Fréttir 2014-16

Gylfi Þór Íþróttamaður ársins 2016

on 29/12/2016

Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið kjörinn íþróttamaður ársins 2016 af Samtökum íþróttafréttamanna. Þetta er í annað sinn sem hann hlýtur sæmdarheitið, áður varð hann fyrir valinu árið 2013. Gylfi Þór leikur sem knattpspyrnumaður með velska liðinu Swansea og er lykilleikmaður í íslenska landsliðinu í knattspyrnu, sem komst í 8-liða úrslit á Evrópumótinu í Frakklandi síðastliðið sumar.

Gylfi Þór fékk 430 stig af 460 mögulegum í kjörinu en 24 félagsmenn í Samtökum íþróttafréttamanna greiddu atkvæði þetta árið. Önnur varð sundkonan Hrafnhildur Lúthersdóttir, þrefaldur verðlaunahafi á Evrópumeistaramótinu í sundi í 50 m laug en hún keppti einnig til úrslita, fyrst íslenskra kvenna ásamt Eygló Ósk Gústafsdóttir, í sundi á Ólympíuleikum á leikunum í Ríó í sumar.

Kylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir varð þriðja í kjörinu með 214 stig. Hún keppti á Evrópumótaröðinni í golfi á árinu og komst inn á bandarísku atvinnumannamótaröðina í golfi, fyrst íslenskra kylfinga.

Lið ársins var valið karlalandslið Íslands í knattspyrnu með fullt hús stiga, 120 stig. Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska landsliðsins í handknattleik, var valinn þjálfari ársins en hann gerði lið sitt að Evrópumeisturum í upphafi árs auk þess sem að það vann til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó.

Heildarniðurstaða kjörsins:

1. Gylfi Þór Sigurðsson, knattspyrna 430 stig
2. Hrafnhildur Lúthersdóttir, sund 390
3. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, golf 214
4. Aron Einar Gunnarsson, knattspyrna 167
5. Eygló Ósk Gústafsdóttir, sund 117
6. Sara Björk Gunnarsdóttir, knattspyrna 100
7. Júlían J. K. Jóhannsson, kraftlyftingar 80
8. Aron Pálmarsson, handbolti 65
9. Martin Hermannsson, körfubolti 57
10. Aníta Hinriksdóttir, frjálsíþróttir 45
11. Ragnar Sigurðsson, knattspyrna 28
12. Kári Árnason, knattspyrna 23
13. Fanney Hauksdóttir, kraftlyftingar 16
14. Jón Arnór Stefánsson, körfubolti 7
15. Ásdís Hjálmsdóttir, frjálsíþróttir 6
16. Irina Sazonova, fimleikar 3
17. Glódís Perla Viggósdóttir, knattspyrna 2
18. Dagný Brynjarsdóttir, knattspyrna 1
19. Birgir Leifur Hafþórsson, golf 1

Lið ársins:

1. Karlalandslið Íslands í knattspyrnu 120 stig
2. Kvennalandslið Íslands í knattspyrnu 62 stig
3. Karlalandslið Íslands í körfubolta 30 stig
4. Kvennalandslið Íslands í hópfimleikum 3 stig
5. Karlalandslið Íslands í handbolta 1 stig

Þjálfari ársins:

1. Dagur Sigurðsson 67 stig
2. Guðmundur Guðmundsson 62
3. Heimir Hallgrímsson 54
4. Þórir Hergeirsson 33

Spennandi kjör í vændum

on 23/12/2016

Nú liggur hvaða íþróttamenn, þjálfarar og lið fengu flest atkvæði í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á Íþróttamanni ársins, liði ársins og þjálfara ársins. Kjörinu verður lýst í Hörpu þann 29. desember, í beinni útsendingu á Rúv.

Hér fyrir neðan má sjá hvaða aðilar eru tilnefndir í flokkunum þremur, í stafrófsröð:

Íþróttamaður ársins:
Aníta Hinriksdóttir, frjálsíþróttir
Aron Einar Gunnarsson, knattspyrna
Aron Pálmarsson, handbolti
Eygló Ósk Gústafsdóttir, sund
Gylfi Þór Sigurðsson, knattspyrna
Hrafnhildur Lúthersdóttir, sund
Júlían J. K. Jóhannsson, kraftlyftingar
Martin Hermannsson, körfubolti
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, golf
Sara Björk Gunnarsdóttir, knattspyrna

Lið ársins:
A-landslið karla í knattspyrnu
A-landslið karla í körfubolta
A-landslið kvenna í knattspyrnu

Þjálfari ársins:
Dagur Sigurðsson
Guðmundur Guðmundsson
Heimir Hallgrímsson

60 ára afmæli Samtaka íþróttafréttamanna

on 22/10/2016

60 ára afmæli Samtaka íþróttafréttamanna var fagnað í sal Blaðamannafélags Íslands, Síðumúla 23, þann 21. október 2016. Samtökin voru stofnuð þann 14. febrúar 1956 af Atla Steinarssyni, Halli Símonarsyni, Frímanni Helgasyni og Sigurði Sigurðssyni.

Var það sérstakt ánægjuefni að Atli Steinarsson, einn af stofnendum og fyrsti formaður samtakanna, var viðstaddur og afhenti hann Eiríki Stefáni Ásgeirssyni, núverandi formanni, fyrstu fundargerðarbók samtakanna. Bókin hefur að geyma fundargerðir fyrstu 20 ár SÍ.

Við þetta tilefni var ákveðið að veita þeim meðlimum SÍ sem hafa verið starfandi íþróttafréttamenn í að minnsta kosti 25 ár silfurmerki SÍ. Þeir Víðir Sigurðsson, Jón Kristján Sigurðsson, Arnar Björnsson og Guðmundur Hilmarsson skipuðu þann hóp.

Þá var Adolf Ingi Erlingsson, sem gegndi formennsku í SÍ frá 1999 til 2006 auk trúnaðarstarfa fyrir alþjóðasamtök íþróttafréttamanna, sæmdur gullmerki SÍ fyrir störf sín í þágu Samtaka íþróttafréttamanna og stéttarinnar.

Kjör íþróttamanns ársins óbreytt

on 12/05/2016

Aðalfundur Samtaka íþróttafréttamanna var haldinn fimmtudaginn 12. maí. Eiríkur Stefán Ásgeirsson hóf þar síðara ár sitt sem formaður á núverandi kjörtímabili. Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson var endurkjörinn ritari og Jón Kristján Sigurðsson var endurkjörinn gjaldkeri.

