1971 | Hjalti Einarsson

Hjalti Einarsson var valinn íþróttamaður ársins 1971. Það sem helst réði vali hans var glæsileg frammistaða hans í leik gegn Rúmenum sem þá voru heimsmeistarar. Þeim leik lauk með jafntefli, 14-14, en það var fyrst og fremst glæst frammistaða hans í síðari hálfleik sem gerði það að verkum að jafnteflið náðist. Hann fékk aðeins þrjú mörk á sig í hálfleiknum og lokaði m.a. markinu í 15 mínútur.

Hjalti er fæddur árið 1938 á Siglufirði. Hann fluttist til Hafnarfjarðar árið 1951 og þar kynntist hann handboltanum fyrst þegar hann var nemandi hjá Hallsteini Hinrikssyni. Hallsteinn hafði þá þann hátt á að enda alla leikfimitíma á handknattleik og það kveikti áhuga Hjalta á íþróttinni. Hann hóf fljótlega upp úr því að æfa með FH og lék sinn fyrsta meistaraflokksleik árið 1955. Síðan þá var hann í fremstu röð handknattleiksmarkvarða hér á landi allt þar til hann hætti keppni þegar hann var að nálgast fertugt.

Hjalti lék sinn fyrsta landsleik árið 1959, gegn Norðmönnum í Ósló, og var fastamaður í liðinu upp frá því. Hann lék alls 76 landsleiki til ársins 1974, sem var þá það mesta sem Íslendingur hafði náð. Það þótti mikið þá, þó það sé ekki sérstaklega mikið í handboltanum í dag. Landsliðið var á þessum árum að komast í fremstu röð. Hjalti lék meðal annars í fjórum heimsmeistarakeppnum og einum Ólympíuleikum.

FH-liðið var í fremstu röð á þeim árum sem Hjalti stundaði íþróttina. Meðal leikmanna, sem voru samtíða honum, voru Ragnar Jónsson, Birgir Björnsson og Örn Hallsteinsson, og síðar kom svo bróðir Arnar, Geir inn í hópinn. FH-liðið vann fjölda titla á þessum árum og hafði oft mikla yfirburði á Íslandsmótinu. FH-liðið var auk þess jafnan uppistaðan í landsliðinu og voru t.d. 7 í landsliðinu á HM 1961 en þá varð Ísland í 6. sæti. Hjalti var valinn íþróttamaður ársins 1971 og er það mál manna að það sem réði úrslitum í því kjöri væri frammistaða hans þegar Íslendingar gerðu jafntefli við Rúmena, 14-14, í æfingaleik í Laugardalshöll. Rúmenar höfðu haft nokkra yfirburði í leiknum í fyrri hálfleik. Hjalti var settur inn í byrjun seinni hálfleiks og átti algjöran stjörnuleik. Hann fékk aðeins á sig þrjú mörk allan seinni hálfleik og síðustu 18 mínútur hálfleiksins lokaði hann hreinlega markinu. Það var sama hvað heimsmeistararnir reyndu, þeir fundu ekki leiðina framhjá Hjalta. Félagar hans í landsliðinu nýttu sér það og breyttu tapaðri stöðu í jafntefli.

Hjalti varð alls 12 sinnum Íslandsmeistari innanhúss og 19 sinnum utanhúss með FH og þá varð hann tvisvar bikarmeistari. Hjalti lék alls 437 leiki með meistaraflokki FH á þeim rúmlega tuttugu árum sem hann spilaði.

Hjalti var stór og stæðilegur markvörður, ekki sérstaklega liðugur en varði oft á tíðum snilldarlega. Samherjar hans tala um Hjalta sem geysilega mikinn íþróttamann, en jafnframt góðan dreng og mikinn félaga. Hann missti aldrei stjórn á skapi sínu og var alltaf tilbúinn að hjálpa, leiðbeina og aðstoða. Sumir vilja jafnvel meina að Ísland hafi aldrei átt betri markmann en Hjalta.

Eftir að ferlinum lauk rak Hjalti verslun við Skólavörðustíg ásamt eiginkonu sinni en undanfarin ár hefur hann hins vegar verið óvinnufær vegna veikinda.

Árangur Hjalta 1971:

10. mars: Hjalti á stórleik þegar Íslendingar gera jafntefli, 14-14, við heimsmeistara Rúmena í Laugardalshöllinni. Hann hreinlega lokaði markinu síðustu 18 mínútur leiksins og fær aðeins á sig þrjú mörk í öllum síðari hálfleiknum. Á þeim tíma vinna Íslendingar upp fimm marka forskot Rúmena, 14-9. Í þessum leik nær Hjalti jafnframt þeim áfanga að spila sinn 50. landsleik, og er fyrstur Íslendinga til að ná þeim árangri.

25. mars: Hjalti verður Íslandsmeistari í handknattleik með FH.

27. ágúst: Hjalti verður Íslandsmeistari utanhúss með FH þegar liðið sigrar Hauka í úrslitaleik, 15-13. Markvarsla hans átti drjúgan þátt í þeim sigri.

30. nóvember: Hjalti reynist Júgóslövum erfiður ljár í þúfu og ver mjög vel í landsleik gegn þeim í Laugardalshöllinni, einkum í fyrri hálfleik. Eftirjafnan fyrri hálfleik ná Júgóslavar hins vegar að síga fram úr og vinna 11-20.