Fréttir 2013

Myndir frá Gullhömrum

on 30/12/2013

Að venju var sameiginlegt hóf Samtaka íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands vegna kjörs íþróttamanns ársins hið veglegasta. Það fór fram í Gullhömrum í Grafarholti, annað árið í röð, og var í beinni útsendingu á Rúv.

Gylfi Þór Sigurðsson var valinn íþróttamaður ársins en fjöldi annarra íþróttamanna var heiðraður. Kristín Rós Hákonardóttir var til að mynda tekin inn í frægðarhöll ÍSÍ og sérsambönd ÍSÍ heiðruðu sitt besta íþróttafólk.

Daníel Rúnarsson, ljósmyndari hjá 365, tók myndirnar hér fyrir neðan. Fleiri myndir má sjá á myndasíðu sportpress.is.

Gylfi Þór Sigurðsson íþróttamaður ársins 2013

on 29/12/2013

Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson hjá Tottenham Hotspur í Englandi var kjörinn Íþróttamaður ársins 2013 af Samtökum íþróttafréttamanna. Kjörinu var lýst 28. desember á Gullhömrum í Grafarholti í beinni útsendingu Rúv. Alfreð Gíslason þjálfari handboltaliðs Kiel í Þýskalandi var kjörinn þjálfari ársins annað árið í röð og A-landslið karla í knattspyrnu lið ársins.

Íþróttamaður ársins:

Gylfi Þór Sigurðsson, knattspyrna – 446 stig
2. Aníta Hinriksdóttir, frjálsar – 288 stig
3. Guðjón Valur Sigurðsson, handbolti – 236 stig
4. Jón Arnór Stefánsson, körfubolti – 206 stig
5. Kolbeinn Sigþórsson, knattspyrna – 189 stig
6. Sara Björk Gunnarsdóttir, knattspyrna – 134 stig
7. Alfreð Finnbogason, knattspyrna – 73 stig
8. Helgi Sveinsson, íþr. fatlaðra – 62 stig
9. Auðunn Jónsson, kraftlyftingar – 41 stig
10. Aron Pálmarsson, handbolti – 32 stig
11. Jóhann Rúnar Skúlason, hestaíþróttir – 23 stig
12. Hrafnhildur Lúthersdóttir, sund – 16 stig
13. Norma Dögg Róbertsdóttir, fimleikar – 15 stig
14. Birgir Leifur Hafþórsson, golf – 15 stig
15. Guðbjörg Gunnarsdóttir, knattspyrna – 14 stig
16. Guðmundur Sverrisson, frjálsar – 11 stig
17. Helena Sverrisdóttir, körfubolti – 7 stig
18. Dominiqua Alma Belanyi, fimleikar – 4 stig
19. Eygló Ósk Gústafsdóttir, sund – 4 stig
20. Aron Einar Gunnarsson, knattspyrna – 3 stig
21. Þóra Björg Helgadóttir, knattspyrna – 3 stig
22. Valdís Þóra Jónsdóttir, golf – 2 stig
23. Þórir Ólafsson, handbolti – 1 stig

Lið ársins:
1. A-landslið karla, knattspyrna – 125 stig
2. A-landslið kvenna, knattspyrna – 55 stig
3. Kvennalið Gerplu, hópfimleikar – 20 stig

Þjálfari ársins:
1. Alfreð Gíslason, handbolti – 54 stig
2. Sigurður Ragnar Eyjólfsson, knattspyrna – 34 stig
3. Gunnar Páll Jóakimsson, frjálsar – 33 stig

Íþróttamaður ársins 2013 útnefndur 28. desember

on 26/12/2013

Að morgni Þorláksmessu var opinberaður listinn yfir tíu efstu í kjöri SÍ á íþróttamanni ársins 2013. Félagsmenn með atkvæðisrétt voru að þessu sinni 26 og nýttu allir sinn atkvæðisrétt nema einn. Úrslitin verða kunngjörð í hófi SÍ og ÍSÍ í Gullhömrum í Grafarholti laugardagskvöldið 28. desember og verður RÚV með beina sjónvarpsútsendingu frá hófinu. Tíu efstu í kjörinu eru eftirtaldir í stafrófsröð:

Alfreð Finnbogason, knattspyrnumaður hjá Heerenveen í Hollandi
Aníta Hinriksdóttir, frjálsíþróttakona úr ÍR
Auðunn Jónsson, kraftlyftingamaður úr Breiðabliki
Aron Pálmarsson, handknattleiksmaður hjá Kiel í Þýskalandi
Guðjón Valur Sigurðsson, handknattleiksmaður hjá Kiel í Þýskalandi
Gylfi Þór Sigurðsson, knattspyrnumaður hjá Tottenham Hotspur í Englandi
Helgi Sveinsson, frjálsíþróttamaður úr Ármanni
Jón Arnór Stefánsson, körfuknattleiksmaður hjá Zaragoza á Spáni
Kolbeinn Sigþórsson, knattspyrnumaður hjá Ajax í Hollandi
Sara Björk Gunnarsdóttir, knattspyrnukona hjá Malmö í Svíþjóð

