Ný stjórn og fjórir nýir meðlimir

Aðalfundur Samtaka íþróttafréttamanna var haldinn föstudaginn 27. október 2017 í fundarsal Blaðamannafélags Íslands í Síðumúla 23. Dagskrá fundarins var samkvæmt lögum SÍ.

Eiríkur Stefán Ásgeirsson var endurkjörinn formaður SÍ til næstu tveggja ára en hann hefur gegnt embættinu síðan 2013. Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson og Tómas Þór Þórðarson voru kjörnir stjórnarmenn næsta árið. Þorkell Gunnar hefur setið í stjórn síðan 2013 en Tómas Þór hefur verið varamaður í stjórn síðustu ár.

Jón Kristján Sigurðsson, gjaldkeri SÍ til fjölda ára, gengur nú úr Samtökunum og þar með úr stjórn þeirra. Standa félagar SÍ honum í þakkarskuld fyrir störf í þágu samtakanna um árabil en Jón Kristján hefur verið meðlimur í Samtökum íþróttafréttamanna í 31 ár, frá árinu 1986.

Einar Örn Jónsson og Sindri Sverrisson voru kjörnir varamenn í stjórn. Endurskoðendur reikninga voru kjörnir Arnar Björnsson og Magnús Már Einarsson.

Fjórar umsóknir um aðild að SÍ voru samþykktar á fundinum. Andri Yrkill Valsson, Hörður Snævar Jónsson, Kristjana Arnarsdóttir og Ingvi Þór Sæmundsson eru nú fullgildir meðlimir í SÍ.

Tveir gengu úr SÍ á fundinum. Auk Jóns Kristjáns gekk Sigurður Elvar Þórólfsson, sem var formaður SÍ frá 2009 til 2013, úr samtökunum. 27 félagar eru nú í SÍ.

Skýrsla stjórnar og ársreikningar voru samþykktar án athugasemda. Meðal annarra mála sem voru rædd voru Norðurlandaþingið sem haldið var á Íslandi í maí 2017, 60 ára afmæli SÍ sem haldið var upp á í október 2016 og málefni sem snúa að AIPS – Alþjóðasamtökum íþróttafréttamanna.

Fundurinn samþykkti einróma að sniðganga ársþing AIPS sem haldið verður í Tyrklandi á næsta ári, vegna meðferðar tyrkneskra stjórnvalda á blaðamönnum þar í landi. Hyggjast samtök íþróttafréttamanna á öðrum Norðurlöndum gerast slíkt hið sama og er þess að vænta að sameiginleg yfirlýsing Norðurlandanna verði gefin út vegna þessa.