Tómas Þór Þórðarson og Einar Örn Jónsson verða áfram varamenn í stjórn og þá verða Arnar Björnsson og Sindri Sverrisson áfram skoðunarmenn reikninga. Kjörtímabil allra er eitt ár.

Ein umsókn um aðild barst stjórn SÍ, frá Hafliða Breiðfjörð sem starfar sem framkvæmdastjóri og blaðamaður Fótbolti.net. Var umsókn hans samþykkt. Eru nú 25 félagsmenn í Samtökum íþróttafréttamanna en Þorsteinn Haukur Harðarson og Valtýr Björn Valtýsson ganga nú úr SÍ.

Tvær breytingatillögur á lögum SÍ lágu fyrir og voru báðar samþykktar. Þriðja grein, sem fjallaði um aukafélaga, var felld út og fengu því aðrar greinar ný númer eftir því sem átti við. Þá var viðbót við fjórðu grein, sem nú er þriðja grein, samþykkt.

Fjórar breytingatillögur á reglugerð um kjör íþróttamanns ársins lágu fyrir. Þrjár, sem fjölluðu allar um að breyta kjörinu og kjósa íþróttakarl og -konu ársins í stað íþróttamanns ársins, voru felldar. Sú fjórða var samþykkt en eftir hana er engin sérstök dagsetning tilgreind á hvenær atkvæðaseðlum fyrir kjör íþróttamanns ársins skuli skilað til stjórnar.

Skýrsla stjórnar og reikningur gjaldkera voru lögð fyrir fundinn og samþykkt.

f.h. stjórnar SÍ
Eiríkur Stefán Ásgeirsson, formaður

Aðalfundur 12. maí

on 05/05/2016

Aðalfundur Samtaka íþróttafréttamanna verður haldinn fimmtudaginn 12. maí klukk1n 12.00. Venjuleg aðalfundarstörf.

Lagabreytingatillögur verða að hafa borist til félagsmanna tveimur dögum fyrir aðalfund.

Ekki er kosið til formanns á aðalfundi þessa árs en í öll önnur embætti.

Eygló Ósk er Íþróttamaður ársins 2015

on 30/12/2015

Sundkonan Eygló Ósk Gústafsdóttir hlaut í kvöld sæmdarheitið Íþróttamaður ársins þegar niðurstöður kosningar Samtaka íþróttafréttamanna voru tilkynntar við hátíðlega athöfn í Silfurbergi í Hörpu.

Eygló Ósk á frábært ár að baki í sundlauginni. Hún varð fyrsti Íslendingurinn til að vinna sér inn þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Ríó á næsta ári og fyrsta sundkonan til að vinna verðlaun á stórmóti. Það gerði hún á Evrópumeistaramótinu í 25 m laug sem fór fram í Ísrael í desember er hún vann tvenn bronsverðlaun.

Eygló Ósk varð einnig fyrsta íslenska sundkonan, ásamt Hrafnhildi Lúthersdóttur, til að synda til úrslita á heimsmeistaramóti í 50 m laug en það gerðu þær í Kazan í Rússlandi í ágúst. Eygló Ósk fjórbætti Norðurlandametið í 200 m baksundi á árinu og bætti þar að auki fjölda Íslandsmeta, auk þess sem hún vann mörg verðlaun á Íslandsmótum og Smáþjóðaleikum.

Gylfi Þór Sigurðsson varð í öðru sæti í kjörinu en hann er lykilmaður í íslenska landsliðinu sem vann sér þátttökurétt á Evrópumeistaramótinu sem fer fram í Frakklandi á næsta ári. Hann var einnig í stóru hlutverki hjá velska liðinu Swansea sem náði besta árangri í sögu félagsins þegar það endaði tímabilið í ensku úrvalsdeildinni í vor í áttunda sæti.

Hrafnhildur varð þriðja í kjörinu en auk árangursins á HM í Kazan náði hún Ólympíulágmörkum í fjórum greinum á árinu og var, ásamt Eygló Ósk, valin í keppnislið Evrópu fyrir Duel in the Pool sundkeppnina undir lok ársins.

Heimir Hallgrímsson, annar þjálfara íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, var valinn þjálfari ársins og karlalandsliðið sjálft var valið lið ársins með fullu húsi stiga.

Niðurstöður kjörsins má sjá hér fyrir neðan:

Íþróttamaður ársins

1. Eygló Ósk Gústafsdóttir (sund) 470 stig
2. Gylfi Þór Sigurðsson (fótbolti) 350
3. Hrafnhildur Lúthersdóttir (sund) 229
4. Guðjón Valur Sigurðsson (handbolti) 202
5. Fanney Hauksdóttir (kraftlyftingar) 139
6. Jón Arnór Stefánsson (körfubolti) 137
7. Aron Einar Gunnarsson (fótbolti) 128
8. Sara Björk Gunnarsdóttir (fótbolti) 63
9. Aníta Hinriksdóttir (frjálsar) 44
10. Helgi Sveinsson (íþr. fatlaðra) 29
11. Ragnar Sigurðsson (fótbolti) 16
12. Hannes Þór Halldórsson (fótbolti) 15
13. Aron Pálmarsson (handbolti) 12
14. Irina Sazanova (fimleikar) 9
15. Hanna Rún Bazev Óladóttir (dans) 8
16. Ásgeir Sigurgeirsson (skotfimi) 7
17. Dagný Brynjarsdóttir (fótbolti) 6
18. Birkir Bjarnason (fótbolti) 6
19. Ásdís Hjálmsdóttir (frjálsar) 5
20. Anton Sveinn McKee (sund) 5
21. Birgir Leifur Hafþórsson (golf) 4
22. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir (golf) 4
23. Hlynur Bæringsson (körfubolti) 4
24. Þormóður Jónsson (júdó) 2
25. Helena Sverrisdóttir (körfubolti) 1
26. Júlían J. K. Jóhannsson (kraftlyftingar) 1
27. Guðbjörg Gunnarsdóttir (fótbolti) 1
28. Norma Dögg Róbertsdóttir (fimleikar) 1

Þjálfari ársins

1. Heimir Hallgrímsson 124 stig
2. Þórir Hergeirsson 69
3. Alfreð Gíslason 18
4. Dagur Sigurðsson 12
5. Kári Garðarsson 9
6. Guðmundur Guðmundsson 1
7. Þorsteinn Halldórsson 1

Lið ársins

1. A-landslið karla (fótbolti) 130 stig
2. A-landslið karla (körfubolti) 51
3. Stjarnan kvenna (hópfimleikar) 28
4. Grótta kvenna (handbolti) 20
5. A-landslið kvenna (strandblak) 5

Ræða formanns Samtaka íþróttafréttamanna

on 30/12/2015

Eftirfarandi ræðu flutti Eiríkur Stefán Ásgeirsson, formaður Samtaka íþróttafréttamanna, á hófi Íþróttamanns ársins í Silfurbergi í Hörpu, 30. desember 2015:

Forseti Íslands, Forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Mennta-, menningar- og íþróttamálaráðherra, góðir gestir.

