Tímamót urðu þegar íþróttamaður ársins 1964 var valinn. Sigríður Sigurðardóttir hreppti hnossið og varð þar með fyrsta konan til að hljóta þennan titil. 27 ár liðu þar til kona varð aftur fyrir valinu.
Sigríður er fædd í Reykjavík árið 1942 og ólst þar upp. Hún var á táningsaldri þegar hún byrjaði að æfa handbolta og átti Árni Njálsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, sem ólst upp í sama hverfi og hún, stærstan þátt í því, en hann fékk hana til að mæta á æfingu hjá Val. Mikil stemning var í kringum handboltann á þeim tíma sem Sigríður var að byrja og leikgleðin var í fyrirrúmi.
Handboltinn virtist henta Sigríði vel og hún vakti snemma athygli, ekki aðeins fyrir mikla hæfileika sem skytta heldur einnig fyrir að vera mikill leiðtogi á vellinum. Þessi frammistaða hennar kom henni fljótt í kvennalandsliðið. Á þessum árum var farið að senda kvennalandslið í handbolta á Norðurlandamót og var Sigríður valin til þátttöku á mótinu sem fram fór í Västerås í Svíþjóð í júní 1960. Þetta var annað Norðurlandamótið sem kvennalandsliðið fór á en liðið hafði áður hafnað í þriðja og fjórða sæti af fjórum liðum. Liðið undirbjó sig vel fyrir mótið og kom meðal annars fram í fréttum að „…3. og 2. flokks karlalið [hafi] leikið gegn þeim til að fá meiri styrk og kraft í leik liðsins“ eins og það var orðað í frétt í Morgunblaðinu. Á þessu móti urðu þær hins vegar í öðru sæti og var Sigríður þá varafyrirliði liðsins.
Eftir þennan árangur var farið að halda liðinu skipulega saman og mikið var gert til að undirbúa það sem best. Meðal annars fengu stúlkurnar að æfa reglulega í stóru íþróttahúsi á Keflavíkurflugvelli þar sem ekkert slíkt hús var til staðar í Reykjavík.
Ástæðan fyrir að Sigríður var valin íþróttamaður ársins árið 1964 var að hún var fyrirliði kvennalandsliðsins í handknattleik sem varð Norðurlandameistari utanhúss. Keppnin var haldin hér á landi en þetta voru jafnframt fyrstu landsleikir sem kvennalandsliðið spilaði á heimavelli. Þessi sigur íslenska liðsins vakti mikla athygli hér á landi, ekki hvað síst vegna þess að ekki voru miklar vonir bundnar við liðið fyrir mótið. Fyrir mótið fór liðið til Keflavíkur einu sinni í viku og æfði stíft.
Mótið byrjaði vel og góður sigur vannst á Svíum, 5-4, í leik sem spilaður var í úrhellisrigningu. Þar var um hörkuleik að ræða þar sem liðin skiptust á um að hafa forystuna en Sigríður skoraði sigurmarkið fjórum mínútum fyrir leikslok.
Klukkustund eftir að þessum leik lauk var leikið við Dani. Sigríður kom fyrst Íslendingum í 2-0 en í kjölfarið fylgdu sex mörk frá Dönum og þeir höfðu því 6-2 yfir í leikhléi. En íslenska liðið náði með mikilli baráttu að komast yfir, 8-7. Danir jöfnuðu hins vegar metin og þannig lauk leiknum, 8-8.
Auðveldur sigur vannst á Finnum daginn eftir og lokaleikur liðsins var svo gegn Norðmönnum. Þá var staðan þannig að með sigri áttu Íslendingar góða möguleika á að vinna mótið, en það yrði hins vegar ekki tryggt nema ef Norðmenn tækju svo stig af Dönum síðar sama dag. Íslendingar komust í 1-0 og 2-1, með mörkum frá Sigríði. Norðmenn, sem einnig áttu möguleika á sigri í mótinu, komust hins vegar fljótlega í 4-2 en íslenska liðið náði að jafna, og staðan í leikhléi var 5-5. Norðmenn komust í 7-5 fljótlega í seinni hálfleik og Sigríður misnotaði tvö vítaköst í kjölfarið. En þá kom hin 14 ára Sigrún Guðmundsdóttir inn á og hún og Sigríður skoruðu tvö mörk hvor í leiknum og breyttu stöðunni í 9-7. Þannig lauk leiknum. Norðmenn unnu svo Dani síðar um daginn og þar með var Norðurlandameistaratitillinn tryggður íslenska liðinu.
Árangur Sigríðar 1964
26. júní: Íslenska landsliðið vinnur óvænt sigur í fyrsta leik sínum á Norðurlandamótinu í handknattleik utanhúss á Laugardalsvellinum. Leikurinn endaði 5-4 og skorar Sigríður þrjú markanna, þar á meðal sigurmarkið fjórum mínútum fyrir leikslok. Síðar sama dag gerir íslenska landsliðið svo jafntefli við Dani, 7-7. Varaformaður Handknattleikssambands Íslands sagði fyrir leikinn að þetta væri stærsta stundin í íslenskum handknattleik.
Þó að Sigríður hafi verið valin íþróttamaður ársins sem fyrirliði liðsins má í raun segja að allt liðið hafi átt þessa viðurkenningu. Fjölmiðlar sýndu kvennahandboltanum líka meiri áhuga eftir þetta kjör og almennur áhugi á honum jókst við þetta.
Sigríður þótti mjög skotfastur leikmaður, en jafnframt því gríðarlegur leiðtogi. Sigrún Guðmundsdóttir, sem var með henni í liðinu sem varð Norðurlandameistari, segir að Sigríður hafi verið akkeri liðsins. Hún þótti gríðarlega hörð af sér og gafst aldrei upp. Hún var gríðarleg keppnismanneskja. Hún krafðist mikils af sjálfri sér og jafnframt af félögum sínum. Sigríður þótti einnig góður félagi, létt og kát, og því fyrirliði eins og þeir eiga að vera.
Sigríður hefur smitað afkomendur sína af handboltabakteríunni. Eiginmaður hennar, Guðjón Jónsson, hefur reyndar örugglega gert sitt til þess líka því að hann lék handknattleik í mörg ár. Dætur þeirra, Guðríður, Díana og Hafdís, lögðu síðan allar stund á íþróttina með góðum árangri.