Reykjavík, 28. nóvember 2019.
Stjórn Samtaka íþróttafréttamanna harmar uppsagnir í stéttinni sem áttu sér stað í dag og á síðustu vikum.
Í dag var þremur íþróttafréttamönnum á Morgunblaðinu og mbl.is sagt upp og fyrir rétt rúmum mánuði síðan var öðrum sagt upp störfum hjá Sýn.
Allir þessir fréttamenn eru mjög færir í sínu starfi og íþróttaumfjöllun í landinu mikilvægir en samanlagt hafa þeir um 80 ára reynslu í faginu. Einnig hafa þeir flestir komið með einum eða öðrum hætti beint að starfi Samtaka íþróttafréttamanna og verið lykilmenn í stéttinni um árabil.
Fyrir uppsagnirnar voru félagsmenn í SÍ 29 en þeim hefur sem betur fer farið fjölgandi á undanförnum árum eftir hrun. Lægst var félagatalan 17 í kringum hrunið. Að óbreyttu hafa Samtök íþróttafréttamanna nú misst tæp fjórtán prósent félagsmanna sinna á einum mánuði.
Þessar uppsagnir sanna það sem blaðamenn hafa alltaf vitað, að starfsöryggi þeirra er lítið sem ekkert.
Samtök íþróttafréttamanna standa heilshugar með sínu fólki og vona að fleiri uppsagnir séu ekki á döfinni hjá stéttinni. Hún má ekki við því.
Stjórn Samtaka íþróttafréttamanna