Þrístökkvarinn Vilhjálmur Einarsson lést að kvöldi 28. desember 2019, 85 ára að aldri. Afrek hans eru samofin fyrstu árum Samtaka íþróttafréttamanna enda voru samtökin stofnuð sama ár og Vilhjálmur vann silfurverðlaunin í Melbourne árið 1956 og kjör Íþróttamanns ársins komið á fót. Vilhjálms var minnst með eftirfarandi orðum í Morgunblaðinu 10. janúar 2020.
Kveðja frá Samtökum íþróttafréttamanna
Það var eiginlega ljóðrænt að Vilhjálmur skyldi kveðja sama kvöld og Íþróttamaður ársins var krýndur. Þá útnefningu hlaut Vilhjálmur fyrstur og oftast allra eða fimm sinnum. Það er í raun afreki hans á Ólympíuleikunum í Melbourne að þakka að Samtök íþróttafréttamanna sem voru stofnuð sama ár, 1956 komu á kjörinu um Íþróttamann ársins. Það var okkur íþróttafréttamönnum mikill heiður að Vilhjálmur skyldi svo nánast alltaf mæta á hófið og vera áfram sú fyrirmynd sem hann var öðru íþróttafólki.
Sjálfur fór ég tvær ferðir austur á Egilsstaði til að vinna sjónvarpsefni um Vilhjálm á síðustu árum. Í seinna skiptið árið 2016 fyrir þáttinn Íþróttaafrek Íslendinga þar sem mörg af helstu íþróttaafrekum Íslendinga voru rifjuð upp. Þar rifjaði Vilhjálmur enn einu sinni upp sitt frægasta afrek, silfrið í Melbourne 60 árum fyrr. Í bæði skiptin sem ég sótti Vilhjálm og Gerði heim fékk ég höfðinglega móttökur. Villi kveikti upp í arninum og Gerður bauð upp á vöfflur.
Sjálfur sagðist Vilhjálmur þó vera miklu stoltari af störfum sínum sem skólastjóri en af íþróttaafrekum sínum. Hlutverk okkar íþróttafréttamanna verður þó að halda glæstum íþróttaafrekum Vilhjálms áfram á lofti. Samtök íþróttafréttamanna færa aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur.
f.h. Samtaka íþróttafréttamanna,
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson