fyrsta kjöri íþróttamanns ársins, 1956, voru sjö eftir því sem Atli Steinarsson segir mér: Stofnfélagarnir fjórir; hann sjálfur af Mogganum, Frímann Helgason Þjóðviljanum, Hallur Símonarson á Tímanum og Sigurður Sigurðsson af útvarpinu, en líka Thorolf Smith Vísi, Brynjólfur Ingólfsson Íþróttablaðinu, og Örn Eiðsson á Alþýðublaðinu.

Það var auðvitað afrek út af fyrir sig að stofna samtökin á sínum tíma en ekki minna afrek að útvega styttuna okkar glæsilegu sem nafnbótinni hefur fylgt alla tíð. Árni eldri Árnason hafði þá nýlega stofnað heildsöluna Austurbakka, hann útvegaði þeim Atla myndabækling sem þeir völdu eftir og það tók óratíma og var dýrt að koma henni til landsins. En það tókst.

Starf íþróttafréttamannsins hefur í sjálfu sér ekki breyst mjög mikið í gegnum tíðina; að vísu er fjallað um fleiri greinar en áður, en blaðamaðurinn segir fréttir sem fyrr, lýsir atburðum og skrifar leikdóma.

Það sem mest hefur breyst er tæknin.

Ég byrjaði á því að skrifa á ritvél á Mogganum sumarið 1982. Fyrir þá yngri er rétt að taka fram að ritvél er eins og tölva nema það var enginn skjár á ritvélinni heldur tróð maður pappírsblaði inn í tækið og stafirnir komu á blaðið! Á íþróttadeild Moggans var reyndar ein tölva og þetta var í fyrsta skipti á ævinni sem ég kom við slíkt tæki. Tveimur dögum eftir að ég kom suður til starfa var ég sendur á unglingalandsleik Íslands og Danmerkur í Laugardalnum, setttist svo við tölvuna og skrifaði um leikinn – og ýtti á takka, þegar ég var búinn, til þess að senda greinina áfram í kerfinu. En ég ýtti auðvitað á vitlausan takka og textinn týndist. Skrifaði því tvisvar um fyrsta leikinn, en ég býst við að umsögnin hafi eitthvað lagast við það!

Yngri mönnum í stéttinni þykir kannski fyndið að ég hafi skrifað á ritvél.

Það þykir líklegra enn fyndnara að það eru ekki nema ellefu ár síðan íþróttafréttamaður frá Morgunblaðinu fór í fyrsta skipti til útlanda með farsíma! Ellefu ár! Það var 1995.

Valtýr Björn notaði fyrstur farsíma í stéttinni; allir muna eftir símanum hans sem var eins og ferðataska að stærð, en sá sem ég fór með var nánast eins og þeir sem við notum í dag. En þetta þótti svo merkilegt að einn fréttastjóra Morgunblaðsins hringdi í mig – ég var sem sagt sá sem fór með símann til útlanda, og var við störf á heimsmeistaramótinu í frjálsíþróttum í Gautaborg – og hann sagðist bara hafa orðið að prófa að hringja. Ég var í sporvagni einhvers staðar í miðri Gautaborg þegar ég svaraði í símann og honum fannst þetta alveg stórkostlegt!

Má ég fara með ykkur enn lengra aftur í tímann? Atli Steinarsson sagði mér að þegar fyrsta kynslóð íslenskra íþróttafréttamanna fór til útlanda var talsambandið aðeins opið í hálftíma á dag síðdegis og það þótti allt of dýrt til að nota það. Þá sendi hann gjarnan um það bil 200 orð í skeyti um kappleik eða frjálsíþróttamót, það allra helsta, til birtingar í blaðinu daginn eftir en skrifaði svo grein sem reynt var að koma heim til Íslands með flugvél daginn eftir. Greinin birtist svo jafnvel tveimur til þremur dögum seinna, en var samt lesin upp til agna, vegna þess að þetta var fyrsta umfjöllunin sem fólk hafði kost á.