Þá verður einnig ljóstrað upp við sama tækifæri hvert er lið ársins og þjálfari ársins að mati íþróttafréttamanna. Verðlaun fyrir það voru fyrst veitt í fyrra og fékk þá Alfreð Gíslason handknattleiksþjálfari og kvennalið Gerplu í hópfimleikum útnefningarnar. Þrír efstu þjálfararnir og efstu þrjú liðin eru þessi í stafrófsröð:

Þjálfari ársins

Alfreð Gíslason, þjálfari þýska handknattleiksliðsins Kiel
Gunnar Páll Jóakimsson, frjálsíþróttaþjálfari hjá ÍR
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fyrrv. landsliðsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu

Lið ársins

Karlalandslið Íslands í knattspyrnu
Kvennalið Gerplu í hópfimleikum
Kvennalandslið Íslands í knattspyrnu

Þetta verður í 58. sinn sem Samtök íþróttafréttamanna velja íþróttamann ársins, en samtökin stóðu fyrir kjörinu fyrst árið 1956.

Adolf Ingi kennir í Dúbaí

on 08/10/2013

Adolf Ingi Erlingsson íþróttafréttamaður hjá RÚV heldur í næstu viku til Dúbaí þar sem hann mun kenna á námskeiði fyrir unga íþróttafréttamenn á vegum AIPS, Alþjóða samtaka íþróttafréttamanna. Námskeiðið er haldið í tengslum við heimsmeistaramót U17 ára pilta í knattspyrnu og heldur AIPS námskeiðið í samvinnu við FIFA. Þetta er í fjórða sinn sem AIPS fær Adolf sem leiðbeinanda á námskeið fyrir unga íþróttafréttamenn. Hann hafði áður kennt á námskeiði í Bakú í Aserbaídsjan haustið 2012 í tengslum við HM U17 ára kvenna í knattspyrnu, í Ísrael í upphafi sumarsins í ár í tengslum við Evrópumót U21 árs karla í knattspyrnu og í Lausanne í Sviss í tengslum við fund Alþjóða Ólympíunefndarinnar í byrjun júlí í sumar.

Adolf Ingi sat í framkvæmdastjórn AIPS árin 2009-2013 en hætti í stjórn samtakanna á síðasta ársþingi AIPS í Sochi fyrr á þessu ári. Hann er þó núna ráðgjafi stjórnar AIPS, sem leitar nú til hans enn á ný til að kenna á námskeiði fyrir unga íþróttafréttamenn.

Þetta er í fimmta sinn sem AIPS heldur námskeið fyrir unga íþróttafréttamenn. Einn íslenskur fréttamaður hefur sótt námskeiðin. Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, RÚV fór til Shenzhen í Kína sumarið 2011 og til Lausanne í Sviss í sumar. Ferðakostnaður, gisting og uppihald hefur verið greitt að fullu af AIPS.

SÍ í samstarf við HSÍ og KKÍ

on 17/09/2013

Samtök íþróttafréttamanna hafa hafið samstarf við Handknattleikssamband Íslands og Körfuknattleikssamband Íslands um sameiginlega útgáfu fjölmiðlaskírteina fyrir komandi keppnistímabil. Viðræður standa yfir við Knattspyrnusamband Íslands og stendur til að það bætist í þennan hóp innan tíðar.

Samtök íþróttafréttamanna (SÍ) voru stofnuð árið 1956 í þeim tilgangi að vinna að bættum hag íþróttafréttamanna. Er það bundið í lög SÍ að samtökin skuli vinna að bættri aðstöðu félagsmanna og gæta hagsmuna þeirra í hvívetna, auk þess að tryggja félagsmönnum og aðstoðarmönnum þeirra greiðan aðgang að íþróttamótum og kappleikjum.

Það er trú stjórnar SÍ að samstarf þetta muni efla hag allra þeirra sem starfa við að fjalla um íþróttakappleiki hér á landi, hvort sem þeir eru félagsmenn í SÍ eða standa utan samtakanna. Með auknu samstarfi SÍ við ofangreind sérsambönd er fyrir vikið auðveldara að vinna að hverjum þeim úrbótum á aðstöðu íþróttafréttamanna á leikstað sem nauðsynlegar þykja.

Eingöngu handhafar fjölmiðlaskírteina fá aðgang að aðstöðu fjölmiðlamanna á leikstað og mun SÍ hafa eftirlit með því að skírteinin séu notuð á viðeigandi hátt á meðan leiktíðinni stendur. Til að svara kostnaði við prentun skírteinanna og þeirri þjónustu sem veitt verður af hálfu SÍ greiða fjölmiðlar kr. 1000 fyrir hvert skírteini sem starfsmönnum þeirra er úthlutað.

Ekki er nauðsynlegt að vera fullgildur meðlimur í SÍ til að sækja um fjölmiðlaskírteini, enda koma mun fleiri að umfjöllun fjölmiðla um leiki en þeir sem eru íþróttafréttamenn í fullu starfi. Með nýju fyrirkomulagi myndast nú enn sterkari tengsl SÍ við íþróttafréttamenn í aukastarfi sem er mikið fagnaðarefni að mati stjórnar SÍ og býður upp á eflingu þess samstarfs enn frekar.

Það er einnig von SÍ að samstarfið við HSÍ, KKÍ og síðar KSÍ skapi grundvöll fyrir enn nánara og betra samstarf í framtíðinni sem verði öllum aðilum hagkvæmt og íþróttunum til framdráttar.

SÍ mun auglýsa eftir umsóknum fyrir fjölmiðlaskírteini síðar í mánuðinum og verða þau gefin út í byrjun október. Fram að því munu fjölmiðlaskírteini síðasta árs gilda á leiki á vegum HSÍ og KKÍ.

Hrafnkelsmótið í golfi

on 13/08/2013

Hrafnkelsmótið í golfi verður haldið 6. september á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði. ræst er út frá kl. 10:00-14:00 og leikið verður punktafyrirkomulag með grunnforgjöf. Þátttökugjald er 5.000 kr. og rennur allt gjaldið óskert í Íþrótta- og afrekssjóð Hrafnkels Kristjánssonar. Hægt er að skrá sig á golf.is eða með því að smella hér.

Mótið er haldið til minningar um Hrafnkel Kristjánsson. Hrafnkell starfaði sem íþróttafréttamaður hjá RÚV á árunum 2005-2009, en lést lang fyrir aldur fram í lok árs 2009.

Sami fjöldi í Rio 2016

on 29/06/2013

Gert er ráð fyrir sama fjölda íslenskra fjölmiðlamanna á Ólympíuleikunum í Rio de Janeiro í Brasilíu eftir þrjú ár, og í London í fyrra. Þar sem Íslendingar hafa fengið svo fáa aðgangspassa sé engin ástæða til að hafa áhyggjur af því að þeim verði fækkað þrátt fyrir mikla ásókn um allan heim.

Fyrir um áratug stóð til að Alþjóða Ólympíunefndin (IOC) myndi fækka íslenskum íþróttafréttamönnum og ljósmyndurum á sumarólympíuleikum um helming. Ástæðurnar voru margar umsóknir manna um allan heim um fjölmiðlaaðgang og að íslenskir fjölmiðlamenn hafa ekki sóst eftir pössum á vetrarólympíuleika. Sem betur fer gengu þessar niðurskurðarhugmyndir ekki eftir, enda hefur Ísland aðeins átt rétt á því að senda tvo íþróttafréttamenn og tvo ljósmyndara á síðustu sumarólympíuleika. Inn í þessu er þó ekki fjöldi starfsmanna sjónvarpsrétthafa sem hefur alltaf verið öruggur með 4-6 passa og verður áfram.

Ástralinn Anthony Edgar hefur um skeið verið yfirmaður fjölmiðlamála hjá IOC og með aðsetur í Lausanne í Sviss. Ritari stjórnar SÍ sat fyrirlestur hjá Edgar og spurði hann um hvort einhver hætta væri á að sama mál kæmi aftur upp á næstu árum. „Nei, Íslendingar þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur, af því þið eruð með svo fá fjölmiðlapláss á Ólympíuleikum. Við fækkum ekki þeim sem eru fáir fyrir, til að fjölga fréttamönnum frá stærri þjóðum. Það er alveg öruggt,“ sagði Anthony Edgar um málið. Það er því nokkuð ljóst að sami fjöldi íslenskra fjölmiðlamanna fær aðgang að Ólympíuleikunum í Rio de Janeiro í Brasilíu 2016 og var í London í fyrra. Edgar vildi þó ekki svara því hvort möguleiki væri á því að fjölga íslenskum blaðamönnum með aðgang að næstu sumarólympíuleikum, en sagði það þó ólíklegt.

Hinn skjárinn jafn mikilvægur

Fram kom í máli Anthony Edgar á fyrirlestrinum að af þeim fjölmörgu sem leituðu frétta frá Ólympíuleikunum í London í fyrra notuðust 60% neytenda við snjallsíma. Engar opinberar tölur eru til frá leikunum í Peking 2008 en Edgar giskar á að sú tala hafi verið vel undir 5%.

„Það er alveg á hreinu að fjölmiðlun er í sífelldri þróun. Við tókum vel eftir því á Ólympíuleikunum í London að þó flestir hafi fylgst með leikunum í sjónvarpi hafi stór hluti þeirra líka notað ,,hinn skjáinn, sem sagt með kveikt á tölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma og skoðað fréttir eða efni frá leikunum á sama tíma. Hinn skjárinn (e. Second screen) verður sífellt stærri hluti af beinum sjónvarpsútsendingum,“ sagði Edgar í fyrirlestri sem hann hélt á námskeiði ungra íþróttafréttamanna á vegum AIPS í Sviss.

Hugsað út fyrir kassann

Sjónvarpsréttur og réttur á netsýningum frá Ólympíuleikum er gríðarlega eftirsóknarverður að kaupa, en um leið afar dýr. Með því að fá sýningaréttinn fær viðkomandi fjölmiðill þó um leið einkarétt á beinum útsendingum og að nota myndefnið við gerð innslaga. „En þrátt fyrir að NBC með sinn mikla fjölda starfsmanna í London í fyrra hafi átt allan sýningarétt í Bandaríkjunum var mun meiri umferð um Ólympíuvef Yahoo en um vef NBC. Þó starfsmenn Yahoo á ÓL í London hafi aðeins verið 23 voru starfsmenn fyrirtækisins duglegir að hugsa út fyrir kassann,“ sagði Edgar.

