Samstarf við KSÍ og Blindrafélagið

Samtök íþróttafréttamanna hafa hafið samstarf við KSÍ og Blindrafélagið um sjónlýsingar á landsleikjum í fótbolta á Laugardalsvelli. KSÍ býður blindum og sjónskertum sem sækja landsleiki á Laugardalsvelli upp á ítarlegar lýsingar, ekki ósvipað og þekkist í útvarpslýsingum. Samtök íþróttafréttamanna sjá um að skaffa reynda lýsendur á leikina.

Landsleikur Íslands og Slóvakíu í kvöld var fyrsti leikurinn í þessu samstarfi og sá Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson um sjónlýsinguna. Gunnar Birgisson lýsir svo Ísland-Portúgal á þriðjudagskvöld. Lýsingarnar eru í lokuðu umhverfi, aðeins ætlaðar blindum og sjónskertum á vellinum. Þessir fyrstu tveir leikir eru til prufu, en eftir þá er stefnt að því að gera formelgan samning milli KSÍ og SÍ um þjónustuna fyrir Blindrafélagið.