Samtök íþróttafréttamanna eru flottur félagsskapur! Við – ég segi við, vegna þess að mér finnst ég alltaf tilheyra þessum félagsskap þrátt fyrir allt – við stöndum fyrir stærsta viðburði íþróttaársins hér á landi hverju sinni. Sá atburður þróast eins og annað; þegar ég byrjaði í stéttinni var það kaffisamsæti, síðar var boðið til hádegisverðar, fyrir allmörgum árum var farið að sýna kjörið í beinni útsendingu í sjónvarpinu og einhvern tíma á meðan ég var formaður Samtaka íþróttafréttamanna tókum við upp samstarf við ÍSÍ þannig að kjöri íþróttamanns sérsambandanna var lýst í sömu veislunni, en aðalmálið var auðvitað og verður alltaf kjörið okkur. Sá viðburðurinn hefur aldrei verið glæsilegri en um þessar mundir og ég vona að hann haldi sínum sessi um ókomin ár.

Að lokum óska ég Samtökum íþróttafréttamanna velfarnaðar um ókomin ár. Gangi ykkur vel!

Skapti Hallgrímsson“

Verðlaunagripur SÍ á Þjóðminjasafnið – ÍSÍ gefur nýjan og glæsilegan verðlaunagrip í staðinn

Desember 2006

Samtök íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands boðuðu til fréttamannafundar á Þjóðminjasafni Íslands fullveldisdaginn 1. desember. Tilefnið var tvíþætt. Annars vegar að afhenda Þjóðminjasafni Íslands styttuna góðu sem hefur fylgt sæmdarheitinu Íþróttamaður ársins undanfarin 50 ár. Hins vegar að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands lét hanna og útbúa nýjan og stórglæsilegan verðlaunagrip sem ætlaður er Íþróttamanni ársins næstu 50 árin og hann var afhentur SÍ. Á meðal gesta voru íþróttafréttamenn, menntamálaráðherra, forystumenn í íþróttahreyfingunni og þó nokkrir af fyrrverandi Íþróttamönnum ársins.

Þorsteinn Gunnarsson, formaður Samtaka íþróttafréttamanna sagði í upphafi að þetta væri stór menningarsögulegur viðburður því fyrir kannski fyrir utan Grettisbeltið ætti líklega enginn annar íslenskur verðlaunagripur eins merka sögu.

Atli Steinarsson, fyrsti formaður Samtaka íþróttafréttamanna, rakti sögu verðlaunagripsins sem SÍ keypti fyrir 50 árum. Það kom svo í hans hlut og Vilhjálms Einarssonar, sem fyrstur var valinn Íþróttamaður ársins og alls fimm sinnum, að afhenda Margréti Hallgrímsdóttur Þjóðminjaverði, styttuna til varðveislu um ókomna tíð eins og stofnskrá hans kvað á um á sínum tíma.

Næst var röðin komin nýja verðlaunagripnum sem ÍSÍ gefur og hefur ekkert til sparað til að gera hann sem veglegastan. Það var forseti ÍSÍ, Ólafur Rafnsson, sem afhenti formanni SÍ stofnskrá verðlaunagripsins og hann þar með til varðveislu næstu 50 árin. Íþróttamaður ársins mun einnig fá eignarbikar sem vísar til stóra verðlaunagripsins og hannaður er af sama gullsmið.

Um verðlaunagripinn

Verkið er smíðað með vísun í náttúru Íslands sem mótað hefur þessa þjóð og hennar þrótt. Náttúra Íslands endurspeglast í margvíslegu efni verksins, lögun þess og litbrigðum. Þessir eiginleikar verksins vísa um leið til fjölbreytni íþróttanna og þess styrks og þeirrar þrautseigju sem einkenna afreksmenn íslenskra íþrótta hverju sinni.

Birkið

Birkið kemur úr Hallormsstaðaskógi og vísar til þolgæðis íslenska birkisins. Þessarar plöntu sem vex með jörðu og út úr klettaveggjum gljúfra frekar en að gefa eftir en teygir síðan stofna sína beina til himins þegar heppilegt umhverfi er að finna.