Sem dæmi nefndi Edgar hvernig NY Times matreiddi umfjöllun um úrslit 100 metra hlaupsins á Ólympíuleikunum í fyrra. Þó NY Times hafi ekki mátt nota neinar lifandi myndir vegna réttindamála var farið í mikla grafíkvinnu sem leiddi af sér eina af mest lesnu netfrétt Ólympíuleikanna í fyrra um allan heim. Þetta er skýrt dæmi um hvernig íþróttafréttamenn í dag þurfa að hugsa til að vekja athygli lesenda/áhorfenda.

Samfélagsmiðlar uppruni sífellt fleiri frétta

„Uppruni um helmings þeirra frétta sem við sögðum frá á ÓL 2012 í London var frá samfélagsmiðlum,“ var haft eftir Richard Burgess íþróttaumfjöllunar BBC, eftir leikana í fyrra. Dæmi um þetta var að starfsmenn BBC kveiktu ekki á því fyrr en þeir sáu á Twitter að þjóðfáni Suður-Kóreu hafi verið sýndur í stað Norður-Kóreu fyrir knattspyrnuleik kvennalandsliða Norður-Kóreu og Kolumbíu á Hampden Park í Skotlandi á Ólympíuleikunum í fyrra.

Í Peking 2008 voru 100 milljónir notenda sem deildu fréttum á Facebook samanborið við 900 milljónir í London 2012. Hvað Twitter varðar þá deildu 6 milljónir notenda fréttum frá ÓL 2008 en 140 milljónir frá ÓL 2012.

Flestir sem notast við hinn skjáinn meðan horft er á beinar sjónvarpsútsendingar eru með samfélagsmiðil opinn fyrir framan sig. „Það er mikilvægt að mótshaldarar í íþróttum séu meðvitaðir um hversu samfélagsmiðlar eru orðnir stór þáttur í fjölmiðlun. Það stóð til að banna fólki á einhverju PGA golfmóti í Bandaríkjunum í vor að tjá sig um mótið á samfélagsmiðlum og setja inn myndir. Það hefði bara alls ekki gengið upp, auk þess sem umfjöllun fjölmiðla og áhugi almennings minnkar ef útiloka ætti samfélagsmiðla,“ sagði Anthony Edgar.

Ólafur E. Rafnsson látinn
on 20/06/2013

Ólafur Eðvarð Rafnsson, forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, er látinn fimmtugur að aldri. Hann varð bráðkvaddur í Sviss í gær, 19. júní, þar sem hann sótti fund Alþjóðakörfuknattleikssambandsins.

Ólafur var forseti Körfuknattleikssambands Evrópu og tók við stöðu forseta framkvæmdastjórnar Smáþjóðaleikanna í síðasta mánuði. Hann starfaði sem lögmaður og rak lögmannsstofu í Hafnarfirði.

Hann lætur eftir sig eiginkonu og þrjú börn. Samtök íþróttafréttamanna vottar þeim og öðrum aðstandendum Ólafs sína dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum. Samtökin senda einnig samstarfsfólki Ólafs hjá ÍSÍ og íþróttahreyfingunni allri innilegar samúðarkveðjur.

Stjórn SÍ átti ávallt gott samstarf við Ólaf en undanfarin ár hafa SÍ og ÍSÍ starfað saman vegna kjörs íþróttamanns ársins. Stétt íþróttafréttamanna harmar því fráfalls góðs manns sem var ávallt viljugur til aðstoðar og samstarfs þegar kom að íþróttaumfjöllun í íslenskum fjölmiðlum.

Hermann Gunnarsson látinn

on 05/06/2013

Hermann Gunnarsson, fyrrverandi formaður Samtaka íþróttafréttamanna, lést í gær, 4. júní 2013. Hermann var einn besti íþróttamaður sem Ísland hefur átt, enda bæði landsliðsmaður í knattspyrnu og handbolta. Hann starfaði við íþróttafréttamennsku á sínum tíma, hjá Rúv og Stöð 2, og var formaður SÍ frá 1983 til 1984. Hermann var sæmdur silfurmerki SÍ á 50 ára afmæli samtakanna árið 2006.

SÍ sendir aðstandendum Hermanns innilegar samúðarkveðjur.

Hér eftir fer grein Kolbeins Tuma Daðasonar sem birtist á Vísi í dag, 5. júní.

Knattspyrnugoðsögnin Hemmi Gunn

Einn besti knattspyrnumaður Íslands frá upphafi, Hermann Gunnarsson, er fallin frá. Allt frá því Hermann skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild sumarið 1963 með Valsmönnum gegn Akureyri hefur hann glatt þjóðina innan sem utan knattspyrnuvallarins.

Hermann, sem fæddist þann 9. desember árið 1946, var fyrst og fremst Valsari. Hann ólst upp í Vesturbænum og var undir töluverðri pressu að ganga í raðir KR enda faðir hans mikill KR-ingur. Hann spilaði í skamman tíma með Víkingi í yngri flokkum en líkaði vistin illa. Hann þurfti því að velja á milli föðurættarinnar sem vildi fá hann í KR og móðurættarinnar sem studdi Val.

Hermann sagði einhverju sinni að tengsl hans við KFUM hefðu líklega orðið til þess að hann fór tólf ára á Hlíðarenda. Hann spilaði í fyrsta sinn með meistaraflokki þegar hann var enn í 3. flokki. Hann varð fjórum sinnum Íslandsmeistari með Val í meistaraflokki. Hann var hluti af sigursælu liði Vals á sjöunda áratugnum sem landaði titlinum árinu 1966 og 1967.