Samtök íþróttafréttamanna útnefna í kvöld Íþróttamann ársins í 60. sinn. Að baki er frábært íþróttaár og erum við Íslendingar svo lánsamir að eiga stóran hóp afreksfólks í íþróttum sem hefur náð framúrskarandi árangri í greinum sínum á alþjóðlegum vettvangi. Í kvöld erum við þeirrar ánægju aðnjótandi að fá að verðlauna þau allra bestu úr þessum glæsilega hópi.

Íþróttafólkið okkar kemur úr mörgum áttum og vettvangur þess er ólíkur. Það sem þau eiga hins vegar öll sameiginlegt er að hafa lagt á sig ómælda vinnu til að ná þeim árangri sem þau geta státað af. Að baki hvers afreks eru óteljandi klukkustundir þrotlausra æfinga og aukaæfinga.

Það hefur komið sífellt betur í ljós að til þess að komast í fremstu röð þarf ekki aðeins að hlúa að líkamlega þættinum, heldur einnig þeim andlega. Í ár hefur farið fram góð og afar gagnleg umræða um andlega heilsu íþróttamanna, þar sem íþróttafólkið sjálft hefur stigið fram og lýst baráttu sinni við andleg og geðræn vandamál.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka öllu þessu frábæra íþróttafólki fyrir að opna á umræðuna. Viðbrögðin við henni sýna að hennar var svo sannarlega þörf. Í of langan tíma hefur íþróttafólk burðast með þá ímynd að vanlíðan sé veikleikamerki og að leita sér hjálpar við slíkum vanda væri það sama og sýna uppgjöf.

Viðhorfið þarf að breytast. Það á að líta á depurð og kvíða sömu augum og trosnuð liðbönd og tognanir í vöðvum. Það þurfa að vera úrræði til staðar innan íþróttahreyfingarinnar við andlegum veikindum, sem og líkamlegum, og beita sömu rökhugsun um endurhæfingu og uppbyggingu hugans, rétt eins og líkamans eftir alvarleg meiðsli.

Íþróttafólkið okkar hefur opnað á þessa umræðu og nú er það undir okkur hinum komið að halda henni áfram. Forystumenn í íþróttahreyfingunni – hvort sem er hjá sérsamböndum eða félögunum sjálfum – ráðamenn í þjóðfélaginu, fjölmiðlar og aðrir þurfa að taka boltann á lofti og gæta þess að mýtunni um hinn fullkomna íþróttamann verði útrýmt.

Íþróttafólkið okkar hefur um árabil verið frábær fyrirmynd vegna árangurs síns á vellinum. Nú getur það einnig verið fyrirmynd allra þeirra sem glíma við vanlíðan og andleg veikindi, hvort sem viðkomandi leggur stund á íþróttir eða ekki. Íþróttafólkið okkar hefur nú þegar sýnt hvers það er megnugt þrátt fyrir að hafa þurft að yfirstíga margskonar hindranir á leið sinni, sem er ekki síst stærri sigur en að fá verðlaunapening um hálsinn.

Við erum saman komin til að heiðra afreksfólk okkar fyrir glæsileg afrek þess á árinu 2015 og Samtök íþróttafréttamanna eru stolt af því að fá tækifæri til þess í kvöld. Samstarfsaðilar Samtaka íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands eru Icelandair, Íslandsbanki, Sjóvá og Valitor og kunnum við þessum aðilum bestu þakkir fyrir stuðninginn.

Tíu efstu 2015

on 23/12/2015

Samtök íþróttafréttamanna hafa kunngjört hvaða aðilar hafa verið tilnefndir sem Íþróttamaður ársins, þjálfari ársins og lið ársins.

Í ár verður kjörinu lýst á sameiginlegu hófi Samtaka íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í Silfurbergi í Hörpu, miðvikudaginn 30. desember.

Íþróttamaður ársins er nú kjörinn í 60. sinn en þjálfari og lið ársins í fjórða sinn.

Allir listar eru í stafrófsröð

Íþróttamaður ársins
Aníta Hinriksdóttir, frjálsíþróttir
Aron Einar Gunnarsson, knattspyrna
Eygló Ósk Gústafsdóttir, sund
Fanney Hauksdóttir, kraftlyftingar
Guðjón Valur Sigurðsson, handknattleikur
Gylfi Þór Sigurðsson, knattspyrna
Helgi Sveinsson, íþróttir fatlaðra
Hrafnhildur Lúthersdóttir, sund
Jón Arnór Stefánsson, körfuknattleikur
Sara Björk Gunnarsdóttir, knattspyrna

Lið ársins
A-landslið karla í knattspyrnu
A-landslið karla í körfubolta
Kvennalið Stjörnunnar í hópfimleikum

Þjálfari ársins
Alfreð Gíslason
Heimir Hallgrímsson
Þórir Hergeirsson

Kjör Íþróttamanns ársins 2015

on 14/12/2015

Kjöri Íþróttamanns ársins 2015 verður lýst við hátíðlega athöfn í Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúsi miðvikudaginn 30. desember. Lið og þjálfari ársins verða einnig útnefnd en það eru Samtök íþróttamanna sem standa að kjörinu í 60. sinn.

Tilnefningar til verðlaunanna verða tilkynntar í fjölmiðlum 23. desember.

Við sama tilefni mun Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands veita viðurkenninga til íþróttakvenna og íþróttamanna ársins 2015 í sérgreinum íþrótta. Þetta er í 20. sinn sem SÍ og ÍSÍ standa að sameiginlegu hófi.

Aðalhluti hófsins verður sýndur í beinni útsendingu á Rúv.

Nýr meðlimur í SÍ

on 14/12/2015

Á félagsfundi Samtaka íþróttafréttamanna í dag, 14. desember, var nýr meðlimur tekinn inn í samtökin. Edda Sif Pálsdóttir, sem hafið hefur störf á íþróttadeild Rúv, er því nú orðinn fullgildur meðlimur.