Hraunið

Hraunið í verkinu kemur frá Þingvöllum, þar sem undirstöðu lands og þjóðar er að finna. Þessarar náttúruperlu Íslands og þjóðheilaga staðar þar sem Alþingi var stofnað og viðhaldið með tilheyrandi íþróttaiðkun á hverjum tíma.

Súlurnar

Súlur verksins tákna höfuðáttirnar. Súlan úr silfri í miðjunni hefur eirkjarna sem brýst fram hér og hvar með roðablæ líkt og eldmóður íþróttamannsins og líkt og jarðeldar íslenskrar náttúru. Silfrið stendur í senn fyrir margbreytileika annars frumafls íslenskrar náttúru sem er vatnið – hreyfiafl hvort sem það er fljótandi eða frosið. Súlan endar í silfurskál, sem styður við glerskál sem er tákn þeirrar hreinskipti og þess heiðarleika sem fólginn er í keppnisanda íþróttanna.

Glerið

Glerið er um leið einnig tákngervingur þess að þrátt fyrir allan þann styrk sem í manneskjunni býr, sem og öðrum þáttum náttúrunnar, þá eru þessi sköpunarverk brothætt þegar öllu er á botninn hvolft. Litir glerskálarinnar eiga rætur sínar að rekja til jökla og elda Íslands.

Höfundur og smíði

Höfundur verksins er Sigurður Ingi Bjarnason, gullsmiður. Sér til halds og traust við vinnuna hafði hann góðan hóp manna sem eru gullsmiðirnir Sveinn Gunnarsson, Hans Kristján Einarsson og Sveinn Ottó Sigurðsson. Trésmiðurinn Örn Jónsson og glerblásararnir Jette Böge Sörensen og Rickard Thunberg.

Myndirnar eru fengnar frá ÍSÍ.

Kjör íþróttamanns ársins 2006 verður 28. desember

Desember 2006

Íþróttamaður ársins 2006 verður útnefndur í hófi á Grand Hótel Reykjavík fimmtudaginn 28. desember nk. Kjörið, sem fram fer í 51. skipti, verður með hefðbundnu sniði en nýr verðlaunagripur fylgir sæmdarheitinu Íþróttamaður ársins að þessu sinni. Nöfn tíu efstu í kjörinu verða birt í dagblöðunum viku fyrir hófið. Sýn og Sjónvarpið sýna bent frá kjöri Íþróttamanns ársins. Að vera valinn Íþróttamaður ársins er mesta viðurkenning sem íslenskur íþróttamaður getur fengið.

Topp 10 listinn frá upphafi

Desember 2006

Tekinn hefur verið saman listi yfir tíu efstu íþróttamenn ársins öll þau 50 ár sem kjörið hefur farið fram. Óskar Ófeigur Jónsson, íþróttafréttamaður á DV, sá um það. Yfirlitið er hið fróðlegasta og má sjá með því að smella hér.

10 efstu í kjöri íþróttamanns ársins 2006

Desember 2006

Atkvæði í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna um Íþróttamann ársins 2006 hafa verið talin og liggur ljóst fyrir hvaða tíu íþróttamenn urðu í efstu sætum í kjörinu.

Nöfn þeirra í stafrófsröð eru:

Auðunn Jónsson, kraftlyftingamaður úr Krafti, Ásthildur Helgadóttir, knattspyrnukona hjá Malmö FF, Birgir Leifur Hafþórsson, kylfingur úr GKG, Eiður Smári Guðjohnsen, knattspyrnumaður hjá Barcelona, Guðjón Valur Sigurðsson, handknattleiksmaður hjá Gummersbach, Margrét Lára Viðarsdóttir, knattspyrnukona hjá Duisburg, Ólafur Stefánsson, handknattleiksmaður hjá Ciudad Real, Ragna Ingólfsdóttir, badmintonkona úr TBR, Sif Pálsdóttir, fimleikakona úr Gróttu, og Örn Arnarson, sundmaður úr SH.