Hermann var afar leikinn og markheppinn leikmaður og vöktu hæfileikar hans mikla athygli. Þeir erlendu þjálfarar sem voru tíðir gestir hjá íslenskum félögum á þessum tíma tóku vel eftir Hermanni. Einn þeirra, Walter Pfeiffer, tók Hermann með sér til Austurríkis sumarið 1969. Fór svo að Hermann samdi við Eisenstadt til eins árs og skoraði þar eins og annars staðar.

Árið 1968 fór í fyrsta skipti fram kosning á knattspyrnumanni ársins hér á landi. Hermann hafði mikla yfirburði í kjörinu. Hann hlaut 378 atkvæða en Þórólfur Beck úr KR kom næstur með 162 atkvæði.

„Lífið snerist um þetta,” sagði Hemmi einhverju sinni þegar hann var spurður út í árangur sinn í íþróttum. Auk knattspyrnu spilað Hermann lengi vel handbolta og var góður hornamaður. Lengi vel var hann sá leikmaður sem skoraði flest mörk fyrir Ísland í landsleik eða 17 mörk. Var lengi vel talað að um heimsmet væri að ræða í landsleik.

„Svo kom að því að maður þurfti að velja og ég valdi fótboltann,” sagði Hemmi sem var markaskorari af guðs náð. Hann var í liði Vals sem tók á móti Benfica á Laugardalsvelli sumarið 1968 í Evrópukeppni Meistaraliða. Á þessum tíma var Benfica án nokkurs vafa eitt besta lið heims enda hafði liðið spilað til úrslita í keppninni gegn Manchester United nokkrum vikum fyrr. United hafði sigur í framlengdum úrslitaleik.

Valsmenn, með Hermann í broddi fylkingar, náðu fræknu markalausu jafntefli á Laugardalsvelli þar sem vallarmet var sett. 18.243 áhorfendur sáu Eusebio og félaga frá Portúgal lenda í miklu basli með spræka Valsmenn.

Hermann spilaði 14 landsleiki fyrir Ísland og skoraði í þeim fjögur mörk. Eitt markanna kom í 14-2 tapinu gegn Danmörku á Idrætsparken árið 1967. Hermann rifjaði upp leikinn í viðtali við Auðunn Blöndal og Sverri Þór Sverrisson um árið. Þá hafði hann minnkað muninn úr 9-1 í 9-2 en Hermann grínaðist með að Ísland hefði lagt upp með sóknarleik í leiknum. Þegar hann hafi minnkað muninn í sjö mörk hafi fyrirliði liðsins komið til hans hlaupandi og sagt:

„Jæja strákar, nú jöfnum við þetta. Þeir eru gjörsamlega búnir!”

Hermann flutti sig af Hlíðarenda og norður yfir heiðar árið 1970. Þar var hann spilandi þjálfari ÍBA og lagði vel í púkkið með 14 mörkum í efstu deild. Hann sneri svo aftur til Valsmanna eftir tímabilið og vakti skóbúnaður hans töluverða athygli.

Var Hermann þá kominn á hvíta skó en litagleðin í skóbúnaði knattspyrnumanna á þeim tíma var ekki mikil. Var talað um að Hermann hefði smitast af hvítum skóm Alan Ball, landsliðsmanns Englands, sem spilaði með Everton gegn Keflavík í Evrópukeppninni þá um sumarið.

Þrátt fyrir mikla markaskorun og markheppni var Hermann gagnrýndur eins og aðrar stórstjörnur. Júrí Ilitchev, þjálfari Vals árið 1973, var ekki par sáttur við landsliðsstjörnuna um sumarið.

„Hermann væri ekkert ef félagar hans í liðinu spiluðu ekki upp á hann. Hann vinnur ekki nógu vel í leikjum, vegna þess að hann æfir ekki nógu vel. Hermann er eigingjarn leikmaður og leikur aðeins fyrir sjálfan sig en ekki fyrir liðið. Við hefðum skorað miklu fleiri mörk, ef Hermann hefði viljað, og hann sjálfur hefði skorað 27 mörk en ekki 17, ef hann hefði unnið með félögum sínum,” sagði hinn skapmiklu Ilitchev.

Mörkin 17 sem Hermann skoruðu dugðu honum til að brjóta markamet Þórólfs Beck yfir mörk skoruð á einu tímabil. Met Þórólfs, 16 mörk, hafði staðið frá árinu 1961. Joe Hooley, þjálfari Keflavíkur, nefndi Hermann fyrstan á nafn þegar hann var beðinn um að nefna áhugaverða leikmenn annarra félaga.

„Hermann Gunnarsson í Val er mjög leikinn leikmaður og góður fyrir lið sitt. Hermann gæti þó verið enn betri og mér finnst hann ekki vera í nógu góðri æfingu,” sagði Hooley. Hermann var þekktur fyrir að skemmta sér töluvert utan vallar.

Hermann lenti í erfiðum meiðslum sumarið 1974 þegar hann brotnaði bæði á ökkla og rist auk þess sem liðbönd slitnuðu í fyrsta leik tímabilsins. Meiðslin voru mikil blóðtaka fyrir Valsliðið.

