Efstu í kjöri Íþróttamanns ársins 205

Samtök íþróttafréttamanna opinberuðu í dag hverjir urðu í efstu tíu sætum kjörsins á Íþróttamanni ársins 2025. Einnig er orðið ljóst hverjir eru þrír efstu í kjörinu á þjálfara ársins og á liði ársins. Úrslitin verða kunngjörð í Hörpu laugardaginn 3. janúar 2026 klukkan 19:40 í beinni útsendingu á RÚV.

Tíu efstu í kjörinu á íþróttamanni ársins 2025. Grafík: RÚV/Kristrún Eyjólfsdóttir.

Eftirfarandi texti birtist á vef Vísis í dag og er skrifaður af Óskari Ófeigi Jónssyni félaga í SÍ. Við tökum okkur það leyfi að endurbirta texta Óskars Ófeigs hér:

Íþróttafólkið sem endaði í tíu efstu sætunum í ár kemur frá sjö mismunandi íþróttasamböndum sem er einu fleira en í fyrra. Knattspyrna, handbolti og fimleikar eiga öll tvo fulltrúa en eins er fólk tilnefnt úr sundi, skotfimi, körfubolta og ólympískum lyftingum.

Síðustu fjórir íþróttamenn ársins eru allir tilnefndir í ár en það eru þau Glódís Perla Viggósdóttir, ríkjandi íþróttamaður ársins, Gísli Þorgeir Kristjánsson (2023) og Ómar Ingi Magnússon (2021 og 2022).

Fimm af tíu eru síðan fædd á þessari öld eða á árinu 2000 eða síðar. Elstur á topp tíu listanum er hinn 43 ára gamli Jón Þór Sigurðsson en yngst er fimleikakonan Hildur Maja Guðmundsdóttir sem er tvítug. Jón Þór er elstur til að vera tilnefndur á þessari öld en hann er sá elsti síðan hestamaðurinn Sigurbjörn Bárðarson var tilnefndur árið 1999, þá 47 ára gamall.

Fjögur á listanum í ár voru einnig meðal tíu efstu í fyrra en það eru þau Eygló Fanndal Sturludóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Snæfríður Sól Jórunnardóttir og Ómar Ingi Magnússon. Glódís Perla er tilnefnd fjórða árið í röð og í sjötta skiptið alls en Snæfríður Sól er tilnefnd þriðja árið í röð. Ómar Ingi er á topp tíu listanum í fjórða skiptið á síðustu fimm árum.

Fjórir eru síðan nýliðar í hópi þeirra tíu efstu eða það eru Dagur Kári Ólafsson, Hákon Arnar Haraldsson, Hildur Maja Guðmundsdóttir og Jón Þór Sigurðsson. Dagur Kári er fyrsti fimleikakarlinn í sjö ár sem er tilnefndur eða síðan Valgarð Reinhardsson var á topp tíu árið 2018. Jón Þór er aftur á móti fyrsti skotíþróttamaðurinn sem er tilnefndur frá árinu 2012 þegar Ásgeir Sigurgeirsson var tilnefndur.

Heimir Hallgrímsson, Dagur Sigurðsson og Ágúst Þór Jóhannsson.

Þeir þjálfarar sem eru tilnefndir sem þjálfarar ársins eru í stafrófsröð: Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Vals í handbolta og seinna á árinu þjálfari karlaliðs Vals í handbolta, Dagur Sigurðsson, þjálfari karlaliðs Króatíu í handbolta og Heimir Hallgrímsson, þjálfari karlalandsliðs Íra í fótbolta.

Tvö kvennalið og eitt karlalið eru tilnefnd sem íþróttalið ársins 2025. Það eru kvennalið Breiðabliks í fótbolta sem varð tvöfaldur meistari og komst áfram í Evrópukeppninni, karlalið Fram í handbolta sem varð tvöfaldur meistari og kvennalið Vals í handbolta sem vann tvöfalt hér heima og bætti síðan Evrópumeistaratitli við það, fyrst íslenskra kvennaliða.

Breiðablik mfl. kvenna í fótbolta, Fram mfl. karla í handbolta og Valur mfl. kvenna í handbolta.

Þetta verður í sjötugasta sinn sem Íþróttamaður ársins er útnefndur af Samtökum Íþróttafréttamanna en fyrstur til að hljóta þessa viðurkenningu var Vilhjálmur Einarsson árið 1956 en hann vann það ár silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu.

Kjöri Íþróttamanns ársins verður lýst í Hörpu laugardagskvöldið 3. janúar 2026. Kjörið fer nú fram eftir áramót þriðja árið í röð.

  • Tíu efstu í stafrófsröð
  • Dagur Kári Ólafsson
  • Eygló Fanndal Sturludóttir
  • Gísli Þorgeir Kristjánsson
  • Glódís Perla Viggósdóttir
  • Hákon Arnar Haraldsson
  • Hildur Maja Guðmundsdóttir
  • Jón Þór Sigurðsson
  • Ómar Ingi Magnússon
  • Snæfríður Sól Jórunnardóttir
  • Tryggvi Snær Hlinason
  • Lið ársins í stafrófsröð
  • Breiðablik kvenna fótbolti
  • Fram karla handbolti
  • Valur kvenna handbolti
  • Þjálfari ársins í stafrófsröð
  • Ágúst Þór Jóhannsson
  • Dagur Sigurðsson
  • Heimir Hallgrímsson

Texti í fréttinni er eftir Óskar Ófeig Jónsson og birtist á Vísi í morgun.