
Samtök íþróttafréttamanna á Íslandi voru síðast gestgjafar Norðurlandaþings íþróttafréttamanna í maí árið 2017. Þingið sóttu félgar frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi og var fjölbreytt dagskrá. Eiríkur Stefán Ásgeirsson formaður setti þingið á heimili sínu þar sem hann bauð öllum gestum þingsins til kvöldverðar. Fyrir það höfðu erlendu gestirnir flestir komið við í Bláa lóninu á leið sinni frá Keflavíkurflugvelli til höfuðborgararsvæðsins.
Á degi tvö var farið í ferið um vesturland þar sem Ingi Þór Steinþórsson þjálfari körfuboltaliða Snæfells tók á móti hópnum og útskýrði árangur liðanna á undanförnum árum. Í Stykkishólmi var svo snæddur hádegisverður áður en farið var til Ólafsvíkur þar sem Ejub Purisevic þjálfari meistaraflokks karla í fótbolta hjá Víkingi sá um leiðsögn. Eftir frekari skoðunarferð um Snæfellsnes var haldið til Akraness þar sem íþróttaminjasafnið á Byggðasafninu var skoðað og svo farið á fótboltaleik hjá ÍA og þar borðaðir hamborgarar áður en haldið var til baka til Reykjavíkur.
Á þriðja og síðasta degi þingsins tók KSÍ á móti hópnum á Laugardalsvelli. Guðni Bergsson formaður flutti tölu í byrjun áður en Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins og Arnar Bill Gunnarsson og Dagur Sveinn Dagbjartsson úr fræðsludeild KSÍ fóru yfir það hvers vegna íslensku A-landsliðin höfðu náð svona góðum árangri á undanförnum árum. Eftir hádegisverð sem KSÍ bauð til var svo fundað í húsakynnum Blaðamannafélags Íslands og mikilvæg málefni líðandi stundar rædd, fréttir af samtökuum hvers lands sagðar og helstu áskoranir íþróttafréttamanna ræddar. Þangað kom líka Guðmundur Þ. Guðmundsson fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands og Danmerkur í handbolta og fór yfir ólíka upplifun sína af þjálfun Íslands og Danmerkur á Ólympíuleikum en hann hafði stýrt Íslandi til silfurs árið 2008 og Danmörku til gullverðlauna árið 2016.
Síðdegis bauð Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands til mótttöku á Bessastöðum og að því loknu var frjáls tími til skoðunar í miðbæ Reykjavíkur áður en við tók hátíðarkvöldverður í Hörpu þar sem þinginu var svo slitið. Hér að neðan má sjá myndir frá Norðurlandaþingi íþróttafréttamanna á Íslandi árið 2017.















