Hermann var aftur kominn á fleygiferð sumarið 1975 og skoraði meðal annars sjö mörk í röð, öll með höfðinu. Höfðu gárungar að orði að töframátturinn væri farinn úr skóm Hermanns. Nú skoraði hann eingöngu með skalla. Fimm af mörkunum sjö komu í bikarleik gegn Selfossi þar sem Valur vann 8-0 sigur.

Hermann tók sér hvíld frá knattspyrnuiðkun árið 1977 þá orðinn 31 árs gamall. Hann mætti þó aftur til leiks og varð Íslandsmeistari með Valsmönnum sumarið 1980. Þá hafði Mattías Hallgrímsson skipt úr ÍA yfir til Vals og kunni vel að spila með Hermanni.

„Skemmtilegast fannst mér þegar gamli skólafélagi minn, Hermann Gunnarsson, byrjaði að æfa á nýjan leik og við lékum saman,” sagði Mattías eftir tímabilið eftirminnilega. Hermann var líka í skýjunum.

„Þetta er ljúfasti Íslandsmeistaratitill sem ég hef unnið. Þetta er í fjórða skipti sem ég verð meistari. Fyrst varð ég meistari fyrir 14 árum, 1966, síðan aftur 1967 og 1976,” sagði Hermann.

Hermann á mörg met sem við koma markaskorun hér á landi. Enginn hefur skorað fleiri þrennur í efstu deild á Íslandi. Hann skoraði sjö sinnum þrennu og tvívegis fernu. Þá deilir hann metinu yfir flestar þrennur á einu tímabili (3) með þeim Þórólfi Beck, Skagamanninum Ingvari Elíssyni og Arnari Gunnlaugssyni.

Hermann er fimmi markahæsti leikmaður í efstu deild frá upphafi með 93 mörk, 79 fyrir Val og 14 fyrir ÍBA. Hann átti metið til 1981 þegar Mattías Hallgrímsson skoraði sitt 94. mark. Hermann lagði skóna á hilluna árið 1981.

Yfirlit yfir afrek Vilhjálms

on 05/06/2013

Ólympíuverðlaunahafinn og íþróttagoðsögnin Vilhjálmur Einarsson fagnar 79 ára afmæli sínu í dag.

Í tilefni dagsins hefur Stefán Þór Stefánsson tekið saman þróunina sem orðið hefur í þrístökki karla hér á landi allt frá árinu 1950. Óhætt er að segja að tölfræðin sé nokkuð sláandi og yfirburðir Vilhjálms á sviðinu hér á landi séu staðfestir.

Samantektina má sjá á myndinni hér að neðan. Þar er hægt að fylgja lengsta stökki hvers árs eftir bláa línuritinu. Meðaltal tíu lengstu stökka hvers árs má svo sjá á græna línuritinu.

Íslandsmet Vilhjálms frá árinu 1960, 16,70 metrar sem Austfirðingurinn setti á Laugardalsvelli, stendur enn. Síðan þá hefur enginn komist nærri meti Vilhjálms en Friðrik Þór Óskarsson úr ÍR stökk 15,29 metra árið 1979.

Hingnun í stökklengdum undanfarin ár vekur athygli. Þannig hefur leiðin legið töluvert niður á við síðan FH-ingurinn Kristinn Torfason stökk 14,79 metra árið 2009. Besta stökk síðasta árs var 14,06 metrar.

„Það sést greinilega hversu mikill afburða afreksmaður þú varst á þínu hæsta íþróttaskeiði,” skrifar Stefán Þór í afmæliskveðju til Vilhjálms.

„En það verður því miður að segajst eins og er að þróunin hefur að mestu verið niður á við frá 1979, og árið í fyrra eitt það lakasta í sögunni,” segir Stefán Þór.

Vilhjálmur vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu árið 1956. Hann var fyrsti Íslendingurinn til þess að vera tekinn inn í Heiðurshöll ÍSÍ.

Birt með leyfi höfundar. Kolbeinn Tumi Daðason skrifaði fyrir Vísi.

Norðurlandaþing í Kaupmannahöfn

on 20/05/2013

Dagana 6.-8. maí síðastliðinn fór fram Norðurlandaþing hjá samtökum íþróttafréttamanna í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Íslandi. Löng hefð er fyrir þingunum en þar koma fulltrúar hverra samtaka saman til að hlusta á áhugaverða fyrirlestra og auka samstarf landanna. Þingið er haldið annað hvert ár en næsta þing fer fram í Finnlandi árið 2015. Ísland mun halda þingið árið 2017.

Fulltrúar Íslands foru Eiríkur Stefán Ásgeirsson, Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, Jón Kristján Sigurðsson og Sigurður Elvar Þórólfsson. Danir voru gestgjafar þingsins í þetta sinn og var það haldið í Kaupmannahöfn.

Aðalfundarstaður var JP/Politikenshus við Ráðhústorgið. Þar kom hópurinn saman á mánudagsmorgun 6. maí og eftir stutta kynningu var haldið í húsakynni Viasat, sem er rétthafi langflestra íþróttaviðburða í sjónvarpi í Danmörku, sem og í fleiri löndum. Stjórnarformaður og framkvæmdarstjóri kynntu starfið og fjölluðu um þróun sjónvarpsréttarmála undanfarin ár.