Félagar í Samtökum íþróttafréttamanna eru alls 26.

Stjórnin endurkjörin

on 21/05/2015

Aðalfundur Samtaka íþróttafréttamanna var haldinn 20. maí 2015. Stjórn SÍ var endurkjörin. Eiríkur Stefán Ásgeirsson var kjörinn formaður en með honum í stjórn verða áfram Jón Kristján Sigurðsson, gjaldkeri, og Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, ritari. Þá verða Tómas Þór Þórðarson og Einar Örn Jónsson varamenn í stjórn og Arnar Björnsson og Sindri Sverrisson endurskoðendur. Kjörtímabil formanns er tvö ár en eitt ár í öðrum embættum.

Einn nýr félagi var tekinn inn í SÍ á aðalfundinum. Hjörtur Júlíus Hjartarson, sem er nýhafinn með útvarpsþáttinn Akraborgin á X-inu 977, gerist aftur fullgildur meðlimur eftir stutta fjarveru. Meðlimir eru því 26 talsins.

Skýrsla stjórnar og ársreikningar voru lagðir fram og samþykktir. Enga lagabreytingatillögur lágu fyrir fundinum.

Aðalfundur SÍ

on 12/05/2015

Stjórn Samtaka íþróttafréttamanna boðar til aðalfundar. Fundurinn verður haldinn miðvikudaginn 20. maí 2015 klukkan 12.00 í húsakynnum UMFÍ í Sigtúni. Kosið verður í embætti formanns til næstu tveggja ára og í önnur embætti til eins árs. Dagskrá aðalfundar verður samkvæmt lögum samtakanna.

Útgáfa fjölmiðlaskírteina KSÍ 2015

on 22/04/2015

Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) og Samtök íþróttafréttamanna (SÍ) munu áfram eiga samstarf um útgáfu fjölmiðlaskírteina KSÍ (F-skírteini). Nú er komið að útgáfu skírteinanna fyrir knattspyrnutímabilið 2015.

Útgáfa skírteinanna verður áfram í höndum KSÍ en SÍ mun taka á móti umsóknum fjölmiðla um skírteini og veita þeim faglega umsögn.

Samtök íþróttafréttamanna (SÍ) voru stofnuð árið 1956 í þeim tilgangi að vinna að bættum hag íþróttafréttamanna. Er það bundið í lög SÍ að samtökin skuli vinna að bættri aðstöðu félagsmanna og gæta hagsmuna þeirra í hvívetna, auk þess að tryggja félagsmönnum og aðstoðarmönnum þeirra greiðan aðgang að íþróttamótum og kappleikjum.

Eingöngu handhafar fjölmiðlaskírteina fá aðgang að aðstöðu fjölmiðlamanna á leikstað og mun SÍ hafa eftirlit með því að skírteinin séu notuð á viðeigandi hátt á meðan leiktíðinni stendur. Aðeins þeir sem sannarlega fjalla um knattspyrnu í íslenskum fjölmiðlum eiga þess kost að fá fjölmiðlaskírteini.

Við mat á umsóknum verður umfjöllun síðustu ára hjá viðkomandi fjölmiðli tekin til greina. Fjölmiðlaskírteini veitir aðgang að leikjum á Íslandsmóti og bikarkeppni KSÍ og verður því umfjöllun um þær keppnir fyrst og fremst skoðaðar þegar umsóknir fjölmiðla verða metnar.

Ekki er nauðsynlegt að vera fullgildur meðlimur í SÍ til að sækja um fjölmiðlaskírteini, enda koma mun fleiri að umfjöllun fjölmiðla um leiki en þeir sem eru íþróttafréttamenn í fullu starfi.

Umsóknir um fjölmiðlaskírteini skal senda á netfangið sportpress@sportpress.is eigi síðar en 24. apríl næstkomandi. Umsókninni skal fylgja Word-skjal þar sem fram koma eftirfarandi upplýsingar:

  • Nafn umsækjanda
  • Starf (blaðamaður, ljósmyndari o.s.frv.)
  • Netfang
  • Andlitsmynd (4×3 cm)

ATHUGIÐ!

Umsóknir sem berast eftir auglýstan umsóknarfrest verða afgreiddar í lok hverrar vinnuviku eftir það. Ekki er hægt að ætlast til þess að fá afgreitt skírteini samdægurs og þurfa því umsóknir hafa borist í síðasta lagi á fimmtudegi í viðkomandi viku.

Alþjóðleg verðlaunahátíð íþróttafréttamanna

on 04/03/2015

Ársþing AIPS var sett í París í fyrrakvöld og þar var tilkynnt um stofnun alþjóðlegrar verðlaunahátíðar íþróttafréttamanna. Verðlaunahátíðin verður haldin í Abú Dabí í desember ár hvert og verða veitt verðlaun í sex flokkum. Bæði í flokkum sem tengjast íþróttafréttamönnum, en líka ljósmyndurum og myndatökumönnum eða pródúsentum.

Flokkarnir sex eru

-Ljósmyndun
-Skrifaðar greinar eða dálkar

-Fréttir eða umfjöllun þar sem unnið er með hljóð (hvort sem um ræðir útvarp, sjónvarp eða podcast)

-Myndskeið

-Íþróttafrétta bloggsíða

-Hvernig íþróttir bæta heiminn

Verðlaunafé
Sigurvegarinn í hverjum flokki fær 10.000 dollara í verðlaunafé og þeir sem hafna í 2. og 3. sæti fá 1.500 dollara. Þá er þremur efstu í hverjum flokki boðið á verðlaunahátíðina í Abú Dabí auk uppihalds, þeim að kostnaðarlausu.

Sigurvegarinn í flokknum Hvernig íþróttir bæta heiminn (e. Sports for a better world)fær einnig að ráðstafa 50.000 þúsund dollurum til góðgerðarmála tengdri umfjöllun sinni.

Þá verða veitt sérstök verðlaun í þremur flokkum í viðbót

-A life in sport (Heiðursverðlaun fyrir ævistarf)
-Rannsóknarblaðamennska

-Besta appið

Hver og einn íþróttafréttamaður/ljósmyndari/myndatökumaður/pródúsent má senda inn allt að tvær tilnefningar á hverju ári og mega þær vera vera á íslensku. Opinbert tungumál verðlaunahátíðarinnar er þó enska.