Þrír þessara íþróttamanna voru einnig á lista yfir tíu efstu í kjörinu á síðasta ári – Ásthildur, Eiður Smári og Guðjón Valur. Eiður Smári var útnefndur íþróttamaður ársins í fyrra annað árið í röð.

23 félagsmenn eru í Samtökum íþróttafréttamanna og nýttu allir þeirra atkvæðisrétt sinn í kjörinu að þessu sinni. Atkvæðagreiðslan er leynileg og fer þannig fram að hver félagsmaður SÍ setur saman lista með nöfnum tíu íþróttamanna sem honum þykja hafa skarað fram úr á árinu.

Helstu styrktaraðilar Samtaka íþróttafréttamanna vegna kjörsins eru Edda miðlun og Ólympíufjölskyldan, Glitnir, Icelandair, Sjóvá og VISA, en hófið er haldið í samvinnu við ÍSÍ.

Kjörinu verður lýst á Grand Hótel Reykjavík klukkan 20 og eins og undanfarin ár verður það að hluta til sent út í sameiginlegri beinni útsendingu á RÚV og Sýn. Klukkan 19.25 mun Sýn rifja upp íþróttaárið 2006 í beinni útsendingu.

Áður en kjöri íþróttamanns ársins verður lýst, eða klukkan 18.20, mun ÍSÍ afhenda viðurkenningar til þeirra íþróttakarla og -kvenna hjá sérsamböndum sínum sem þótt hafa skarað fram úr á árinu 2006. Þetta verður í tólfta sinn sem Samtök íþróttafréttamanna og ÍSÍ standa að sameiginlegri hátíð sem nær hápunkti þegar Íþróttamaður ársins 2006 verður útnefndur.

Danirnir hrifnir

Desember 2006

Gjaldkeri kollega okkar í Danmörku, “Danske Sportjournalister”, Fleming Olesen, var gestur í 50 ára afmælisveislu SÍ í október síðastliðinn. Á heimasíðu dönsku samtakanna skrifar hann grein um afmælið þar sem hann fer fögrum orðum um gestrisni okkar og segir afmælisveisluna hafa verið “med manér”.

Greinina má lesa hér á heimasíðu dönsku samtakanna.

Guðjón Valur íþróttamaður ársins 2006

Desember 2006

Handknattleiksmaðurinn Guðjón Valur Sigurðsson var valinn íþróttamaður ársins 2006 af Samtökum íþróttafréttamanna. Þetta er í fyrsta sinn sem Guðjón Valur verður þessa heiðurs aðnjótandi. Knattspyrnumaðurinn Eiður Smári Guðjohnsen, sigurvegari síðustu tveggja ára, varð í öðru sæti og handknattleiksmaðurinn Ólafur Stefánsson þriðji.

Guðjón Valur hlaut alls 405 stig í kjörinu en Eiður Smári 333. Þeir tveir höfðu töluverða yfirburði í kjörinu en Ólafur hlaut 188 stig.

Guðjón Valur átti frábært tímabil með liði sínu Gummersbach í þýsku úrvalsdeildinni í ár og var meðal annars markahæsti leikmaður deildarinnar á síðustu leiktíð. Guðjón Valur var einnig valinn besti leikmaður deildarinnar af leikmönnum hennar. Þá hefur hann spilað frábærlega fyrir íslenska landsliðið í ár og var í hópi betri leikmanna þess á Evrópumótinu sem fram fór í febrúar sl.

Þetta var í 51. skipti sem verðlaunin eru veitt en að þessu sinni fylgdi nýr og glæsilegur verðlaunagripur sæmdarheitinu íþróttamaður ársins.

Íþróttamaður ársins 2006 – Guðjón Valur sá besti

Desember 2006

„Það er í fyrsta lagi mikill heiður að fá að tilheyra svona hópi frábærra íþróttamanna og í öðru lagi að fá svona viðurkenningu, þó að ekki sé nema einu sinni á lífsleiðinni, er ekkert nema frábært,” sagði nýkrýndur íþróttamaður ársins 2006, Guðjón Valur Sigurðsson, handknattleiksmaður hjá Gummersbach, eftir að hann hafði veitt nýjum verðlaunagrip, sem fylgir nafnbótinni, móttöku í gær. Viðurkenningin fullkomnar árið hjá kappanum því í vor var hann valinn besti leikmaður þýsku deildarinnar og einnig var hann markahæsti maður hennar.