Síðdegis var aftur haldið í Politikenshus þar sem haldnir voru tveir fyrirlestrar. Peter Giacomelli, yfirmaður auglýsinga- og styrktarsamninga Carlsberg, sagði frá aðkomu fyrirtækisins að knattspyrnutengdum viðburðum, svo sem EM í fótbolta og ensku úrvalsdeildinni. Camilla Andersen, ein besta handboltakona sögunnar, sagði svo frá starfi hennar í ferðaiðnaðinum og hvernig hún náði að yfirfæra gildi íþróttaferils síns yfir í atvinnulífið.

Um kvöldið fengu gestir leiðsögn um miðbæ Kaupmannahafnar og um kvöldið var snætt á Det lille apotek, elsta veitingahúsi borgarinnar.

Á þrijðudagsmorgun 7. maí fengu gestir leiðsögn um ráðhús Kaupmannahafnar og fund með Frank Jensen, borgarstjóra og stjórnarformanns Team Danmark, sem heldur utan um afreksíþróttastarf í Danmörku. Að því loknu var haldið í höfuðstöðvar danska knattspyrnusambandsins, þar sem gestir fengu leiðsögn um húsnæðið og fyrirlestur um hagræðingu úrslita knattspyrnuleikja. Fulltrúar veðmálafyrirtækisins Betfair héldu einnig tölu og sátu fyrir svörum.

Síðdegis fór fram landskeppni í bandí. Ísland skoraði fyrsta mark mótsins en eftir hetjulega baráttu enduðu okkar menn í fjórða sæti. Var mál manna að leikjaniðurröðun hafi verið íslenska liðinu afar óhagstæð.

Um kvöldið var haldið í Tivoli, þar sem keppt var í nokkrum þrautum. Svo var snætt á veitingahúsinu Hercegovina. Þar þakkaði hver sendinefnd fyrir sig og færðu gestgjöfum gjafir.

Gestir komu saman í Politikenshus á miðvikudagsmorgun. Þar flutti Gianni Merlo, forseti AIPS, ræðu um starf alþjóðasamtakanna. Fundað var um samstarf landanna og framtíð þingsins. Poul Madsen, aðalritstjóri Ekstra Bladet, flutti svo fyrirlestur um starfssemi blaðsins og framtíðarsýn þess. Ráðstefnunni var svo slitið eftir hádegisverð.

Þingið nýttist vel til að mynda sterkari tengls stjórnar SÍ við samstarfsfélaga sína á Norðurlöndunum.

Breyting á reglugerð

on 01/05/2013

Á síðasta aðalfundi SÍ, þann 29. apríl síðastliðinn, voru tillögur stjórnar SÍ um breytingar á reglugerð sambandsins um kjör íþróttamanns ársins samþykktar. Þær tóku helst á þeirri breytingu sem samþykkt var á framhaldsaðalfundi síðastliðið haust að veita sérstök verðlaun fyrir lið og þjálfara ársins.

Að mestu leyti snerust breytingarnar um breytt orðalag í reglugerðinni, þar sem verðlaunin eru nú þrenn en voru áður ein. Þá var stigagjöf í kjörum liðs og þjálfara ársins breytt til að samræmast betur stigagjöf í kjöri íþróttamanns ársins.

Félagar SÍ sem taka þátt í kjörinu munu nú raða þremur þjálfurum og liðum, sem skarað hafa fram úr að þeirra mati, í sæti. Fyrsta sætið hlýtur fimm stig, annað sætið þrjú stig og þriðja sætið eitt stig. Með þessu móti er tryggt að minnst þrír aðilar verða tilnefndir í hvorum flokki.

Um árabil hafa íþróttafjölmiðlar landsins tilkynnt á Þorláksmessu hvaða tíu íþróttamenn fengu flest atkvæði í kjöri íþróttamanns ársins. Framvegis verður tilkynnt, samhliða því, hvaða þrír þjálfarar og þrjú lið fengu flest atkvæði í þeim flokkum.

Nýr formaður SÍ

on 29/04/2013

Aðalfundur Samtaka íþróttafréttamanna fór fram í dag, mánudaginn 29. apríl 2013, í húsakynnum UMFÍ í Sigtúni í Reykjavík. Eftirfarandi mál lágu fyrir fundinum:

Stjórnarkosning

Sigurður Elvar Þórólfsson, formaður SÍ frá 2009, gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Eiríkur Stefán Ásgeirsson, ritari í stjórn SÍ, gaf einn kost á sér í embætti formanns og var kjörinn til næstu tveggja ára. Aðrir stjórnarmeðlimir eru kjörnir til eins árs í senn. Jón Kristján Sigurðsson gaf einn kost á sér í embætti gjaldkera sem hann hefur gegnt undanfarin ár. Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson gaf einn kost á sér í embætti ritara. Allir stjórnarmenn hlutu einróma kosningu. Tómas Þór Þórðarson og Einar Örn Jónsson verða varamenn stjórnar og hlutu þeir einnig einróma kosningu.

Við þetta tilefni vil nýkjörin stjórn SÍ koma á framfæri þökkum til fráfarandi formanns, Sigurðar Elvars, fyrir vel unnin störf í þágu SÍ undanfarin fjögur ár.