Kynnið ykkur þetta endilega. Það er um að gera að tilnefna störf samstarfsfélaga eða kollega okkar (líklega þó best með þeirra samþykki) ef menn vilja alls ekki trana sér sjálfir fram og tilnefna eitthvað úr þeirra smiðju, enda enginn skyldugur til þess að senda inn tilnefningar. En ef menn taka eftir einhverju í íslenskum íþróttafréttum sem þeir telja eiga erindi sem tilnefningu í Perluverðlaunin er um að gera, að gera eitthvað í því.

Ekki er skylda að vera skráður í AIPS til þess að geta sent inn tilnefningu, aðeins er sett sem skilyrði að viðkomandi sé frá landi sem er aðlili að AIPS.

Nánar um Perluverðlaunin hér: https://www.sportmediapearlawards.com

Myndir frá hófi Íþróttamanns ársins

on 04/01/2015

Samtök íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stóðu að hófi Íþróttamanns ársins í sameiningu í 20. sinn. Þar var íþróttafólk ársins hjá sérsamböndum og íþróttanefndum ÍSÍ heiðrað fyrir afrek sín á liðnu ári og nýr meðlimir teknir inn í Heiðurshöll ÍSÍ. Að þessu sinni voru þeir Ásgeir Sigurvinsson og Pétur Guðmundsson  teknir inn sem áttundi og níundi meðlimur Heiðurshallarinnar.

Jón Arnór Stefánsson hlaut svo sæmdarheitið Íþróttamaður ársins að þessu sinni, Rúnar Páll Sigmundsson var valinn þjálfari ársins og karlalandslið Íslands í körfubolta lið ársins.

Margt góðra gesta var að venju en myndir frá hófinu má sjá hér fyrir neðan. Daníel Rúnarsson, ljósmyndari á 365 miðlum, tók myndirnar og gaf góðfúslegt leyfi fyrir notkun þeirra.

Ræða formanns SÍ

on 04/01/2015

Eiríkur Stefán Ásgeirsson, formaður Samtaka íþróttafréttamanna, flutti eftirfarandi ræðu á hófi Íþróttamanns ársins í Gullhömrum í Reykjavík þann 3. janúar 2015:

Forseti Íslands, forseti íþrótta- og ólympíusambands Íslands, mennta- menningar- og íþróttamálaráðherra, góðir gestir.

Kjör íþróttamanns ársins hefur lengi verið umdeilt. Í 59 ár hafa Samtök íþróttafréttamanni staðið að kjörinu og alla tíð hafa margir haft skoðun á því og niðurstöðunni hverju sinni. Það er eðlilegt, enda erfitt að bera saman allt það frábæra íþróttafólk sem við eigum og hampa einum úr þeim hópi sem bestum árangri náði þvert yfir svið allra íþrótta – karla og kvenna, fatlaðra og ófatlaðra, einstaklings og hópíþrótta.

Síðastliðin tólf ár hefur Íþróttamaður ársins komið úr aðeins tveimur íþróttagreinum – handbolta og fótbolta. Fyrir það hefur kjörið fengið nokkra gagnrýni og því er ekki að neita að þessi hópur er nokkuð einsleitur. En í stað þess að skella skuldinni á íþróttafréttamenn tel ég við hæfi að staldra við og skoða hvaða ástæður liggja þar að baki. Hvaða þróun hefur orðið í íslenskum íþróttum undanfarin ár og áratugi sem veldur því að afreksmenn í fótbolta og handbolta virðast standa öðrum íslenskum íþróttamönnum framar?

Þráinn Hafsteinsson, yfirþjálfari frjálsíþróttadeildar ÍR, ritaði nýverið pistil sem var víða birtur í fjölmiðlum og tel ég að orð hans eigi einkar vel við. Þar sagði hann: „Ef efnilegur íþróttamaður ætlar að verða afreksmaður í öðru en fótbolta eða handbolta þá er hann jafnframt að taka ákvörðun um að vera launalaus og fjárhagslega upp á foreldra eða aðra nákomna kominn meðan á afreksferlinum stendur og þar með slippur og snauður að ferli loknum.“ Orð að sönnu hjá Þráni og sorglegur vitnisburður um stöðu íslensks íþróttalífs.

Afreksmenn í fótbolta og handbolta gerast flestir atvinnumenn í sinni íþrótt og halda af landi brott til að fá stærri áskoranir og meiri samkeppni en þeir hefðu nokkru sinni átt kost á hér á landi. Það er veruleiki sem ekki er til staðar í langflestum öðrum íþróttagreinum. Að minnsta kosti ekki hér á landi.

Íslenska ríkið leggur fram nokkra tugi milljóna ár hvert í svokallaðan afreksmannasjóð sem ætlaður er að mæta þeim gríðarlega kostnaði allra íslenskra afreksmanna í íþróttum – líka í fótbolta og handbolta. Íþróttamennirnir fá sjálfir aldrei eyri úr sjóðnum – heldur aðeins endurgreiðslur fyrir útlögðum kostnaði við æfinga- og keppnisferðir. Og þá aðeins innan þeirra marka sem sérsamböndum þeirra er úthlutað ár hvert.

Íslenskir afreksmenn þurfa að finna aðrar leiðir til að eiga í sig og á en um leið að vinna að því að ná sínum markmiðum, láta drauma sína rætast um að komast í fremstu röð á heimsvísu. Og það gera þeir án þess að afla sér neinna réttinda í leiðinni – réttinda sem teljast sjálfsögð hjá öllum sem eru á hefðbundnum atvinnumarkaði.

Hrunið kom illa við marga á Íslandi og það er hart í ári. En svona hefur veruleiki íslenskra afreksmanna í íþróttum verið í áratugi og í raun er það ótrúlegt að hugsa til þess hversu margt afreksfólk Ísland hefur átt í gegnum tíðina – íþróttamenn sem hafa náð í fremstu röð á heimsvísu í ótalmörgum íþróttagreinum – og það nánast upp á eigin spýtur.

Íslenskt íþróttafólk mun aldrei fara í verkfall til að vekja máls á sínum baráttumálum. Það snýr sér einfaldlega að einhverju öðru. Það er mikilla breytinga þörf í þessum efnum. Íslenskt ríkisvald þarf að endurhugsa aðkomu sína að afreksíþróttum og gera sér grein fyrir því að Ísland er mörgum áratugum á eftir nágrannaríkjum sínum og raunar flestum vestrænum ríkjum í þessum efnum. Það er breytinga þörf og þær eru löngu orðnar tímabærar.

