Óbreytt stjórn og einn nýr félagi

Aðalfundur Samtaka íþróttafréttamanna var haldinn í gær, 7. júní í fundarsal Blaðamannafélags Íslands. Tíu félagar sóttu fundinn. Einn nýr félagi var tekinn inn í samtökin, það er Gunnar Egill Daníelsson á Morgunblaðinu og mbl.is. Kristján Jónsson hjá sama miðli er kominn yfir í almennar fréttir og lætur því af aðild í SÍ. Þá er Hjörvar Ólafsson hættur á íþróttadeild Torgs og hættir sömuleiðis í SÍ.

Tómas Þór Þórðarson var kjörinn formaður til tveggja ára á síðasta aðalfundi og því var ekki kosið um formann í ár. Edda Sif Pálsdóttir og Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson voru hins vegar endurkjörin til eins árs í stjórn. Edda er áfram ritari og Þorkell gjaldkeri sem fyrr. Einar Örn Jónsson og Sindri Sverrisson voru endurkjörnir sem varamenn til eins árs. Þá verða Ingvi Þór Sæmundsson og Bjarni Helgason skoðunarmenn reikninga.

Ein lagabreyting var samþykkt sem sneri að því að fella út klausuna um Félag fréttamanna í 2. grein laga. Félag fréttamanna sameinaðist Blaðamannafélaginu um síðustu mánaðamót og því eru allir félagar í SÍ nú í Blaðamannafélaginu. Þá var samþykkt reglugerðarbreyting um kjör íþróttamanns ársins sem heimilar stjórn að framkvæma atkvæðagreiðsluna rafrænt.