Inntaka nýrra félaga

Tveir nýir meðlimir voru teknir inn í SÍ í dag:

Kolbeinn Tumi Daðason, starfsmaður íþróttadeildar Fréttablaðsins og Vísis.
Páll Ketilsson, ritstjóri tímaritsins Golf á Íslandi, ritstjóri vefsíðunnar kylfingur.is og ritstjóri Víkurfrétta.

Tveir sóttu um aukaaðild að SÍ; Sigurður Elvar Þórólfsson og Hjörtur Hjartarson. Umsóknir þeirra voru samþykktar.

Önnur mál

Ársreikningur SÍ var lagður fyrir aðalfund og var hann samþykktur. Fráfarandi stjórn flutti skýrslu sína og önnur mál voru rædd.

Breytingartillögur stjórnar SÍ á reglugerð um kjör Íþróttamanns ársins voru samþykktar.

Aðalfundur SÍ

on 16/04/2013

Aðalfundur Samtaka íþróttafréttamanna verður haldinn þann 29. apríl næstkomandi, klukkan 13.00. Fundað verður í húsnæði UMFÍ, Sigtúni 42.

Dagskrá samkvæmt lögum. Athygli er vakin að lagabreytingatillögur þurfa að berast félagsmönnum minnst tveimur dögum fyrir aðalfund.

Útsending frá hófinu efst á lista Capacent

on 04/01/2013

127 þúsund manns sáu útsendingu frá hófi íþróttamanns ársins 2012 en það var vinsælasti dagskrárliðurinn þá vikuna í fjölmiðlakönnun Capacent Ísland. Hófið fékk 35,9 prósenta meðaláhorf og 53,3 prósenta uppsafnað áhorf. Sýnir svo ekki verði um villst hversu vinsælt kjörið er á Íslandi.

Um stóraukningu er að ræða frá árinu á undan. Þá fékk útsending frá kjörinu 2011 meðaláhorf upp á 30,8 prósent og uppsafnað áhorf upp á 39,8 prósent.

Meðal annarra vinsælra dagskrárliða þessa vikuna má nefna Landann, Áramótamót Hljómskálans og fréttir. Hóf íþróttamanns ársins sló þeim öllum við þetta árið.

Aron Pálmarsson er íþróttamaður ársins 2012

on 29/12/2012

Handknattleiksmaðurinn Aron Pálmarsson hlaut í kvöld sæmdarheitið íþróttamaður ársins fyrir árangur sinn á árinu sem er að líða. Hann hlaut nokkuð afgerandi kosningu í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna.

Aron var lykilmaður í landsliði Íslands sem náði fimmta sæti á Ólympíuleikunum í Lundúnum í sumar, þar sem liðið vann til að mynda sigur á verðandi Ólympíumeisturum Frakklands. Aron var eini leikmaður Íslands sem var kjörinn í úrvalslið Ólympíuleikanna. Aron spilaði einnig stórt hlutverk á Evrópumeistaramótinu í Serbíu, þar sem Ísland hafnaði í tíunda sæti.

Þá var árangur hans með félagsliði sínu, THW Kiel í Þýskalandi, undraverður. Liðið varð Þýskalandsmeistari með fullt hús stiga auk þess að vinna til sigurs í þýsku bikarkeppninni og Meistaradeild Evrópu. Aron spilaði einnig stórt hlutverk í liðinu á síðastliðnu tímabili og sýndi þar með að hann telst í hópi bestu handknattleiksmanna heimsins í dag.

Ásdís Hjálmsdóttir varð í öðru sæti í kjörinu, annað árið í röð. Ásdís hafnaði í ellefta sæti spjótkastskeppni kvenna á Ólympíuleikunum í sumar en hún setti glæsilegt Íslandsmet í undankeppninni er hún kastaði 62,77 m. Ásdís er í sextánda sæti heimslista Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins.

Jón Margeir Sverrisson hafnaði í þriðja sæti. Hann vann gullverðlaun á Ólympíumóti fatlaðra í London í haust, er hann kom í mark í 200 m skriðsundi á nýju heimsmeti í fötlunarflokki S14 á 1:59,62 mínútum.Alls fengu 20 íþróttamenn atkvæði í kjöri ársins.
1. Aron Pálmarsson 425 stig
2. Ásdís Hjálmsdóttir 279
3. Jón Margeir Sverrisson 267
4. Gylfi Sigurðsson 149
5. Þóra B. Helgadóttir 122
6. Auðunn Jónsson 74
7. Alfreð Finnbogason 65
8. Ásgeir Sigurgeirsson 61
9. Íris Mist Magnúsdóttir 58
10. Kári Steinn Karlsson 55

11. Guðjón Valur Sigurðsson 51
12. Ragna Ingólfsdóttir 27
13. Jón Arnór Stefánsson 25
14. Aðalheiður Rósa Harðardóttir 7
15.-17. Guðný Jenný Ásmundsdóttir 3
15.-17. Sarah Blake Bateman 3
15.-17. Alexander Petersson 3
18.-19. Helena Sverrisdóttir 2
18.-19. Ólafur Stefánsson 2
20. Aníta Hinriksdóttir 1

Allir 23 félagsmenn Samtaka íþróttafréttamanna tóku þátt í kjörinu og var því mest hægt að fá 460 stig.