Við erum saman komin til að heiðra glæsileg afrek okkar afreksfólks á árinu 2014 og Samtök íþróttafréttamanna eru stolt af því að fá tækifæri til þess í kvöld. Samstarfsaðilar Samtaka íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands eru Icelandair, Íslandsbanki, Sjóvá og Valitor og kunnum við þessum aðilum bestu þakkir fyrir stuðninginn.

Jón Arnór Stefánsson er Íþróttamaður ársins 2014

on 03/01/2015

Kjöri Samtaka íþróttafréttamanna var lýst í 59. sinn í kvöld á hófi í Gullhömrum í Reykjavík. Jón Arnór Stefánsson, landsliðsmaður í körfubolta og leikmaður Unicaja Malaga á Spáni, hlaut sæmdarheitið í ár og er annar körfuboltamaðurinn sem verður fyrir valinu og sá fyrsti í 48 ár.

Jón Arnór fékk 435 stig af 480 mögulegum í kjörinu. Í öðru sæti varð Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu og íþróttamaður ársins 2013. Gylfi Þór, sem lék með Tottenham á fyrri hluta ársins og Swansea því síðara, fékk 327 stig í kjörinu. Þriðji varð Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsmaður í handbolta og Íþróttamaður ársins 2006. Guðjón Valur hóf árið sem leikmaður THW Kiel í Þýskalandi en gekk í raðir Barcelona í Spáni í sumar. Hann fékk samtals 303 stig.

Körfuboltalandslið karla var valið lið ársins með 105 stig af 120 mögulegum. Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu hjá Stjörnunni, var valinn þjálfari ársins með 69 stig af 120 mögulegum.

30 íþróttamenn fengu atkvæði í kjörinu í ári, sex lið og níu þjálfarar.

Niðurstöður kjörsins í heild sinni:

Íþróttamaður ársins:

1. Jón Arnór Stefánsson (körfubolti) 435 stig
2. Gylfi Þór Sigurðsson (knattspyrna) 327
3. Guðjón Valur Sigurðsson (handbolti) 303
4. Sara Björk Gunnarsdóttir (knattspyrna) 147
5. Aron Pálmarsson (handbolti) 100
6. Eygló Ósk Gústafsdóttir (sund) 65
7. Sif Pálsdóttir (fimleikar) 56
8. Hrafnhildur Lúthersdóttir (sund) 46
9. Hafdís Sigurðardóttir (frjálsar) 44
10. Jón Margeir Sverrisson (íþr. fatlaðra) 36
11. Alfreð Finnbogason (knattspyrna) 26
12. Karen Knútsdóttir (handbolti) 25
13. Helgi Sveinsson (íþr. fatlaðra) 24
14. Aníta Hinriksdóttir (frjálsar) 21
15. Ásgeir Sigurgeirsson (skotfimi) 19
16. Hlynur Bæringsson (körfubolti) 15
17. Birgir Leifur Hafþórsson (golf) 11
18. Dagný Brynjarsdóttir (knattspyrna) 10
19. Gísli Sveinbergsson (golf) 9
20. Aron Einar Gunnarsson (knattspyrna) 8
21. Thelma Björg Björnsdóttir (íþr. fatlaðra) 7
22. Helena Sverrisdóttir (körfubolti) 4
23. Helga María Vilhjálmsdóttir (skíði) 3
24. Ásdís Hjálmsdóttir (frjálsar) 2
– Viðar Örn Kjartansson (knattspyrna) 2
– Lilja Lind Helgadóttir (lyftingar) 2
– Hörður Axel Vilhjálmsson (körfubolti) 2
28. Fanney Hauksdóttir (kraftlyftingar) 1
– Jón Daði Böðvarsson (knattspyrna) 1
– Þormóður Árni Jónsson (júdó) 1

Lið ársins:

1. Karlalandslið Íslands í körfubolta 105 stig
2. Karlalandslið Íslands í knattspyrnu 66
3. Stjarnan (mfl. kk) 24
4. Kvennalandslið Íslands í hópfimleikum 12
5. Karlalandslið Íslands í handbolta 8
6. Landslið Íslands í frjálsíþróttum 1

Þjálfari ársins:

1. Rúnar Páll Sigmundsson 69 stig
2. Alfreð Gíslason 60
3. Heimir Hallgrímsson 48
4. Finnur Freyr Stefánsson 14
5. Dagur Sigurðsson 8

Samningar endurnýjaðir við samstarfsaðila SÍ

on 23/12/2014

Samtök íþróttafréttamanna hafa endurnýjað samninga við Icelandair, Íslandsbanka, Sjóvá og Valitor en þessir aðilar munu nú halda áfram samstarfi sínu til loka ársins 2016.

Stjórn Samtaka íþróttafréttamanna telur þetta gríðarlega mikilvægan þátt í því að geta haldið úti faglegu starfi fyrir íþróttafréttamenn landsins og viðhaldið tengslum við alheimssamtök íþróttafréttamanna (AIPS) og samtök íþróttafréttamanna í Evrópu (UEPS).

Samstarf SÍ og fyrirtækjanna fjögurra, sem einnig skipa svokallaða Ólympíufjölskyldu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, hófst árið 2013.

Efstu tíu í kjöri Íþróttamanns ársins

on 23/12/2014

Nöfn þeirra tíu íþróttamanna sem flest atkvæði hlutu í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á Íþróttamanni ársins 2014 hafa nú verið birt í fjölmiðlum en kjörinu verður lýst í Gullhömrum í Reykjavík þann 3. janúar 2015. Hófinu verður sjónvarpað í beinni útsendingu Rúv.

Þeir þrír aðilar sem flesta atkvæði fengu í kjöri þjálfara ársins hafa einnig verið tilkynnt, sem og þrjú efstu í kjörinu á liði ársins.

Íþróttamaður ársins er nú útnefndur í 59. sinn en lið og þjálfari ársins í þriðja sinn.

Íþróttamaður ársins
Efstu tíu sæti í stafrófsröð

Aron Pálmarsson (handbolti)
Eygló Ósk Gústafsdóttir (sund)
Guðjón Valur Sigurðsson (handbolti)
Gylfi Þór Sigurðsson (knattspyrna)
Hafdís Sigurðardóttir (frjálsar íþróttir)
Hrafnhildur Lúthersdóttir (sund)
Jón Arnór Stefánsson (körfubolti)
Jón Margeir Sverrisson (íþr. fatlaðra)
Sara Björk Gunnarsdóttir (knattspyrna)
Sif Pálsdóttir (fimleikar)

Lið ársins
Efstu þrjú sæti í stafrófsröð

Knattspyrnulandslið karla
Körfuknattleikslandslið karla
Meistaraflokkur karla Stjörnunnar í knattspyrnu

Þjálfari ársins
Efstu þrjú sæti í stafrófsröð

Alfreð Gíslason, þjálfari THW Kiel í Þýskalandi
Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari meistaraflokks karla hjá Stjörnunni

Hóf Íþróttamanns ársins 2014

on 17/12/2014

Samtök íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands standa saman í nítjánda sinn að hófi þar sem kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á Íþróttamanns ársins 2014 verður lýst í 59. sinn. Einnig verður kjöri þjálfara og liðs ársins lýst í þriðja sinn.

