Kolbeinn Pálsson körfuknattleiksmaður úr KR var kjörinn íþróttamaður ársins 1966 og er eini körfuknattleiksmaðurinn sem hefur hlotið þessa viðurkenningu.
Kolbeinn er fæddur árið 1945 og er alinn upp í Reykjavík. Íþróttirnar, sem Kolbeinn stundaði helst þegar hann var yngri, voru skautahlaup, hlaup, handbolti og körfubolti. Smátt og smátt togaði körfuboltinn í hann og hann ákvað að einbeita sér alfarið að honum sextán ára gamall en hann hafði þá einnig æft handbolta og varð Íslandsmeistari í 3. flokki. Einnig æfði hann bæði með unglingalandsliðinu í handbolta og körfubolta 1962 og lék með meistaraflokki KR í handbolta veturinn 1962–63.
Kolbeinn byrjaði að spila með meistaraflokki KR í körfubolta 1962 og lék með KR allt til ársins 1981. Á þeim tíma sem Kolbeinn er að stíga sín fyrstu skref voru fyrstu alvöru körfuknattleiksmenn Íslands að stíga fram á sjónarsviðið, menn á borð við Þorstein Hallgrímsson og Birgi Örn Birgisson, sem voru 3–4 árum eldri en Kolbeinn. Þá var það farið að gerast í fyrsta sinn að íslenska landsliðið var farið að standa í Norðurlandaþjóðum eins og Dönum og Norðmönnum í greininni og það leiddi af sér að körfuboltinn naut sívaxandi vinsælda meðal ungu kynslóðarinnar. Kolbeinn æfði mikið með þessum köppum þegar hann var að byrja og lærði mikið af því.
Kolbeinn vakti strax athygli í fyrstu leikjum sínum með meistaraflokki KR en hann átti þá þegar unglingA-landsleiki að baki. Hann lék sinn fyrsta A-landsleik árið 1964 en hafði árið áður leikið sinn fyrsta unglingA-landsleik.
Tvennt sker sig úr hjá Kolbeini árið sem hann er valinn íþróttamaður ársins. Annars vegar tryggði landsliðið sér þriðja sætið á Norðurlandamótinu í körfuknattleik með eftirminnilegum eins stigs sigri á Dönum í framlengdum leik. Þar átti Kolbeinn stórleik, skoraði 26 stig og tryggði þar að auki sigurinn með því að skora úr tveimur vítaskotum á lokasekúndum leiksins. Um haustið spilaði svo KR við Evrópumeistarana í Milano Simithal. Þó að sá leikur hafi tapast þótti KR-liðið standa sig mjög vel í þeim leik og var Kolbeinn þar fremstur meðal jafningja. Hann skoraði 26 stig og átti stórleik í vörninni þar sem hann braut ófáar sóknir Evrópumeistaranna á bak aftur með því að stela boltanum af þeim. Það má því segja að með því hafi hann einnig stolið senunni frá stórstjörnunum sem léku með þessu liði.
Kolbeinn átti glæstan feril í körfuboltanum hér á landi eftir þetta. Hann varð sjö sinnum Íslandsmeistari með KR og níu sinnum bikarmeistari. Hann lék 55 A-landsleiki á ferlinum og var fyrirliði í þeim langflestum. Kolbeinn sagði ekki skilið við körfuknattleikinn þó að hann hætti að spila. Hann var virkur í félagsstarfi tengdu íþróttinni og var meðal annars formaður Körfuknattleikssambands Íslands á árunum 1988–96.
Kolbeinn er enn í dag leikjahæsti leikmaður KR í körfuknattleik með 383 leiki.
Það sem einkenndi Kolbein fyrst og fremst sem körfuknattleiksmann var gríðarlegur hraði og sterk vörn. Tilburðir hans í vörninni fóru í taugarnar á mörgum sóknarmanninum, meðal annars hjá Evrópumeisturunum sjálfum. Fyrstu ár ferilsins var hann aldrei mikil skytta og hann fór ekki að skjóta mikið fyrir utan fyrr en fór að líða nokkuð á ferilinn. Hann er að flestra mati einn besti körfuknattleiksmaður sem Íslendingar hafa átt.
Eins og áður sagði er Kolbeinn eini körfuknattleiksmaðurinn sem orðið hefur íþróttamaður ársins. Hafa margir framamenn í íþróttinni verið svekktir með þetta, og einkum bent þá á Pétur Guðmundsson, sem í upphafi níunda áratugs síðustu aldar varð fyrsti Evrópubúinn til að spila í NBA-deildinni í Bandaríkjunum, sterkustu körfuknattleiksdeild heims.
Árangur Kolbeins 1966
11. apríl: Íslenska landsliðið í körfuknattleik hafnar í þriðja sæti á Polar Cup sem einnig er Norðurlandamót í greininni. Þriðja sæti vinnst eftir sigur á Dönum í framlengdum leik og tryggir Kolbeinn Íslendingum eins stigs sigur með því að skora úr tveimur vítaskotum á lokasekúndum leiksins.
18. apríl: Kolbeinn er í Reykjavíkurúrvalinu sem sigrar úrvalslið varnarliðsmanna á Keflavíkurflugvelli í úrslitaleik í árlegri keppni milli liðanna. Leikurinn endaði 75-64 og skoraði Kolbeinn 19 stig í leiknum.
24. júní: Kolbeinn er í Reykjavíkurúrvali körfuknattleiksmanna 20 ára og yngri sem sigrar jafnaldra sína frá Bandaríkjunum 62-61. Kolbeinn skorar 13 stig og á stórleik í vörn.
18. nóvember: KR-ingar tapa fyrir ítalska liðinu Simmethal 63-90 í Evrópukeppninni í körfuknattleik en ítalska liðið er ríkjandi Evrópumeistari. Kolbeinn á stórleik í leiknum, skorar 25 stig og stelur mörgum boltum í vörninni. Frammistaða hans vekur mikla athygli.