„Það er mjög erfitt fyrir ykkur sem að þessu vali standið að bera saman íþróttagreinar og erfitt að velja menn úr hópíþróttum og þessar viðurkenningar í Þýskalandi eru þannig lagað séð einstaklingstitlar, ég vann enga titla með mínu liði. Ólafur Stefánsson vann þrjá titla með sínu félagi á árinu, Eiður Smári varð meistari með sínu félagi og svo er Auðunn Jónsson, sem hangir einn að æfa allt árið, heimsmeistari í sinni grein. Ég tek ofan fyrir mönnum eins og Auðuni því ég á mjög erfitt með að ímynda mér hvernig það er að vera einn að æfa öllum stundum, enda er ég hópíþróttamaður. Þetta er bara lítið brot af frábærum árangri þeirra íþróttamanna sem fengu viðurkenningu hér í kvöld og það væri hægt að halda lengi áfram,” sagði Guðjón Valur.

Grunaði þetta ekki

Hann þvertekur fyrir að hafa grunað að hann yrði fyrir valinu, en viðurkennir að sumir í kringum hann hafi látið að því liggja að kannski ætti hann möguleika. „Ég var hérna í fyrra og varð í öðru sæti og var gríðarlega sáttur við það. Fyrir mig er þetta bara bónus. Mér finnst hins vegar rosalega gaman að fólk sem er að greina frá því sem maður er að gera – vinnunni manns – hafi áhuga á þessu og viðurkenni starf manns,” segir Guðjón Valur.

Nýr verðlaunagripur var veittur að þessu sinni auk þess sem þeir tíu íþróttamenn sem urðu í efstu sætunum fengu veglega bókargjöf frá Eddu miðlun. Íþróttamaður ársins fékk peningaverðlaun frá Glitni og þrír efstu flugmiða frá Icelandair. En hvernig var að lyfta hinum nýja verðlaunagrip?

Virkilega góð tilfinning

„Það var ekkert voðalega auðvelt!” segir Guðjón Valur enda verðlaunagripurinn stór og þungur. „En það var skemmtilegt og virkilega góð tilfinning,” bætti hann við.

Guðjón Valur komst í fyrsta sinn á topp tíu listann í fyrra og varð þá í öðru sæti. Núna, ári síðar, er hann á listanum öðru sinni og sigrar. Hvert liggur leiðin núna – niður á við?

„Vonandi ekki,” segir Guðjón Valur brosandi. „Ég tel mig eiga eitthvað eftir í handboltanum og vonast til að tvær æfingar á dag og fullt af leikjum geri mann að betri íþróttamanni.

En eins og ég sagði áðan vil ég ekki horfa á þessa viðurkenningu með þessum augum. Mér finnst frábært að hafa fengið þetta og viðurkenningin er stór bónus á mjög svo skemmtilegu ári hjá mér. Ég vona bara að hver sá sem fær verðlaunin á næstu árum eigi eftir að njóta þeirra og leggi hart að sér. Það ætla ég að gera hér eftir sem hingað til. Stefnan hjá mér er alls ekki sú að verja titilinn þó að ég neiti því ekki að það yrði óneitanlega gaman. En þetta er viðurkenning sem enginn á að geta gengið að sem öruggri,” sagði íþróttamaður ársins 2006.

Guðjón Valur er sjöundi handknattleiksmaðurinn sem verður íþróttamaður ársins en þetta er í áttunda sinn sem handknattleiksmaður verður fyrir valinu, Ólafur Stefánsson varð tvisvar hlutskarpastur. Hinir eru Sigríður Sigurðardóttir 1964, Geir Hallsteinsson 1968, Hjalti Einarsson 1971, Alfreð Gíslason 1989 og Geir Sveinsson 1997.

Úr Morgunblaðinu