Hófið verður haldið í Gullhömrum í Reykjavík laugardaginn 3. janúar 2014 og verður það í beinni útsendingu á Rúv.

Íþróttamenn og -konur ársins hjá einstaka sérsamböndum ÍSÍ fá einnig viðurkenningar sínar á hófinu.

Nýir félagsmenn

on 17/12/2014

Á félagsmannafundi Samtaka íþróttafréttamanna föstudaginn 15. desember 2014 voru þrír nýir félagar teknir inn í Samtök íþróttafréttamanna. Umsóknir þeirra Sigurðar Elvar Þórólfssonar, Kristjáns Jónssonar og Þorsteins Hauks Harðarsonar voru samþykktar með meirihluta atkvæða fundarmanna.

Sigurður Elvar, sem er fyrrum formaður SÍ, snýr aftur í samtökin eftir stutta fjarveru en hann er fréttastjóri hjá kylfingi.is og blaðamaður hjá tímaritinu Golf á Íslandi.

Kristján, sem tók aftur til starfa á íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is, var einnig nýverið meðlimur í Samtökunum.

Þorsteinn Haukur starfar sem ritsjóri á sport.is og hefur ekki áður verið með aðild að Samtökum íþróttafréttamanna.

Félagsmenn í Samtökum íþróttafréttamanna í árslok 2014 eru því 24.

Vel heppnaður hádegisfundur

on 30/11/2014

Samtök íþróttafréttamanna stóðu ásamt Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands fyrir hádegisfundi þar sem fulltrúum Íþróttasambands fatlaðra og Sundsbambands Íslands var boðið að segja frá starfi sínu og verkefnum fram undan.

Á fundinum var farið yfir ýmis málefni sem tengjast þessum sérsamböndum, íþróttahreyfingunni almennt og mikilvægi fjölmiðla í útbreiðslu og uppbyggingu íþrótta á Íslandi. Félagsmönnum Samtaka íþróttafréttamanna gafst einnig kostur á að koma áleiðis ábendingum til sérsambandanna um samskipti þeirra við fjölmiðla.

Það er áætlað að funda 2-3 sinnum á hverju ári og er það von okkar að styrkja tengsl íþróttahreyfingarinnar við íþróttafréttamenn. Næsti fundur er áætlaður á fyrri hluta næsta árs.

Hádegisfundur með SSÍ og ÍF

on 24/11/2014

Félögum í Samtökum íþróttafréttamanna er boðið að sækja hádegisfund með fulltrúum Sundsambands Íslands og Íþróttasambandi fatlaðra. Einnig verða viðstaddir fulltrúar frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands en fundurinn fer fram í húsakynnum ÍSÍ í Laugardal.

Þetta er í annað sinn á þessu ári sem Samtök íþróttafréttamanna og ÍSÍ standa fyrir hádegisfundi sem þessum, þar sem ætlunin er að fulltrúar fjölmiðlastéttarinnar og íþróttahreyfingarinnar hittist og beri saman bækur.

Á fundinum gefst íþróttafréttamönnum tækifæri að koma ábendingum áleiðis um hvernig starfsmenn tiltekinna sérsambanda ÍSÍ geti best komið sínu efni á framfæri með tilliti til ólíkra tegunda fjölmiðla sem fjalla um íþróttir á Íslandi. Um leið segja sérsamböndin frá starfsári sínu og helstu viðburðum sem fram undan eru.

Fundurinn hefst klukkan 12.00 miðvikudaginn 26. nóvember.

Að loknum aðalfundi

on 15/05/2014

Aðalfundur SÍ var haldinn fimmtudaginn 15. maí 2014. Jón Kristján Sigurðsson var endurkjörinn gjaldkeri stjórnar og Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson var endurkjörinn ritari stjórnar. Hvorugur fékk mótframboð. Tómas Þór Þórðarson og Einar Örn Jónsson voru endurkjörnir varamenn í stjórn. Arnar Björnsson og Sindri Sverrisson voru tilnefndir sem endurskoðendur. Eiríkur Stefán Ásgeirsson hefur nú sitt síðara starfsár á hans kjörtímabili sem formaður.

Þrjár lagabreytingatillögur og ein reglugerðabreyting á kjöri íþróttamanns ársins voru lagðar fram. Allar voru samþykktar af minnst 2/3 hluta aðalfundar eins og lög gera ráð fyrir.

Skýrsla stjórnar og ársreikningar voru lagðir fram og samþykktir. Engin umsókn barst um félagsaðild en þrír fullgildir meðlimir og tveir meðlimir með aukafélagsaðild gengu úr samtökunum. Alls er nú 21 meðlimur í Samtökum íþróttafréttamanna.

Önnur mál voru rædd og fundi slitið.

Aðalfundur á morgun

on 14/05/2014

Aðalfundur Samtaka íþróttafréttamanna verður haldin á morgun kl. 13 í höfuðstöðvum UMFÍ í Sigtúni. Félagar eiga að hafa fengið fundarboð í tölvupósti með frekari upplýsingum. Athygli er vakin á því að fundurinn hefur verið færður frá kl. 12 til kl. 13 í ljósi þess að KSÍ dregur í 32 liða úrslit Borgunarbikarkeppni karla í knattspyrnu kl. 12.

Á dagskrá aðalfundar eru hefðbundin aðalfundarstörf. Boðið verður upp á veitingar. Félagar eru hvattir til að fjölmenna á fundinn.

Aðstöðumál í Pepsídeildum

on 02/05/2014

Nú á sunnudag verður flautað til leiks í 1. umferð Pepsídeildar karla í knattspyrnu. SÍ hefur verið í sambandi við KSÍ vegna aðstöðumála á gervigrasvellinum í Laugardal, Fylkisvelli og Fjölnisvelli. Þau svör hafa fengist að settur verði upp gámur á gervigrasvellinum í Laugardal. SÍ hefur ítrekað óskir sínar um að aðstaðan þurfi að hafa útsýni á miðjan völlinn og þar sé rafmagn og netsamband.

