Ómar Ingi Magnússon er íþróttamaður ársins 2021

Úrslitin í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins 2021 eru ljós. Handboltamaðurinn Ómar Ingi Magnússon handboltamaður hjá Magdeburg í Þýskalandi hlaut titilinn í ár. Hann er tíundi handboltamaðurinn frá upphafi kjörsins 1956 sem hlýtur nafnbótina. Áður höfðu Sigríður Sigurðardóttir (1964), Geir Hallsteinsson (1968), Hjalti Einarsson (1971), Alfreð Gíslason (1989), Geir Sveinsson (1997), Ólafur Stefánsson (2002, 2003, 2008 og 2009), Guðjón Valur Sigurðsson (2006), Alexander Petersson (2010) og Aron Pálmarsson (2012) hlotið titilinn.

Níu ár eru síðan handboltamaður varð hlutskarpastur síðast í kjörinu. Þetta er í þrettánda sinn sem handboltamaður vinnur. Oftast hefur frjálsíþróttafólk unnið titilinn eða 21 sinni. Þrettán sinnum hefur fótboltafólk unnið. Níu sinnum hefur sundfólk hreppt hnossið, kraftlyftingamenn fjórum sinnum, körfuboltamenn tvisvar og íþróttafólk í golfi, fimleikum (þolfimi), hestaíþróttum og júdó einu sinni hvert.

Alls hafa 45 íþróttamenn verið kjörnir íþróttamaður ársins. Nokkrir þeirra oftar en einu sinni. Vilhjálmur Einarsson (5), Ólafur Stefánsson (4), Einar Vilhjálmsson (3), Hreinn Halldórsson (3), Örn Arnarson (3), Valbjörn Þorláksson (2), Guðmundur Gíslason (2), Ásgeir Sigurvinsson (2), Skúli Óskarsson (2), Jón Arnar Magnússon (2), Eiður Smári Guðjohnsen (2), Gylfi Þór Sigurðsson (2), Sara Björk Gunnarsdóttir (2). Í þau 66 skipti sem Samtök íþróttafréttamanna hafa staðið fyrir kjörinu hafa karlar hreppt nafnbótina 58 sinnum og konur átta sinnum. Frá árinu 2015 er kynjaskiptingin hins vegar þannig að konur hafa unnið fjórum sinnum og karlar þrisvar. Alls fengu 25 íþróttamenn atkvæði í kjörinu í ár, 15 karlar og 10 konur. Þau koma úr tíu mismunandi íþróttagreinum.

Íþróttamaður ársins 2021 – stigin
1. Ómar Ingi Magnússon, handbolti 445
2. Kolbrún Þöll Þorradóttir, fimleikar 387
3. Kristín Þórhallsdóttir, kraftlyftingar 194
4. Martin Hermannsson, körfubolti 150
5. Aron Pálmarsson, handbolti 143
6. Júlían J. K. Jóhannsson, kraftlyftingar 122
7. Sveindís Jane Jónsdóttir, fótbolti 114
8. Bjarki Már Elísson, handbolti 109
9. Rut Arnfjörð Jónsdóttir, handbolti 93
10. Kári Árnason, fótbolti 85

11. Elvar Már Friðriksson, körfubolti 48
12. Aldís Kara Bergsdóttir, skautar 40
13. Hlynur Andrésson, frjálsíþróttir 32
14. Ásta Kristinsdóttir, fimleikar 31
15. Glódís Perla Viggósdóttir, fótbolti 26
16. Helgi Laxdal Aðalgeirsson, fimleikar 24
17. Haraldur Franklín Magnús, golf 22
18. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, golf 13
19. Erna Sóley Gunnarsdóttir, frjálsíþróttir 10
20. Már Gunnarsson, íþróttir fatlaðra 8
21. Helena Sverrisdóttir, fótbolti 7
22-23. Alfons Sampsted, fótbolti 6
22-23. Baldvin Þór Magnússon , frjálsíþróttir 6
24-25. Anton Sveinn McKee, sund 1
24-25. Róbert Ísak Jónsson, íþróttir fatlaðra 1

Alls nýttu 29 af 30 félögum í Samtökum íþróttafréttamanna atkvæðisrétt sinn í ár. Þeir starfa fyrir átta mismunandi fjölmiðlafyrirtæki. Hver og einn félagi raðar tíu nöfnum á blað frá 1-10. Efsta sætið gefur 20 stig, 2. sætið 15 stig, 3. sætið 10 stig, 4. sætið 7 stig, 5. sætið 6 stig og svo koll af kolli. Sex íþróttamenn fengu atkvæði í efsta sætið.

Lið ársins
Kvennalandslið Íslands í hópfimleikum var valið lið ársins 2021. Þetta er í tíunda sinn sem Samtök íþróttafréttamanna kjósa lið ársins. Kvennalandslið Íslands í hópfimleikum vann einmitt líka árið 2012 þegar verðlaunin voru fyrst veitt. Aðeins karlalandslið Íslands í fótbolta hefur oftar hlotið titilinn lið ársins eða fjórum sinnum (2013, 2015, 2016 og 2017).

Lið ársins – stigin
1. Kvennalandslið Íslands í hópfimleikum 125
2. Karlalið Víkings í fótbolta 63
3. Kvennalið KA/Þórs í handbolta 56
4. Kvennalið Breiðabliks í fótbolta 8
5. Karlalið Þórs Þorlákshafnar í körfubolta 5
6. Karlalið Vals í handbolta 3
7. Karlalið Hamars í blaki 1

Hver og einn félagi raðar þremur liðum á blað frá 1-3. Efsta sætið gefur 5 stig, 2. sætið 3 stig og 3. sætið 1 stig. Fjögur lið fengu atkvæði í efsta sæti.

Þjálfari ársins
Þórir Hergeirsson þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta var kjörinn þjálfari ársins 2021. Þetta er í tíunda sinn sem Samtök íþróttafréttamanna kjósa lið ársins. Þórir Hergeirsson þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta sem hafði þrisvar sinnum orðið annar í kjörinu vann nú nafnbótina í fyrsta sinn. Tveir hafa oftast hlotið titilinn, tvisvar sinnum hvor. Alfreð Gíslason (2012 og 2013) og Heimir Hallgrímsson 2015 og 2017).

Þjálfari ársins – stigin
1. Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta – 131 
2. Vésteinn Hafsteinsson, kastþjálfari í frjálsíþróttum – 68 
3. Arnar B. Gunnlaugsson, þjálfari karlaliðs Víkings R. Í fótbolta – 37 
4. Andri Snær Stefánsson, þjálfari kvennaliðs KA/Þórs í handbolta – 13 
5. Björn Björnsson og Hrefna Þorbjörg Hákonardóttir, yfirþjálfarar Íslands í hópfimleikum – 11 
6. Lárus Jónsson, þjálfari karlaliðs Þórs Þ. í körfubolta – 1  

Hver og einn félagi raðar þremur þjálfurum á blað frá 1-3. Efsta sætið gefur 5 stig, 2. sætið 3 stig og 3. sætið 1 stig. Þrír þjálfarar fengu atkvæði í fyrsta sætið í ár.

Ljósmyndir: Mummi Lú.