Um verðlaunagripinn

Verðlaunagripur SÍ á Þjóðminjasafnið – ÍSÍ gefur nýjan og glæsilegan verðlaunagrip í staðinn

Desember 2006

Samtök íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands boðuðu til fréttamannafundar á Þjóðminjasafni Íslands fullveldisdaginn 1. desember. Tilefnið var tvíþætt. Annars vegar að afhenda Þjóðminjasafni Íslands styttuna góðu sem hefur fylgt sæmdarheitinu Íþróttamaður ársins undanfarin 50 ár. Hins vegar að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands lét hanna og útbúa nýjan og stórglæsilegan verðlaunagrip sem ætlaður er Íþróttamanni ársins næstu 50 árin og hann var afhentur SÍ. Á meðal gesta voru íþróttafréttamenn, menntamálaráðherra, forystumenn í íþróttahreyfingunni og þó nokkrir af fyrrverandi Íþróttamönnum ársins.

Þorsteinn Gunnarsson, formaður Samtaka íþróttafréttamanna sagði í upphafi að þetta væri stór menningarsögulegur viðburður því fyrir kannski fyrir utan Grettisbeltið ætti líklega enginn annar íslenskur verðlaunagripur eins merka sögu.

Atli Steinarsson, fyrsti formaður Samtaka íþróttafréttamanna, rakti sögu verðlaunagripsins sem SÍ keypti fyrir 50 árum. Það kom svo í hans hlut og Vilhjálms Einarssonar, sem fyrstur var valinn Íþróttamaður ársins og alls fimm sinnum, að afhenda Margréti Hallgrímsdóttur Þjóðminjaverði, styttuna til varðveislu um ókomna tíð eins og stofnskrá hans kvað á um á sínum tíma.

Næst var röðin komin nýja verðlaunagripnum sem ÍSÍ gefur og hefur ekkert til sparað til að gera hann sem veglegastan. Það var forseti ÍSÍ, Ólafur Rafnsson, sem afhenti formanni SÍ stofnskrá verðlaunagripsins og hann þar með til varðveislu næstu 50 árin. Íþróttamaður ársins mun einnig fá eignarbikar sem vísar til stóra verðlaunagripsins og hannaður er af sama gullsmið.

Um verðlaunagripinn

Verkið er smíðað með vísun í náttúru Íslands sem mótað hefur þessa þjóð og hennar þrótt. Náttúra Íslands endurspeglast í margvíslegu efni verksins, lögun þess og litbrigðum. Þessir eiginleikar verksins vísa um leið til fjölbreytni íþróttanna og þess styrks og þeirrar þrautseigju sem einkenna afreksmenn íslenskra íþrótta hverju sinni.

Birkið

Birkið kemur úr Hallormsstaðaskógi og vísar til þolgæðis íslenska birkisins. Þessarar plöntu sem vex með jörðu og út úr klettaveggjum gljúfra frekar en að gefa eftir en teygir síðan stofna sína beina til himins þegar heppilegt umhverfi er að finna.

Hraunið

Hraunið í verkinu kemur frá Þingvöllum, þar sem undirstöðu lands og þjóðar er að finna. Þessarar náttúruperlu Íslands og þjóðheilaga staðar þar sem Alþingi var stofnað og viðhaldið með tilheyrandi íþróttaiðkun á hverjum tíma.

Súlurnar

Súlur verksins tákna höfuðáttirnar. Súlan úr silfri í miðjunni hefur eirkjarna sem brýst fram hér og hvar með roðablæ líkt og eldmóður íþróttamannsins og líkt og jarðeldar íslenskrar náttúru. Silfrið stendur í senn fyrir margbreytileika annars frumafls íslenskrar náttúru sem er vatnið – hreyfiafl hvort sem það er fljótandi eða frosið. Súlan endar í silfurskál, sem styður við glerskál sem er tákn þeirrar hreinskipti og þess heiðarleika sem fólginn er í keppnisanda íþróttanna.

Glerið

Glerið er um leið einnig tákngervingur þess að þrátt fyrir allan þann styrk sem í manneskjunni býr, sem og öðrum þáttum náttúrunnar, þá eru þessi sköpunarverk brothætt þegar öllu er á botninn hvolft. Litir glerskálarinnar eiga rætur sínar að rekja til jökla og elda Íslands.

Höfundur og smíði

Höfundur verksins er Sigurður Ingi Bjarnason, gullsmiður. Sér til halds og traust við vinnuna hafði hann góðan hóp manna sem eru gullsmiðirnir Sveinn Gunnarsson, Hans Kristján Einarsson og Sveinn Ottó Sigurðsson. Trésmiðurinn Örn Jónsson og glerblásararnir Jette Böge Sörensen og Rickard Thunberg.