Líklega verður sett upp 4G netsamband á gervigrasvellinum í Laugardal með lykilorði.  Vonandi gengur allt upp, en blaðamenn eru hvattir til að láta heyra frá sér af aðstaðan verður óviðunandi.

Á Fylkisvelli í Árbæ verður gámur milli varamannaskýla með aðstöðu fyrir blaðamenn. Á Fjölnisvelli í Grafarvogi eru aðstæður þær sömu og síðast þegar Fjölnir lék í efstu deild. Þar sitja menn því utandyra á svölum.

Fjölmiðlapassar KSÍ afgreiddir

on 30/04/2014

Samtök íþróttafréttamanna hafa nú skilað af sér öllum umsóknum fjölmiðla til KSÍ vegna fjölmiðapassa á leiki á vegum KSÍ leiktíðina 2014. SÍ tók saman umsóknirnar og veitti KSÍ svo umsögn. Nær allar umsóknir voru samþykktar af SÍ. Örfáum var hafnað eða vísað beint til KSÍ ef vafi lék á því hvort umsækjendur féllu undir skilgreiningu KSÍ á þeim sem eiga rétt á F-pössum.

KSÍ hefur endanlega um það að segja hvaða umsóknir eru samþykktar og hverjum er hafnað en styðst við umsögn SÍ. KSÍ er þegar byrjað að útbúa fjölmiðlakortin og má búast við því að þau verði afhent fjölmiðlum fyrir helgi.

Ef einhverjar frekari spurningar vakna er bent á að hafa samband við sportpress@sportpress.is og senda Ómari Smárasyni starfsmanni KSÍ afrit á omar@ksi.is.

Pílukvöld

on 23/04/2014

Pílukastfélag Reykjavíkur býður okkur að heimsækja sig í tilefni þess að Norðurlandamótið í pílukasti verður haldið á Íslandi í maí. Stutt kynning, veitingar og pílukastmót íslenskra íþróttafréttamanna.

Upphaflega var áætlað að byrja klukkan 20.00 en við seinkuðum þessu til klukkan 22.00 í þeirri von að fleiri eigi þess kost að mæta. Heimilisfangið er Skúlagata 26 (gengið inn af Vitastíg).

Við þurfum að láta vita hversu margir ætla að mæta, þannig endilega sendið línu á sportpress@sportpress.is ef þið ætlið að mæta.

Samstarf SÍ og KSÍ

on 16/04/2014

Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) og Samtök íþróttafréttamanna (SÍ) hafa gert með sér samkomulag um útgáfu fjölmiðlaskírteina fyrir knattspyrnutímabilið 2014.

Útgáfa skírteinanna verður áfram í höndum KSÍ en SÍ mun taka á móti umsóknum fjölmiðla um skírteini og veita þeim faglega umsögn.

Samtök íþróttafréttamanna voru stofnuð árið 1956 í þeim tilgangi að vinna að bættum hag íþróttafréttamanna. Er það bundið í lög SÍ að samtökin skuli vinna að bættri aðstöðu félagsmanna og gæta hagsmuna þeirra í hvívetna, auk þess að tryggja félagsmönnum og aðstoðarmönnum þeirra greiðan aðgang að íþróttamótum og kappleikjum.

Það er trú stjórnar SÍ að samstarf þetta muni efla hag allra þeirra sem starfa við að fjalla um knattspyrnu hér á landi, hvort sem þeir eru félagsmenn í SÍ eða standa utan samtakanna. Með auknu samstarfi SÍ við KSÍ er fyrir vikið auðveldara að vinna að hverjum þeim úrbótum á aðstöðu íþróttafréttamanna á leikstað sem nauðsynlegar þykja.

Eingöngu handhafar fjölmiðlaskírteina fá aðgang að aðstöðu fjölmiðlamanna á leikstað og mun SÍ hafa eftirlit með því að skírteinin séu notuð á viðeigandi hátt á meðan leiktíðinni stendur. Aðeins þeir sem sannarlega fjalla um knattspyrnu í íslenskum fjölmiðlum eiga þess kost að fá fjölmiðlaskírteini.

Ekki er nauðsynlegt að vera fullgildur meðlimur í SÍ til að sækja um fjölmiðlaskírteini, enda koma mun fleiri að umfjöllun fjölmiðla um leiki en þeir sem eru íþróttafréttamenn í fullu starfi. Með nýju fyrirkomulagi myndast nú enn sterkari tengsl SÍ við íþróttafréttamenn í aukastarfi sem er mikið fagnaðarefni að mati stjórnar SÍ og býður upp á eflingu þess samstarfs enn frekar.

Aðalfundur SÍ 2014

on 16/04/2014

Stjórn Samtaka íþróttafréttamanna tilkynnir að aðalfundur Samtaka íþróttafréttamanna fer fram þann 15. maí næstkomandi klukkan 12.00. Fundað verður í húsakynnum UMFÍ í Sigtúni.

Allir fullgildir meðlimir og aukafélagar eru boðnir velkomnir á fundinn en á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf.

Umsóknir um aðild sem berast á netfangið sportpress@sportpress.is verða teknar fyrir á fundinum og stjórn SÍ minnir aukafélaga á að endurnýja aðild sína, líkt og lög samtakanna gera ráð fyrir.

Tillögur um lagabreytingar þurfa að hafa borist félögum SÍ minnst tveimur dögum fyrir aðalfund.

AIPS-þing í Aserbaídsjan

on 16/04/2014

Ársþing alþjóðasamtaka íþróttafréttamanna, AIPS, fer fram í Bakú í Aserbaídsjan dagana 27. apríl til 1. maí næstkomandi. Þetta er í 77. sinn sem ársþingið er haldið en AIPS fagnar í ár 90 ára afmæli sínu.

Þegar mánuður var til stefnu höfðu 265 íþróttafréttamenn frá 112 löndum skráð sig til þátttöku á ársþinginu. Fulltrúi Samtaka íþróttafréttamanna í Bakú verður Eiríkur Stefán Ásgeirsson, formaður SÍ.

Það er von stjórnar SÍ að aukið alþjóðlegt samstarf muni veita félagsmönnum okkar frekari tækifæri á að afla sér menntunar og starfsreynslu á alþjóðlegum vettvangi. Ísland hefur átt fulltrúa í fræðsluverkefnum AIPS fyrir unga íþróttafréttamenn síðustu árin og vonir standa til að fleiri slík tækifæri bjóðist okkar félagsmönnum í framtíðinni.